Árbók Landsbókasafns Íslands - 01.01.1950, Síða 160
160
STEINGRÍMUR J. ÞORSTEINSSON
Það er því ljóst, að hin nýja kynslóð skáldsagnahöfunda, aldamótakvnslóðin, var
ekki enn farin að láta að sér kveða til fulls, þegar hér var komið. Sögur og kvæði
Einars Benediktssonar voru því ekki aðeins viðburður í ljóðgerðarsögunni, þótt þar
marki bókin aðalsporin, heldur var helmingur sagnanna þar með því merkasta á sínu
sviði frá þessum áratug. Og „Harðar“-greinarnar svonefndu, sem Einar birti urn
þessar mundir í Dagskrá — raunsannar, lifandi leifturmyndir, flestar úr íslenzku
þjóðlífi — voru algjör nýjung í íslenzkum bókmenntum.
Sagan Undan krossinum hefði og áreiðanlega risið allhátt meðal samtímabók-
menntanna, ef henni hefði auðnazt að sjá dagsins ljós sem fullburða verki rétt fyrir
eða um aldamótin. Hér var um Reykjavíkursögu að ræða, en Reykjavíkurlýsingar
voru fáskrúðugar í skáldsögum okkar til þess tíma, nokkrar í Pilti og stúlku eftir Jón
Thoroddsen og þó einkum í Tilhugalífi Gests Pálssonar. Og það er ekki aðeins, að
í þessu sögubroti séu skýrar og lifandi umhverfis- og atburðalýsingar með raunsæis-
sniði að sinnar tíðar hætti, heldur eru þar einnig hugsana- og sálarlífslýsingar, svo
að þær höfðu varla komið fram öllu meiri né dýpri í eldri íslenzkum skáldsögum,
nema helzt í sumum sögum Gests Pálssonar, Vonum Einars Hjörleifssonar og Gullskýi
eftir Einar Benediktsson. í sögunni hefur átt að sýna lífsreynslu (einkum ásta- og
trúarreynslu) og rekja þroskaferil ungrar stúlku. Slíkt viðfangsefni: sálarlífsmótun
og skapgerðarþróun sögupersónu, var þá svo fágætt í nýrri bókmenntum okkar, að
það eitt hefði mátt þykja tíðindum sæta. En hér eftir mun sögubrotið Undan kross-
inum standa sem eitt af vitnunum um einhvern mesta umbrotatímann á þroskaferli
eins af helztu stórskáldum okkar.