Fréttablaðið - 22.05.2006, Blaðsíða 22
22. maí 2006 MÁNUDAGUR
FRÁ DEGI TIL DAGS
ÚTGÁFUFÉLAG: 365 – prentmiðlar RITSTJÓRAR: Kári Jónasson og Þorsteinn Pálsson FRÉTTARITSTJÓRI: Sigurjón M. Egilsson AÐSTOÐARRITSTJÓRI: Jón Kaldal FRÉTTASTJÓRAR: Arndís
Þorgeirsdóttir, Pétur Gunnarsson og Trausti Hafliðason RITSTJÓRNARFULLTRÚI: Steinunn Stefánsdóttir RITSTJÓRN OG AUGLÝSINGAR: Skaftahlíð 24, 105 Reykjavík AÐALSÍMI: 550 5000
SÍMBRÉF Á FRÉTTADEILD: 550 5006 NETFÖNG: ritstjorn@frettabladid.is og auglysingar@frettabladid.is VEFFANG: visir.is UMBROT: 365 – prentmiðlar PRENTVINNSLA: Ísafoldarprentsmiðja
ehf. DREIFING: Pósthúsið ehf. dreifing@posthusid.is Fréttablaðinu er dreift ókeypis á heimili á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Akureyri. Einnig er hægt að fá blaðið í völdum verslunum
á landsbyggðinni. Fréttablaðið áskilur sér rétt til að birta allt efni blaðsins í stafrænu formi og í gagnabönkum án endurgjalds. issn 1670-3871
Vagnhöfða 23 - Sími 590 2000
Seltjarnarnesi
KT verslun Akureyri
Njarðarnesi S. 466 2111
Bestu dekkin í USA
8 ár í röð Tire Review Magazine
Low profile fyrir
lúxusjeppa og
sportbíla.
Frábært veggrip.
Mikil mýkt.
Hágæða hönnun.
Veldu TOYO PROXES
og skildu hina eftir.
Mikið úrval frábært verð.
Borgaryfirvöld hafa stóraukið
stuðning við menningar- og listvið-
burði. Besta dæmið er Menningar-
nótt. Menningarnótt er orðin að
ómissandi þætti í tilverunni. Aðrar
nýjungar eru Ljósahátíðin sem svo
sannarlega lýsir upp skammdegið
og Hinsegin dagar sem árlega draga
að tugþúsundir borgarbúa og erlenda
gesti. Ekki má gleyma Iceland Air-
waves og kvikmyndahátíðum. Þetta
eru miklar breytingar frá þeim tíma
er Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði
borginni. Aukinn stuðningur við list-
viðburði sem höfða til almennings
hefur ekki komið niður á framlögum
til hefðbundinan listviðburða, held-
ur verið hrein viðbót. Mun fleiri
borgarbúa njóta því nú menningar-
viðburða en áður var.
Borgaryfirvöld undir stjórn Sam-
fylkingarkvennanna Ingibjargar
Sólrúnar og Steinunnar Valdísar
hafa lagt metnað sinn í að styðja við
bakið á listamönnum. Samtökum
myndlistarmanna var afhent til
umráða fallegt hús við Hafnarstræti.
Nýlega var undirritaður samningur
á milli borgarinnar og Sambands
íslenskra myndlistarmanna, Form
Ísland og Iðntæknistofnunar um
4.300 fm myndlista- og hönnunar-
miðstöð að Korpúlfsstöðum. Sjón-
listamiðstöðin á að styðja við nýsköp-
un, tilraunir og vöruþróun. Á
Korpúlfsstöðum verður vinnustof-
um myndlistamanna fjölgað og
hönnuðir fá þar líka inni. Rekin
verða mynd- og frumgerðaverk-
stæði þar sem listamenn og hönnuð-
ir fá tímabundna aðstöðu.
Markmiðið með Sjónlistamið-
stöðinni er að gefa listamönnum
tækifæri til sköpunar og að almenn-
ingur fá notið menningar. Á Korp-
úlfsstöðum verður rekinn myndlista-
skóli fyrir börn og fullorðna og
munu eldri borgarar fá aðstöðu fyrir
sína félagsstarfsemi. Sjónlistamið-
stöðin verður og með sýningarrými
og ekki er að efa að starfsemi mið-
stöðvarinnar á Korpúlfsstöðum
verður mikil lyftistöng fyrir borgar-
menninguna.
Að kjósa Samfylkinguna er að
kjósa menningu fyrir alla, en ekki
bara einhverja útvalda.
Höfundur skipar 10. sæti á lista
Samfylkingarinnar í Reykjavík.
List og menning - allir með
Á kjördag fyrir fjórum árum var ég
staddur í Berlín. Ég lagði á mig
hálftíma í lest og annan á fæti í 30
stiga hita til að kjósa í nýja sam-
norræna sendiráðinu. Heilsaði
daufeygðum sendiherra og setti X
fyrir framan D í fyrsta (og nokkuð
líklega síðasta) sinn.
Ég var ekki ánægður með R-
lista-árin 98-02 og vildi koma því á
framfæri. Það var til einskis gert.
Björn Bjarnason átti víst aldrei
séns. Hinsvegar átti R-listinn séns,
jafnvel án Sollu: Síðustu fjögur árin
virðist mun meira hafa gerst í
Reykjavík en kjörtímabilið þar á
undan. Sumt til ógæfu eins og
færsla Hringbrautar, og annað
vafasamt eins og Orkuveituhöllin,
en fyrst og fremst margt til gæfu,
eins og skólamáltíðir, frístunda-
heimili, þjónustuver, launabætur
ófaglærðra, lækkun leikskóla-
gjalda, leiðrétting launamisréttis,
Airwaves, Loftbrú, NASA, Food &
Fun, Vetrarhátíð, Jafnréttisverð-
laun, Hótel Centrum, Landnáms-
skáli, Alþjóðahús, Kvosarumbætur,
Hlemmsumbætur, Skuggahverfi
101, Vatnsmýrarsamkeppni og leit
hafin að nýju flugvallarstæði auk
þess sem Mýrargötuhverfi, Sunda-
braut og Tónlistarhús eru innan
seilingar. Meira að segja gamla
Ziemsen-húsið var horfið þegar ég
mætti í vinnu í morgun. Það er eins
og þrír borgarstjórar hafi komið
meiru í verk en einn og ekki hægt
að segja annað en að Reykjavík
blómstri þessa dagana.
Eins gott að maður var ekki í
meirihluta vorið 2002. Hvað var
maður eiginlega að hugsa? Strax
um haustið opinberaði stóri flokk-
urinn eðli sitt með aðstoð Mogga-
sonar og þremur árum síðar var
staðfest að Sjálfstæðisflokkurinn
var og er að nokkru leyti enn í hönd-
um óþverragengis. Þökk sé Jónínu
Ben.
En mig verkjar enn í atkvæðið
mitt. Slíkt verður ekki aftur tekið.
Síðast í liðinni viku frétti ég að
„mínir menn“ hefðu setið hjá við
lækkun leikskólagjalda fyrr í vetur.
Og eftir því sem nær líður komandi
kosningum ágerist eftirsjáin. Í gær-
morgun vaknaði ég meira að segja
upp við þá martröð að D-listinn
hefði í raun og veru unnið síðustu
borgarstjórnarkosningar. Við mér
blasti borgarstjóratíð Björns
Bjarnasonar.
Já. Hvernig væri borgin okkar í
dag ef D-listinn hefði unnið síðustu
kosningar?
Ef Björn Bjarnason hefði orðið
borgarstjóri árið 2002 væru nú
engar Bónusbúðir í Reykjavík.
Útsendingar NFS og Stöðvar tvö
næðust ekki innan borgarmarkanna
og aka þyrfti á bensínstöðvar í
Hafnarfirði eftir Fréttablaðinu. Jón
Steinar Gunnlaugsson væri for-
stöðumaður Höfuðborgarstofu sem
færi með verslana- og fjölmiðla-
leyfi fyrir Reykjavíkurborg og
Sveinn Andri Sveinsson yfirmaður
hins nýja og glæsilega Flokks-
hundagarðs á Geirsnefi. Báðir
hefðu þeir haft heppnina með sér í
Stóra lóðalottóinu og byggju nú í
glæsilegum sérbýlum í Hallar-
hverfi í Geldinganesi, að Valhöll 3
og Vilhöll 7. Hinsvegar hefði Bau-
haus ekki verið jafn heppið og væri
á leið í Fjörðinn. Gæsluvellirnir
hefðu verið færðir undir Gæsluna.
Food & Fun hátíðin héti God & Gun:
Alþjóðleg samkoma þar sem heit-
trúaðir byssumenn sýna skotfimi
og ræða nýjar tegundir svöðusára.
Heiðursgestir á síðustu hátíð: Don-
ald Rumsfeld og Paul Wolfowitz.
Orkuveitan væri í eigu Bakkavarar-
bræðra, sem hefðu fullnýtt sam-
legðaráhrif hennar og Símans;
aðeins þeir sem væru með Breið-
bandið ættu kost á heitu vatni og
Enska boltanum. Vilhjálmur Þ væri
að sönnu yfirmaður borgarskipu-
lagsins og meira að segja búinn að
byggja Sturlubraut upp á Kjalar-
nes, sem alfarið var kostuð af Ríkis-
sjóði, en hún væri of innarlega og
menn væru strax farnir að ræða
þörf á nýrri Sundabraut. Hinsvegar
væri engin umræða um flugvöllinn
í Vatnsmýri önnur en eilífðardeilan
um það hvers vegna Höfuðborgar-
stofa afturkallaði lendingarleyfið
fyrir einkaþotu Jóns Ásgeirs á
Reykjavíkurflugvelli. Skemmtileg-
asta afleiðingin af borgarstjóratíð
Björns Bjarnasonar, fyrir utan
nýjan einkennisbúning borgar-
starfsmanna, væri þó líklega salan
á SVR. Eftir að Strætó komst í eigu
Björgólfs Guðmundssonar er fólki
greitt fyrir að ferðast með honum.
Hinsvegar þiggja fáir farið þar sem
allar leiðir enda nú í Kaplaskjóli, í
vögnum máluðum í KR-litunum.
Líklega skiptir það svolitlu máli
hverjir sitja í Ráðhúsinu. Líklega
skiptir máli hvern maður kýs. Síð-
ast reyndi Sjálfstæðiflokkurinn að
sýnast venjulegur stjórnmálaflokk-
ur en kom skömmu síðar út úr
skápnum sem hvítflibbaður bófa-
flokkur með lögguna í vasanum. Nú
er hann aftur kominn á biðilsbux-
urnar, bleikar að lit, og skreytir sig
með mjúkum málum, stolnum af R-
listanum. Sjálfstæðisflokkurinn er
nánast orðinn samkynhneigður í
málflutningi sínum. En sem gamall
kjósandi D-listans veit maður betur.
Maður veit að Sjálfstæðisflokkur-
inn er enginn yndishommi heldur
harður nagli með gemsann fullan af
verktökum og veskið troðið af
lóðum; með annað augað á hæsta-
rétti, hitt á Bessastöðum og styttu
af Davíð í smíðum.
Kosningar eru alvörumál. Það
skiptir máli hvað við kjósum. Dag
eða gærdag.
Borgarstjóratíð Björns Bjarna
Í DAG
KOSNINGAR
HALLGRÍMUR
HELGASON
UMRÆÐAN
KOSNINGAR
GUÐRÚN ERLA GEIRSDÓTTIR - GERLA
FRAMBJÓÐANDI
Alþekkt er að landsmál geta haft áhrif á sveitarstjórnarkosn-ingar. Að þessu sinni hefur landsmálapólitíkin ekki verið dregin inn í kosningabaráttuna með beinum hætti en í
almennum fréttum hafa ýmis viðfangsefni efnahagsstjórnunar og
ríkisfjármála eigi að síður verið fyrirferðarmeiri en pólitísk átök í
Reykjavík, bæjarfélögum og sveitum.
Fyrsti og eini frambjóðandinn sem dregur landsmálin með bein-
um hætti inn í kosningabaráttuna er aðstoðarmaður forsætisráð-
herra, efsti maður á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík. Hann
hefur látið að því liggja að slök niðurstaða í sveitarstjórnarkosn-
ingum kunni að leiða til breytinga á afstöðu flokksins á landsvísu.
Skilaboðin eru einföld: Gjaldi Framsóknarflokkurinn fyrir ríkis-
stjórnina í þessum kosningum en Sjálfstæðisflokkurinn ekki mun
það hafa mikil áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið. Rétt er og eðlilegt
að líta á þessi ummæli fremur sem áminningu en hótun. En stóra
spurningin er: Hvaða ávinning geta þau haft í för með sér? Það er
vandséð.
Áminningin er ekki líkleg til þess að draga jaðaratkvæði af
vinstri vængnum yfir til Framsóknarflokksins. Þeir kjósendur
ættu fremur að kætast yfir hugsanlegum óróa innan ríkisstjórnar-
innar. Eins og skoðanakannanir hafa staðið hafa jaðarkjósendur
Sjálfstæðisflokksins varla ástæðu til að óttast þó að alþingiskosn-
ingum yrði flýtt. Ólíklegt er því að yfirlýsingin dragi þá sérstak-
lega að Framsóknarflokknum.
Svo sem eðlilegt má telja hefur ríkisstjórnin átt í vök að verjast
í einstökum málum, ekki síst fyrir þá sök að gengi krónunnar
komst í óraunhæfa stöðu í of langan tíma. En í þeim efnum er
ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sú sama og Framsóknarflokksins.
Kjarni málsins er hins vegar sá að ríkisstjórnin stendur almennt
vel að vígi enda undirstöður þjóðarbúskaparins traustar. Það er
ugglaust helsta ástæðan fyrir því að landsmálin hafa ekki dregist
að marki inn í kosningabráttuna nú. Með réttu hefur enginn séð
hag í því.
Í raun réttri er það röng greining á vanda Framsóknarflokksins
að verið sé að refsa honum fyrir það sem úrskeiðis hefur gengið en
verðlauna Sjálfstæðisflokkinn fyrir hitt sem vel hefur tekist.
Vandi Framsóknarflokksins er af öðrum toga.
Styrkur Framsóknarflokksins nú er sá að Halldóri Ásgrímssyni
hefur tekist að breyta honum úr hentistefnuflokki eða eins konar
meðaltalsmiðjuflokki í staðfastan frjálslyndan miðjuflokk með
nútíma yfirbragði. Vandi flokksins sýnist á hinn bóginn helst vera
sá að hafa á umbreytingarferli gleymt að gefa jaðarflórunni nægj-
anlega næringu og þannig veikt ákveðna og nauðsynlega ímynd
sem ekki mátti með öllu missa sín.
Ákvörðunarhátturinn varðandi stuðning við Íraksstríðið, gömlu
fjölmiðlalögin og nýja Ríkisútvarpsfrumvarpið eru dæmi um mál
þar sem Framsóknarflokkurinn hefði getað nært jaðarflóru flokks-
ins án þess að stefna stjórnarsamstarfinu í hættu.
Í ríkisstjórnarsamstarfi þurfa flokkar jafnan að ákveðnu marki
að taka tillit til sérstöðu samstarfsaðilanna. Mestu skiptir þó að
hver flokkur velji ímyndarmál sín af kostgæfni.
Þeir sem kjörnir voru til forystu í Framsóknarflokknum til þess
að gefa gamla jaðrinum næringu hafa ekki haft styrk eða pólitískt
skynbragð til að standa á þeim verði þegar mestu máli skipti. Feli
áminning unga forystumannsins í Reykjavík í sér skilning á þessu
eðli vandans gæti hún hugsanlega orðið flokknum ávinningur. Ekki
er þó ljóst að svo sé.
SJÓNARMIÐ
ÞORSTEINN PÁLSSON
Landsmál og sveitarstjórnarmál:
Hver er ávinning-
ur áminningar?
Skýringa er þörf
Breskir kjósendur refsuðu Tony Blair
og Verkamannaflokknum grimmilega í
sveitarstjórnarkosningum í Englandi á
dögunum. Landsmálin hafa einnig áhrif
á sveitarstjórnarkosningarnar hér á landi
um næstu helgi.
En hvernig eru þau áhrif vaxin? - Tvær
kannanir í röð benda til þess að Fram-
sóknarflokkurinn nái ekki inn manni í
höfuðborginni. Sjálfstæðisflokkurinn ber
jafn mikla ábyrgð á þeim málum sem
mest dynja á ríkisstjórnarflokkunum. En
Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuð hátt og
bætir víða við sig meðan kjósendur gefa
framsóknarmönnum langt nef og segja
þeim nánast að súpa hel í skoðana-
könnunum. Hér er skýringa þörf.
Handaflið eitt eftir
Björn Ingi Hrafnsson, efsti maður
Framsóknarflokksins í Reykjavík, sagði
í ljósvakamiðlunum í gær að flokkurinn
hefði séð það svart áður, og ætlaði sér
að ná í eitt prósentustig á dag fram að
næstu helgi. Hann bar sig kannski ekki
eins vel og Ómar Stefánsson flokks-
bróðir hans í efsta sæti Framsóknar í
Kópavogi. Ómar kvaðst í Fréttablaðinu
í gær finna meðbyr þegar honum var
leitt fyrir sjónir að flokkurinn væri að
þurrkast út í Kópavogi.
Viku fyrir þingkosningarnar 1999
birti RÚV könnun sem sýndi
að Jón Kristjánsson kæmist
ekki að í Austurlandskjör-
dæmi. Flokksmaskínan var
ræst og Framsókn bætti við
sig einu prósentustigi á dag
fram að þingkosningun-
um. Jón flaug inn á
þing.
Þægindi fyrir kjósendur
Guðmundur Ólafsson hagfræðingur var
meðal gesta í Silfri Egils í gær og ræddi
hagstjórn og sveitarstjórnarkosningar við
aðra mæta menn. Guðmundur sagði eitt-
hvað á þá leið að svo vel útilátin væru vel-
ferðarmálin á stefnuskrám allra flokkanna
fyrir borgarstjórnarkosningarnar að eig-
inlega væri ekkert annað eftir en að lofa
kjósendum að borgarstarfsmenn tækju að
sér að tyggja matinn ofan í þá. Sjálfur var
Guðmundur ekkert of viss um hvað hann
ætlaði að kjósa, en vinátta við
ýmsa frambjóðendur gæti
ráðið úrslitum. - Kannski
eiga framsóknarmenn fáa
vini í röðum kjósenda en
sjálfstæðismenn marga.
Þá skipta stefnuskrárnar
minna máli.
johannh@frettabladid.is