Morgunblaðið - 03.11.2002, Blaðsíða 30
LISTIR
30 SUNNUDAGUR 3. NÓVEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Auglýsendur!
Jó l i n 2002
30. nóvember
Pantið fyrir kl. 12
föstudaginn 15. nóvember!
Pantið tímanlega þar sem uppselt
hefur verið í jólablaðauka fyrri ára.
Allir nánari upplýsingar veita sölu- og
þjónustufulltrúar á auglýsingadeild
í síma 569 1111 eða augl@mbl.is
Jólablaðaukinn
fylgir Morgunblaðinu
laugardaginn 30. nóvember.
LARS Saabye Christensen hefur haft ímörgu að snúast frá því að tilkynnt var ífebrúar síðastliðnum um að hann hlytiBókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
fyrir skáldsöguna Halvbroren. Christensen tók síð-
an við verðlaununum síðastliðinn þriðjudag á sér-
stakri hátíðardagskrá sem efnt var til í Þjóð-
aróperu Finna í Helsinki.
Saabye Christensen er vel þekktur og ástsæll
höfundur meðal Norðmanna. Hann er fæddur árið
1953 en á 26 ára rithöfundarferil að baki. Á þeim
tíma hefur hann sent frá sér ljóð, skáldsögur, smá-
sögur og leikrit, skrifað kvikmyndahandrit og unn-
ið til fjölmargra verðlauna fyrir verk sín. Það var
fyrir skáldsöguna Halvbroren eða „Hálfbróðurinn“
sem Saabye Christensen hlaut bókmenntaverðlaun
Norðurlandaráðs en von er á bókinni í íslenskri
þýðingu Sigrúnar Magnúsdóttur næsta haust.
Saabye Christensen segir bókmenntaverðlaun
Norðurlandráðs hafa glatt sig mjög einkum vegna
þess að þau gefi honum tækifæri til að kynnast nýj-
um lesendum í löndum utan Noregs. „Verðlaunin
hafa m.a. haft þau áhrif að ég hef verið að ferðast
víða, einkum um Norðurlöndin, til að sinna upp-
lestrum. Þannig hefur þetta ár í raun verið mjög
þéttskipað, en mér finnst þetta mjög ánægjuleg
vinna, því hún gefur mér tækifæri til að eiga í sam-
skiptum við og kynnast nýjum lesendum og áheyr-
endahópum, ekki síst á hinum Norðurlöndunum.“
Bókin í smíðum í 20 ár
Christensen steig fram á sjónarsviðið sem rithöf-
undur árið 1976 með ljóðabókinni Historien om Gly
(Sagan af Gly). Árið 1984 skipaði hann sér á bekk
með fremstu rithöfundum Norðmanna með skáld-
sögunni Beatles, uppvaxtarsögu er á sér stað í Osló.
Skáldsagan Hálfbróðirinn kom síðan út í fyrra, en
það ár markaði 25 ára rithöfundarafmæli Christen-
sens. Hann segir verðlaunin ekki síst hafa glatt sig
vegna þess að hann hlýtur þau fyrir skáldsögu sem
er hans metnaðarfyllsta til þessa. „Ég hef í raun
verið með þessa bók í smíðum síðan ég byrjaði að
fást við skáldskap. Hún er unnin í tveimur atrenn-
um, sú fyrri hófst fyrir tuttugu árum, en sú síðari
fyrir tíu árum, en þau ár hef ég verið að fullskrifa
bókina. Ég held að allir rithöfundar eigi sér
ákveðnar sögur sem eru þeim mikilvægari en aðr-
ar, og þeir bara verða að skrifa. Þetta er svoleiðis
saga fyrir mér og þess vegna gaf ég henni allan
þann tíma sem hún þurfti. Það má líka segja að
þessi bók skírskoti til og búi yfir öllum þeim minn-
um sem ég hef unnið með í mínum skrifum hingað
til. Hún hvílir eiginlega á grunni rithöfundarferils
míns,“ segir Saabye Christensen.
Skáldsagan Hálfbróðirinn spannar síðari hluta
20. aldar og fylgir eftir fjölskyldu sögupersónunnar
Barnum Nilsens í gegnum þrjár kynslóðir. Nilsen
glímir við dvergvöxt og á í sársaukafullu sambandi
við hálfbróður sinn, Fred, sem fæddist eftir að
móður hans var nauðgað.
Saabye Christensen lýsir bókinni sem fjöl-
skyldusögu, og sögu um manneskjur sem glíma við
einsemd og þrá viðurkenningu. „Barnum Nielsen
er mjög lágvaxinn og er sagan öll sögð frá hans
sjónarhorni. Þannig horfir sögumaður í raun upp á
persónurnar í kringum sig, og er þessi staða
kannski lýsandi fyrir þær tilfinningar sem fjallað er
um í bókinni.“
Upphafsatriðið í bókinni lýsir því er ofbeld-
isverknaðurinn gagnvart móður bræðranna Nilsen
á sér stað, á friðardeginum, 8. maí 1945. „Atriði á
borð við þetta, þar sem hamingja og fögnuður yfir
stríðslokunum umhverfist í skelfingu, er eitthvað
sem ég er mjög upptekinn af í mínum skáldskap.
Annað atriði í bókinni lýsir síðan því hvernig and-
artak skammar og vanmáttar í lífi Barnum Nilsens
verður skyndilega að sigurstund. Það er eitthvað
við svona augnablik sem kjarnar lífið, og er ég sí-
fellt að leita að svona augnblikum í mínum skáld-
skap,“ segir Christensen.
„Þessi saga kom fyrst til mín sem draumsýn, og
sá ég þar fyrir mér stóra þurrkloftið sem er sögu-
sviðið í upphafi frásagnarinnar. Það var svona
þurrkloft í byggingunni sem afi minn og amma
bjuggu í þegar ég var að alast upp á sjötta og sjö-
unda áratugnum, og hafði það alltaf sterk áhrif á
mig. Þetta stóra, dularfulla háaloftsherbergi varð
fyrir mér eins konar myndhverfing fyrir söguna
sem ég vildi segja. Yfir herbergið þvert og endi-
langt liggja nefnilega þvottasnúrur og eftir þeim
þræðir sagan sig. Fötin sem hanga á snúrunum sá
ég sem persónurnar sem ég þurfi að gæða lífi.“
Æskuslóðirnar sem innblástur
Flestar sögur Saabye Christensens eiga sér stað
á æskuslóðum hans í millistéttarhverfi í Oslóborg.
Aðspurður segist hann sækja ljóðrænan innblástur
í minninguna um uppvaxtarumhverfi æsku sinnar,
það umhverfi sé það bókmenntalega landslag sem
hann skrifi út frá. „Minningin um æskuslóðirnar
eru mér ákveðinn ljóðrænn innblástur sem ég nýti
mér í skrifunum. Ég vil líka hafa komið á þá staði
sem ég skrifa um, ég vil vita hvernig tilfinning það
er að vera á þeim stað, vil gjörþekkja hann, vita
hvernig hann lyktar,“ segir hann og bætir því við að
hann sæki mjög til þess sem mótaði hann á upp-
vaxtarárum sínum. „Það eru ýmsar leiðir til að
segja söguna og lýsa tímans rás. Einn þáttur í Hálf-
bróðurnum, líkt og í skáldsögum á borð við Beatles,
er saga alþýðumenningarinnar. Þannig kemur fjöl-
leikahús við sögu í upphafi bókarinnar en við lok
hennar erum við stödd á kvikmyndahátíð í Berlín,
nokkurs konar nútímaútgáfu af ferðasirkus. Menn-
ingarumhverfi afþreyingarmenningarinnar svo-
kölluðu er oft áberandi í sögum mínum, enda tel ég
að mín kynslóð sé ákaflega mótuð af þessu um-
hverfi. Sjálfur er ég mjög upptekinn af kvikmynd-
um og tónlist, og hef ég skrifað nokkuð af kvik-
myndahandritum á mínum ferli.“
Saabye Christensen segist munu sitja við sinn
keip sem rithöfundur eftir að hafa tekið við bók-
menntaverðlaunum Norðurlandaráðs. „Ég er með
ákveðin verkefni í huga og mun halda mínu striki.
Mér er það hins vegar ljóst að það mun taka heldur
lengri tíma að koma frá mér mínu næsta verki.
Verðlaunin hafa gert það að verkum að skáldsagan
Hálfbróðirinn hefur verið seld til fjölmargra landa.
Þetta kallar á það að ég fylgi bókinni eftir og vil ég
gjarnan gefa mér tíma í það. Þannig býst ég við að
verða nokkuð á ferð og flugi næsta árið,“ segir Saa-
bye Christensen, en þegar þetta var skrifað hafði
skáldsagan Hálfbróðirinn verið seld til 16 landa.
„Bókin mun m.a. koma út í íslenskri þýðingu á
næsta ári. Ég er spenntur yfir þessari þýðingu, því
hún verður fyrsta verkið sem kemur út eftir mig á
íslensku. Það er hverjum höfundi mjög mikilvægt
að vera þýddur. Með því er skáldskap hans miðlað
yfir tungumálsleg og landfræðileg landamæri. Ég
held að rithöfundur hafi líka mikið að læra af við-
tökum lesenda og gagnrýnenda í ólíkum löndum og
menningarheimum. Það gefur manni tækifæri til
að endurskoða eigin skáldskap eftir að fólk sem
ekki þekkir mann sem höfund hefur lagt mat á
hann.“
„Saga sem ég
varð að skrifa“
„Það er hverjum höfundi mjög mikilvægt að
vera þýddur. Með því er skáldskap hans miðlað
yfir tungumálsleg og landfræðileg landamæri,“
segir Lars Saabye Christensen, handhafi Bók-
menntaverðalauna Norðurlandaráðs. Skáldsaga
hans, Hálfbróðirinn, kemur út í íslenskri þýð-
ingu næsta haust.
Handhafi Bókmenntaverðlauna
Norðurlandaráðs í ár er Norð-
maðurinn Lars Saabye Christen-
sen. Verðlaunin voru afhent höf-
undinum í Helsinki á þriðjudag,
og ræddi Heiða Jóhannsdóttir
við hann af því tilefni.
heida@mbl.is
Í HOUSTON í Texas stendur nú yfir
alþjóðleg „quilt“-hátíð og í ár verða
þar sýnd á annað þúsund ásaums- og
bútasaumsverk á hátt í 40 sjálfstæð-
um sýningum.
Ein þeirra er boðsýningin Nordic
Quilts. Fulltrúi Íslands er meðal
sýnenda, Heidi Kristiansen, og á hún
þrjú myndteppi á sýningunni. Þar
eru 25 „Art-Quilts“ verk eftir sjö
norrænar listakonur, auk Heidi:
Bente Vold Klausen, Charlotte Yde,
Katriina Flensburg, Vuokko Isaks-
son, Ingunn Kjøl Wiig, Ulva Ugerup.
Hátíðinni lýkur í dag.
Íslensk ásaums-
verk í Texas
Í HAFNARBORG verður í kvöld,
sunnudagskvöld, kl. 20, flutt tónlist
frá endurreisnar- og samtímanum,
fléttuð ljóðum frá sama tímabili. Það
er tónlistarhópurinn Contrasti sem
flytur tónlistina en Arnar Jónsson
leikari flytur ljóðin.
Endurreisnartónlistin saman-
stendur af ljóða- og hljóðfæratónlist
frá Englandi sextándu og sautjándu
aldar m.a. eftir John Dowland,
Thomas Morley, John Wilbye o.fl.
þar sem yrkisefnið er oftast ástin og
dauðinn, en inni á milli verða flutt lög
við texta þar sem slegið er á léttari
og gáskafyllri strengi. Nútímatón-
listin er eftir Öistein Sommerfeldt
frá Noregi og Calliope Tsoupaki frá
Grikklandi. Verk Öisteins sem er
samið fyrir selló nefnist Mini – Suite
og er frá árinu 1976. Sappho’s Tears
heitir verk Calliope Tsoupakis frá
árinu 1990 og er fyrir söngrödd, ten-
órblokkflautu og fiðlu.
Inni á milli laganna les Arnar
Jónsson þýðingar á enskum ljóðum
frá endurreisnartímanum, m.a. eftir
William Shakespeare, og færeyskum
tuttugustu aldar ljóðum.
Contrasti-hópinn skipa Camilla
Söderberg blokkflautur, Marta Guð-
rún Halldórsdóttir söngur, Hildi-
gunnur Halldórsdóttir fiðla, söngur,
víóla da gamba, Ólöf Sesselja Ósk-
arsdóttir selló, víóla da gamba og
Snorri Örn Snorrason lúta.
Tónlistarhópurinn Contrasti.
Ljóð og
tónar
tvennra
tíma