Morgunblaðið - 02.11.2001, Side 11
FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. NÓVEMBER 2001 11
FERÐAMÁLARÁÐ borgarinnar
Asti á Ítalíu, Asti Turisimo, hefur
ákveðið að Álfheiði Hönnu Frið-
riksdóttur, blaðamanni, skuli veitt
verðlaun fyrir grein sem hún skrif-
aði eftir nýlega heimsókn sína til
borgarinnar.
Álfheiður Hanna hlýtur verð-
launin fyrir grein sem hún skrifaði
eftir tólf daga dvöl í Asta og birt
var í Morgunblaðinu.
Í tilkynningu frá ferðamála-
ráðinu segir að í greininni hafi
blaðamanni tekist að draga upp
mjög sanna mynd af íbúum og
menningu Asti.
Álfheiður Hanna mun taka við
verðlaununum við hátíðlega athöfn
í fornu klaustri í Asti 17. nóvember
næst komandi en sama kvöld mun
hún halda einsöngstónleika á veg-
um stofnunarinnar Arte’ Graficia.
Morgunblaðið/RAX
Blaðamaður
verðlaunaður
SAMKEPPNISSTOFNUN hefur
óskað eftir að Húsasmiðjan hf. taki
tímabundið úr umferð auglýsingu
um málningartilboð, sem birt var í
Morgunblaðinu í gær, eftir að stofn-
uninni bárust kvartanir frá BYKO
og GLV ehf./Litaveri.
Bogi Þór Siguroddsson, forstjóri
Húsasmiðjunnar, segir fyrirtækið
hafa ákveðið að fara að tilmælum
Samkeppnisstofnunar og birta ekki
auglýsinguna fyrr en stofnunin hef-
ur fellt úrskurð í málinu.
„Við förum að sjálfsögðu eftir
þessari ósk. Við höfum reyndar ekki
fengið neina lýsingu á því undan
hverju er verið að kvarta og getum
því ekki tekið neina afstöðu til þess
sem Samkeppnisstofnun segir fyrr
en við sjáum fyrir hvað er verið að
kæra okkur en við höfum ekki verið
boðaðir til fundar við starfsmenn
stofnunarinnar enn sem komið er,“
segir Bogi.
Aðspurður um viðbrögð við kvört-
uninni segir Bogi Húsasmiðjuna
hafa farið yfir auglýsinguna í sam-
starfi við auglýsingastofu sína og
niðurstaða þess fundar hafi verið að í
auglýsingunni sé ekkert að finna
sem ekki megi birtast. „Við vitum að
þetta er áreitin auglýsing og hún
getur því verið umdeilanleg, en það
hvarflaði ekki að okkur að í henni
væri nokkuð að finna sem gæfi tilefni
til kæru,“ sagði Bogi.
Auglýsing
dregin
til baka
ÞAU mistök urðu við vinnslu
helgartilboða á neytendasíðu á
fimmtudag að sagt var að af-
mæli og tilboð hjá 10–11 hæfust
fimmtudaginn 1. nóvember. Hið
rétta er að tilboðin ganga í gildi
í dag, föstudaginn 2. nóvember.
Hið sama gildir um afmælisleik
verslananna vegna tíu ára af-
mælisins. Hlutaðeigendur eru
beðnir velvirðingar á mistökun-
um og þeim óþægindum sem
röng dagsetning hefur skapað.
Mistök í
vinnslu helg-
artilboða
KALDAVATNSLEIÐSLUR fóru í sundur á mótum
Vesturgötu og Hafnarstrætis um hádegisbil í gær og
milli 30 og 40 sekúndulítrar vatns streymdu um
stræti og torg. Orkuveitan vann að viðgerðum fram-
eftir degi en fljótlega eftir að viðgerðarmenn komu
á vettvang tókst þeim að loka fyrir vatnsflauminn.
Ekki varð vatnslaust í miðbænum af þessum sökum
nema á veitingahúsinu Kaffi Reykjavík sem er í
næsta nágrenni holunnar sem grafa varð vegna við-
gerðanna.
Morgunblaðið/Golli
Vatnsflaumur í miðbænum
HÆSTIRÉTTUR sýknaði í gær Ak-
ureyrarbæ og Vátryggingafélag Ís-
lands af bótakröfu konu sem varð
fyrir slysi við skíðaiðkun á skíða-
svæðinu í Hlíðarfjalli. Héraðsdómur
Reykjavíkur hafði áður úrskurðað
að konan ætti að fá tæplega fjórar
milljónir í bætur.
Lítill snjór var í fjallinu í umrætt
sinn og aðeins ein braut opin en
snjólitlir móar beggja vegna. Konan
var á leið niður fjallið þegar hún sá
skyndilega vélsleða koma á móti sér.
Henni var brugðið og hún skrikaði
til með þeim afleiðingum að hún
lenti út af brautinni og út í móa þar
sem hún fór margar veltur áður en
hún stöðvaðist.
Konan var flutt á sjúkrahús en
þar kom í ljós að hún var hrygg-
brotin. Varanleg örorka hennar
vegna slyssins var metin 33%. Kon-
an er matreiðslumaður að mennt en
fyrir héraðsdómi kvaðst konan ekki
geta sinnt slíkum störfum eftir slys-
ið.
Vélsleðinn var í eigu Akureyrar-
bæjar og ekið af starfsmanni hans
og því stefndi konan bænum og
tryggingafélagi hans, Vátrygginga-
félagi Íslands.
Skíðamenn verða sjálfir
að meta aðstæður
Hæstiréttur sagði að konan væri
alvön skíðakona og þekkti vel allar
aðstæður í fjallinu. Nægilegt rými
hefði verið fyrir hana til að mæta
vélsleðanum í brautinni, sem var um
10 m á breidd, en vélsleðanum var
ekið upp brautina í jaðri hennar.
Talið var að röng viðbrögð konunnar
hefðu valdið slysinu en ekki akstur
vélsleðans eða notkun hans. Engin
raunveruleg hætta hefði stafað af
sleðanum og tjón væri því ekki
sennileg afleiðing af hættueiginleik-
um og notkun vélsleðans í skilningi
umferðarlaga.
Akureyrarbær var einnig sýknað-
ur af varakröfu konunnar þar sem
ekki var á það fallist að óforsvar-
anlegt hefði verið að hafa skíðasvæð-
ið opið þótt snjólítið hefði verið utan
brauta. Skíðamenn verði sjálfir að
meta aðstæður og taka áhættu af því
að vera á skíðum, þegar þannig
stendur á. Auk þess var ekki talið að
starfsmenn bæjarins hefðu átt sök á
slysinu.
Fær ekki
skaðabæt-
ur vegna
skíðaslyss
♦ ♦ ♦
PRÓFKJÖR Sjálfstæðisflokksins á
Seltjarnarnesi, vegna sveitarstjórn-
arkosninganna næsta vor, fer fram á
morgun, laugardag, í félagsheimili
sjálfstæðismanna á Austurströnd 3,
fyrir ofan útibú SPRON, milli kl. 10
og 19. Prófkjörið þykir sæta tíðind-
um fyrir þá sök að í fyrsta sinn fer
fram hjá stjórnmálaflokki rafræn
kosning. Áfram verður þó boðið upp
á hefðbundna kjörseðla fyrir þá sem
vilja eða ef tölvurnar bregðast.
Sjálfstæðismenn fengu fimm full-
trúa í bæjarstjórn í síðustu kosning-
um. Sigurgeir Sigurðsson bæjar-
stjóri, sem leitt hefur flokkinn,
hættir næsta vor eftir fjörutíu ára
setu í sveitarstjórn á Nesinu, þar af í
36 ár sem sveitar- og bæjarstjóri.
Samkvæmt upplýsingum frá kjör-
nefnd geta allir stuðningsmenn
Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnar-
nesi kosið, sem eru 18 ára og eldri á
kjördegi. Þeir þurfa aðeins að skrifa
nafn sitt í bók á kjörstað sem ekki
verður notuð til að skrá menn í flokk-
inn. Einnig geta kosið þeir sem eru
flokksbundnir sjálfstæðismenn á
aldrinum 15–18 ára, samkvæmt nýj-
um reglum sem samþykktar voru á
síðasta landsfundi. Að sögn Péturs
Kjartanssonar, formanns kjörnefnd-
ar, ættu úrslit að liggja fyrir milli kl.
hálfátta og átta á laugardagskvöld.
Fimmtán frambjóðendur
Fimmtán frambjóðendur gefa
kost á sér í prófkjörinu og verða
þátttakendur að tilgreina nákvæm-
lega sjö þeirra og raða þeim í röð frá
1. og niður í 7. sæti.
Tveir frambjóðendur vilja leiða
listann við næstu kosningar, Ásgerð-
ur Halldórsdóttir viðskiptafræðing-
ur og Jónmundur Guðmarsson fjár-
festingarstjóri. Tveir gefa kost á sér
í 2. sætið, þau Inga Hersteinsdóttir
verkfræðingur og Ingimar Sigurðs-
son deildarstjóri, og þrjú stefna á 3.
sætið, þau Árni Halldórsson fram-
kvæmdastjóri, Sigrún Edda Jóns-
dóttir fjármálastjóri og Þórhildur
Albertsdóttir fjármálastjóri. Í 2. til
4. sæti bjóða sig fram Bjarni Torfi
Álfþórsson ráðgjafi og Gunnar Lúð-
víksson verslunarmaður og fyrst og
fremst 4. sætið ætlar sér Guðmund-
ur Helgi Þorsteinsson framkvæmda-
stjóri.
Á 4. til 7. sæti stefna Jón Jónsson,
fv. stórkaupmaður, og Sólveig Páls-
dóttir bókmenntafræðingur, í 5. sæt-
ið gefur kost á sér Magnús Örn Guð-
mundsson bankamaður og Lárus
Brynjar Lárusson flugmaður gefur
kost á sér í 6. sætið. Einn frambjóð-
andi, Olga Kristrún Ingólfsdóttir
nemi, tilgreinir ekki sæti sem hún
stefnir á.
Jónmundur og Inga hafa verið að-
almenn flokksins í bæjarstjórn þetta
kjörtímabil og Sigrún Edda verið
varamaður. Ásgerður, Gunnar, Ingi-
mar og Jón hafa setið í nefndum á
vegum bæjarins.
Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi
Rafræn kosning í
prófkjöri um helgina
HÆSTIRÉTTUR sýknaði í gær
konu af kröfu manns um afslátt af
kaupverði á íbúðarhúsi.
Maðurinn keypti húsið af eigin-
manni konunnar á árinu 1989 en
seldi það öðrum árið 1996. Með dómi
Hæstaréttar í fyrra var manninum
gert að greiða kaupandanum afslátt
af kaupverðinu vegna þess að skor-
dýr, svonefndar veggjatítlur, höfðu í
verulegum mæli grafið sig inn í
burðarvirki og klæðningu hússins.
Maðurinn höfðaði mál gegn eigin-
konu fyrri eiganda en hún sat í
óskiptu búi eftir eiginmann sinn.
Maðurinn hélt því fram að sami galli
hefði verið á húsinu þegar hann
keypti það árið 1989. Hæstiréttur
taldi sannað að veggjatítlurnar
hefðu verið komnar í húsið árið 1989
og hefði maðurinn því rétt til að
krefjast afsláttar á kaupverðinu.
Aftur á móti hefði hann viðurkennt
að leki hefði verið við skorstein þeg-
ar hann keypti húsið og að ekki hefði
verið ráðist í viðgerðir vegna hans,
heldur látið nægja að hafa fötu á
gólfi í risi til að taka við regnvatni.
Hæstiréttur ályktaði að raki sem
hlyti að fylgja þessu hafi bætt mjög
lífsskilyrði fyrir veggjatítlur í þess-
um hluta hússins en þar virðist
þeirra hafa gætt mest.
Húsið er járnklætt timburhús,
reist árið 1927, með íbúð á hæð og í
steinsteyptum kjallara og með óein-
angruðu risi sem var notað sem
geymsla.
Af ástandi hússins eftir að mað-
urinn seldi það yrði ekkert ráðið um
hversu útbreidd skordýrin kynnu að
hafa verið árið 1989, hvaða leiðir
voru til að útrýma þeim og hvaða
kostnaður hefði getað hlotist af því.
Engin gögn lægju fyrir um þessi at-
riði og þeirra yrði ekki aflað þar sem
þeim hlutum hússins sem voru úr
timbri hefði verið fargað.
Konan var því sýknuð en með því
staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðs-
dóms Reykjavíkur.
Leki bætti lífsskilyrði
fyrir veggjatítlur
STEINUNN Valdís Óskarsdóttir,
borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans,
varpaði því fram í umræðum í
borgarstjórn í gær að kannað yrði í
tengslum við endurskoðun á aðal-
skipulagi borgarinnar hvort unnt
væri að banna starfsemi nektar-
dansstaða í borginni.
Hún kvaðst áður hafa verið
þeirrar skoðunar að ekki væri rétt
að grípa til þess konar banns held-
ur að láta eftirspurn ráða en nú
hefði að hennar mati komið ým-
islegt fram sem sýndi að slíkir
staðir hefðu margt óæskilegt í för
með sér.
Borgarfulltrúinn sagði að þetta
myndi þýða að lagt yrði almennt
bann við rekstri nektardansstaða
en að í deiliskipulagi mætti ef til
vill skoða hverja einstaka umsókn
um slíkan rekstur. Borgarfulltrú-
inn sagði fulla ástæðu til að kanna
lagalega hvort borgaryfirvöldum
væri stætt á að setja slíkt bann í
aðalskipulagi.
Vill banna
rekstur
nektar-
dansstaða
♦ ♦ ♦