Morgunblaðið - 24.01.2002, Síða 47

Morgunblaðið - 24.01.2002, Síða 47
Marteinn var Suðurnesjamaður, Keflvíkingur, og í Keflavík átti hann langa og farsæla starfsævi. Hann stundaði nám við Verslunarskóla Ís- lands og vann síðan í mörg ár hjá fyrirtækjum í verslunarrekstri og stofnunum tengdum framkvæmdum og sjávarútvegi. Marteinn keypti Bókabúð Keflavíkur á sjöunda ára- tugnum og var vinsæll og virtur bóksali um margra ára skeið. Hann var líka mikill félagsmálamaður, sat í bæjarstjórn og bæjarráði Keflavík- ur og sinnti margskonar trúnaðar- störfum fyrir byggðarlagið. Við fráfall Marteins Árnasonar söknum við hjónin vinar í stað. Við þökkum honum langa og góða vin- áttu og sendum Elínu Ólafsdóttur eiginkonu hans og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur. María Jónsdóttir, Sveinn Sæmundsson. Það var á ósköp venjulegum sól- ríkum mánudagsmorgni í San Diego að síminn hringdi óvenju snemma. Á línunni var pabbi okkar með þær sorgarfréttir að afi væri dáinn. Það var eins og veröldin stöðvaðist í smástund, á meðan við áttuðum okkur á þessum fréttum frá Íslandi. Afi í Kefló, eins og við kölluðum hann, sem alltaf var svo góður við okkur, var farinn. Á svona stundum streyma minningarnar fram og ylj- um við okkur við þær. Við systur höfum verið að rifja upp allar góðu stundirnar með afa; í Stafholtsey, í bókabúðinni, á Suðurtúni. Það er margs að minnast. Í sum- arhúsinu í Stafholtsey í Borgarfirð- inum var alltaf líf og fjör. Það var mest spennandi að fá að vera með afa og ömmu og Bryndísi í bíl, því afi stoppaði alltaf í Botni og var þá ekkert verið að spara. Afi keypti alltaf hamborgara og franskar og ótakmarkað af ís! Í Borgó lærðum við að veiða og keyra bíl, eða alltént að stýra bíl. Afi var alltaf til í að skreppa rúnt niður að á til að vitja um letingjann eða renna færi. Hon- um virtist líka alveg sama þótt við lékjum okkur í bílnum hans daginn út og daginn inn og notuðum olíu- tunnurnar sem hesta eða önnur faratæki. Þá var nú gaman! Það voru ófáar næturnar sem við fengum að gista hjá ömmu og afa á Suðurtúni. Þá lékum við frænkurn- ar með Bryndísi í búaleik í bílskúrn- um, íbúðaleik í kjallaranum og í fataskápnum hjá ömmu. Seinna fengum við systurnar, eins og flest barnabörnin, okkar fyrstu starfs- reynslu í bókabúðinni. Við vorum ekki háar í loftinu þegar við fórum að raða í hillur, fara í sendiferðir og afgreiða. Okkur þótti mikið sport að fá að vera í bókabúðinni og afi og amma létu okkur alltaf halda að við gerðum mikið gagn. Já, minning- arnar eru góðar og ljúft að rifja þær upp. Elsku amma, við vildum að við gætum komið og faðmað þig og ver- ið með þér á þessum erfiða tíma. Við sendum þér okkar innilegustu kveðjur og hlökkum til að sjá þig í sumar. Elín og Margrét. „Dauðanum eru allir dagar jafn kærir.“ Svo kvað þjóðskáldið Matthías Jochumsson. Allt, sem kviknar og lifir fæðist til hins eilífa skapadóms, að deyja. Þó er dauðinn ætíð jafnleyndardóms- fullur, vekur manni ugg í brjósti, kemur manni stöðugt jafnmikið á óvart. Mönnum lærist víst seint eða aldrei að sætta sig við þann örlaga- dóm, sem er þó einn öllum búinn og óbreytanlegur, dauðann. Enda þótt vitað væri, að góður vinur okkar, Marteinn Jón Árnason, hefði ekki gengið heill til skógar um nokkurt skeið grunaði engan, að brottför hans bæri svo skjótt að sem raun varð. Hann hafði verið hinn hressasti alla helgina, svo sem hann átti vanda til, en snemma á mánu- dagsmorgni var hann allur. Dauð- anum eru sannarlega allir dagar jafnkærir, og ekki er minnsti vafi í okkar huga á því, að Marteini hafi sjálfum verið slík endalok jafnkær. Glaður og reifur og andlega hress, eins og eðli hans var, hefur hann viljað mæta skapara sínum. Marteinn var á 80. aldursári er hann andaðist og hafði ætíð átt heima hér í Keflavík. Hann var al- inn upp hjá afa sínum og ömmu, Þorsteini Þorsteinssyni kaupmanni og Margréti konu hans, en afi hans var meðal helstu athafnamanna og fyrirmanna í plássinu, og setti svip á samtíð sína. Marteinn var rótgróinn og sannur Keflvíkingur. Það var honum ávallt metnaðarmál að bær- inn efldist og styrktist menningar- og efnahagslega, orðspor hans ykist og bænum hlotnaðist sá virðingar- sess, sem honum ber. Enda þótt Marteini hafi ávallt verið lagið að tileinka sér nýjungar í starfi þá var hann þó umfram allt maður hinna fornu dyggða. Hrein- skiptni, hispursleysi, heiðarleiki, samviskusemi, ráðdeild, hæfileg íhaldssemi, en trú á frelsi einstak- lingsins og framtak. Þetta var óað- skiljanlegt eðli hans og einkenni alla tíð. Marteinn var einn þeirra manna, sem settu eftirtektarverðan svip á bæinn okkar. Hann var einn þeirra styrku sprota þess meiðs, sem var uppistaðan og rót bæjarsamfé- lagsins okkar, atvinnulífs og tóm- stunda- og félagsstarfs. Þessum eldri sprotum fækkar óðum. Og nú þegar hann er allur er stórt skarð fyrir skildi, og umhverfi þeirra okk- ar, sem áttum hann að vini, á engan hátt samt og áður. En minningarnar og spor hans í sögu bæjarins hverfa ekki. Frá ungaaldri tók Marteinn virk- an þátt í uppbyggilegu félagsstarfi í bænum. Hann var einn af stofnend- um Skátafélagsins Heiðarbúa, og starfaði þar af mikilli ósérhlífni á þeim áratugum, þegar starf þess var með hvað mestum blóma og var svo sannarlega athvarf unglinga og æskufólks bæjarins í leik og upp- byggilegu starfi. Á þeim árum ekki síður en nú var skátastarfið hlíf og skjöldur þeirra ungmenna, sem þar hösluðu sér völl. En í þessu starfi var Marteinn um áraraðir í hópi þeirra leiðtoga, sem skeleggastir voru og áhugasamastir. Félagslegur áhugi hans kom þannig mjög fljótlega í ljós, svo og leiðtogahæfileikar hans. Strax á þessum árum, eða fyrir vel rúmlega hálfri öld, kynntist eg Marteini, enda þótt eg tæki ekki þátt í skátastarfinu, því auðvitað fór ekki hjá því, að þeir sem voru við- loðandi í bænum yrðu varir við Mar- tein. En fljótlega áttu leiðir okkar að liggja mjög náið saman. Hann varð ungur mjög einarður talsmað- ur Sjálfstæðisflokksins, og þannig þróuðust mál að um fjögurra ára skeið sátum við saman í bæjarstjórn og áttum mjög náið samstarf. Það var skaði fyrir hið vaxandi bæjar- félag að hann helgaði ekki lengur þeim vettvangi starfskrafta sína. En þarna hófst eiginleg vinátta okkar, sem aldrei bar skugga á síðan. Síðar vorum við Marteinn ásamt öðrum góðum félögum okkar stofn- endur að Lionsklúbbi Keflavíkur og Oddfellowstúku hér í bæ, en hvor tveggja félagasamtökin byggjast á grunni líknar- og mannúðarmála. Og enn var Marteinn meðal þeirra, sem fremstir fóru í því að ryðja brautina, leggja grunninn og vera í mótandi forustu. Í hvorum tveggja félagasamtökunum voru honum veitt heiðursmerki fyrir framúr- skarandi störf. Félagsstarfið á báð- um þessum sviðum var Marteini ávallt mjög kært og þar átti hann margar sjálfboðnar starfsstundir og þar var hann félagi til hinstu stund- ar þótt hann hafi allra síðustu miss- erin ekki sótt þar fundi af heilsu- farssökum. Asmi eða einhverskonar lungnaþemba háði honum þannig að honum fannst óþægilegt annarra vegna að vera í margmenni. Það voru mikil og erfið umskipti fyrir jafnfélagslyndan mann og Marteinn var. Enn og ekki síst lágu leiðir okkar Marteins saman í áralöngu starfi fyrir Sparisjóðinn í Keflavík. Þar gegndi hann stjórnarstörfum um árabil, og var stjórnarformaður um alllangt skeið. Í þessum störfum naut hann sín einkar vel og hann átti ekki hvað síst drjúgan þátt í vaxandi velgengni Sparisjóðsins. Verða honum seint fullþökkuð störf hans í þágu Sparisjóðsins sem sinn- ir, eins og allir vita, mikilsverðu þjónustuhlutverki um öll Suðurnes. Enn er einn félagsskapur þar sem Marteinn lét verulega að sér kveða, það er Stangveiðifélag Suð- urnesja. Hann var frá ungum aldri mikill áhugamaður um laxveiði. Á þeim vettvangi áttum við eftir að eiga margar ánægjustundir saman en á 40 ára afmælisdegi mínum gaf hann mér veiðihjól sem eg á reynd- ar enn og held mikið upp á og veiði- dag með sér í Flóku. Þetta varð næg kveikja fyrir mig. Eftirminni- legar eru margar veiðiferðir með Marteini, en langeftirminnilegastir eru þó veiðidagar í Svarthöfða, sem við þrenn hjón áttum saman til margra ára. Marteinn var einkar skemmtilegur veiðifélagi sem margt var hægt að læra af. Hann var ekki göslari við ána. Nei, hann fór hægt og rólega um árbakka, styggði hvorki lax né lontu í hyl, né mófugla eða endur með unga í fjöruborði. Veiðiferðir voru honum samfélag við landið og náttúruna. Honum fannst að vísu sárt að koma heim með öng- ulinn í rassinum, en hann hafði held- ur enga þörf fyrir að koma klyfjaður heim. Að loknu skyldunámi lagði Mar- teinn leið sína í Verslunarskólann, en að loknu námi þar hvarf hann aftur til heimaslóða. Vann á skrif- stofu Dráttarbrautar Keflavíkur en var síðan um nokkurt árabil skrif- stofustjóri hjá Landshöfninni. Þetta var á þeim árum þegar rík þörf var á greiðum og vönduðum viðskiptum og þjónustu við sjávarútveginn í bænum. Höfnin ávallt full af bátum, iðandi líf og fjör í útgerð og fisk- verkun. Fiskurinn var líf fólksins. En þá söðlaði hann skyndilega um. Keypti Bókabúð Keflavíkur, gerðist sjálfs sín húsbóndi, bóksali, og eg er þess fullviss að þar var hann kominn á rétta hillu. Kaup- mennska hefur ugglaust búið með honum frá uppeldi hjá afa hans. Hann varð að minnsta kosti undra- fljótur að tileinka sér þetta nýja starf, sem var um margt gjörólíkt því sem hann hafði áður fengist við. Nú sneri hann öllum sínum áhuga og orku að bókum, meðhöndlun og sölu þeirra auk þess annars sem bóksölu tilheyrði eða vel mátti fara saman með. Enda óx bókabúðin og dafnaði, komst fljótlega í eigið hús- næði og varð meðal fyrirmyndarfyr- irtækja í bænum. Og eins og að lík- um lætur þá leið ekki á löngu þar til Marteinn var kominn í forustusveit í félagsskap bóksala. Á allra síðustu árum hafði Marteinn falið syni sín- um forsjá bókabúðarinnar, en þar hafði hann örugglega lifað ánægju- legustu starfsstundir sínar. Á jólum lýðveldisárið 1944 gengu þau í hjónaband Marteinn og Elín Ólafsdóttir. Þau voru jafnaldrar, skóla- og fermingarsystkin – æsku- ástin. Þetta var auðvitað gæfuspor þeirra beggja hið mesta. Þau byrj- uðu búskap á æskuheimili Marteins, en reistu sér fljótlega einbýlishús við Suðurtún, þar sem þau bjuggu æ síðan. Þau voru í hvívetna einkar samhent í starfi og leik og þau bjuggu sér og börnum sínum mynd- arlegt og menningarlegt heimili þar sem vinir og vandamenn voru ætíð aufúsugestir. Þegar við höfðum stofnað heimili hér í Keflavík varð það einmitt heimili þeirra Elínar og Marteins sem við heimsóttum hvað fyrst, utan fjölskyldubanda, og varð það upphaf vináttu okkar hjóna sem hefur stað- ið æ síðan án þess að nokkurn tíma hafi þar borið skugga á. Höfum við sannarlega átt saman óteljandi ánægju- og gleðistundir, bæði hér og erlendis. En nú er skarð fyrir skildi. Við og margir aðrir söknum vinar í stað, en auðvitað knýr söknuðurinn og sorg- in þyngst dyra hjá Elínu, börnum þeirra og fjölskyldum þeirra. Við syrgjum svo sannarlega með þeim, en huggunarorð liggja ekki létt á tungu. En við og börn okkar send- um þeim innilegustu samúðarkveðj- ur á stund sorgarinnar og megi minningin um mætan dreng verða þeim huggun í harmi. En Marteini vini okkar óskum við góðrar heim- komu á land lifenda. Halldís og Tómas. MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. JANÚAR 2002 47 Áskirkja. Opið hús fyrir alla aldurshópa kl. 14–17 í neðri safnaðarsal. Söng- hópur undir stjórn organista. Bústaðakirkja. Foreldramorgunn kl. 10– 12. Dómkirkjan. Opið hús í safnaðarheim- ilinu kl. 14–16. Kaffi og með því á vægu verði. Ýmsar uppákomur. Hallgrímskirkja. Kyrrðarstund kl. 12. Léttur málsverður í safnaðarheimili eftir stundina. Háteigskirkja. Foreldramorgunn kl. 10. Stúlknakór kl. 16.30 fyrir stúlkur fædd- ar 1989 og eldri. Stjórnandi Birna Björnsdóttir. Íhugun kl. 19. Taizé-messa kl. 20. Langholtskirkja. Foreldra- og barna- morgunn kl. 10–12. Svala djákni spjall- ar við og les fyrir eldri börnin. Söng- stund með Jóni Stefánssyni. Endurminningafundur, konur og karlar, kl. 14–15.30. Laugarneskirkja. Morgunbænir kl. 6.45–7.05. Kyrrðarstund í hádegi kl. 12. Orgeltónlist í kirkjunni kl. 12– 12.10. Að stundinni lokinni er máls- verður í safnaðarheimili. Kynningarfund- ur kl. 19–22 á Alfanámskeiði, sem nú hefst. Allt fólk velkomið til að kynna sér þetta nýja heimboð safnaðarins. Kenn- arar á námskeiðinu eru Ragnar Snær Karlsson, Nína Dóra Pétursdóttir og sr. Bjarni Karlsson. (Sjá síðu 650 í Texta- varpi). Neskirkja. Nedó kl. 17. Unglingaklúbbur fyrir Dómkirkju og Neskirkju fyrir 8. bekk. Nedó kl. 20 fyrir 9. bekk og eldri. Umsjón Sveinn og Þorvaldur. Árbæjarkirkja. Barnakóraæfing kl. 17– 18. Breiðholtskirkja. Mömmumorgunn föstudag kl. 10–12. Digraneskirkja. Kirkjustarf aldraðra. Leikfimi ÍAK kl. 11.15. Bænastund kl. 12.10. Fyrirbænaefnum má koma til kirkjuvarða. Léttur hádegisverður eftir stundina. Alfanámskeið kl. 19. Kvöld- verður, fræðsla, umræðuhópur. Kennari sr. Magnús B. Björnsson. Skráning á staðnum. Námskeiðsgjald 5.000 kr. Fella- og Hólakirkja. Helgistund og bibl- íulestur í Gerðubergi kl. 10.30–12 í um- sjón Lilju djákna. Starf fyrir 9–10 ára stúlkur kl. 17. Grafarvogskirkja. Foreldramorgnar kl. 10–12. Fræðandi og skemmtilegar sam- verustundir og ýmiss konar fyrirlestrar. Alltaf heitt á könnunni, djús og brauð fyrir börnin. Kirkjukrakkar í Húsaskóla fyrir 7–9 ára börn kl. 17.30–18.30. Æskulýðsfélag í Grafarvogskirkju fyrir 8.–9. bekk kl. 20–22. Kópavogskirkja. Starf með eldri borg- urum í dag kl. 14.30–16.30 í safnaðar- heimilinu Borgum. Kyrrðar- og bæna- stund kl. 17. Fyrirbænaefnum má koma til sóknarprests eða kirkjuvarðar. Seljakirkja. KFUM-fundur fyrir stráka á aldrinum 9–12 ára kl. 16.30. Vídalínskirkja. Bæna- og kyrrðarstund kl. 21. Tónlist, ritningarlestur, hugleið- ing og bæn. Bænaefnum má koma til presta kirkjunnar og djákna. Hressing í safnaðarheimilinu eftir stundina. Bibl- íulestrarnir sem verið hafa kl. 20 falla niður en bent er á Alfanámskeiðið á miðvikudögum. Prestarnir. Fríkirkjan í Hafnarfirði. TTT-starf fyrir 10–12 ára kl. 17–18.30. Hafnarfjarðarkirkja. Opið hús fyrir ung börn og foreldra þeirra í Vonarhöfn, safnaðarheimili Strandbergs, kl. 10–12. Opið hús fyrir 8–9 ára börn í safnaðar- heimilinu Strandbergi, Vonarhöfn, frá kl. 17–18.30. Víðistaðakirkja. Barnastarf fyrir 10–12 ára börn (TTT) í dag kl. 17. Foreldra- stund kl. 13–15. Kjörið tækifæri fyrir heimavinnandi foreldra með ung börn að koma saman og eiga skemmtilega samveru í safnaðarheimili kirkjunnar. Þorlákskirkja. Biblíupælingar í kvöld kl. 20. Landakirkja: Kl. 10 mömmumorgunn. Kl. 17.10 æfing hjá Litlum lærisveinum í safnaðarheimilinu, hópur I. Kl. 18.10 æfing hjá Litlum lærisveinum í safn- aðarheimilinu, hópur II. Kl. 17 bæna- stund í Landakirkju. Sameiginleg bæna- stund fyrir allar kirkjudeildir kristninnar með þátttöku hvítasunnumanna og að- ventista. Kl. 17.30 síðari dagur í nám- skeiði kvenna um sjálfsstyrkingu (í Landakirkju). Kletturinn. Kl. 19 Alfanámskeið. Allir velkomnir. Akureyrarkirkja. Kyrrðar- og fyrirbæna- stund kl. 12. Bænaefnum má koma til prestanna. Eftir stundina er hægt að kaupa léttan hádegisverð sem Kven- félag kirkjunnar annast í Safnaðarheim- ili. Hjálpræðisherinn, Akureyri. Kl. 17 krakkaklúbbur fyrir 8–9 ára. Kl. 19.30 söngæfing. Kl. 20.30 unglingasamvera. Safnaðarstarf HINN árlegi þorrafagnaður eldri borgara í Neskirkju verður haldinn nk. laugardag, 26. janúar, kl. 13. Fram verður borinn hefðbundinn þorramatur á hlaðborði, síldar- réttir og heitt saltkjöt. Margt verður til gamans gert. Þórhallur Sigurðsson, Laddi, skemmtir. Reynir Jónasson mars- erar með nikkuna og leikur undir fjöldasöng. Verði er mjög stillt í hóf. Þátttaka tilkynnist í síma 511 1560 til föstudags. Allir vel- komnir. Sr. Frank M. Halldórsson. Sorgin vegna sjálfsvíga SR. SIGURÐUR Pálsson, sókn- arprestur í Hallgrímskirkju, flytur fyrirlestur um sorgina vegna sjálfs- víga í kvöld, fimmtudag 24. janúar. Mun hann fjalla um einkenni sorgar og viðbrögð við ástvina- missi, einkum við sjálfsvíg. Sr. Sig- urður hefur mikla reynslu af með- ferð þessa efnis og hvetur stjórn Nýrrar dögunar félagsfólk og aðra til að fjölmenna á fræðslukvöldið. Að fyrirlestri loknum verður boðið upp á umræður og fyrirspurnir og eins gefst fólki kostur á að skrá sig í nærhóp til úrvinnslu sorgar í kjöl- far sjálfsvígs sem Guðrún Eggerts- dóttir djákni mun leiða. Fræðslufundurinn er haldinn í Safnaðarheimili Háteigskirkju á annarri hæð og stendur frá kl. 20 til kl. 22. Boðið er upp á molasopa og er aðgangseyrir 500 kr. Fundir Nýrrar dögunar eru ávallt öllum opnir. Fylgist með fréttatilkynn- ingum á Netinu á slóðinni www.sorg.is eða skráið ykkur á netfangalista á nydogun@sorg.is. Morgunblaðið/Jim Smart Neskirkja Þorrafagnaður í Neskirkju KIRKJUSTARF

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.