Morgunblaðið - 16.05.2001, Side 22
VIÐSKIPTI
22 MIÐVIKUDAGUR 16. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
TEKJUR deCODE genetics Inc.,
móðurfélags Íslenskrar erfða-
greiningar ehf., á fyrsta ársfjórð-
ungi 2001 voru 5,0 milljónir
Bandaríkjadala, eða um 500 millj-
ónir króna en voru 4,6 milljónir á
sama tímabili árið 2000. Aukningin
nemur 9% og stafar af áfanga-
tengdum tekjum frá aðalsam-
starfsaðila fyrirtækisins.
Í tilkynningu deCODE genetics
kemur fram að tap ársfjórðungsins
samkvæmt rekstrarreikningi nam
16,1 milljón dala, eða rúmlega 1,6
milljörðum króna, og tap á hvern
almennan hlut eftir umbreytingu
forgangshluta í almenna hluti nam
0,37 dölum. Til samanburðar var
tap 6,9 milljónir á sama tímabili
árið áður og tap á hvern almennan
hlut eftir umbreytingu forgangs-
hluta í almenna hluti 0,23 dalir.
Hlutfallslega minni aukning á tapi
á hvern almennan hlut, eftir um-
breytingu forgangshluta í almenna
hluti, orsakast fyrst og fremst af
fjölgun hluta vegna fyrsta almenna
hlutafjárútboðs félagsins.
Útgjöld til rannsókna- og þróun-
arstarfsemi á umræddum ársfjórð-
ungi voru 20,2 milljónir dala en 9,2
milljónir á sama tímabili í fyrra.
Þessi aukning skýrist að stærstum
hluta af auknum rekstrargjöldum
á mikilvægum rannsóknarsviðum,
s.s. vegna aukinna afkasta fyrir-
tækisins í arfgerðargreiningum
sem tilkynnt var um í lok síðasta
árs. Stjórnunar- og almennur
kostnaður ársfjórðungsins hækk-
aði um 2% frá síðasta ári, úr 2,9
milljónum bandaríkjadala í 3,0
milljónir. Þann 31. mars síðastlið-
inn hafði deCODE genetics um
172,1 milljón dala til ráðstöfunar í
handbæru fé. „Fjárhagsstaðan ber
þess merki að á ársfjórðungnum
var fjárfest í nýjum tækjum til arf-
gerðargreininga og í byggingu
nýrra höfuðstöðva Íslenskrar
erfðagreiningar í Vatnsmýrinni. Í
júlí síðastliðnum lauk fyrsta al-
menna hlutafjárútboði fyrirtækis-
ins sem aflaði félaginu viðbótar-
hlutafjár að fjárhæð 198,7 millj-
ónum dala alls,“ segir í tilkynn-
ingunni.
Haft er eftir Kára Stefánssyni,
forstjóra Íslenskrar erfðagreining-
ar, að á þessum ársfjórðungi hafi
fyrstu stóru skrefin verið stigin í
átt að því markmiði að breyta
þekkingu á erfðafræði sjúkdóma í
markaðsbærar afurðir. „Góður ár-
angur rannsóknastarfs okkar og
möguleikar á nýjum viðskiptasam-
böndum gefa okkur tilefni til að
búast við töluverðri tekjuaukningu
fyrir árið í heild,“ sagði Kári.
Símafundur um afkomutölur de-
CODE genetics verður sendur út á
Netinu í dag kl. 12:00 á http://
www.decode.is/investors/events/
og á www.streetevents.com.
Tapið rúmir
1,6 milljarðar
Afkoma deCODE fyrstu 3 mánuði
TEKJUSKATTUR hlutafélaga
verði lækkaður úr 30% í 15%, eigna-
skattar verði afnumdir, stimpil-
gjöld af útgáfu og viðskiptum með
viðskiptabréf verði felld brott og
söluhagnaður verði skattlagður
með sama hætti og arður er meðal
tillagna sem skattahópur Samtaka
atvinnulífsins kynnti í gær á aðal-
fundi samtakanna.
Guðjón Rúnarsson, formaður
skattahóps SA, kynnti tillögurnar
en auk þess sem talið er upp hér að
framan er í skýrslu starfshópsins
að finna tillögur um söluhagnað af
hlutabréfum, um óbeina skatta og
ýmis leyfisgjöld, um kaupréttar-
samninga og um skattalagningu er-
lendra manna sem starfa tímabund-
ið hérlendis.
„Samtök atvinnulífsins telja eign-
arskatta og stimpilgjöld úrelt skatt-
form sem lagt hafi verið af í helstu
viðskiptalöndum og með lækkun
tekjuskattshlutfallsins skipi Ísland
sér í fremstu röð ríkja hvað sam-
keppnishæft skattaumhverfi varðar
og verði um leið eftirsóknarverður
fjárfestingarkostur fyrir erlenda
aðila,“ segir m.a. í samantekt SA
um skattatillögurnar. Þá segir að
brýnt sé að ráðast strax í slíkar að-
gerðir þar sem skattalækkun skili
sér ekki samstundis og úrslitaatriði
er talið að lækkunin verði fram-
kvæmd í einu skrefi en ekki áföng-
um þannig að takast megi að vinna
upp forskot sem önnur ríki séu þeg-
ar komin með á þessu sviði.
Lækkun skatta lykilatriði
Þá telja Samtök atvinnulífsins að
stjórnvöld ættu að einbeita sér að
því á næstu misserum að efla sam-
keppnishæfni íslensks atvinnulífs
og búa með því í haginn fyrir fram-
tíðarvöxt og velferð. „Lykilþáttur í
þeirri stefnumörkun er lækkun
skatta á fyrirtæki, með það að leið-
arljósi að búa íslensku atvinnulífi
samkeppnishæft skattalegt um-
hverfi og að Ísland verði eftirsókn-
arverður kostur í augum erlendra
fjárfesta.“ Þá segir í samantektinni
að ýmis nágrannaríki hafi síðustu
misserin keppst við að lækka skatta
á fyrirtæki. „Samhliða hafa erlend-
ar fjárfestingar aukist verulega og
eru þær nú drifkraftur hagvaxtar í
heiminum. Hlutirnir hafa verið að
gerast hratt í þessum efnum síð-
ustu misseri og íslenskt atvinnulíf
stendur nú frammi fyrir þeirri stað-
reynd að starfsumhverfi fyrirtækj-
anna er ekki lengur samkeppnis-
hæft við það sem keppinautar
erlendis búa við.“
Í skýrslu skattahópsins um
tekjuskatt segir að margir hag-
fræðingar og hagstjórnendur hafi
haldið því fram að lækkun tekju-
skattshlutfalls fyrirtækja hafi í
raun ekki í för með sér lækkun
tekna ríkisins. „Lækkun tekju-
skatts er til þess fallin að auka svig-
rúm fyrirtækja til nýsköpunar og
þróunarvinnu og til að greiða
starfsfólki hærri laun.“ Bent er á að
30% tekjuskattur lögaðila hafi í
fyrra skilað um 4% af heildarskatt-
tekjum ríkissjóðs sem voru 193
milljarðar eða 8,2 milljörðum. Með
lækkun tekjuskatts í 15% yrði þetta
hlutfall um 2% miðað við forsendur
síðasta árs en ljóst talið að sú yrði
ekki raunin þegar til lengri tíma
væri litið þar sem fyrirtækin
myndu auka hagnað sinn.
Varðandi eignarskatt er bent á að
hann sé annars vegar 1,2% almenn-
ur eignarskattur og hins vegar
0,25% sérstakur eignarskattur og
eru þessir skattar lagðir á eignir
fyrirtækja umfram skuldir. „Eign-
arskattar leggjast aftur og aftur á
sömu eignirnar. Þeir draga því úr
vilja fyrirtækja til að fjárfesta í var-
anlegum eignum og eru þannig í
raun neysluhvetjandi.“ Staðhæft er
að eignarskattar séu nánast óþekkt
skattform í helstu viðskiptalöndum
Íslendinga. Þeir skerði því sam-
keppnisaðstöðu íslenskra fyrir-
tækja verulega og dragi úr mögu-
leikum á að laða hingað erlendar
fjárfestingar og telja Samtök at-
vinnulífsins því brýnt að þeir verði
lagðir af.
Svipað er uppi á teningnum varð-
andi stimpilgjöld og segir að inn-
heimta þeirra hafi á undanförnum
árum verið á hröðu undanhaldi hjá
öðrum ríkjum.
Þá fjallaði skattahópurinn um
verðbréfasjóði og segir í skýrslunni
að lög um þá setji fjárfestingar-
stefnu þeirra mun þrengri skilyrði
en almennt gerist erlendis. Íslensk
fjármálafyrirtæki hafi af þeim sök-
um kosið að stofna verðbréfasjóði
erlendis þótt stærstur hluti fjár-
festanna sé íslenskur. „Reglur um
skattlagningu erlendra aðila af
söluhagnaði hlutabréfa og fram-
kvæmd á því sviði hafa dregið veru-
lega úr möguleikum fjármálafyrir-
tækja okkar á að markaðssetja sig
og íslensk hlutabréf á erlendum
mörkuðum, enda tíðkast slíkar
reglur almennt ekki í viðskiptalönd-
um okkar.“
Eignarskattar og
stimpilgjöld úrelt
Morgunblaðið/Sigurður Jökull
Frá aðalfundi Samtaka atvinnulífsins þar sem tillögur um skattamál voru
kynntar, s.s. um afnám eignarskatts og stimpilgjalds.
Samtök atvinnulífsins kynntu tillögur um breytingar
á skattlagningu á aðalfundi samtakanna
EFTIRFARANDI athugasemd hef-
ur borist frá Hreini Jakobssyni for-
stjóra Skýrr hf. vegna fréttar sem
birtist í Morgunblaðinu í gær um út-
boð á nýjum fjárhagskerfum fyrir
ríkið:
„Í framhaldi af ummælum Krist-
jáns Jóhannssonar, framkvæmda-
stjóra hugbúnaðar- og ráðgjafasviðs
Nýherja hf., varðandi útboð ríkisins
á nýjum fjárhagskerfum, vill undir-
ritaður taka fram eftirfarandi;
1) Oracle og SAP eru báðar við-
urkenndar lausnir, sem uppfylla
mjög vel þarfir ríkisins. Mat vinnu-
hópa á gæðum lausnanna staðfesti
það og fengu báðar lausnirnar ágæt-
iseinkunn. Munurinn er einungis 3%,
sem telst að öllu jöfnu innan
skekkjumarka við slíkt mat sem er
að mörgu leyti huglætt.
2) Ríkiskaup hafa borið saman öll
verð, m.t.t. þeirra þátta sem í tilboð-
unum voru. Inni í því er m.a. árlegur
viðhaldskostnaður og að sjálfsögðu
kostnaður við kennslu og þjálfun.
Niðurstaða Ríkiskaupa er að tilboð
Skýrr er mun hagstæðara, eða sem
nemur 670 millj. kr. m.v. 10 ára eign-
arhaldstíma.
3) Skýrr hefur áratuga reynslu við
þjónustu og rekstur á fjárhagskerf-
um ríkisins. Auk þess er mikil þekk-
ing á ýmsum öðrum kerfum sem
nauðsynlegt er að tengist hinu nýja
fjárhagskerfi.
4) Á undanförnum þremur árum
hefur fyrirtækið byggt upp mjög öfl-
ugan og traustan hóp úrvals starfs-
fólks sem hefur mikla reynslu á upp-
setningu Oracle, ekki síst í stórum
og flóknum verkefnum.
5) Til að byggja upp enn sterkari
liðsheild, hefur Skýrr gert sam-
starfssamninga við Teymi hf., Oracle
Corp., WM Data í Danmörku og
WorkPlace á Englandi, um að þeir
verði undirverktakar. Þessir aðilar
hafa mjög mikla reynslu á sínu sviði.
6) Skýrr hf. er eina fyrirtækið í út-
boðinu sem er með vottað gæðakerfi
skv. ISO 9001 staðlinum. Að sjálf-
sögðu er starfandi gæðaráð og gæða-
stjóri, sem tryggja munu gæði upp-
setningarinnar.
Staðhæfulausar fullyrðingar bjóð-
anda í fjölmiðlum eru ekki til þess
fallnar að auka trúverðugleika. Það
er mat Skýrr að mjög faglega hafi
verið staðið að þessu útboði í alla
staði. Menn hafa reynt að vanda sig í
hvívetna og öll vinna útboðsaðila er
þeim til mikils sóma. Það er vonandi
að sú faglega vinna haldi áfram og
tilraunir bjóðanda til þess að slá ryki
í augu þeirra, dæma sig sjálfar.“
Athugasemd frá Skýrr hf.
BANDARÍSKI seðlabankinn til-
kynnti í gær um lækkun vaxta.
Lækkunin nemur 0,5% eða 50
punktum. Stýrivextir bankans eru
nú 4%. Síðan í ársbyrjun hafa
vextir verið lækkaðir jafnt og þétt
úr 6,5% í 4%.
Lækkunin er sú fimmta á þessu
ári og í yfirlýsingu frá bankanum
segir að vel sé hugsanlegt að enn
fleiri lækkanir fylgi í kjölfarið.
Bankinn hefur áhyggjur af því að
staða hagkerfisins í Bandaríkjun-
um sé veik og reynir með lækk-
uninni að ýta undir vöxt í hagkerf-
inu.
Markaðsaðilar bjuggust við
vaxtalækkun vegna skýrslu
bandaríska atvinnuráðuneytisins
sem kom út í maíbyrjun um aukn-
ingu atvinnuleysis og fjölgun upp-
sagna hjá fyrirtækjum. Þær upp-
lýsingar ásamt mögulegum
áhrifum þeirra á hegðun banda-
rískra neytenda höfðu mest áhrif
á ákvörðun bankans um að lækka
vexti.
Litlar breytingar á
hlutabréfamörkuðum
Bankinn segir að lækkanir á
hlutabréfamörkuðum og minni
vöxtur á útflutningsmörkuðum
valdi óvissu um vöxt og hagnað
bandarískra fyrirtækja. Einstak-
lingar og fyrirtæki haldi því að sér
höndum.
Litlar breytingar voru á hluta-
bréfamörkuðum í kjölfar tilkynn-
ingarinnar og lækkaði Dow Jones
vísitalan um 0,15% en Nasdaq
hækkaði um 0,16%..
Bandaríski
seðlabankinn
lækkar vextiFREMUR rólegt var á millibanka-markaði með gjaldeyri í gær ognámu viðskiptin 4,9 milljörðum
króna. Gengisvísitala krónunnar
endaði í 136,4 stigum og hafði þá
veikst um eitt prósent innan dagsins.
Gengi Bandaríkjadals var 99,55
krónur við lok viðskipta á íslenska
markaðnum og gengi evru var 87,50
krónur.
Krónan
lækkar um 1% STJÓRN Kaupfélags Borgfirðinga,
KB, fékk á aðalfundi um síðustu helgi
heimild til að stofna hlutafélag um
rekstur félagsins.
Að sögn Þorvalds Jónssonar,
stjórnarformanns KB, stendur til að
að færa rekstur kaupfélagsins yfir í
hlutafélag en kaupfélagið verði eftir
sem áður til sem eignarhaldsfélag.
Félagið komi því til með að verða ráð-
andi eigandi í hlutafélaginu.
Ástæðu þessara aðgerða segir Þor-
valdur vera fjármagnsskort. „Félagið
hefur verið í erfiðum málum og þarf á
meira fjármagni að halda inn í rekst-
urinn til að geta staðist til framtíðar í
því samkeppnisumhverfi sem nú er.“
Hann segir þessa leið gefa bæði
möguleika á betri fjármögnun og
samstarfi við aðra. „Þetta er það
sama og hin kaupfélögin hafa verið að
gera“, segir Þorvaldur og væntir þess
að til tíðinda dragi á þessu ári, jafnvel
fyrr en seinna.
Gert er ráð fyrir lokuðu útboði
hlutafjár í nýju hlutafélagi en ekki
hefur verið endanlega gengið frá
þeim málum.
KB breytt
í hlutafélag
♦ ♦ ♦