Morgunblaðið - 07.11.2001, Page 37

Morgunblaðið - 07.11.2001, Page 37
UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 7. NÓVEMBER 2001 37 Yfir 21 milljón afgreiðslustaða um allan heim Tískulitir! DEILUNNI um Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði er hvergi nærri lokið og ríkisstjórnin ætlar augljóslega, hvað sem það kostar, að knýja þjóðina til að leggja í þrjúhundruð milljarða króna áhættufjárfest- ingu í virkjunum og álveri. Samkvæmt þjóð- legri hefð fjarlægjast deiluaðilar kjarna málsins þeim mun hraðar sem lengur og harðar er deilt. Fylgj- endur framkvæmd- anna lofsama væntanlegar útflutn- ingstekjur af álverinu, arð af sölu orkunnar, blessun umhverfisvænn- ar orku, mikla atvinnu og hagvöxt meðan á framkvæmdum stendur, góð áhrif álversins á byggð á Aust- urlandi; og telja fórnarkostnaðinn viðunandi. Andstæðingarnir óttast hin gríðarlegu umhverfisspjöll sem virkjanirnar muni valda og meng- un frá álverinu, hættulega of- þenslu meðan á framkvæmdum stendur og telja jafnframt vafa- samt að Kárahnjúkavirkjun verði arðbær. Of miklu sé fórnað fyrir of lítinn eða óvissan ávinning. Það merkilega við allar þessar deilur er að enginn veit hver fórn- arkostnaðurinn er, enginn veit hvort virkjunin verður arðbær, enginn veit hver áhrif þenslunnar og álversins verða á samfélags- myndina á Austurlandi og enginn veit hvaða aðrir fjárfestingar- möguleikar gætu gefið þeirri þjóð í aðra hönd, sem allt í einu vill leggja fram þrjú hundruð millj- arða króna í áhættu- fjárfestingu. Hvað vitleysa er nú þetta, segir einhver; veit maðurinn ekki að aldrei hafa farið fram jafn umfangsmiklar rannsóknir á væntan- legum áhrifum nokk- urrar framkvæmdar og þessarar, sem nú er fyrirhuguð? Þetta er ef til vill rétt, en breytir þó engu um það sem að framan er sagt. Það hefur ekki verið gerð minnsta til- raun til að leggja vandað verðmæta- og arðsemismat á þá náttúru sem spillist þó að tiltækar séu aðferðir sem eru notaðar víða um lönd og taldar gefa all áreiðanlegar upp- lýsingar um verðmæti og arðsemi náttúrunnar á tilteknum svæðum. Þess vegna vitum við ekki hver hinn fjárhagslegi fórnarkostnaður er. En arðsemi virkjananna? Hefur Landsvirkjun ekki lofað góðum arði? Vissulega, en Landsvirkjun er stærsti hagsmunaaðili þessa máls og leggur ofurkapp á að fá að virkja; og hvorki andstæðingar framkvæmdanna né óháðir hags- pekingar geta lagt mat á áreið- anleika þeirra útreikninga sem arðsemisloforðin byggjast á, þar sem Landsvirkjun neitar að upp- lýsa eina helstu forsendu þeirra, sem er væntanlegt orkuverð til ál- versins (raunar hefur ekki ennþá verið samið um það). Á meðan svo er verður að líta svo á að Lands- virkjun hafi ekki lagt annað til málanna um arðsemi virkjananna, en órökstuddar staðhæfingar. Er ekki augljóst að álverið muni efla byggð á Austurlandi? Ekki er það nú alveg víst, það hafa ekki verið gerðar nógu vandaðar fé- lagsfræðilegar rannsóknir á áhrif- um framkvæmdanna meðan á þeim stendur og reksturs álversins síð- ar; á samfélagsmyndina á svæðinu, fólksflutninga milli byggðarlaga, samþjöppun byggðar á og í kring- um Reyðarfjörð, hugsanlega út- þynningu og hnignun annarra byggðarlaga á Austurlandi, breyt- ingar á atvinnuháttum, þróun menntunar og ótal margt annað sem hefur afgerandi áhrif á af- komu, lífsgæði og hamingju íbú- anna og löngun aðkomufólks til að setjast að á svæðinu. Auk alls þessa skortir tilfinn- anlega kannanir á öðrum fjárfest- ingarkostum; hvað annað væri hægt að gera við þrjú hundruð milljarða króna, okkur öllum til heilla. Hvað þarf marga milljarða til að efla svo ferðamennsku, ekki síst á Austurlandi, að þeir gætu gefið af sér meira en fjárfesting sömu upp- hæðar í álveri? Ferðaþjónustan er ört vaxandi atvinnugrein um allan heim og hefur þanist út um 10% árlega á Íslandi að undanförnu og er orðin einn af stærstu atvinnu- vegum þjóðarinnar. Hann er fólks- frekur og skapar mikinn fjölda vel launaðra starfa. Hvað þarf marga milljarða til að efla hugbúnaðar- og þekkingariðn- að í landinu svo að þeir gætu gefið meira af sér en jafnstór fjárfesting í álveri? Hugbúnaðariðnaðurinn er ein arðsamasta atvinnugrein í heiminum í dag og ört vaxandi; byggist á vel menntuðu starfsfólki og greiðir há laun. Íslendingar hafa sýnt dug sinn á þessu sviði, en hugbúnaðarhúsin okkar skortir sárlega áhættufé til langs tíma, svo þau geti unnið það tíma- og fjárfreka þróunarstarf sem nauð- synlegt er til að vera í fremstu röð og öðlast varanlega fótfestu á er- lendum mörkuðum. Hvað þarf marga milljarða til að efla svo lyfja- og líftækniiðnað á Íslandi að þeir skili meiri arðsemi en væru þeir lagðir í álver? Lyfja- iðnaðurinn er ein öflugasta pen- ingavél veraldarinnar og Íslend- ingar hafa sýnt að þeir hafa þekkingu og dug til að ná árangri í framleiðslu og útflutningi lyfja og auk þess erum við komin rækilega á kortið í líftækniheiminum þar sem gert er ráð fyrir gríðarlegri arðsemi í náinni framtíð. Hér er um að ræða greinar sem krefjast öflugrar rannsóknarstarfsemi, há- menntaðs starfsfólks og framúr- skarandi menntakerfis. Hvaða ávöxtunar gætum við vænst til langs tíma ef við verðum þrjú- hundruð milljörðum króna til ann- arra verkefna en virkjana og ál- vers? Til að efla menntakerfið, styðja arðvænlegustu atvinnu- greinar okkar og efla nýsköpun? Ekkert af þessu hefur verið fag- lega kannað og borið saman við þá ævintýramennsku sem stjórnvöld ætla nú að gera sig sek um. Auðvitað gæti farið svo að lokn- um nægum rannsóknum, að áform ríkisstjórnarinnar yrðu dæmd hin besta fjárfesting og betri en aðrir kostir. Þá fyrst væri tímabært að rífast um siðferðileg og fagur- fræðileg áhrif verkefnisins. En á meðan við höfum ekki betri þekk- ingu á efnahagslegum afleiðingum fjárfestingarinnar og samanburð við aðra kosti en raun ber vitni er það óverjandi ævintýramennska að æða út í framkvæmdir og láta auðnu ráða. Sá forstjóri stórfyr- irtækis sem leyfði sér slíka áhættu að jafn illa athuguðu máli yrði snarlega gerður atvinnulaus. Ég geri ekki minni kröfur um aðsjálni til landsfeðranna en for- stjóra stórfyrirtækja. Hvað er hægt að hafa upp úr 300 milljörðum? Sigurður Heiðar Jónsson Efnahagsmál Það er óverjandi ævintýramennska, að mati Sigurðar Heiðars Jónssonar, að æða út í framkvæmdir og láta auðnu ráða. Höfundur er skrifstofumaður á Akureyri.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.