Morgunblaðið - 02.11.2001, Side 29

Morgunblaðið - 02.11.2001, Side 29
ERLENT MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. NÓVEMBER 2001 29 NÝ SAMSTJÓRN hútúa og tútsa tók við völdum í Afríkuríkinu Búr- úndí í gær en vonast er til að þar með hafi stórt skref verið stigið í þá átt að binda enda á langvinna borgarastyrjöld í landinu. Pierre Buyoya, sem verið hefur leið- togi Búrúndí frá því að hann rændi völdum árið 1996, sór embættiseið forseta en hann mun gegna embættinu næstu átján mánuði. Er gert ráð fyrir að sam- stjórn þjóðflokkanna tveggja fari með stjórnartaumana til bráða- birgða næstu þrjú árin. Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, var viðstadd- ur sérstaka vígsluathöfn í Bujumb- ura í gær. Sagði Mandela, sem hefur stýrt friðarviðræðum í Búrúndí undan- farin tvö ár, í ávarpi til nýrra vald- hafa að myndun samstjórnarinnar markaði tímamót. „Ég sagði ykkur alltaf að þið mættuð ekki láta svartsýnina ná yfirhöndinni. Við megum ekki láta hina herskáu halda friðarferlinu í gíslingu,“ sagði hann. Hundruð þúsunda manna hafa fallið Um 250 þúsund manns eru taldir hafa fallið í deilum hútúa og tútsa undanfarin átta ár. Átök standa enn yfir milli tveggja uppreisnar- sveita hútúa og stjórnarhersins en vonast er til að hin nýja samstjórn beggja ættbálkanna verði til þess að takast muni að binda enda á átökin. Sagði Mandela frá því í gær að uppreisnarmennirnir hefðu tjáð sér á miðvikudag að þeir væru reiðubúnir að hefja viðræður við hina nýju stjórn. Þessar fréttir voru þó bornar til baka síðar um daginn. Markmið friðarsamninga, sem náðust fyrir tilstilli Mandelas, er að tryggja aukin völd hútúa en þeir eru um 83% íbúa landsins. Tútsí-menn, sem eru um 15% íbú- anna, hafa að mestu farið með völd í landinu síðan það hlaut sjálfstæði frá Belgíu árið 1962. Er Buyoya til að mynda af ættbálki tútsí-manna. Ásamt Buyoya sór Domitien Ndayizeye embættiseið varafor- seta en hann hefur verið helsti leiðtogi stjórnarandstöðu hútú- manna. Ætlunin er að hann taki við af Buyoya að átján mánuðum liðnum og að varaforsetaembættið flytjist í staðinn til tútsa þó svo að Buyoya hafi lýst því yfir að hann muni ekki gegna því. Vonir um að borgarastyrjöldinni í Búrúndí fari að ljúka Samstjórn hútúa og tútsa tekur við völdum Bujumbura. AFP. Pierre Buyoya TUGÞÚSUNDIR manna í Finn- landi og Svíþjóð voru í gær án raf- magns, ýmist vegna mikillar snjó- komu eða úrhellisrigningar og roks. Allt flug lagðist niður um hríð og vegna veðurhamsins var ekki unnt að aðstoða flutningaskip á Eystra- salti. Í Finnlandi felldi þungur og blaut- ur snjór margar staurasamstæður og við þar rofnaði allt rafmagn til 20.000 heimila. Í Svíþjóð voru um 15.000 heimili rafmagnslaus í fyrri- nótt vegna veðursins. Ekki tókst að koma írönsku flutn- ingaskipi, Iran-Sarbas, til hjálpar þar sem það stríddi við vélarbilun 240 km vestur af Helsinki. Voru þyrlur búnar að bjarga 15 af 31 manni í áhöfn skipsins þegar þær urðu frá að hverfa en björgunarskip er í nánd og bíður þess að veður lægi. Tarja Halonen, forseti Finnlands, varð að hætta við ferð til Álandseyja þegar flugið lagðist niður, lestarferð- ir röskuðust og víða stöðvaðist öll bílaumferð á vegum. Þá var einnig aflýst ferjuferðum milli Finnlands og Eistlands. Eyrarsundsbrúnni var lokað í fyrradag í fyrsta sinn fyrir bílaum- ferð vegna þess hve veðrið var vont en hún var opnuð aftur í gærmorg- un. Stórviðri á Norður- löndum Helsinki. AP. ÞÚSUNDIR manna söfnuðust sam- an í gær á ströndum Hellusunds er úkraínskt flugmóðurskip var dregið um sundið út í Miðjarðarhaf. Þaðan verður það síðan dregið alla leið til Kína þar sem það á að öðlast nýtt líf sem spilavíti. Yfirvöld í Tyrklandi hafa í marga mánuði neitað að leyfa flugmóður- skipinu fyrrverandi, Varyag, að fara um sundið enda er það bæði vélar- og stýrislaust. Létu þau loks undan er kínversk stjórnvöld lofuðu að bæta þann skaða, sem skipið kynni hugsanlega að valda. Sigling um Hellusund er mjög vandasöm en þar eru sterkir straumar og 13 sinnum verða skip að breyta stefnunni þegar farið er um það. Allt fór þó vel og fjórum öflugum dráttarbátum tókst að koma Varyag í gegnum sundið á sex tímum. Tyrknesk stjórnvöld hafa notað ferð Varyags til að vekja athygli umheimsins á þeim hættum, sem fylgja aukinni umferð um Hellu- sund. Vilja þau, að Montreux-samn- ingnum frá 1936 verði breytt en samkvæmt honum er Hellusund al- þjóðlegt hafsvæði nema á stríðs- tímum. Þá er það undir tyrkneskri stjórn. „Spilavíti“ dregið um Hellusund Istanbul. AFP. ♦ ♦ ♦

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.