Morgunblaðið - 21.01.2003, Blaðsíða 18
AKUREYRI
18 ÞRIÐJUDAGUR 21. JANÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
FIMMTÍU ár voru nú í vikunni liðin
frá því teknar voru upp fastar vaktir
hjá Slökkviliði Akureyrar, en liðið var
stofnað töluvert fyrr eða 9. desember
árið 1905. Núverandi og fyrrverandi
starfsmenn Slökkviliðs Akureyrar
gerðu sér glaðan dag ásamt gestum
sínum af þessu tilefni og rifjuðu upp
sögu liðsins.
Eftir stórbruna sem varð á Akur-
eyri 1901 var af alvöru farið að ræða
um að stofna slökkvilið í bænum, en
heimild til kaupa á fyrstu slökkvi-
tækjunum fékkst ekki fyrr en þremur
árum síðar.
Fyrsti slökkvibíllinn var keyptur
árið 1930 og fimm árum síðar voru
brunaboðar settir upp á nokkrum
stöðum í bænum ásamt bjöllum við
heimili slökkviliðsmanna. Áður en sú
nýjung var tekin upp höfðu tveir
menn haft þann starfa með höndum
að hlaupa um bæinn og blása í bruna-
lúðra.
Í ávarpi Magnúsar V. Arnarssonar,
sem er settur aðstoðarslökkviliðs-
stjóri, kom fram að á fyrstu dögum
hinna föstu vakta voru fjórir bruna-
verðir að störfum ásamt varaslökkvi-
liðsstjóra og gengu þeir vaktir allan
sólarhringinn, einn í senn.
Fyrsti útkallsbíll í 43 ár
Starfsemin var þá til húsa á neðstu
hæð ráðhússins við Geislagötu.
Smám saman var aukið við tækja-
kost liðsins, þannig kom nýr slökkvi-
bíll árið 1954, sem á þeim tíma þótti sá
fullkomnasti á landinu og var hann
fyrsti útkallsbíll liðsins til ársins 1997
eða í 43 ár. Mönnum á vakt hefur
einnig fjölgað, fyrst í tvo en árið 1975
urðu þeir þrír og fjórir árið 1998, en í
kjölfarið batnaði mjög þjónusta liðs-
ins í bruna- og sjúkraútköllum.
Slökkviliðið hefur sinnt akstri
sjúkrabíls fyrir Rauða krossinn frá
árinu 1968 og hefur sá þáttur starf-
seminnar vaxið ár frá ári. Hjá
Slökkviliði Akureyrar starfa nú um 30
menn og hefur um helmingur þeirra
lokið svokallaðri neyðarflutnings-
menntun. Árið 2000 tók liðið við
rekstri Slökkviliðs Akureyrarflug-
vallar og bættust þá 7 starfsmenn við
sem ganga vaktir á flugvelli.
Stórbættar brunavarnir
Magnús gat þess að margir stór-
brunar hefðu orðið fyrr á tímum, áður
en vaktir voru teknar upp, og mann-
tjón í eldsvoðum orðið nánast árlega.
Brunaútköll væru álíka mörg nú og
þá, en miklu oftar tækist að ráða nið-
urlögum elds áður en hann ylli tjóni
og manntjóni í eldsvoðum væru sjald-
gæf nú. „Það má þakka bættum
brunavörnum, betri tækjakosti
slökkviliðs, en ekki síður betra við-
bragði með fleiri mönnum þannig að
hægt er að hefja slökkvistarf fyrr en
áður,“ sagði Magnús.
Verkefnum Slökkviliðsins hefur
stórfjölgað, m.a. vatnsdæling, hreins-
un hættulegra efna, og ýmiss konar
björgun, t.d. úr bílflökum. Áhersla
hefur einnig verið aukin hvað varðar
viðbrögð við flugslysum með samein-
ingu við flugvallarliðið og er fyrirhug-
uð frekari þjálfun á því sviði. Slökkvi-
ðið sér einnig um eldvarnareftirlit og
slökkvistörf í nágrannabyggðarlög-
um. Miðstöð sjúkraflugs er á Akur-
eyri og fara neyðarflutningamenn
liðsins með í öll sjúkraflug frá Akur-
eyri. Fjórðungssjúkrahúsið á Akur-
eyri hefur tekið að sér rekstur sjúkra-
flutningaskóla og munu nokkrir
starfsmanna slökkviliðsins sjá um
kennslu við skólann.
Magnús sagði Slökkvilið Akureyr-
ar eina atvinnuslökkviliðið á Norður-
landi og að mikilvægi þess næði langt
út fyrir bæjarmörkin, það hefði á að
skipa tækjum og þjálfuðum mann-
skap til að bregðast við slysum og
eldsvoðum langt út fyrir sitt starfs-
svæði.
Alls hafa 6 menn sinnt starfi
slökkviliðsstjóra frá upphafi eða í nær
eina öld, fyrst Ragnar Ólafsson, þá
Axel Schiöth, Eggert Melstað, Ásgeir
Valdimarsson, Sveinn Tómasson og
Tómas Búi Böðvarsson.
Takast á við sífellt fleiri
og fjölbreyttari verkefni
Morgunblaðið/Kristján
Gunnlaugur Búi Sveinsson, fyrrverandi varðstjóri í Slökkviliði Akureyrar,
afhenti Tómasi Búa Böðvarssyni slökkviliðsstjóra mynd af öðrum slökkvi-
bíl slökkviliðsins, sem var af gerðinni Ford árgerð 1929. Á milli þeirra
stendur Magnús Arnarsson, settur aðstoðarslökkviliðsstjóri, og Ingimar
Eydal varðstjóri t.h.
Hálf öld frá því
fastar vaktir voru
teknar upp hjá
Slökkviliði
Akureyrar
ÞÓTT töluvert hafi snjóað und-
anfarna daga hefur skíðafólk
þurft að bíða eftir því að kom-
ast á skíði á skíðasvæðunum í
Eyjafirði. Til stóð að opna í
Hlíðarfjalli um helgina en fallið
var frá því. Einar Hjörleifsson
forstöðumaður skíðasvæðisins í
Böggvisstaðarfjalli sagði að lít-
ill snjór væri í fjallinu en þó
stæði til að hefja skíðaæfingar
þar í dag, þriðjudag.
Einar sagði að Dalvíkingar
ætluðu að fara hægt og hljótt af
stað. Ástandið væri svipað og
þegar skíðasvæðið var opnað í
október sl. en að nauðsynlegt
væri að hefja æfingar hjá
krökkunum, enda skánaði
ástandið með hverjum degi.
Síðastliðið sumar voru settar
upp snjógirðingar í Böggviss-
taðarfjalli og sagði Einar og
þær hefðu gert gæfumuninn.
Björgvin Hjörleifsson skíða-
þjálfari í Ólafsfirði sagði að enn
vantaði töluvert magn af snjó í
skíðabrekkurnar þar en hann
vonast til að úr rætist í vikunni.
Elsta keppnisfólkið í Ólafsfirði,
alls um 20 manns, kemur heim í
dag úr 10 daga æfingaferð til
Noregs. Hópurinn dvaldi við
mjög góðar aðstæður í Geilo og
æfðu alpagreinakrakkarnir
undir stjórn Kristins Björns-
sonar en gönguhópurinn undir
stjórn Jóns Konráðssonar.
Enn vantar
snjó í skíða-
brekkurnar
SIGBJÖRN Gunnarsson sveit-
arstjóri í Mývatnssveit og fyrrver-
andi leikmaður með ÍBA, sameig-
inlegu liði íþróttafélaganna KA og
Þórs á Akureyri, kom færandi
hendi í vígslu Bogans, nýs fjölnota
íþróttahúss nú um helgina. Hafði
hann í farteskinu treyju nr. 9, sem
hann hafði leikið í síðasta leik
ÍBA, haustið 1974, en liðið lék þá
gegn Víkingi og fór leikurinn
fram í Keflavík. Þetta var mik-
ilvægur leikur fyrir liðin, en í húfi
var sæti í efstu deild. Leikurinn
fór 3:1 fyrir Víking og þar með féll
ÍBA úr deildinni en í kjölfarið var
ákveðið að hvort lið um sig myndi
senda sitt eigið knattspyrnulið til
leiks í annarri deildinni sumarið á
eftir. Þess má geta að það var Sig-
björn sjálfur sem skoraði eina
mark ÍBA – með skalla.
Mæltist Sigbjörn til þess að
treyjunni yrði valinn staður í hinu
nýja fjölnota íþróttahúsi til minn-
ingar um hið sameiginlega lið ak-
ureyrsku íþróttafélaganna.
Við vígslu hússins fór einnig
fram vítaspyrnukeppni, þar sem
fulltrúar stjórnmálaflokkanna í
bæjarstjórn Akureyrar tóku víti,
en í markinu stóð landsliðsþjálf-
arinn Atli Eðvaldsson. Varði hann
fimlega skot bæjarstjórans, Krist-
jáns Þórs Júlíussonar og átti ekki í
vandræðum með laflaust skot Okt-
avíu Jóhannesdóttur fulltrúa Sam-
fylkingar, sem að sjálfsögðu mætti
í támjóum spariskónum til vígsl-
unnar. Fulltrúi Vinstri grænna,
Jón Erlendsson átti þrumuskot að
markinu – en langt yfir. Það var
einungis Oddur Helgi Halldórsson,
Lista fólksins sem kom boltanum
framhjá landsliðsþjálfaranum og í
netið. Raunar tvívegis og var Odd-
ur, sem er margreyndur knatt-
spyrnumaður frá fyrri tíð, því
vítaskytta bæjarstjórnar og þótti
vel að titlinum kominn. Oddur er
raunar enn að, leikur með hinu
fornfræga B-liði Þórs og hefur
sýnt snilldartakta á Pollamótum
félagsins.
Boginn, fjölnota íþróttahús, tekinn í notkun
Morgunblaðið/Kristján
Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, bæjar-
stjóri á Akureyri, og Kristinn Svanbergsson, deildarstjóri íþrótta- og tóm-
stundadeildar, með keppnistreyju ÍBA í knattspyrnu, sem Sigbjörn Gunn-
arsson, sveitarstjóri í Mývatnssveit, færði bænum að gjöf við vígslu Bogans.
Sigbjörn lék í treyjunni í síðasta opinbera leik ÍBA og skoraði með skalla.
Morgunblaðið/Kristján
Oddur Helgi Halldórsson, bæjarfulltrúi L-listans, sigraði með glæsibrag í
vítaspyrnukeppni milli oddvita flokkanna í bæjarstjórn Akureyrar en í
markinu stóð Atli Eðvaldsson landsliðsþjálfari.
Treyja nr. 9 fái
stað í húsinu
TÖLUVERT hefur verið kvartað til
lögreglu á Akureyri síðustu daga
vegna aksturs vélsleða um bæinn.
Snjór er nú orðinn þokkalega mikill í
bænum og því greið leið fyrir öku-
menn vélasleða að bruna þar um, en
akstur þeirra er með öllu bannaður
innanbæjar. Um helgina var til að
mynda tilkynnt um akstur vélsleða í
Glerárhverfi og fóru lögreglumenn á
staðinn og sá þar ökumann draga
börn um á slöngu. Hópur barna var á
svæðinu og fylgdist með aðförunum.
Ökumaður stakk af þegar hann varð
lögreglu var, en síðar kom í ljós að
um var að ræða 14 ára dreng á af-
skráðum og ótryggðum vélsleða seg-
ir í dagbók lögreglunnar.
Drengur dró
börn á slöngu
Kvartað yfir akstri vélsleða innanbæjar