Morgunblaðið - 02.11.2001, Page 36
UMRÆÐAN
36 FÖSTUDAGUR 2. NÓVEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
HÉRAÐSDÓMUR
Reykjavíkur dæmdi
varaformann Félags
íslenskra þjóðernis-
sinna til refsingar í
síðustu viku fyrir brot
á gr. 233a í almennum
hegningarlögum.
Ákvæði þessu er ætlað
að vernda einstaklinga
eða hóp einstaklinga
fyrir árásum m.a.
vegna litarháttar.
Árásirnar geta verið
fólgnar í háði, rógi,
smánun og ógnun.
Grunnurinn að ákvæði
þessu er frá árinu
1973. Íslendingar und-
irrituðu 1966 alþjóðasamning um
afnám alls kynþáttamisréttis og
fullgiltu hann 1967 og lýsti Ísland
1981 yfir að það viðurkenndi lög-
bærni nefndar SÞ til að taka á móti
og athuga erindi frá einstaklingum
eða hópum þeirra á Íslandi er
halda því fram að Ísland hafi brotið
á þeim réttindi þau sem lýst er í
samningnum. Ísland er meðal 159
ríkja sem hafa fullgilt samning
þennan. Aðildarríkin fordæma kyn-
þáttamisrétti og skuldbinda sig til
að fylgja eftir stefnu um afnám
kynþáttamisréttis og til að efla
skilning milli allra kynþátta. Í
samningnum er bannaður allur
áróður og öll samtök
sem byggja á hug-
myndum eða kenning-
um um yfirburði eins
kynþáttar eða hóps
manna af ákveðnum
litarhætti eða reyna
að réttlæta eða hvetja
til kynþáttahaturs og
misréttis í hvers kon-
ar mynd. Jafnframt
skuldbinda ríkin sig til
aðgerða vegna slíks
misréttis, þar á meðal
til að gera refsiverða
með lögum alla út-
breiðslu á hugmynd-
um sem eru byggðar á
kynþáttayfirburðum
eða óvild og hvatningu til kynþátta-
misréttis. Ennfremur að banna
samtök og skipulagða áróðursstarf-
semi sem stuðlar að og hvetur til
kynþáttamisréttis. Rétturinn til að
sæta ekki mismunun vegna þjóð-
ernis, litarháttar, kynþáttar, trúar-
bragða eða kynhneigðar er meðal
mannréttinda sem verndar njóta
samkvæmt 65. gr. stjórnarskrár-
innar sem leggur bann við hvers
konar mismunun.
Ísland uppfyllti skyldur sínar
samkvæmt alþjóðasamningnum
með samþykkt gr. 233a til verndar
gegn árásum á fólk m.a. vegna lit-
arháttar. Jafnframt hefur Ísland
efnt skyldur sínar með því að skila
reglulega skýrslum um aðgerðir
stjórnvalda til að afnema kynþátta-
misrétti á Íslandi til nefndar SÞ
um afnám alls kynþáttamisréttis. Á
fundi nefndarinnar 15. mars 2001
mæltist nefndin til að Ísland rann-
saki til hlítar hvort til séu í landinu
félagssamtök sem hvetja til kyn-
þáttamismununar og geri viðeig-
andi ráðstafanir skv. gr. 233a í
hegningarlögum. Í fréttatilkynn-
ingu frá SÞ segir m.a. að talsmaður
Íslands hafi lýst því að stjórnvöld
hefðu vaxandi áhyggjur af Félagi
íslenskra þjóðernissinna, sem hefði
að markmiði Ísland fyrir Íslend-
inga. Félagsmenn töluðu um hrein-
leika og yfirburði hins íslenska
kynþáttar, sem ekki skyldi bland-
ast öðrum kynþáttum. Talsmaður-
inn vitnaði m.a. í blaðaviðtal við
leiðtoga félagsins þar sem farið
hefði verið niðrandi orðum um
svart fólk. (Sjá einnig Mbl. 10.
mars 2001.)
Í fyrrgreindu dómsmáli vegast á
tvenns konar mannréttindi; annars
vegar rétturinn til að sæta ekki
mismunun vegna kynþáttar og hins
vegar tjáningarfrelsið. Hin opin-
bera umræða um héraðsdóminn
hefur verið gagnrýnin og hafa
flestir þátttakendur í henni metið
málið eingöngu út frá sjónarhóli
tjáningarfrelsis án tillits til að í
málinu vógust á tvenns konar
mannréttindi. Jafnvel hefur verið
sagt að refsivernd gegn mismunun
vegna kynþáttar sé séríslenskt fyr-
irbrigði eða í versta falli fengið frá
Dönum! Refsiákvæði sambærileg
þeim íslensku eru í lögum allra
Evrópuríkja. Eins og sýnt hefur
verið fram á er um að ræða rétt-
arreglu sem samfélag þjóðanna að-
hyllist og er bindandi fyrir veru-
legan hluta allra ríkja heims ef
ekki öll ríki sem alþjóðlegur venju-
réttur.
Rök þeirra sem gagnrýnt hafa
dóminn eru einkum þau að með
honum sé tjáningarfrelsið skert og
refsingar fyrir kynþáttamismunun
séu óþarfar þar sem hin opinbera
umræða muni að lokum sýna fram
á að slík ummæli sem dómurinn
fjallaði um séu ósönn og hafi því
ekki nein áhrif. Tjáningarfrelsið er
ekki óskerðanlegt samkvæmt lög-
um. Í 73. gr. stjórnarskrárinnar og
10. gr. Mannréttindasáttmála Evr-
ópu er heimilað að setja tjáning-
arfrelsinu takmörk. Það verður að
gera með lögum og í ákveðnum til-
gangi, þ.á m. vegna réttinda eða
mannorðs annarra og takmarkan-
irnar verða að vera nauðsynlegar í
lýðræðisríki. Í skilyrðinu um nauð-
syn er átt við brýna samfélagslega
nauðsyn og takmörkunin má ekki
ganga lengra en nauðsynlegt er til
að ná hinu lögmælta markmiði.
Tjáningarfrelsið er því ekki óheft
og hefur aldrei verið. Engin nýjung
felst þess vegna í því að skilgreina
meðal réttinda annarra rétt þeirra
til að sæta ekki árásum vegna kyn-
þáttar. Slík takmörkun er náskyld
og samofin vernd mannorðs ann-
arra, en þátttakendur í umræðunni
segja að þeir sætti sig við og hafa
jafnvel lýst sérstakri ánægju með
þá takmörkun. Refsivernd fyrir
árásum vegna kynþáttar er enda
skipað í sama kafla hegningarlag-
anna og ærumeiðingum. Lýð-
skrumarar eða múgæsingamenn
skírskota ekki til skynsemi manna
og rökhugsunar, heldur til tilfinn-
inga. Minna má á þjóðernisstefnu
Hitlers og afleiðingar hennar, blóð-
baðið í Rúanda 1994 og stríðið á
Balkanskaga, sem átti að verulegu
leyti rót sína að rekja til haturs-
áróðurs hóps í garð annarra hópa.
Í dómi Mannréttindadómstóls
Evrópu í máli Þorgeirs Þorgeirson-
ar var á því byggt, að rithöfund-
urinn hefði í ummælum sínum
fjallað um mál sem varðaði almenn-
ing og stefndi að virðingarverðu
markmiði í lýðræðisþjóðfélagi, þ.e.
afnámi lögregluofbeldis. Ummæli
þau sem héraðsdómurinn lagði
refsingu við eru augsýnilega niðr-
andi og til þess fallin að meiða þær
manneskjur sem fyrir árásunum
verða og þau byggjast á kenning-
um um yfirburði eins kynþáttar yf-
ir öðrum. Jafnframt skírskota þau
til neikvæðra tilfinninga lesenda og
ala á ótta við þá útlendinga sem
eru ekki hvítir á hörund. Ummælin
eru ekki framlag til pólitískrar um-
ræðu um viðfangsefni sem skipta
almenning máli. Ummælin eru til
þess fallin að grafa undan lýðræði
og virðingu fyrir algildi mannrétt-
inda og banni við mismunun vegna
kynþáttar. Héraðsdómurinn er því
ekki einungis í samræmi við lands-
lög og þjóðarétt heldur og til þess
fallin að styrkja lýðræði, mannrétt-
indi og fjölmenningu á Íslandi.
Kynþáttamisrétti
og tjáningarfrelsi
Ragnar
Aðalsteinsson
Tjáningarfrelsi
Héraðsdómurinn er því
ekki einungis í samræmi
við landslög og þjóða-
rétt, segir Ragnar
Aðalsteinsson, heldur
og til þess fallinn að
styrkja lýðræði, mann-
réttindi og fjölmenningu
á Íslandi.
Höfundur er starfandi lögmaður
í Reykjavík.
EKKI eru nú aðrar
eyjar í byggð í Flat-
eyjarhreppi hinum
forna en Skáleyjar og
Flatey. Hinn gamli
Flateyjarhreppur
hefur verið sameinað-
ur Reykhólahreppi en
mun þó enn tilheyra
Vestur-Barðastrand-
arsýslu. Flateyingar
treysta mjög á allar
samgöngur við
Stykkishólm og
sækja þangað mest
alla daglega þjónustu.
Ferjan Baldur siglir
daglega milli Stykkis-
hólms og Brjánslækj-
ar með viðkomu í Flatey eftir þörf-
um. Á sumrin eru ferðirnar tvær á
dag. Hin miklu samskipti Flatey-
inga og Stykkishólms eru af hag-
kvæmnisástæðum og tilkomin
vegna góðra samgangna og ágæts
framboðs hvers konar þjónustu í
Hólminum. Það sem ekki fæst í
Stykkishólmi kemur gjarnan úr
Reykjavík og leiðin þaðan til Flat-
eyjar liggur um Stykkishólm.
Stykkishólmur er því óumdeilanlega
þjónustumiðstöð Flateyinga, bæði
þeirra sem þar búa árið um kring,
en ekki síður hinna sem
dvelja þar aðeins að
sumarlagi og skipta oft
tugum og jafnvel
hundruðum.
Vilji til að sameinast
Stykkishólmi
Flateyingar sækja
alla þjónustu sveitarfé-
lagsins til Reykhóla eða
Búðardals en ekki
Stykkishólms. Þetta er
að sjálfsögðu til baga.
Engar reglulegar sam-
göngur eru milli Flat-
eyjar og Reykhóla og
eiginlega má segja að
Reykhólar séu beinlínis
úr leið fyrir flesta Flateyinga, hvort
sem þeir eru aðeins húseigendur
eða búandi í eynni. Það er því eðli-
legt að flestir eða allir húseigendur í
Flatey og að því er ég veit gerst
einnig fastbúendur, horfi mjög til
Stykkishólms og kjósi að hinn forni
Flateyjarhreppur (hugsanlega að
undanskildum Skáleyjum) verði
sameinaður Stykkishólmi. Þægileg-
ast væri einnig að hreppurinn
heyrði undir sýslumanninn í Stykk-
ishólmi. Mér er nær að fyllyrða að
núverandi skipan mála, hvort sem
horft er til sveitarstjórnarmála eða
ríkisvaldsins, er að flestu leyti afar
óþénug fyrir alla aðila hvort sem
þeir veita þjónustu eða þurfa á
henni að halda. Slíkt fyrirkomulag
er vont fyrirkomulag.
Vill Reykhólahreppur
halda í Flatey?
Nú veit ég ekki hvað sveitar-
stjórn Stykkishólms segir um þessi
mál enda mun hún ekki mikið hafa
tjáð sig um þau opinberlega. Mik-
ilvægt er þó að afstaða hennar sé
ljós því á öllu veltur að viljinn sé
fyrir hendi á þeim bænum. Mér
sýnist hins vegar að Reykhóla-
hreppur sé tregur til að láta Flat-
eyjarhrepp af hendi. Ekki verður þó
annað séð en að Reykhólahreppur
hafi aðeins óhag, kostnað og van-
þakklæti upp úr krafsinu. Í grein
Valgerðar Jónu Kristjánsdóttur
sveitarstjóra Reykhólahrepps í
Morgunblaðinu 6. apríl sl. gerði hún
nokkra grein fyrir kostnaði og þjón-
ustu hreppsins við Flatey. Meðal
annars gat hún þess að Reykhóla-
hreppur hefði kostað til í Flatey
þrem milljónum króna til skipulags-
mála. Kannski er þetta ástæðan fyr-
ir tregðu hreppsins til að láta af
hendi Flateyjarhrepp. Að mínu mati
er þó ekki fyrirsjáanlegt að þessir
peningar skili sér aftur í bráð.
Álögð fasteignagjöld í Flatey árið
2000 voru einungis um 940 þús. kr.
en ýmis verkefni bíða þess að sveit-
arstjórn og íbúar og eigendur húsa
taki til hendinni. Auk fastra þjón-
ustuþátta ss. sorphirðu og bruna-
varna má þar nefna viðgerð á stíg-
um, vatnsveitumál o.fl. Fyrir
Reykhólahrepp virðast því vera
aukin útgjöld framundan en fjár-
hagslegur ávinningur hreppsins lít-
ill eða enginn.
Flatey sameinist Stykkishólmi
Staða Stykkishólms er önnur.
Stykkishólmur hefur beinar og
óbeinar tekjur af Flatey og Flat-
eyingum en engar beinar skuldbind-
ingar. Þegar saman fara hagsmunir
sveitarfélags og íbúa er sjálfsagt og
eðlilegt að virkja þann kraft sem í
því býr. Og það er einmitt ástæða
þess að svo ákveðnar óskir hafa
komið fram um að Flatey og stærsti
hluti Flateyjarhrepps hins forna
sameinist Stykkishólmi. Stjórnend-
ur Reykhólahrepps eru ágætt fólk
og gott til þeirra að leita. Það er því
ekki þeirra vegna sem óskir um
sameiningu við Stykkishólm hafa
komið fram. Sannleikurinn er sá að
það er jafn óhentugt og umhendis
fyrir stjórnendur Reykhólahrepps
að sinna málefnum Flateyjar eins
og það liggur beint við fyrir stjórn-
endur Stykkishólmsbæjar. Ávinn-
ingur Reykhólahrepps er jafn óljós
og ávinningur Stykkishólmsbæjar
er augljós. Ég skora á sveitarstjórn-
armenn í Reykhólahreppi og Stykk-
ishólmi að taka nú höndum saman
og ræða af einurð og ákveðni hvort
þeir geti ekki orðið við vilja íbúa og
húseigenda í Flatey og sameinað
þann hluta hins gamla Flateyjar-
hrepps sem um ræðir Stykkishólmi.
Takist það hygg ég að það verði
hagur allra hlutaðeigandi og sómi
beggja sveitarfélaga.
Hagkvæm
og eðlileg
Guðmundur
Stefánsson
Sameining
Sveitarstjórnarmenn
í Reykhólahreppi og
Stykkishólmi ættu að
taka höndum saman,
segir Guðmundur
Stefánsson, og sameina
þann hluta hins
gamla Flateyjarhrepps
sem um ræðir
Stykkishólmi.
Höfundur er húseigandi í Flatey.
NÚ ER liðið vel á
aðra viku í verkfalli
tónlistarkennara og
svo mikill einhugur og
kraftur í þeim að ég
er þess fullviss að
hann mælist daglega á
jarðskjálftamælum
veðurstofunnar.
Efnt hefur verið til
ýmissa aðgerða og
verkfallið gengið í alla
staði vel. Það eru hins
vegar samningamálin
sem eru áhyggjuefnið.
Þar hefur verið lítið
lífsmark. Fimmtudag-
inn 1. nóvember
mættu tónlistarkennarar í Ráðhús
Reykjavíkur og afhentu borgar-
fulltrúum áskorun um að ganga til
samninga tafarlaust. Síðan fjöl-
menntu þeir á palla fundarsalarins
og vildu með nærveru sinni minna
á stöðuna í kjaramálum sínum.
Borgarstjóri reifaði stöðu tón-
listarkennslunnar í ávarpi og kom
þar tvennt merkilegt fram. Svo var
að skilja, að þar sem Launanefnd
sveitarfélaganna hefði með hönd-
um samningsumboðið litu borgar-
yfirvöld svo á, að þau bæru enga
ábyrgð á stöðunni. Hvað er ólíkt
með Reykjavík og öðrum sveitar-
félögum? Er ekki sveitarfélagið
baklandið fyrir launa-
nefndina og sá aðili
sem heldur á örlaga-
sprotanum?
Tónlistarkennarar
eru ekki að fara fram
á nein ósköp þótt pró-
sentutalan sé há. Að
fá 107.000 krónur í
vasann fyrir rúmlega
120% starf eftir 8 ára
háskólanám er fárán-
legt. Þótt ég fengi
100% prósent launa-
hækkun í dag myndi
ég samt vera talsvert
lægri í launum en
jafnaldrar mínir með
sambærilega mennt-
un, hvar í stétt sem þeir eru. Ef við
miðum við aðrar kennarastéttir er
misréttið augljóst. Sami tónlistar-
kennari sem starfar í grunnskóla
og í tónlistarskóla horfir á 75.000
kr mun á launum sínum fyrir sömu
vinnu, þótt um sama launagreið-
anda sé að ræða. Hvar er réttlætið
í því? Annað atriðið sem fram kom
í máli borgarstjóra er öllu alvar-
legra. Það að skipulagsmál tónlist-
arkennslunar, sem allir eru sam-
mála um að þurfi uppstokkun, hafa
bein áhrif á gang mála í þessari
kjaradeilu. Það er óásættanlegt að
heilli stétt sé haldið í gíslingu á
meðan stjórnvöld gera upp hug
sinn um það hvernig þau vilja hafa
fyrirkomulag tónlistarkennslunn-
ar. Við krefjumst þess að borgaryf-
irvöld greiði lausnargjaldið og leysi
okkur úr prísundinni. Síðan getum
við rætt málin. Endurskipulagning
tónlistarnámsins tekur meiri tíma
en svo, að tónlistarkennarar lifi
biðina af.
Stétt í gíslingu
Steinunn Birna
Ragnarsdóttir
Höfundur er píanóleikari og formað-
ur verkfallsstjórnar.
Kjarabarátta
Við krefjumst þess,
segir Steinunn Birna
Ragnarsdóttir, að borg-
aryfirvöld greiði lausn-
argjaldið og leysi okkur
úr prísundinni.