Ársrit Ræktunarfélags Norðurlands - 01.01.1965, Síða 66
67
Þær aminósýrur, sem hér um ræðir, eru lífsnauðsynlegur
þáttur í fóðrinu vegna þess, að þær myndast ekki eða að-
eins að mjög takmörkuðu leyti í líkama dýrsins. Skorti eina
þessara aminósýra í fóðrið, dregur úr vexti skepnunnar, hún
sýkist og jafnvel deyr. Þó veldur skortur á arginini aðeins
minni vexti en ella.
I vömb jórturdýra eru gerlar, sem mynda aminósýrur af
einföldum köfnunarefnissamböndum. Gerlarnir berast
smám saman frá vömbinni og áfram eftir meltingarfærun-
um og leysast þá upp og meltast. Aminósýrurnar, sem gerl-
arnir hafa myndað og notað í uppbyggingu eigin protein-
sambanda, losna úr læðingi, þegar gerlarnir meltast og not-
ast síðan í efnaskiptum jórturdýrsins. Af þessum ástæðum
þarf ekki að gera eins miklar kröfur til samsetningu pro-
teinsins í fóðri jórturdýra eins og til proteinsins í fóðri
svína og hænsna. Einföld köfnunarefnissambönd, eins og
þvagefni, hafa verið notuð með góðum árangri í stað nokk-
urs hluta proteinsins í fóðri nautgripa. Ef kálfar eru vandir
undan fárra daga gamlir, er nauðsynlegt að protein fóðurs-
ins sé gæðamikið, þ. e. það hafi að geyma nægilegt magn af
lífsnauðsynlegum aminósýrum, vegna þess að gerlagróður-
inn í vömbinni myndast ekki fyrr en 3—4 vikum eftir fæð-
ingu. Sé kálfunum gefið hæfilegt magn af undanrennu eða
mjólk til 4 eða 5 mánaða aldurs, þarf ekki að huga að gæð-
um proteinsins í fóðrinu að öðru leyti.
Tekizt hefur að ákveða aminósýruþörf fullorðinna karl-
manna og kvenna og einnig hefur aminósýruþörf svína og
hænsna verið ákveðin. Aminósýruþörfin er ákveðin með
því að búa til fóðurblöndur (fæði), sem í skortir þá aminó-
sýru, sem til rannsóknar er. Með því móti að nota hreina
aminósýru má síðan framleiða fóðurblöndur (fæði) með
mismunandi magni af aminósýrunni og bera saman áhrif
fóðurblandnanna á efnaskipti líkamans.
Hér hefur verið vikið nokkur að gildi aminósýranna í
fóðri húsdýra og má af því ráða, að gæði proteinsins hafa
mest að segja í fóðrun hænsna og svína, samkvæmt núver-
andi þekkingu.