Morgunblaðið - 24.03.2002, Page 34
SKOÐUN
34 SUNNUDAGUR 24. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ
ÉG GET ekki orða bundist vegna
þeirra undarlegu fréttamennsku
upp á síðkastið um dagvistun á
einkaheimilum. Mér finnst málið
vera mér afar mikilvægt, því til
margra ára má segja að ég og
stjórn mín hafi lagt nótt við dag til
að reyna að fá sett lög og reglugerð
um þessa mikilvægu starfsemi. Ég
tók við formennsku í Samtökum
dagmæðra árið 1984. Þá strax var
leitast við að koma á einhverjum
lagalegum reglum um stéttina. Í þá
daga flokkuðust störf dagvistunar á
einkaheimilum undir barnaverndar-
nefnd, undir liðnum fósturheimili.
Umsjónarfóstrurnar voru sem sagt
starfsmenn barnaverndarnefndar
og unnu ekki í samráði við dagvist-
unarheimilin. Barnaverndarnefnd
bar alla ábyrgð á framkvæmd mála,
við mjög erfið skilyrði, þar sem
ekki var nein sérreglugerð um
þetta starf. Mikils misskilnings
gætti hjá sumum umsjónaraðilum,
þar sem þeir héldu að þeir gætu
ráðið yfir þessari daggæslu. Aðrir
voru mjög góðir og gerðu sér grein
fyrir að starf þeirra var eingöngu
að gæta þess að aðstaða barnanna
væri góð og allur stuðningur við
dagmóður og heimili hennar væri
besti kosturinn til að allt færi vel
fram. Ég persónulega ber mikinn
hlýhug til minnar umsjónarfóstru í
gegnum árin. Allir hlökkuðu til
heimsóknar hennar.
Á þessum tíma var leitast við að
halda góð námskeið en ekki var
skylda að sækja þau. Þær ábyrgð-
armeiri sóttu allt sem hægt var að
notfæra sér í þessum efnum.
Síðar var það tekið upp að um-
sjónarfóstrurnar fengu inni hjá
Dagvist barna í Reykjavík. Það var
að mínu mati afar ruglingslegt.
Ennþá tilheyrði starfið barnavernd-
arnefnd en framkvæmdastjóri dag-
vistunar virtist vera framkvæmda-
stjóri dagvistunar í heimahúsum.
Ég held að ég fari rétt með að hann
var samt ekki starfsmaður barna-
verndarnefndar. Ég spurði einu
sinni hvort skrifleg beiðni væri frá
barnaverndarnefndinni um að hann
tæki yfir framkvæmd á eftirliti dag-
vistunar á einkaheimilum en fékk
það svar, að svo væri ekki. Þetta
var ekki rétt að farið, að mínu viti.
Við hjá Samtökum dagmæðra
gerðum okkur ljóst að þetta var
ófremdarástand. Ég, sem forsvars-
maður, gekk frá Heródesi til
Pílatusar til að gengið væri í að
koma þessum málefnum á lagaleg-
an grundvöll. Farnar voru t.d.
margar ferðir niður í þinghús til að
fá frammámenn til að gefa þessu
gaum. Félagsmálaráðherrar komu
og fóru en ekki tókst að ná eyrum
þeirra fyrr en Jóhanna Sigurðar-
dóttir settist í ráðherrastól félags-
málaráðuneytisins. Lög voru sett á
alþingi aðeins fyrr, þar sem leik-
skólar voru settir undir mennta-
málaráðuneytið, en eins og ég skildi
það, átti dagvistun á einkaheimilum
og gæsluvellir ekki samleið með svo
merkum stofnunum svo þau voru
sett undir félagsmálaráðuneytið.
Skilst mér, að öll dagvistun í ná-
grannalöndum okkar séu undir
sama ráðuneyti. Nefnd var stofnuð
á vegum ráðuneytisins til að gera
þá reglugerð sem hefur verið um
þessa starfsemi. Í nefndinni var
unnið mjög gott starf undir forustu
Braga Guðbrandssonar, sem nú er
forstöðumaður Barnaverndarstofu.
Samtök dagmæðra höfðu unnið,
eins og sagt var áður, í
mörg ár að þessu
marki. Þar á meðal
hafði ég farið á ráð-
stefnu í Svíþjóð ásamt
Emilíu Júlíusdóttur
fóstru en það var
fyrsta Norðurlanda-
ráðstefna um dagvist-
un á einkaheimilum.
Emilía var einnig í
þessari nefnd. Einnig
hafði ég og Anna K.
Jónsdóttir, formaður
Dagvistarstjórnar
Reykjavíkur, farið til
Belgíu til að sitja þar
fyrstu Evrópuráð-
stefnuna um þennan
málaflokk.
Gögnin frá þessum tveimur ráð-
stefnum komu sér afar vel þegar
vinnan við reglugerðina hófst.
Reglugerðin kom út fullsköpuð
1992. Sjá má að mörg árin fóru í að
berjast fyrir henni. Það gerði eng-
inn nema dagmæður sjálfar.
Hvernig hefur svo tekist til að
fara eftir þessari góðu reglugerð?
Því miður alls ekki nógu og vel. Við
hvern er að sakast? Ég svara hik-
laust fyrst og fremst sveitarfélög-
unum. Enn í dag gætir þess mjög
víða að eftirlitsaðilar sinna ekki því
starfi sem þeim er ætlað og félags-
málanefndir, að minnsta kosti sum-
ar hverjar, bera ekki næga virðingu
fyrir hlutverki sínu. Ég ætla að
vitna í reglugerðina til útskýra mitt
mál.
Reglugerð no. 198/1992
II. kafli. 2. gr. Félagsmálanefnd/
félagsmálaráð í hverju sveitarfélagi
ber almenna ábyrgð á velferð barna
í sveitarfélaginu og skal sjá til þess
að aðbúnaði barna sé ekki áfátt,
sbr. 1. mgr. 31.gr. laga um fé-
lagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/
1991.
3. gr. Félagsmálanefnd/félags-
málaráð, eða önnur sú nefnd sem
sveitarstjórn ákveður, hér eftir
nefnd í reglugerð þessari félags-
málanefnd, veitir leyfi til daggæslu
barna í heimahúsi gegn gjaldi.
Óheimilt er að taka barn í slíka
gæslu án þess leyfis.
Því miður hefur þetta alls ekki
verið alls staðar virt. T.d. í Reykja-
vík hefur sú nefnd sem hefur verið
skipuð til að fara með þessi mál í
dag ekki unnið að þeim að mínu
mati löglega. Það er Leikskólaráð
Reykjavíkur. Virðist mér að þessi
nefnd hafi sett öll völd í hendur um-
sjónaraðila og hefur hann tekið á
móti umsóknum, farið í eftirlit og
afgreitt einhliða leyfið. Það hlýtur
að vera alfarið á ábyrgð nefndar-
innar þó svo að hún líti aldrei á
plöggin. Ég hef grun um að ekki
einu sinni hafi þetta verið gert með
skriflegu umboði nefndarinnar.
Þegar svo málefni þessarar dagvist-
unar kemur í fjölmiðla eru formað-
ur nefndarinnar látinn mæta og
framkvæmdastjóri Leikskóla
Reykjavíkur en hvergi bólar á þeim
aðila sem hefur unnið öll verkin, að
mínu viti fyrir utan lög og reglur.
Mikið lagði ég áherslu á að umsjón-
araðili ætti ekki og gæti ekki haft
svona völd í starfseminni. Spurning
vaknar í huga mér hver fær svo
greidd laun fyrir þessi verk? Er
það nefndin sem á að
sjá um þessi verk eða
er umsjónaraðila umb-
unað aukalega fyrir
þessi aukastörf? Borg-
arlögmaður sagði í
bréfi nýlega að Bergur
Felixson, fram-
kvæmdastjóri Leik-
skóla Reykjavíkur,
veitti dagvistarleyfin
en enginn hefur séð
dagvistarleyfi undir-
skrifað af honum.
Hann getur heldur
aldrei flokkast undir
nefnd.
Reglug. III. Kafli 9.
gr 7. liður. Heimilt er
að leita umsagnar heil-
brigðisnefndar, hvað húsnæði varð-
ar. Þetta ákvæði er komið út í al-
gjöra vitleysu að mínu mati. Ef
tveir dagforeldrar vinna saman í
húsnæði, á að kalla á matsmenn
varðandi húsnæðið og fá umsögn
um að það fylgi öllum skilyrðum.
Ég skildi þetta svo að þessir mats-
menn skiluðu svo sínu mati til
nefndar og hún ein gæfi leyfi til
starfsins. Nú koma stormandi, í
tíma og ótíma, konur inn á heimilin,
til að taka þau út, án þess að nefnd-
in hafi gefið tilnefningu þar um.
Heilbrigðiseftirlitið hefur sett upp
gjald fyrir þetta eftirlit en hvergi
kemur það fram á hvaða forsend-
um. Þetta er hár útgjaldaliður en
hvergi hefur verið sett fram við
dagforeldra eftir hvaða reglum
þetta er gert. Í Reykjavík í dag gef-
ur líka heilbrigðiseftirlitið sjálft út
leyfi til dagvistunarinnar. Þeir taka
gjald fyrir það en ekki Leikskólar
Reykjavíkur. Þeir sem taka þetta
húsnæði út nú eru konur, en gaman
væri að vita hvaða menntun þær
hafa í að yfirfara öryggisatriði
varðandi húsnæði. Það þarf að gæta
að því að þessi starfsemi fer fram á
einkaheimilum. Það verður að
vernda þau fyrir óþarfa yfirgangi
og gæta þess vel að ekki sé farið út
fyrir lagarammann. Enginn á erindi
inn nema hafa til þess skýra heim-
ild. Útgjaldaliðinn þarf að skýra.
Hver kom þessum lið á og hvenær?
Reglugerð. V. kafli 19. gr. Dag-
móðir skal kaupa slysatryggingu
vegna barnanna.
Spurning er í huga mér. Hafa
umsjónaraðilar gætt þess nógu vel
að gera dagforeldrunum þetta
ljóst? Fá allir sem sækja um dag-
vistun á einkaheimilunum reglu-
gerðina þegar sótt er um dagvist-
unina? Er hún útskýrð vel fyrir
dagvistaraðilum?.
Áður en reglugerðin var gerð
hafði forystan í Samtökum Dag-
mæðra komið því á að hóptrygging
var gerð fyrir félagsmenn. Það er
þakklæti í huga mér til trygginga-
félaganna sem studdu okkur og
leiddu okkur inn á þennan veg. Enn
voru það dagmæður sem komu í
framkvæmd öryggisatriðum en
ekki ríki eða bær.
Það hefur komið í fréttum að
dagforeldrar hafi ekki skilað inn
sakavottorði. Ef svo er, er það al-
farið á ábyrgð sveitarfélagsins en
ekki dagforeldrisins. Aldrei á að
ganga frá leyfi nema öll gögn liggi
fyrir. Skyldi það vera, að ekki hafi
verið beðið um öll gögnin? Reglug.
111. Kafli 9. gr. 5. liður. Sakarvott-
orð.
VI. Kafli 21. gr. Ákvörðun um
vistun barns er ætíð á ábyrgð for-
eldra.
Gerum okkur að fullu ljóst að
foreldrar eiga að vera vel vakandi
yfir því að barn þeirra sé aldrei í
umsjón neins sem ekki sýnir fulla
ábyrgð, í hvaða umsjón sem það er.
VII. Kafli 22. gr. Eftirlit með
starfsemi dagmæðra. umsjónarað-
ilar.
Félagsmálanefnd getur ráðið sér-
stakan umsjónaraðila sem hefur
með höndum undirbúning leyfis-
veitinga, eftirlit með starfsemi dag-
mæðra, auk þess að veita dagmóður
ráðgjöf og stuðning. að öðrum kosti
er eftirlitið í höndum félagsmála-
nefndar eða annarrar þeirrar
nefndar í sveitarfélaginu sem fer
með málefni dagmæðra.
Við ráðningu í starf umsjónar-
aðila skal ráða fólk með sérþekk-
ingu á uppeldi barna, svo sem fóstr-
ur og annað uppeldismenntað fólk.
Nánar tiltekið er verksvið umsjón-
araðila eftirfarandi.
Að hafa umsjón með gæslu barna
hjá dagmæðrum. Stuðlað skal að
því að umsjónin sé í formi stuðn-
ings, fræðslu og ráðgjafar eftir því
sem kostur er. Umsjónin skal vera
mjög virk fyrsta árið, en síðar
dregið úr henni smátt og smátt
miðað við aðstæður eftir mati um-
sjónaraðila.
Að halda reglulega fræðslufundi
með dagmæðrum og/eða stuðla að
samstarfi dagmæðra sín á milli.
3. Að halda fundi með foreldrum
barnanna og dagmóður eftir því
sem umsjónaraðili telur þörf á.
Fréttamenn ynnu verðugt verk,
ef þeir hefðu löngun og dug í sér,
að rannsaka hvernig til hefur tekist
að fara eftir þessum reglum. Á mín-
um tíma, var gert svo vel við dag-
foreldra í Reykjavík, að þeir áttu
kost á 60 tíma námskeiði, 70 tíma
og 100 tíma. Nú er aðeins boðið upp
á 60 tíma sem eru skilyrði til að
mega hefja starfsemina.
VIII. Kafli. Ýmis atriði.
28. gr. Fái félagsmálanefnd upp-
lýsingar um að börn séu tekin í
gæslu í atvinnuskyni án leyfis skal
hún láta málin til sín taka.
Það þarf að grandskoða hvernig
tekið er á þessum málum í dag. Ég
persónulega hef grun um að þetta
hafi verið gróflega hunsað.
Þegar upp var staðið við gerð
þessarar reglugerðar var ég ekki
fyllilega ánægð með einstaka atriði.
Ég á mjög bjarta minningu um
lokakveðju Braga Guðbrandssonar
til mín. Hann sagði „Selma, gerir
þú þér grein fyrir hvað þetta er
stórkostlegur áfangi? Dagvistun á
einkaheimilum er nú lögfest at-
vinnugrein.“ Þessi orð þakka ég
innilega .
Ráðuneytisstjórinn Berglind Ás-
geirsdóttir viðhafði þessi orð.
„Selma, þetta er frumsmíðin. Eftir
svolítinn tíma verður farið yfir
reglugerðina og lagað það sem ekki
náðist núna.“
Nú er loksins komið að því eftir
10 ár.
Það er nú eins og ávallt fyrr að
það eru dagmæðurnar sjálfar sem
hafa beðið félagsmálaráðuneytið
um að fara ítarlega yfir allar þær
framkvæmdir sem hafa verið gerð-
ar á vegum sveitarfélaga í málum
dagvistunar á einkaheimilum. Þar
er víða pottur brotinn. Einnig hefur
Barnavistun, félag dagforeldra, far-
ið fram á að reglugerðin sé endur-
unnin og bætt. Það ríkti mikið
traust til þeirra sem fara með þessi
mál í ráðuneytinu, þegar þessi mál
voru lögð fyrir. Ráðuneytið er jú sá
aðili sem á að vernda reglugerð
sína og þar með hag allra sem und-
ir hana heyra. Það var því mikið
áfall þegar félagsmálaráðherra kom
fram í fjölmiðlum og flutti mál sitt
á þann veg að ásökun beindist að
dagforeldrum í staðinn fyrir að hún
beindist að réttum aðilum innan
sveitarfélaganna. Ég vona innilega
að félagsmálaráðherra okkar líti
aftur á málin og biðji dagforeldra
afsökunar á að hann hafi komið
svona að málunum. Hann væri
meiri maður fyrir. Öllum getur orð-
ið á. Það er alvarlegt ef óvarleg orð
skaði stétt sem er innan ráðuneyt-
isins. Sérstaklega ef börn eru á
ábyrgð þessarar stéttar.
Nú kem ég að fréttamennsku
þessa lands. Ég hef talið að hún
væri byggð á skynsemi, réttlæti og
ábyrgð. Því miður hefur það alls
ekki verið nú í öllum tilfellum með
þessi mál. Þau þekki ég og veit
hvað er rétt og rangt. Sárindi mín
og hryggð beinist fyrst og fremst
að ríkissjónvarpinu. Það hefur hælt
sér af að vera með ábyrgan frétta-
flutning. Ábyrgur fréttaflutningur
er að bjóða öllum aðilum sem koma
að málum að svara um það. Þegar
talað var við ráðherra var ekki haft
samband t.d. við stjórnendur í fé-
lögum dagforeldra. Kastljós er í
miklu uppáhaldi hjá mér, en því
miður voru afar óvönduð vinnu-
brögð hjá þeim þegar þau tóku við-
tal við Berg Felixson framkvæmda-
stjóra og Kristínu Blöndal formann
Leikskólaráðs um málefni dagvist-
unar á einkaheimilum. Þetta er
ekki í fyrsta sinn sem dagforeldrum
er sýnd svo mikil óvirðing að þeir fá
ekki að svara um eigin atvinnu-
rekstur en opinberir eftirlitsaðilar
leika einleik í þeirra málum. Þau
voru spurð hvort þau færu eftir
reglugerðinni. Þau sóru og sárt við
lögðu að þar væri ekki út af brugð-
ið. Góður fréttamaður hefði spurt
hinn aðilann líka sem átti allt sitt
undir að rétt væri með farið. Vona
ég að þetta góða fólk bæti fyrir
þetta og bjóði fulltrúum dagfor-
eldra sem eru inni í þessum málum
að koma fram á sama vettvangi
með sína hlið á málinu. Það eru þeir
sem hafa orðið fyrir barðinu á því
að eftirlitsaðilar hafa ekki farið eft-
ir reglugerðinni.
Aðrir fjölmiðlar flestir höfðu
einnig samband við dagmæður og
fengu þeirra hlið á málunum.
Hættum að hengja
bakara fyrir smið
Það er eitt enn sem brennur í vit-
und minni. Er ekki komin ástæða
fyrir löngu að dagvistun á einka-
heimilum sé ekki undir sömu
stjórnun og dagvistanir sveitarfé-
laga. Þetta eru tvímælalaust sam-
keppnisaðilar. Það er ótrúlegt að
samkeppnisstofnun skuli líða það
vald sem sveitarfélögin beita þessa
starfsemi. Ég trúi ekki að í lýðræð-
isríki sé þetta lögum samkvæmt. Á
meðan þetta viðgengst er þessi
dagvistun undir hælnum á ráða-
mönnum leikskóla, reknum af sveit-
arfélögum. Sést vel nú hversu lítil
virðing er sýnd þessum einka-
rekstri í skugga leikskólanna.
Það er líka brýnt að fréttamenn
fái réttar og fullkomnar upplýsing-
ar um fjölda barna á hverja starfs-
manneskju innan leikskólanna. Það
eiga að vera sömu réttindi og
skyldur yfir það hjá öllum dagvist-
unum.
Ég óska öllum sem bera ábyrgð á
börnum okkar, hvort sem það er á
heimilum eða stofnunum, velfarn-
aðar í starfi.
DAGVISTUN
Á EINKAHEIMILUM
Selma
Júlíusdóttir
Það eru dagmæðurnar
sjálfar, segir Selma
Júlíusdóttir, sem hafa
beðið félagsmála-
ráðuneytið um að fara
ítarlega yfir allar
þær framkvæmdir sem
hafa verið gerðar á
vegum sveitarfélaga
í málum dagvistunar á
einkaheimilum. Þar er
víða pottur brotinn.
Höfundur er skólastjóri Lífsskólans
og fyrrverandi formaður Samtaka
dagmæðra.