Morgunblaðið - 20.05.2006, Qupperneq 54
54 LAUGARDAGUR 20. MAÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Árni HálfdánBrandsson
fæddist á Reyni í
Mýrdal 6. október
1924 en ólst upp á
Suður-Götum í
sömu sveit. Hann
lést á Landspítalan-
um við Hringbraut
11. maí síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
hjónin Brandur Ein-
arsson, f. 8. ágúst
1889, d. 1. febrúar
1969, og Guðbjörg
Árnadóttir, f. 5.
mars 1893, d. 7. október 1956.
Systkini Árna Hálfdáns eru Einar,
sem lést stuttu eftir fæðingu, Ólöf,
f. 26. maí 1926, og Einar, f. 1. jan-
úar 1931, d. 18. mars 2005.
Árni Hálfdán kvæntist 1. janúar
1950 Þuríði Einarsdóttur frá
Tjörnum undir Vestur-Eyjafjöll-
um, f. 15. febrúar 1923, d. 23. júní
1999. Þau eignuðust þrjú börn.
Þau eru: 1) Guðbjörg, f. 21. apríl
1951, maki Þorgrímur Gestsson, f.
14. júní 1947. Þau skildu. Börn:
Þuríður Björg, f. 5. júlí 1973, Sig-
rún Vala, f. 12. jan-
úar 1984, sambýlis-
maður Þórgnýr
Thoroddsen, f. 25.
mars 1982. 2) Krist-
björg Lóa, f. 7.
ágúst 1954, maki
Fjölnir Ásbjörnsson.
Þau skildu. Börn:
Árni Sveinn, f. 24.
júlí 1974, Sigur-
björg, f. 8. desember
1975, Þórdís, f. 24.
janúar 1990, Hrafn-
kell, f. 16. mars
1992. Kristbjörg
Lóa er nú gift Indriða Aðalsteins-
syni, bónda á Skjaldfönn, f. 10. júlí
1941. 3) Einar, f. 13. febrúar 1956.
Langafabörn Árna Hálfdáns eru
fimm.
Árni Hálfdán stundaði nám við
Samvinnuskólann í Reykjavík.
Hann starfaði lengst af við bók-
hald og rak eigin bókhaldsþjón-
ustu um árabil.
Útför Árna Hálfdáns verður
gerð frá Kópavogskirkju í dag
klukkan 11 en jarðsett í Stóra-
Dalskirkjugarði klukkan 16.
Það er hafinn sauðburður í sveit-
inni og ég því flogin þangað eins og
hinar lóurnar. En mitt í sauðburð-
arönnum bráðliggur mér á að
hringja í pabba. Ég tek upp tólið, en
þá er síminn bilaður, sem gerist
nokkuð oft í þessari sveit. Ég segi
við Árna son minn: „Það er allt í lagi,
ég hringi bara á morgun eða hinn,
pabbi fer ekki langt“. En sú varð
ekki raunin, hann fór lengra en mig
grunaði og svo ótrúlega snöggt.
Ég veit að hann fyrirgefur mér að
hafa ekki verið nálægt honum síð-
ustu stundirnar og jafnframt að hon-
um hefði þótt miður ef ég hefði
hlaupið undan skyldum mínum við
sauðburðinn. Hann vildi okkur allt
hið besta í búskapnum.
Við lát svo kærs manns kemur
ýmislegt upp í hugann og eitt af því
er hvernig hann lýsti sjálfum sér
þegar hann var um það bil að komast
á ellilífeyrisaldurinn: „Ég hlakka
mikið til að komast í tölu löggiltra
gamalmenna, ég hef nú alltaf verið
hálflatur maður að eðlisfari og get
þá legið löglega í bælinu“. En þessi
lýsing á engan veginn við, að vísu
þótti honum gott að sofa fram eftir,
en aldrei var hann upptekinn eða
treysti sér ekki þegar að því kom að
leggja þeim lið sem til hans leituðu.
Og ekki hætti hann að vinna fyrr en
hann var kominn vel yfir sjötugt,
reyndar var hann enn að hjálpa hin-
um og þessum að gera skatta-
skýrslur þó töluvert hefði dregið úr
því síðustu ár.
Hann var sannkallaður þúsund-
þjalasmiður og allt sem hann gerði
lék í höndunum á honum eins og
hann hefði aldrei gert neitt annað,
t.d. að byggja, gera við og endur-
bæta hús bæði að innan og utan,
gera við dráttarvélar og bíla, útbúa
áhöld sem ekki voru til, leggja vatns-
lagnir, parket og flísar, bara að
nefna það og það gat hann. Og hann
ekki bara gat heldur gerði enginn
það eins vel og nákvæmlega og hann.
Hann hafði yndi af söng og var
fram á síðustu stundu að syngja í
tveimur kórum, hafði einstaklega
fallega handskrift, las mikið og var
því ótrúlega fróður um alla skapaða
hluti. Með honum er farinn hafsjór
af fróðleik sem honum entist ekki
aldur til að miðla öðrum nema að
litlu leyti, enda var hann ekki að
flíka vitneskju sinni og visku nema
hann væri spurður. Á sínum yngri
árum vann hann í Iðnó og þá lærði
hann utan að fjölmargar revíur sem
hann átti til að kyrja þegar vel lá á
honum.
Eins og gengur með mann af hans
kynslóð, þá vann hann mikið utan
heimilis meðan við systkinin vorum
lítil og það var eiginlega ekki fyrr en
móðir okkar veiktist að ég fór að
þekkja hann betur og nánar. Á þess-
um tíma sýndi hann og sannaði að
hann gat allt. Hann gekk í öll þau
störf sem á þurfti að halda á heim-
ilinu, eldaði matinn, þvoði þvott og
straujaði, sá um þrif og annað þess-
háttar. En hann sýndi einnig elsku
sína þegar mamma var á spítala sem
gerðist nokkuð oft síðustu árin henn-
ar, en þá heimsótti hann hana að
minnsta kosti einu sinni á dag og þó
við systkinin segðumst fara til henn-
ar í hans stað fannst honum hann
ekki of góður að fara líka.
Svona var nú hann pabbi minn og
ég tel það gera mig að betri mann-
eskju að hafa alist upp í návist hans.
Minning hans mun lifa innra með
mér alla mína ævi.
Lóa.
Sjaldan fellur eplið langt frá eik-
inni. Það þurfti því ekki að koma mér
á óvart eftir að hafa kynnst henni
Lóu að Árni Hálfdán verðandi
tengdafaðir minn væri slíkt einstakt
gull af manni og ætti raunar ekki
langt að sækja það. Brandur faðir
hans var eftirsóttur af sveitungum
sínum í Mýrdalnum til að liðsinna
skepnum og tókst líka vel í ljós-
móðurhlutverkinu þegar svo bar
undir.
Tengdapabbi vann lengi hjá Véla-
sjóði enda þúsundþjalasmiður og
skildi eðli og „sálarlíf“ véla, tóla og
tækja sem riðu í garð hérlendis fyrir
um miðja síðustu öld. Það var því
ekki lítill happafengur að fá slíkan
snilling til liðsinnis á sveitaheimili
þar sem húsbóndanum er flest ann-
að betur léð en ráða fram úr kvillum
véla og tækjabúnaðar. Að hafa hann
innan seilingar þegar mikið lá við í
heyskap var því ómetanlegt. Ekki
kippti tengdapabbi sér heldur upp
við að hagræða heyi með hrífu og
taka rök þó víða telji bændur nú það
sér til tekna að eiga ekkert slíkt am-
boð. Í stuttu máli má segja að hann
hafi verið boðinn og búinn, svo sem
kraftar leyfðu framast, til að stuðla
að búskaparlegum vexti hér á
Skjaldfönn.
Tengdapabbi var hafsjór af fróð-
leik um menn og málefni, eindreginn
vinstri maður og hernámsandstæð-
ingur af bestu gerð. Þegar undir-
tyllu í Washington var falið í vetur
að hringja í utanríkisráðherra lýð-
veldisins og tilkynna að nú nennti
kaninn ekki lengur að púkka undir
hina gírugu íslensku mammonshít
og herinn á Miðnesheiði yrði kall-
aður heim þá gladdist Árni Hálfdán
innilega. „Ætti ég fánastöng þá hefði
verið flaggað í dag,“ sagði hann mér
í símtali um kvöldið.
Tengdapabbi var glaðsinna maður
og söngvinn í besta máta, kunni
ógrynni af gamansögum og revíu-
textum og vísnamál voru honum töm
þó hann vildi alls ekki viðurkenna að
hafa kastað fram stöku. En ég held
að hann hafi haft gaman af að eiga
tengdason sem var orðaður við slíkt
og hvatti mig gjarnan til dáða. Að-
eins einu sinni gerði hann breyting-
artillögu við vísu, en hún varð til
vegna óska Vesturheimsveldisins
um að Íslendingar legðu eitthvað
óafturkræft til stríðsrekstursins í
Afganistan.
Ef að þarf að steðja í stríð
að styðja kanans óra,
gott væri fyrir land og lýð
að losna við hann Dóra.
„Væri ekki rétt,“ sagði tengda-
pabbi, „að auka á áhersluþungann í
þriðju hendingu þannig: Best væri
fyrir land og lýð, o.s.frv.?“ Ég sam-
þykkti þetta fúslega.
Annars var hann afskaplega hóf-
stilltur og umtalsgóður maður og
nærvera hans sérstaklega notaleg.
Að trana sér fram, hafa hátt eða
miklast af sínum fjölbreyttu hæfi-
leikum var ekki í hans eðli. Í okkar
síðasta símtali um miðjan apríl sagð-
ist hann að einu leyti hafa orðið fyrir
vonbrigðum með mig sem tengda-
son, nefnilega að ég talaði með norð-
lenskum áherslum en ekki vestfirsk-
um. Ég sagðist nú reyna að venja
mig af þeim fjanda svo erfiðara yrði
að tengja mig við Þingeyinga eftir að
þeir fögnuðu væntanlegu álveri í
heimabyggð. Þá hló gamli maðurinn
og sagðist ekki lá mér það. Svo
kvöddumst við.
Nokkru síðar var hann allur,
stökk yfir á annað tilverustig. Hann
var alla sína tíð heilsuhraustur, en
undanfarið hafði hallað ört undan
fæti í þeim efnum, líkaminn orðinn
skrapatól og hagleiksmaðurinn gerði
sér grein fyrir því að „skrúfjárn,
skiptilykill og logsuðutæki“ kæmu
hér ekki að neinum notum. Ég vil
kveðja þennan einstaka heiðurs-
mann og vin minn með síðasta er-
indinu úr kvæði Guðmundar Böðv-
arssonar „Tjaldljóði“.
Enn fara lestir, það lætur í sílum
og klökkum og leiðin til vaðsins er
auðkennd með gamalli vörðu. Já, nú
væri tíð að taka dót sitt í klíf.
Tjaldhæla mína dreg ég bráð-
um úr jörðu.
Indriði Aðalsteinsson,
Skjaldfönn.
Það varð snöggt um hann Árna
Hálfdán Brandsson, tengdaföður
minn. Mánudaginn áttunda maí tók
hann þátt í fjögurra klukkustunda
sameiginlegri söngskemmtun þeirra
tveggja kóra sem hann söng með síð-
ustu árin, kór aldraðra kennara og
kirkjukór eldri borgara í Neskirkju.
Hálfum öðrum sólarhring síðar var
hann allur.
Honum auðnaðist að stunda því
sem næst til hinsta dags það sem
hann hafði hvað mesta unun af í líf-
inu, að syngja.
Hann var Mýrdælingur og Skaft-
fellingur í húð og hár, fæddist að
Reyni en ólst upp í Suður-Götum þar
sem vegurinn liggur upp á Gatna-
brún, áleiðis til Víkur, yfir gamla
bæjarstæðið. Sveitungar hans, vinir
og vandamenn nefndu hann Hálfdán
eða Halla, aðrir notuðu Árnanafnið.
Þegar yngri dóttir okkar Guðbjarg-
ar var fárra ára vissi hún ekki al-
mennilega hvað hún ætti að kalla afa
sinn en sagði að lokum: „Æ, hann afi
minn Brandsson.“ Þar með var
þriðja nafnið komið, en það notuðu
þó aðeins hinir allra nánustu.
Hálfdán byrjaði ungur að vinna á
bílaverkstæði Kaupfélags Vestur-
Skaftfellinga í Vík en eftir fáein ár
hélt hann til höfuðstaðarins og sett-
ist í Samvinnuskólann í Reykjavík.
Að námi loknu fór hann að vinna hjá
Leikfélagi Reykjavíkur og annaðist
ýmsar smíðar og lagfæringar fyrir
félagið, enda var hann lagtækur með
afbrigðum, og vann einnig við bók-
hald. Síðar starfaði hann um árabil
við bókhald hjá Vélasjóði ríkisins en
opnaði loks eigin bókhaldsþjónustu
við Ármúla í Reykjavík, sem hann
rak fram yfir 1970. Þá réðst hann
sem bókari á lögfræðistofu Ragnars
Ólafssonar en þegar hann lést flutti
Hálfdán sig til Endurskoðenda hf.
við Þórsgötu þar sem hann starfaði
fram á eftirlaunaaldur. Hann hélt
raunar áfram að vinna þar með
hléum til 75 ára aldurs, af þeirri ein-
földu ástæðu að illa gekk að fylla
skarð þessa nákvæma, samvisku-
sama og hugkvæma bókhaldara.
Auk þess tók hann langleiðina fram
undir áttrætt að sér skattframtöl
fyrir einstaklinga, mest vini og
kunningja undir það síðasta.
Árni Hálfdán Brandsson kvæntist
Þuríði Einarsdóttur frá Tjörnum
undir Vestur-Eyjafjöllum 1. janúar
1950 og saman gerðust þau, ásamt
stórum hópi ungs fólks, landnemar í
Kópavogi, fengu ókeypis lóð og
reistu með eigin höndum einbýlishús
að Álfhólsvegi 44. Þar fæddust þeim
börnin þrjú, Guðbjörg, Kristbjörg
Lóa og Einar, og þar óx fjölskyldan
og dafnaði næsta aldarfjórðung, og
þar auðnaðist mér að kynnast þessu
greinda og skemmtilega fólki. Þegar
börnin voru orðin uppkomin fluttu
Halli og Þuríður að Neshaga 9 í
Reykjavík og bjuggu þar ævi sína á
enda. Þuríður lést eftir langa og erf-
iða sjúkdómslegu sumarið 1999 og
Halli stundaði hana af mestu alúð og
ástríki, fór meðal annars tvisvar á
dag mánuðum saman suður á Vífils-
staði og sat þar yfir henni Þuríði
sinni. Nú er hann líka farinn og er
sárt saknað, ekki síst af afa- og lang-
afabörnum, sem hafa misst mikið.
Hin stóra þversögn í lífi Árna
Hálfdáns Brandssonar var að hann
hafði aldrei mjög gaman af að vinna
við bókhald þótt það yrði ævistarf
hans. Hann vildi verða handverks-
maður og hefði getað orðið hvað sem
var, smiður, vélsmiður, járnsmiður,
allt lék í höndum hans; hann var
sannkallaður völundur á járn og tré
og átti ófá handtökin í íbúðum og
húsum okkar Guðbjargar. Alltaf
gekk hann fumlaust og örugglega til
verks, vissi upp á hár hvað hann var
að gera, og alltaf var yfir honum
sama hógværðin, sem nálgaðist þá
skaftfellsku hlédrægni að kveða
aldrei svo sterkt að orði að segja já
eða nei, heldur ætíð „svo mun“.
En alltaf var stutt í góða skapið,
glettnislegt blik í auga og glaðværð-
ina og hann kunni skemmtileg skaft-
fellsk orðtök um hvaðeina. Segði
hann: „Það væri verra ef það væri
betra“ vissi maður að hann væri
ánægður. Og allt var nýtt, aldrei
skorið á hnúta, þeir voru leystir og
snærin gerð upp og sett á góðan
stað, „það er ekki bagi að bandinu“,
sagði hann með sínum skaftfellska
framburði.
Stundum romsaði hann upp úr sér
heilu gamanbrögunum, sem hann
hafði heyrt suma við kvöldbjástur
sitt í Iðnó í gamla daga þegar hann
var eins konar sviðsmaður þar og
um síðir skildist mér að ef til vill
hefði það verið einn besti tími ævi
hans, að vera innan um leikhúsfólkið
og fá að smíða og skapa. En óend-
anleg samviskusemi hans, kalt
raunsæi og glöggur skilningur hans
á því hvað skipti máli hér í heimi
skipaði honum að fást við það sem
var fjölskyldunni fyrir bestu.
Hann hætti öllu bókhaldsvafstri
fyrir fáum árum, hátt á áttræðis-
aldri, og fór að syngja, ekki í einum
kór heldur tveimur. En fyrir fáein-
um mánuðum greindist hann með
blóðkrabba og hann fór vikulega á
spítalann í blóðgjöf, en var sæmilega
sprækur þótt það gengi í bylgjum.
Engum duldist að farið var að draga
af líkamskröftum hans en aldrei
kvartaði hann, æðruleysið var samt
við sig og seiglan ótrúleg.
Eftir fjögurra klukkutíma söng í
Neskirkju á mánudagseftirmiðdag-
inn þennan maídag var hann orðinn
allfölur og þreytulegur og söngstjór-
inn bauðst til að aka honum heim en
Halli hélt nú að hann gæti gengið
þennan spotta, í næsta hús, og heim
komst hann. En hann var vissulega
orðinn máttfarinn og náði sér aldrei
eftir þennan söng. Heitir það ekki að
syngja sitt síðasta? Ég er viss um að
Halli myndi samsinna því ef …
Sem betur fer, mín vegna, leit ég
öðru hverju inn hjá honum síðustu
misserin og sat þá góða stund í eld-
húsinu og drakk kaffi og spjallaði,
reykti einn vindil (þar til við hætt-
um!). Síðast nú fyrir fáeinum vikum.
En þetta var allt of sjaldan og nú
kveð ég fyrrum tengdaföður minn
með sárum söknuði. Hann var gull af
manni, heiðursmaður og allt það sem
gott má segja um einn mann.
Þorgrímur Gestsson.
Með hlýjum hug og þakklæti
minnist ég Árna Brandssonar.
Kynni okkar urðu er hann kom til
liðs við Ekkó, kór eftirlaunakennara,
og starfaði sem raddformaður.
Árni söng léttri, bjartri tenórrödd,
hafði góða tónheyrn, kunni allgóð
skil á nótnalestri og lagði sig fram
um að syngja rétt. Æfingar sótti
hann reglulega eftir því sem brest-
andi heilsa leyfði. Hann var víðles-
inn, fróður og skemmtilegur í við-
ræðum, hnyttinn og kom vel fyrir sig
orði – í allri umgengni hið mesta ljúf-
menni.
Réttilega mætti segja að Árni hafi
verið sannur unnandi sönglistarinn-
ar með því að hann söng í tveim kór-
um – kór Eftirlaunakennara, Ekkó,
undir stjórn minni og „Litla kór“
Neskirkju undir stjórn Ingu Back-
man.
Hinn 8. maí, sl., mánudag, efndu
þessir kórar til sameiginlegra loka-
tónleika í Neskirkju. Þar söng Árni,
sem áður segir, í báðum kórum. Í
heild varð þetta alllöng athöfn og sá
ég, að Árni var orðinn nokkuð þrek-
aður.
Daginn eftir, þriðjudag, var hann
orðinn fárveikur og fluttur á bráða-
móttöku Landspítalans, síðan sam-
stundis á gjörgæzlu þar sem hann lá
miðvikudaginn. Það kvöld tjáði son-
ur hans mér, að tvísýnt þætti, að
hann lifði næsta dag. Brá ég því
skjótt við og fór að sjá hann – kveðja
og þakka, þó lengur fengi hann ekki
tjáð sig. Næsta dag, fimmtudag, lézt
hann svo árla morguns, kl. hálffimm.
Því má réttilega segja að Árni hafi
sungið allt til hinztu stundar – svo
kær var honum söngurinn.
Við Sólveig kveðjum hann með
djúpri virðingu og þakklæti. Kveðj-
um okkar fylgja einnig kærar kveðju
frá Ekkó.
Góðir ástvinir, meðtakið einlæga
samúð. Guð blessi ykkur öll.
Jón Hjörleifur Jónsson.
ÁRNI HÁLFDÁN
BRANDSSON
Guðmundur
Jóhannsson
f. 10. 6. 1932
d. 8. 3. 1989
Minning þín lifir
Hvíl í friði
LEGSTEINAR
SteinsmiðjanMOSAIK
Hamarshöfða 4 – sími 587 1960
www.mosaik.is
Granítlegsteinar
og
fylgihlutir
Legsteinasala Suðurnesja, s. 421 3124
Morgunblaðið birtir minningar-
greinar alla útgáfudagana.
Skil Minningargreinar skal senda í
gegnum vefsíðu Morgunblaðsins:
mbl.is (smellt á reitinn Morgun-
blaðið í fliparöndinni – þá birtist
valkosturinn „Senda inn minning-
ar/afmæli“ ásamt frekari upplýs-
ingum).
Skilafrestur Ef birta á minningar-
grein á útfarardegi verður hún að
berast fyrir hádegi tveimur virk-
um dögum fyrr (á föstudegi ef út-
för er á mánudegi eða þriðjudegi).
Ef útför hefur farið fram eða grein
berst ekki innan hins tiltekna
skilafrests er ekki unnt að lofa
ákveðnum birtingardegi. Þar sem
pláss er takmarkað getur birting
dregist, enda þótt grein berist áð-
ur en skilafrestur rennur út.
Minningar-
greinar