Morgunblaðið - 21.05.2006, Qupperneq 32
32 SUNNUDAGUR 21. MAÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Lífið á Íslandi hefur ekki reynst þaðsældarlíf, sem enski geðhjúkrun-arfræðingurinn Joanna Burtonhafði óskað sér, eftir að hún flutt-ist hingað frá Englandi með eig-
inmanni sínum, Þórarni Freyssyni, og tveim
börnum. Hún fær starfsréttindi sín sem geð-
hjúkrunarfræðingur ekki staðfest, þrátt fyr-
ir að hörgull sé á hjúkrunarfræðingum hér á
landi. Einnig hefur aðlögun að íslensku sam-
félagi verið erfiðari en þau bjuggust við.
Vildu flytja á öruggari stað
Joanna lauk þriggja ára grunnþjálfun sem
geðhjúkrunarfræðingur árið 1991 á spítala á
Norðvestur-Englandi og uppskar réttindi á
því sviði. Eftir það vann hún á ýmsum svið-
um innan spítalans, fyrst með ungu fólki
með geðræn vandamál og síðan gömlu fólki
með sömu vandamál. Síðustu fimm árin
vann hún utan spítalans og annaðist eldra
fólk sem glímdi við minnistap.
Á sama tíma lauk hún B.Sc.-prófi í hjúkr-
un og meistaraprófi í framhaldi af því, en
spítalinn styrkti hana í því námi. Lokaverk-
efnið var rannsókn, sem síðan varð grunnur
að fræðilegri grein í The Journal of Psychi-
atric and Mental Health Nursing árið 2005.
„Ég kynntist Þórarni í Manchester, en við
töluðum fyrst um að flytja til Íslands þegar
hryðjuverkaárásin á Bandaríkin átti sér
stað 11. september árið 2001,“ segir Joanna.
„Mér fannst England ekki nógu öruggur
staður fyrir fjölskylduna, en þá var Þór-
arinn búinn að koma sér vel fyrir og vildi
ekki flytja. Hann hafði nýverið fengið stöðu
framkvæmdastjóra hjá góðgerðarstofnun á
geðheilbrigðissviði. Við ræddum málið aftur
þegar sprengingarnar í London áttu sér
stað og ákváðum þá að setjast að á Íslandi.“
Starfsréttindi ekki staðfest
Fjölskyldan hafði áður ferðast til Íslands í
leyfum og unað sér vel. Joanna lauk störfum
á spítalanum í febrúar og þá flutti fjöl-
skyldan í Garð vegna þess að þau vildu búa í
litlu, nánu og öruggu samfélagi. En aðlög-
unin reyndist erfiðari en þau höfðu búist við.
Fyrst kom það upp að Joanna fékk starfs-
réttindi sín sem geðhjúkrunarfræðingur
ekki staðfest hér á landi, en heilbrigðisráðu-
neytið veitir slík leyfi eftir umsagnir Hjúkr-
unarráðs.
„Á Englandi sérhæfir fólk sig frá byrjun í
hjúkrunarfræðináminu, en á Íslandi er fyrst
almenn hjúkrunarfræði og eftir hana sér-
hæfir fólk sig,“ segir hún. „Ég hef fengið
synjun á þeim forsendum að ég hafi ekki
lokið almennu námi. Mér hefur raunar verið
bent á þann valkost að ljúka eins og hálfs
árs háskólanámi til að öðlast réttindin. En
ég hef engan áhuga á að starfa sem almenn-
ur hjúkrunarfræðingur. Og til hvers væri
það eftir alla mína þjálfun, reynslu og sér-
hæfingu í geðhjúkrun, jafnt í námi sem á
spítala.“
Synjun frá Hjúkrunarráði
Svo virðist sem breyta þurfi íslenska heil-
brigðiskerfinu eða gera undanþágu á gild-
andi reglum til að Joanna fái leyfi til að
starfa sem geðhjúkrunarfræðingur. „Ég hef
engan áhuga á að vinna sem hjúkrunarfræð-
ingur á skurðstofum eða almennum deild-
um, enda stendur mín menntun ekki til þess.
En ég vil endilega að kraftar mínir nýtist í
geðhjúkrun og ég veit að ég gæti fengið
vinnu á því sviði víðsvegar um heiminn. Ég
hef þegar fengið synjunarbréf frá Hjúkr-
unarráði, en hyggst nýta andmælaréttinn og
reyna að skýra mína stöðu. Ég vona að gerð
verði undanþága þannig að kraftar mínir
nýtist, enda hef ég átján ára starfsreynslu í
geðhjúkrun og mér skilst að hörgull sé á
hjúkrunarfræðingum á því sviði hér á
landi.“
Joanna segir að ef hún fái ekki staðfest-
ingu á réttindum sínum á þessu ári, þá þurfi
hún að snúa aftur á næsta ári til Englands
og vinna þar til þess að skráning hennar þar
sem hjúkrunarfræðingur falli ekki niður. Ef
það gerist þurfi hún að fara í frekara nám
og starfsþjálfun. „Það er ekki auðvelt að
standa frammi fyrir þeirri ákvörðun. Á ég
þá að fara ein til Englands tímabundið eða
eigum við að flytja þangað aftur með fjöl-
skylduna? Við höfðum enga hugmynd um að
þetta mál yrði svona afdrifaríkt og það er
ekki gott að eiga við það samhliða því álagi
sem fylgir því að aðlagast nýju samfélagi.“
Erfið aðlögun fyrir eldri soninn
Og sú aðlögun hefur reynst fjölskyldunni
mun erfiðari en þau höfðu búist við. „Við
eigum tvo syni, annan eins árs og hinn níu
ára. Eldri sonur minn vildi ekki flytja til Ís-
lands, þó að honum líkaði vel að koma hing-
að í fríum. Honum leið vel í skólanum í Eng-
landi og átti traustan vinahóp. Og hann setti
það aldrei fyrir sig þó að öryggis vegna
mættu krakkarnir aldrei fara út fyrir götuna
sem við bjuggum við eða hversu lítið stuðn-
ingsnet fjölskyldunnar var.
Við héldum að honum þætti jákvætt að
mega leika sér á víðara svæði, en í staðinn
hefur honum fundist það erfitt og hann
fundið fyrir öryggisleysi. Skólinn hefur líka
verið honum erfiður. Hann kom hingað án
þess að tala íslensku. Við höfum alltaf talað
ensku heima og höldum því áfram, því okkur
finnst mikilvægt að viðhalda móðurmálinu,
ekki síst fyrir yngri soninn. En þar sem
hann átti erfitt með tungumálið, þá féll hann
illa í hópinn og tók það nærri sér.
Að lokum fluttum við hann í einkaskóla í
Reykjavík, þar sem hann er miklu ánægðari.
Þar er nemendahópurinn alþjóðlegri og fjöl-
menningarlegri, krakkar frá mismunandi
löndum, og kennararnir tala ensku. Það er
erfitt fyrir níu ára dreng að læra bæði nýtt
tungumál og aðlagast nýju samfélagi. Hon-
um fannst hann ekki mæta skilningi í gamla
skólanum og nefndi atvik, þar sem kenn-
arinn útskýrði fyrir hinum krökkunum af
hverju eitthvað væri rangt, en honum var
bara bannað það. Honum fannst hann ekki
mæta skilningi. Hann er mun ánægðari í
nýja skólanum og kennarinn sagði að hann
skildi meira í íslensku en hann hefði í fyrstu
gefið í skyn. Það hefur mikil áhersla verið
lögð á að hann falli í hópinn, því hann var
orðinn einangraður í hinum skólanum og
hafði í nokkrar vikur þvertekið fyrir að
mæta í skólann.“
Óraunhæfar væntingar
Það hefur gengið vel með yngri soninn.
„Hann er kominn til frábærrar dagmömmu,“
segir Joanna. „Þetta hefur legið þyngst á
okkur og við höfum oft rætt hvort við höfum
gert rétt í því að flytja til Íslands. Ég er enn
þeirrar skoðunar, en vona að svo verði einn-
ig eftir nokkur ár. Mér hefur fundist ég ein-
öngruð vegna tungumálsins sem hamlar mér
og ég hef ekki eignast nýjan vinahóp. Ég
bjóst við að okkur yrði tekið opnum örmum,
en átta mig nú á því að það var óraunhæft.
En ég held að við hefðum átt að flytja
strax til Reykjavíkur þegar við komum til
landsins. Þar föllum við meira inn í fjöldann,
slökum betur á og sjálfstraustið eykst. Um
leið verður auðveldara að eiga í samskiptum
við fólk á íslensku. Og örlögin höguðu því
þannig að við sækjum allt til Reykjavíkur,
eiginmaður minn fékk vinnu hjá deCODE,
sonur minn er í skóla í Reykjavík og sá
yngri hjá dagmömmu í Hafnarfirði.“
Ráðgjafartímar í Alþjóðahúsinu
Joanna ætlar að miðla af reynslu sinni í
ráðgjafartímum sem boðið verður upp á í Al-
þjóðahúsinu. „Ég get ekki sagt að ég sé
skráð hjúkrunarkona hér á landi, því ég er
það ekki. En ég mun miðla af margra ára
reynslu í að hjálpa fólki í erfiðum aðstæðum.
Einnig mun ég veita starfsfólkinu ráðgjöf,
því að það er oft að fást við alvarleg mál sem
leitað er til þess með. Þá mun ég aðstoða Ír-
isi Björgu Kristjánsdóttur við að starfrækja
mæðra- og barnahóp. Ég er sjálf móðir, hef
tekist á við að vera einöngruð í nýju sam-
félagi og til dæmis átt erfitt með að komast í
tungumálakennslu vegna þess að tímarnir
eru á kvöldin þegar ég vil vera með fjöl-
skyldunni. Mæður geta mætt í þennan hóp
með börnin sín. Fólk mun læra grunnatriði í
tungumálinu og hvernig það getur bjargað
sér í íslensku samfélagi, svo sem pantað
tíma hjá lækni eða beðið um þjónustu. Einn-
ig er þetta tækifæri fyrir mæður að kynnast
fleirum í svipuðum sporum.“
– Ertu bjartsýn á framtíðina?
„Ég held ég sé raunsærri. Mér finnst enn
að við höfum tekið rétta ákvörðun með því
að koma hingað. Við vildum færa sonum
okkar meira öryggi og lífsgæði. Okkur líður
betur eftir að við tókum ákvörðun um að
flytja til Reykjavíkur. Þessa vikuna hef ég
verið að skoða atvinnuauglýsingar, meðal
annars margvísleg þjónustustörf, en neita
því ekki að ég vildi að ég gæti unnið við það
sem ég hef sérhæft mig í.“
Hún segir að það sé auðveldara að takast
á við nýtt samfélag þegar maður þekki nún-
ingsfletina. „Þess vegna eru upplýsingamið-
stöðvar eins og Alþjóðahúsið mikilvægar, því
að þá er einangrunin rofin og fólk getur
miðlað hvert öðru af reynslu sinni.“
Ákveðnar kröfur eru gerðar til þess náms sem
hjúkrunarfræðingar þurfa að hafa lokið til þess
að fara á milli landa innan EES-svæðisins, að
sögn Önnu Bjargar Aradóttur, yfirhjúkrunar-
fræðings hjá Landlæknisembættinu og for-
manns Hjúkrunarráðs. „Til þess að hjúkrunar-
fræðingar fái starfsleyfi þegar þeir flytja á milli
landa þurfa þeir að hafa lokið almennu námi og
á öllum sviðum hjúkrunarfræðinnar,“ segir hún.
„Það þýðir að hjúkrunarfræðingar frá Þýska-
landi og Bretlandi hafa lent í erfiðleikum með
að flytja á milli landa með réttindi sín, því að
þar geta þeir sérhæft sig án þess að ljúka al-
mennu námi.“
– En er ekki skortur á hjúkrunarfræðingum
hér á landi?
„Jú.“
– Er þá ekki þörf fyrir starfskrafta þessarar
konu, sem unnið hefur í heimalandi sínu í tæpa
tvo áratugi sem geðhjúkrunarfræðingur?
„Sjálfsagt. En við gefum ekki afslátt á því
námi sem við viljum að hjúkrunarfræðingar hér
á landi hafi lokið og kröfum til þeirra almennt.
Þetta á ekki bara við um þessa konu heldur
einnig fólk frá Austur-Evrópu, sem fullnægir oft
ekki þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt
EES-samningnum. Við þurfum að finna leiðir til
þess að fólk frá þessum löndum geti bætt við
sig menntun til að geta orðið hjúkrunarfræð-
ingar hér á landi. Þar höfum við ekki staðið okk-
ur sem skyldi.“
– En nú er ljóst að hún hefur starfað sem
geðhjúkrunarfræðingur á Englandi og hefur
mikla menntun á því sviði. Er ekki hægt að
veita undanþágu án þess að hún þurfi að setj-
ast á skólabekk?
„Ég veit að það hljómar ósanngjarnt, en við
getum ekki gefið afslátt á þeim kröfum sem
gerðar eru til hjúkrunarfræðinga. Til þess að
hjúkrunarleyfið sé fullgilt þarf ákveðna mennt-
un. Mér finnst ekki rétt að gera undanþágur og
vil frekar beita mér fyrir því að námið verði
gert aðgengilegt.“
– En bitnar það ekki á sjúklingum ef við nýt-
um ekki þá hjúkrunarfræðinga sem til staðar
eru í landinu?
„Jú, það bitnar nú þegar á sjúklingum að
ekki er nóg af hjúkrunarfræðingum og sjúkra-
liðum. En það þyrfti ákveðnar lagabreytingar.
Það þarf að skoða það mjög vel og með opnum
huga hvort það sé fýsilegur kostur. En eins og
staðan er í dag er þess ekki kostur.“
Joanna Burton segir erfitt að aðlagast íslensku samfélagi
Hefur ekki fengið starfsleyfi
sem geðhjúkrunarfræðingur
Morgunblaðið/Ómar
Joanna Burton með eins árs syni sínum Elijah Benedikt.
Bitnar nú þegar
á sjúklingum