Morgunblaðið - 01.04.2004, Blaðsíða 48
MINNINGAR
48 FIMMTUDAGUR 1. APRÍL 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Símar 581 3300 - 896 8242
Allan sólarhringinn - Áratuga reynsla
Suðurhlíð 35 — Fossvogi — www.utforin.is
Sverrir
Olsen,
útfararstjóri.
Sverrir
Einarsson,
útfararstjóri.
Bryndís
Valbjarnardóttir,
útfararstjóri.
Baldur
Frederiksen,
útfararstjóri.
Guðmundur Þór
Gíslason,
útfararstjóri.
ÚTFARARSTOFA ÍSLANDS
Kársnesbraut 98 • Kópavogi
564 4566 • www.solsteinar.is
✝ Jóhanna Guðríð-ur Sigurbergs-
dóttir fæddist í
Reykjavík 19. sept-
ember 1933. Hún
lést á LSH í Foss-
vogi 23. mars síðast-
liðinn. Foreldrar
hennar voru Sigur-
bergur Dagfinnsson,
stýrimaður og bóndi
í Haukatungu, f. á
Eyjólfsstöðum við
Suðurgötu í Reykja-
vík 27. júní 1899, d. í
Haukatungu 24.
október 1954, og
Valgerður Pálsdóttir húsfreyja,
f. í Haukatungu 8. júlí 1901, d. í
Reykjavík 25. febrúar 1959.
Bróðir Jóhönnu Guðríðar var
Páll, f. 10. apríl 1937, d. 10. maí
2002, og uppeldissystir Guðríður
Ásta, f. 29. apríl 1930.
Hinn 19. nóvember 1960 gift-
ist Jóhanna Guðríður Halldóri
Helgasyni frá Gröf í Eyja- og
Miklaholtshreppi, f. 1. ágúst
1933. Börn Jóhönnu Guðríðar og
Halldórs eru: 1) Valgarð Sigur-
bergur, f. 26. maí 1961 og 2)
Unnur, f. 20. nóvember 1965,
gift Jökli Höjgaard Sigurjóns-
syni, f. 20. maí 1964, og eru börn
þeirra a) Halldór
Páll, f. 1997, og
Ólafur Sigurjón, f.
2001. Fyrir átti
Halldór dótturina
Kristjönu, f. 11.
ágúst 1956, gift
Svani Aðalsteins-
syni, f. 1. júlí 1954,
og eru börn þeirra
a) Stefán Jóhann, f.
1978, í sambúð með
Írisi Bjarnadóttur,
f. 1978 og eru börn
þeirra Brynjar
Steinn, f. 1999, og
Kristjana Freydís,
f. 2001, og b) Agnes, f. 1983, í
sambúð með Birgi Tryggvasyni,
f. 1982.
Jóhanna Guðríður fluttist ung
með foreldrum sínum að Hauka-
tungu í Kolbeinsstaðahreppi og
bjó þar uns hún giftist og fluttist
til Reykjavíkur aftur 1961. Jó-
hanna Guðríður sinnti fjölskyld-
unni og menntaði sig seinna á
lífsleiðinni til sjúkraliðastarfa,
síðar lærði hún svæðanudd og
starfaði við það hin síðari ár, að
mestu á krabbameinsdeild LSH
við Hringbraut.
Útför Jóhönnu Guðríðar fór
fram í kyrrþey.
Engin orð fá lýst hugrenningum
mínum á þeirri stundu sem nú er
runnin upp. Það að kveðja móðir
snertir hverja taug, hverja hugsun
og hverja sýn. Minningabrotin
hrannast upp, hvort sem er í leik eða
í gleði. Fjölskyldan, samheldni og
trúnaður gagnvart sjálfum sér og
öðrum voru henni mikilvæg gildi.
Gleðin yfir vel unnu, kærleiksríku
starfi veitti henni einnig ómetanlega
lífsfyllingu og var í raun hennar önn-
ur lífsuppspretta. Hún var sterk
kona sem lét sig það varða sem í
kringum hana var, hún hafði mótaða
lífssýn og setti hag annarra ofar sín-
um eigin.
Í mínum huga verður vandfyllt
það skarð sem nú hefur myndast í
stórum fjölskylduhópi en sú dýr-
mæta minning sem hún skilur eftir
um meðlíðan og hluttekningu með
samborgurunum, óbilandi kjark og
sterka trú er það göfuga leiðarljós
sem aldrei verður unnið á.
Orð, hvorki mörg né mikil, munu
nokkru sinni lýsa móður minni en til-
finningarnar og gildin sitja eftir.
Merkisberinn er fallinn frá en leið-
arljósið lifir.
Í þraut til krafta þinna
átt þú með kæti að finna,
það stærsta tak
þarf sterkast bak,
en stórt er best – að vinna.
Ef tæpt er fyrir fótinn
og fátt um vina hótin
þá sjá þinn mátt.
Í sorg þú átt
þig sjálfan, það er bótin.
Því fjær sem heims er hyllin
er hjarta Guðs þér nær.
Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á veg-
um mínum.
(Sálm. 119.)
Valgarð S. Halldórsson.
Elsku mamma mín, nú ert þú far-
in frá okkur. Síðustu dagar hafa liðið
eins og í draumi og ég bíð eftir að
vakna og heyra röddina þína. Nú
hefur mig svo ótal oft vantað
mömmuna með svörin, mömmuna
sem ráðlagði, mömmuna sem vissi
hvað átti að gera næst, mömmuna
sem hélt utan um hópinn.
Þú hugsaðir alltaf fyrst um okkar
velferð og síðan um sjálfa þig, og
varst alltaf til staðar. Manstu þegar
Halli Palli minn fæddist, þú varst á
vakt en skaust til okkar Jökuls í
hvert sinn sem þú áttir lausa stund
og varst okkur stoð og stytta í þess-
ari nýju lífsreynslu okkar. Við viss-
um að þig langaði til að vera við-
stödd fæðinguna, hafðir verið
viðstödd þegar Stefán Jóhann og
Agnes fæddust, og þig langaði til að
vera viðstödd í þetta skipti líka en þú
baðst ekki um það – vildir ekki vera
fyrir. Þegar leið að fæðingu og þú
ætlaðir að drífa þig báðum við þig að
fara ekki, og þú fékkst tár í augun
yfir að fá að vera með – en veistu
mamma, við þurftum svo á þér að
halda og eins og ég sagði eftir á, það
var frábært að hafa þig. Alla nóttina
sast þú svo með ömmudrenginn þinn
í fanginu, nuddaðir á honum tásurn-
ar og sást um að við öll þrjú svæfum
vel og fengjum góða hvíld – en þú
hafðir ekki áhyggjur af þér sem
varst búin að vera að vinna allan
daginn – nei, við gengum fyrir, og
þetta var yndislegur sólarhringur
sem við fjögur áttum saman á fæð-
ingardeildinni, og við höfum oft sagt
að þarna hafir þú nuddað og strokið í
Halla Palla þá ró sem hann býr yfir
enn þann dag í dag.
Þegar Óli Sigurjón fæddist kom
ekkert annað til greina en að þú yrð-
ir með okkur aftur. Og þú brást ekki
kallinu frekar en fyrri daginn, varst
komin við fyrstu hringingu og fylgd-
ir okkur til enda. Manstu mamma,
þegar ljósmóðir rétti Jökli skæri til
að klippa á naflastrenginn og Jökull
benti henni á þig og sagði nei, nú
klippir hún, ég klippti síðast. Þú
hélst þig til hlés og vildir ekki taka
þetta stóra hlutverk af pabbanum en
lést undan að lokum og klipptir með
tárin í augunum. Á eftir fékk Óli Sig-
urjón líka sínar strokur og nudd og
þú lagðir þarna grunninn að hans
framtíð.
Þú hafðir ákveðnar skoðanir á
hlutunum, kenndir okkur að segja
okkar skoðun, vera hreinskilin, heið-
arleg og sjálfum okkur trú. Þú gafst
okkur gott veganesti út í lífið, vega-
nesti sem ég á eftir að kenna strák-
unum mínum og þannig munu lífs-
skoðanir þínar lifa í mínu hjarta og í
hjarta ömmustrákanna þinna. Þú
kenndir okkur nauðsyn þess að
standa saman, sýna samheldni og
láta okkur hlutina varða, vera í sam-
bandi þó við hefðum ekkert erindi og
síðast en ekki síst að halda utan um
hvert annað. Það sýndi sig vel nú í
vikunni að þessu fræi hefur þú nú
þegar sáð í hjarta Halla Palla, þegar
hann kom til mín og sagði: „Mamma,
við söknum öll ömmu svo mikið, en
við skulum bara vera saman og
halda utan um hvert annað því þá
verður allt betra.“
Þú varst alltaf skrefinu á undan
okkur, varst búin að hugsa næsta
skref og byrjuð að velta fyrir þér
hvað tæki við. Þegar við fengum að
vita að MND-sjúkdómurinn væri
farinn að hrjá þig, og komum heim á
eftir, fórst þú inn í herbergi, sóttir
þér bók, réttir okkur hana og sagðir
að þarna gætum við lesið allt um
sjúkdóminn, þú varst búin að sjúk-
dómsgreina þig áður en þú fórst í
rannsóknirnar. Þegar leið að enda-
lokunum óskaðir þú eftir fjölskyldu-
fundi með lækninum og hjúkrunar-
fræðingnum, þú vildir ekki vera
viðstödd því þú vildir tryggja að
gætum spurt um það sem okkur lá á
hjarta. Þú sást um aðbúa okkur und-
ir þessa stund eins og þín var von og
vísa. Þú varst búin að búa þig undir
stundina og þú varst búin að búa
okkur undir stundina. Það er nota-
legt að lesa núna í bókinni þinni þar
sem þú skrifaðir að þú elskaðir okk-
ur öll svo mikið, og veistu mamma,
við elskum þig líka svo óskaplega
mikið og munum gera um ókomna
framtíð.
Mig langar til að koma á framfæri
þakklæti til alls starfsfólksins á B2 á
LSH í Fossvogi, mamma var svo
ánægð með alla þá hjúkrun og um-
hyggju sem þið veittuð henni. Einn-
ig langar mig að þakka öllum aðilum
í MND-teymi LSH, og Guðnýju
sjúkraþjálfara fyrir frábæra aðstoð,
án stuðnings ykkar hefði síðastliðið
ár verið mun erfiðara en raun varð á.
Elsku mamma mín, það er komið
að leiðarlokum í bili. Ég veit að nú
eruð þið Palli saman á ný, bróðir
þinn sem þú saknaðir svo mikið og
þú misstir svo mikið þegar hann fór.
Ég veit að þið vakið yfir okkur
frændsystkinunum, styðjið okkur og
styrkið í okkar verkefnum, hér eftir
sem hingað til.
Sól þín hvarf burt en þú ert kyrr,
í þinni vernd ég er sem fyrr.
Þú sérð mig er ég sofna nú,
við sæng mína þá vakir þú.
(KVI.)
Takk fyrir allt það sem þú varst
mér, gerðir fyrir mig og kenndir
mér. Við hittumst síðar, þín
Unnur.
Elsku amma okkar, þú sem
kenndir okkur svo margt og leið-
beindir okkur í svo mörgu. Það er
það skemmtilegasta í heimi að fá að
vera hjá ykkur afa, fá að kúra í hol-
unni þinni, sitja og spjalla við þig,
skoða steinana, mála sama, fara
saman í sunnudagaskólann og svo
ótal, ótal margt fleira. Takk fyrir allt
sem þú hefur gert fyrir okkur og allt
sem þú kenndir okkur. Við kveðjum
þig elsku amma með bæninni sem þú
kenndir okkur.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Elsku amma okkar – við skulum
passa hann afa, því nú vitum við að
þú átt alltaf eftir að passa okkur,
vera í hjartanu okkar og hlusta á
okkur þegar við tölum við þig. Elsku
Amma okkar, við söknum þín öll. Þú
verður alltaf besta amma í heimi.
Þínir ömmudrengir
Halldór Páll og Ólafur Sigurjón.
Elsku besta amma.
Nú ertu farin en þú munt ávallt
vera í hjarta mínu. Sjúkdómurinn
sem þú fékkst var ekki beint sjúk-
dómur fyrir þig, því þú lagðir mikið
upp úr samskiptum á milli fólks og
hringdir einungis til þess eins að
heyra í manni orðið þann daginn.
Það voru líka ófáar stundirnar sem
við sátum saman við borðstofuborðið
heima í Vatnsholti og spjölluðum um
lífið og tilveruna þó að umræðuefnið
hafi aðallega verið um okkar kær-
komna starf sem sjúkraliði, hjúkrun,
næringargildi og svoleiðis. Enda var
ekki hægt að finna betri stað til að
búa á meðan á skólanum stóð því þú
passaðir mikið upp á að ég borðaði
næringarríkan mat og að ég gæfi
mér góðan tíma til þess að læra.
Svona smáatriði hugsaðir þú alltraf
um.
Elsku besta amma, þú sem varst
svo mjúk og góð, hvílir nú í friði.
Þín ömmustelpa
Agnes.
Kveðja frá samstarfsfólki
Þú hefur verið gjöful, góð,
grætt þá sjúku af meinum,
það er gott að safna í sjóð
sæmdarverkum einum.
Því er björt og blómum stráð
brautin minninganna
og nafn þitt hreinum heiðri skráð
í hjörtum þúsundanna.
(Guðrún Jóhannsdóttir.)
Með hlýju og hjartans þökk kveðj-
um við Jóhönnu okkar og þökkum
henni samfylgdina, samstarfið og
vináttuna.
Fyrir hönd starfsfólks lyflækn-
ingasviðs II Landspítala háskóla-
sjúkrahúss sendum við ástvinum Jó-
hönnu innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning hennar.
Kristín og Nanna.
Elsku frænka mín, enn á ný þarf
litla fjölskyldan frá Haukatungu að
takast á við sorgina og nú eftirsjá
eftir yndislegri frænku. Að sitja hér
og reyna að pára niður nokkrar línur
til þín er erfitt því minningarnar
streyma fram en erfitt reynist að
koma þeim á blað. Þessar minningar
mun ég geyma í huga mér um
ókomna tíð og rifja upp þegar ég
minnist þín. Eitt af því sem ekki
gleymist er biðin langa þegar von
var á ykkur öllum í sveitina og ég
nýfarin að lesa. Ekki átti frænka að
missa af þeim gleðitíðindum og vor-
uð þið varla komin inn þegar við lok-
uðum okkur inn í litla herberginu
inni á gangi, sem þá var herbergi
okkar systra, og ég las fyrir þig í
Gagn og gamni og mikið varstu
ánægð og stolt af mér, en það er eitt-
hvað sem þú hefur alltaf verið dug-
leg við, það er að styrkja mann og
styðja með fallegum orðum. Reykja-
víkurferðirnar voru æði spennandi
og vorum við yfirleitt búnar að
pakka viku fyrir brottför, slík var
eftirvæntingin að koma til ykkar því
við vissum að dekrað yrði við okkur í
hvívetna og alltaf var endað á búða-
ferð þar sem keyptar voru gjafir fyr-
ir mömmu og pabba. Ég man þegar
ég var lítil stelpa þá fannst mér ég
eiga svo fína og fallega frænku og
sérlega mjúka og hlýja, snyrtibudd-
an með alla sína dulúð, rúllurnar, há-
hæluðu skórnir og klútarnir þínir.
En skór hafa einmitt ávallt verið eitt
af áhugamálum okkar kvennanna í
ættinni og var ég afar glöð um dag-
inn þegar ég var erlendis og fékk
þau skilaboð frá þér að það væri allt-
of lítið að kaupa bara tvenn pör, ég
yrði að kaupa tvenn í viðbót. Og auð-
vitað var það fyrsta sem ég gerði
þegar heim kom að fara til þín að
sýna þér eitt parið sem ég hafði
keypt og voru dálítið Jóhönnulegir.
Ekki eru allir jafnheppnir og við
systkinin að eiga tvenna foreldra en
ég held að við höfum öll systkinin lit-
ið á ykkur sem okkar aðra foreldra
og er það án efa samheldni ykkar
pabba að þakka. Ef einhver uppá-
koma var í fjölskyldunni voruð þið
komin með það sama til að hjálpa til
og njóta samvista með okkur sama
hvort var í gleði eða sorg. Að þið
Halli hafið tekið okkur systurnar til
ykkar í heil fjögur ár meðan við luk-
um framhaldsskólanámi fæst seint
fullþakkað og varð til að böndin urðu
enn sterkari og Vatnsholtið okkar
annað heimili. Þangað hefur alltaf
verið gott að kíkja inn og mér finnst
ég alltaf vera komin heim þegar ég
kem til ykkar.
Það sýnir kannski samheldni ykk-
ar pabba að þú skulir nú tæpum
tveimur árum eftir andlát hans vera
komin til hans og ömmu og afa og
allra hinna sem kvatt hafa okkur
undanfarin ár. Og veit ég að vel hef-
ur verið tekið á móti þér og eflaust
eruð þið pabbi farin að tuktast að-
eins eins og ykkur var einum lagið.
Ég veit ekki hvað það var en þegar
ég kom í eitt skiptið til þín um dag-
inn sýndirðu mér litla sögu í bók sem
sagði meira en þúsund orð og fékk
mig til að hugsa betur um það hvert
lífið stefndi. Ég held þú hafir verið
eins og svo oft áður að búa mig undir
það sem koma skyldi og styrkja mig
gagnvart þeim aðstæðum sem við
stöndum nú frammi fyrir. Mér finnst
erfitt að þurfa að sætta mig við að
þið pabbi séuð bæði farin svona ung
og með stuttu millibili en ég þakka
fyrir að eiga svona yndislega og
samheldna fjölskyldu sem er ykkur
pabba, mömmu og Halla að þakka.
Fjölskyldan er það dýrmætasta sem
maður á og því hafið þið alið okkur
upp í og ég veit að þessi gildi munum
við systkinin halda í heiðri.
Mig langar að þakka þér að leið-
arlokum, elsku frænka, fyrir allt
sem þú varst mér, kenndir mér og
gerðir fyrir mig. Hafðu kæra þökk
fyrir allt og allt.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(V. Briem.)
Elsku Halli, Didda, Valgarð,
Unna og fjölskyldur, megi góður
Guð styrkja okkur öll í þessum mikla
missi en eftir lifir minning um elsku-
lega frænku.
Halldóra Ágústa Pálsdóttir.
Margar gamlar og góðar, nýjar og
ljúfar minningar renna í gegnum
huga minn á þessum tímamótum Jó-
hanna frænka, systir pabba, sterka
stoðin í ættinni og mamma og amma
nr. 2 er fallin frá og margs er að
minnast og þakka fyrir.
Æskuminningarnar þegar von var
á þér í heimsókn í sveitina eru æði
margar, alltaf varð að taka til í
kommóðunni og sýna svo frænku
stolt árangur erfiðisins, alltaf varst
þú jafn hissa og glöð. Svo voru
haldnar stórveislur í búinu með alls
kyns drullukökum fagurlega
skreyttum með sóleyjum, fíflum og
öðru nærtæku og þú komst í heim-
sókn í kaffi og smakkaðir á öllum
kræsingunum og spjallaðir. Svo var
snyrtibuddan þín spennandi, þú
JÓHANNA GUÐ-
RÍÐUR SIGUR-
BERGSDÓTTIR