Morgunblaðið - 08.06.2006, Síða 40
40 FIMMTUDAGUR 8. JÚNÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Hafþór Sigur-geirsson fæddist
á Ísafirði 28. júní
1949. Hann lést af
slysförum 27. maí
síðastliðinn. For-
eldrar hans voru
Sveinsína Björg
Guðmundsdóttir, f.
17. maí 1908, d. 11.
september 1983, og
Sigurgeir Halldórs-
son, f. 2. mars 1908,
d. 31. mars 1972.
Systkini Hafþórs
eru: Guðmundur
Hafsteinn, f. 16. september, maki
Hróðný Gunnarsdóttir; Ingibjörg,
f. 14. maí 1932, d. 6. apríl 1997,
maki Þorgrímur Guðnason; Sig-
rún, f. 23. apríl 1935, maki Gunn-
laugur Valdimarsson; Sæunn
Marta, f. 12. nóvember 1936, maki
Þórir Bent Sigurðsson; Garðar
Ingvar, f. 15. september 1938,
maki Ingibjörg Birna Jónsdóttir;
Helga, f. 18. febrúar 1940, maki
Jörundur Sigurgeir Sigtryggsson;
Halldór, f. 7. febrúar 1943, maki
Flóra Sigríður Ebenesardóttir;
Margrét, f. 23. ágúst 1944, maki
Eðvarð Jóhannesson; Lilja, f. 3.
mars 1946; og Sveinsína, f. 13. júlí
1950, maki Aðalsteinn Oddsson.
Hafþór átti einn hálfbróður sem
hét Hörður Bergmann, hann er lát-
inn.
Hafþór kvæntist 27. maí 1972
Helgu Sigríði Sig-
urðardóttur, f. 3.
september 1952, frá
Akureyri. Foreldrar
Helgu eru Sigurður
Hannesson, f. 8. des-
ember 1923, og
Soffía Georgsdóttir,
f. 6. október 1930.
Börn Hafþórs og
Helgu eru: 1) Soffía
Margrét, f. 23. jan-
úar 1972, unnusti
Ólafur Hreinsson, f.
14. febrúar 1966. 2)
Sigurður Bjarni, f.
11. desember 1974, unnusta Heið-
rún Þorsteinsdóttir, f. 24. júlí 1974,
dóttir þeirra er Birta María, f. 30.
nóvember 2003. 3) Hafdís Sif, f. 4.
mars 1979, unnusti Ingi Torfi
Sverrisson, f. 11. júlí 1978, dóttir
þeirra er Karen Ósk, f. 1. október
2001. 4) Helgi Freyr, f. 10. október
1986, unnusta Eva Sandra Bents-
dóttir, f. 4. desember 1986.
Hafþór ólst upp á Ísafirði og
vann ýmis störf bæði í landi og á
sjó. Árið 1971 fluttist hann með til-
vonandi eiginkonu sinni Helgu til
Akureyrar. Þar vann Hafþór í
nokkur ár á trésmíðaverkstæði. En
allt frá árinu 1985 hefur hann lagt
stund á sjómennsku og hóf hann
störf hjá Samherja árið 1986.
Útför Hafþórs verður gerð frá
Akureyrarkirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.30.
Elsku pabbi minn. Allt frá því að ég
var tíu ára gamall hefur þú verið á sjó
og ég man enn þann dag í dag hversu
erfitt mér fannst að kveðja þig þegar
þú fórst. Í gegnum árin fór ég að
skilja sjónarmið þín betur þar sem sá
tími sem við fengum með þér í landi
var ómetanlegur. Allir dagar voru þá
laugardagar og við áttum hug þinn
allan. Í dag rúmum tuttugu árum síð-
ar kemur upp staða sem ég á mjög
erfitt með að skilja. Hann pabbi minn,
hann elsku pabbi minn er látinn.
Hvernig má það vera? Þessi heimur
þarf að hafa fleiri menn eins og þig en
ekki færri. Það vantar svo mikið þeg-
ar þú ert ekki hér lengur. Ég var ekki
bara að missa pabba heldur líka besta
vin minn. Við áttum mörg sameigin-
leg áhugamál enda leit ég mikið upp
til þín og geri enn. Allt mitt líf hef ég
haft þig sem fyrirmynd og veit að ég
mun búa að því alla mína ævi. Þú
gafst mér svo mikið.
Þegar ég hugsa til baka og rifja upp
þær stundir sem ég átti með þér
finnst mér ég vera ríkasti maður í
heimi. Þessar minningar á ég einn og
enginn getur tekið frá mér. En mér
fannst við eiga eftir að gera svo mikið
saman. Þú svo ungur, heilsuhraustur
og fullur af orku. Þegar ég sá þig með
Birtu Maríu fékk ég að upplifa á ný
hversu hlýr og góður þú ert við börn.
Að fá að vera fluga á vegg og fylgjast
með ykkur tveimur er ómetanlegt.
Svona var þetta þá, svona var þetta
þegar ég var lítill. Litla gullið mitt
ljómaði af gleði þegar hún heyrði að
þú værir að koma. Þegar þið hittust
varst þú strax kominn niður á fjórar
fætur og farinn að skríða á eftir henni
út um allt. Birta María talaði mikið
um þig, elsku pabbi minn, og vissi al-
veg hvar þú værir. Oftar en ekki
heyrðist í henni: „Haffi afi er í skip-
inu, greyið afi.“ Ég áttaði mig ekki al-
veg á því sem hún var að segja en ein-
hvern veginn varð alltaf erfiðara og
erfiðara að kveðja þig. Ég fann fyrir
meiri depurð aftur, líkt og þegar ég
var aðeins tíu ára gamall. Hvað var að
gerast? Af hverju var þetta orðið
svona aftur? Ég var líka farinn að
hugsa, greyið pabbi minn, en þú varst
farinn að tala um að minnka við þig,
fara færri túra og vera meira í landi.
Möguleikinn á því að byrja á því að
taka lífeyri þinn út fyrr og minnka við
þig var bara handan við hornið. Ég
var jafnvel kominn svo langt að hugsa
til þess að kannski gætir þú farið að
vinna í landi.
Þér var svo margt til lista lagt en
þú komst mér svo sannarlega á óvart
þegar þú keyptir þér fartölvu og
sagðist ætla að læra á hana. Og viti
menn, það tókst og gott betur en það.
Þú varst meira að segja farinn að taka
tölvuna með þér út á sjó til þess að
geta verið í netsambandi við okkur.
Ég gat núna talað við þig þegar ég
vildi og fékk alltaf svar fljótt til baka.
Þetta gaf mér mikið og ég veit að þér
fannst mestu máli skipta að vita hvað
væri að frétta af okkur. Þú varst svo
mikill fjölskyldumaður, barst hag
okkar allra fyrir brjósti og hugsaðir
alltaf fyrst um aðra. Þú varst, ert og
munt alltaf vera maður sem engin orð
fá lýst.
Hvernig er hægt að halda áfram
þegar maður fær svona þungt högg?
Það vantar svo mikið þegar þú ert
ekki hér hjá okkur. Ég finn fyrir dep-
urð í hjarta sem ég vissi ekki að væri
til, tómarúm sem ekki er hægt að fylla
og veit að það getur aldrei neinn kom-
ið í þinn stað. Söknuðurinn er svo
mikill og svo sár að ég á erfitt með að
hugsa fram í tímann meira en mínútu
í senn. Ég á aldrei eftir að sætta mig
við að þú sért ekki lengur hér og á eft-
ir að syrgja þig allt mitt líf en ég veit
hvað ég þarf að gera og hvað þú vilt að
ég geri en það er bara svo erfitt núna.
Ég er þakklátur fyrir þann tíma
sem ég fékk með þér, elsku pabbi
minn, og veit að þú verður alltaf hjá
mér ef ég þarf að leita til þín. Þegar
ég horfi á Birtu Maríu veit ég að hluti
af þér er þarna og það gleður mig.
Það sama má segja um okkur öll, þú
lifir með okkur svo lengi sem við lif-
um. Hjarta mitt segir mér að ég muni
alltaf eiga þig og þegar minn tími
kemur þá tekur þú á móti mér með
opnum örmum og þá verðum við sam-
an aftur.
Bið að heilsa Steina tengdapabba,
ég veit að hann er hjá þér núna.
Þinn elskandi sonur,
Sigurður Bjarni.
Það var seinnipart laugardags 27.
maí, þegar skyndilega þyrmdi yfir og
lífið varð í einni svipan dökkt og þoku-
kennt. Elsku Hafþór tengdapabbi er
látinn. Eldur kom upp í Akureyrinni
með þeim hræðilegu afleiðingum að
tveir menn létu lífið. Af hverju er lífið
svona ósanngjarnt? Af hverju var
hann ekki á vakt þegar slysið átti sér
stað? Hvað ef hann hefði verið vak-
andi eða á öðrum stað í skipinu? Hvað
ef … ? Ótal spurningar koma upp í
hugann en sá sem er æðri máttar get-
ur einn svarað þeim.
Fljótlega eftir að ég kynntist Sigga
kom að þeim degi að hitta fjölskyldu
hans á Akureyri. Örlítill kvíði greip
um sig þar sem ég sat í flugvélinni á
leiðinni norður að hitta tilvonandi
tengdaforeldra í fyrsta skipti. Siggi
tók á móti mér á flugvellinum og tjáði
mér á leiðinni að það væru aðeins
fleiri fjölskyldumeðlimir sem vildu fá
að hitta mig. Ekki voru þessi tíðindi
til að draga úr kvíðanum. Þegar heim
var komið var öll fjölskyldan mætt,
ásamt afa hans og ömmu. Allur kvíði
hvarf þó á bak og burt þegar ég kom
inn um dyrnar. Koss og stórt faðmlag
frá elsku Helgu, hlýlegar móttökur
frá systkinum Sigga, afa og ömmu og
þessi orð frá Haffa: „Vertu bara eins
og heima hjá þér,“ og í kjölfarið fylgdi
með bros á vör, sagan af honum sjálf-
um þegar hann hitti fyrst sína
tengdaforeldra. Mér leið eins og þau
hefðu alltaf þekkt mig. Þannig voru
móttökurnar hjá þessari elskulegu
fjölskyldu.
Haffi var einstakur maður og tók
ég fljótlega eftir að þarna var á ferð-
inni mikill fjölskyldumaður. Það má
með sanni segja að fjölskyldan hafi
verið honum allt. Alltaf var hann til
staðar fyrir börnin sín hvort sem það
var að hjálpa til við flutninga, mála,
gera við, hengja upp ljós eða vera til
staðar þegar leitað var til hans út af
öðru. Hann var ekki bara faðir barna
sinna heldur einnig félagi þeirra og
besti vinur. Í þau skipti sem við Siggi
höfum flutt voru Haffi og Helga kon-
an hans mætt með uppbrettar ermar,
tilbúin að hjálpa. Haffi var með ein-
dæmum vandvirkur með þau verk
sem hann tók að sér. Fyrir um það bil
þremur árum þegar við Siggi vorum
að flytja í Funalindina, ég þá kasólétt,
var Haffi að mála íbúðina okkar.
Hvergi var málað út fyrir þar sem
Haffi hafði málað og þótt við segðum
við hann að það skipti nú ekki miklu
málið þótt eitthvað færi út fyrir þarna
eða hérna þá var svarið alltaf á þá leið
að hann léti nú ekki sjá svoleiðis
vinnubrögð eftir sig, annað hvort
væri að gera þetta vel eða hreinlega
sleppa því.
Haffi var yndislegur afi og mikið
var hann góður við dóttur okkar Birtu
Maríu og náði svo vel til hennar. Þeg-
ar hann kom í heimsókn þá var hann
varla kominn inn úr dyrunum þegar
hann var kominn á fjóra fætur og
byrjaður að leika og sprella við snúll-
una sína, Birtu Maríu til mikillar
gleði. Þegar Hafdís og Ingi voru í
heimsókn með dóttur sína Karen Ósk
þá lék Haffi skrímsli, tröll, hest eða
hvaðeina og var að reyna að ná þeim
og mikið skríktu og hlógu litlar sálir.
Þannig var Haffi alltaf þegar fjöl-
skyldan hittist þá áttu barnabörnin
tvö huga hans allan.
Elsku Helga mín, þungt er höggið
og hefur þú misst mikið, eiginmann
og besta vin þinn. Á þessum sorgar-
degi hinn 27. maí áttuð þið 34 ára
brúðkaupsafmæli. Þið hafið átt mörg
góð ár saman og eigið fjögur börn og
tvö barnabörn sem eru lifandi eftir-
mynd Haffa. Ég veit að núna virðist
sem ekkert geti læknað né hjálpað í
sorginni, elsku Helga, en veistu að
það mun rofa til síðar og þú munt
brosa á ný. Þú átt allar minningarnar
sem enginn getur tekið frá þér. Ég
veit líka að gullin þín fjögur sem þið
Haffi eigið saman standa við hlið þér
og það gera tengdabörnin einnig.
Elsku Haffi, mikið er ég fegin að
hafa fengið tækifæri til að kynnast
þér og þykir mér sárast að fá ekki að
kynnast þér enn betur hér í þessu lífi.
En ég veit að þú ert nú í góðum hönd-
um og það verður hugsað vel um þig.
Þótt þú kveðjir þennan heim þá lifirðu
ennþá í minningu okkar hinna sem
þykir svo vænt um þig og elska. Takk
fyrir að hafa verið til, takk fyrir að
eiga Sigga sem ég elska svo óendan-
lega mikið, takk fyrir að Birta María
afastelpan þín hafi fengið að kynnast
þér og umfram allt takk fyrir að eiga
svona yndislega fjölskyldu.
Elsku Haffi minn, ég veit að ég á
eftir að kynnast þér betur þótt seinna
verði og við munum öll hittast aftur.
Þín tengdadóttir
Heiðrún.
Elsku besti Haffi afi, takk fyrir að
vera svona duglegur að leika við mig
þegar ég hef komið í heimsókn til
ykkar ömmu. Það var svo gaman þeg-
ar við fórum í eltingarleik í eldhúsinu í
kringum eyjuna, amma hélt á mér og
þú eltir okkur, það var sko mikið hleg-
ið þá. Sú vögguvísa sem að þú söngst
og kenndir mér er vögguvísan úr
Dýrunum í Hálsaskógi og við sungum
hana oft saman og nú langar mig að
syngja hana fyrir þig, elsku besti
Haffi afi eins og þú varst vanur að
syngja fyrir mig.
Dvel ég í draumahöll
og dagana lofa
litlar mýs um löndin öll
liggja nú og sofa.
Sígur ró á djúp og dal
dýr til hvílu ganga.
Einnig sofna skolli skal
með skottið undir vanga.
(Thorbjörn Egner.)
Takk fyrir að vera alltaf svona góð-
ur við mig, ég elska þig mest, Haffi
afi, og ég skal lofa þér að passa Helgu
ömmu vel fyrir þig. Nú kveð ég þig að
sinni, eins og ég var vön að kveðja þig
með kossum og knúsi.
Kveðja,
Karen Ósk.
Söknuður
sál mína kvelur,
minn kæri vinur.
Þú ei lengur hér
á jörðu dvelur,
þinni lífsgöngu
ei ætlað var
lengri veg.
Sárt er því að taka
vildi að þú værir
ennþá hér.
Nú þú leið þína
hefur lagt
yfir móðuna miklu.
Með vissu ég veit
þar þú mætt hefur
móttökum góðum,
þar hlýtur nú að vera
glatt á hjalla.
Þannig ávallt það var
er þú mættir með
brosið þitt bjarta.
Þú einstaka sál
hafðir að geyma,
þér ég aldrei
mun gleyma.
Minningin um þig er
björt og mikil
hér á jörðu niðri,
hún áfram lifir
í hjarta mínu,
þinn stað þú ætíð
munt eiga.
(Jónína Sesselja Gísladóttir)
Hvað getum við sagt? Vegir guðs
eru órannsakanlegir, við erum harmi
slegin yfir skyndilegu fráfalli bróður
okkar og mágs. Hvernig gat þetta
gerst? Hvers vegna? Er það fyrsta
sem maður spyr sig. Þú sem áttir svo
margt eftir að gera með fjölskyldu
þinni, með litlu afastelpunum þínum
sem voru augasteinarnir þínir. En nú
hefur þú verið kallaður til annarra
starfa í ljósi alföður á himnum, nú ert
þú umvafinn ljósinu sem mun lýsa þér
og okkur um eilífð því við vitum að
guð er ljósið sem lýsir okkar veg.
Eftir situr minning um bróður sem
okkur öllum var svo kær.
Elsku Helga, Soffía, Sigurður, Haf-
dís, Helgi, tengdabörn, barnabörn og
tengdaforeldrar, við biðjum guð að
vera styrkur í ykkar miklu sorg.
Með þessu ljóði kveðjum við þig,
elsku Hafþór:
Á bænanna vængjum
burtu hann fer
er englarnir komu
með himnanna her.
Kvaddi ég kæran bróður.
Tárin þau voru dýr
frá okkur er hann farinn
því nú á himnum hann býr
(Elínbjört Halldórsdóttir)
Hvíl þú í friði.
Þín
systkin og tengdasystkin.
Ég var stödd á ljósmyndasýningu
fyrir nokkrum árum þar sem myndir
móðurafa míns voru til sýnis. Sú
mynd sem fangaði huga minn var af
litlum dreng þriggja, fjögurra ára,
fegurðin í myndinni var ólýsanleg,
hann stóð þarna lítill og mannalegur
klæddur eins og sjómaður og hafði
aflann, litla síld, hangandi í bandi í
annarri hendinni.
Ég sneri mér að mömmu og spyr:
„Hver er þetta?“ „Þetta er Hafþór
bróðir minn,“ svarar hún og stoltið
leyndi sér ekki. Það hefur mikið vatn
til sjávar runnið síðan þessi mynd var
tekin af litla bróður hennar mömmu
þar til hann lést af slysförum sem sjó-
maður á hafi úti.
Við fráfall hans rifjast upp dýr-
mætar minningar sem gott er að
sækja í og leita sér huggunar.
Hafþór var fæddur inn í stórfjöl-
skyldu í orðsins fyllstu merkingu,
hann átti sjö systur og fjóra bræður.
Það sem einkenndi þessa móðurfjöl-
skyldu mína fannst mér hvað þeim
þótti vænt hverju um annað og voru
samheldin svo eftir því var tekið.
Stóra ástin í lífi Hafþórs kom frá
Akureyri, Helga var ekki lengi að
vinna traust ömmu minnar og mér
býður í grun að það hafi talist henni til
tekna að hún var húsmæðraskóla-
gengin. Allavega flutti hann norður
og öllum leist vel á ráðahaginn.
Fyrir norðan eignaðist Hafþór
frændi aðra stórfjölskyldu því for-
eldrar Helgu tóku honum eins og syni
og voru honum afar góð alla tíð. Haf-
þór og Helga eignuðust saman fjögur
börn sem bera foreldrum sínum gott
vitni.
Þegar minnst var á Hafþór í sam-
ræðum var það yfirleitt gert með því
að tala um Haffa og Helgu nánast
sem eitt. Í fyrrasumar fréttist hingað
vestur að von væri á þeim á mót sem
halda átti og nefnt var Stóra púka-
mótið. Þetta var knattspyrnumót fyr-
ir ísfirska knattspyrnumenn þrjátíu
ára og eldri.
Við þessar fréttir fékk ég um stund
áhuga á fótbolta. Sú íþrótt hefur aldr-
ei heillað mig, en þegar ég vissi að
móðurbræður mínir ríflega fimmtug-
ir og sextugir myndu spila fótbolta þá
gat maður ekki látið sig vanta!
Ég verð að viðurkenna að það var
smááhyggjuefni að vita af því að í
öðru markinu var Pétur með gamla
hjartaþræðingu og í hinu Baddó bróð-
ir með nýja … en traust mitt var á
starfsfólki sjúkrahússins með Þor-
stein lækni í broddi fylkingar ef eitt-
hvað myndi klikka.
Komu Hafþórs var beðið með eft-
irvæntingu þar sem óljóst var hvort
af því yrði en menn voru farnir að
panta hann í sitt lið, enda fór það svo
að liðið hans, Krókspúkar, vann mót-
ið.
Á þessu móti skapaðist frábær
stemmning, menn nutu virðingar, það
var talað meðal áhorfenda um gömlu
liðin, Hörð og Vestra, rifjuð upp fót-
boltaferðalög … sigrar en ekki svo
mikið talað um ósigrana. Þennan dag
gat ég verið sammála að gaman væri
að spila og horfa á fótbolta. Ég fylltist
stolti þegar ég heyrði á tal manna
sem vísuðu í hvað strákarnir hans
Geira í Vallarborg hefðu alltaf verið
góðir í fótbolta. Ég leit út á völlinn og
sá Hafþór móðurbróður minn í rauðri
fótboltatreyju og svartri skýlu á
fleygiferð inn völlinn, spengilegur,
fallegur og umfram allt góður maður.
Þannig mun ég muna hann.
Elsku Helga, ég sendi mínar inni-
legustu samúðarkveðjur til þín,
barnanna og fjölskyldna þeirra, til
foreldra þinna og systkina þinna og
Hafþórs. Megi góður Guð gefa ykkur
styrk í sorginni og ykkar mikla missi.
Einnig vil ég senda fjölskyldu Birg-
is Bertelsen skipsfélaga Hafþórs mín-
ar innilegustu samúðarkveðjur svo og
áhöfninni á Akureyrinni sem misst
hefur félaga og vini. Þessi áhöfn sýndi
fádæma hugrekki við aðstæður sem
enginn getur gert sér í hugarlund. Í
mínum augum eru þessir menn
hetjur og ég veit að frændi minn hef-
ur verið stoltur af því að vera hluti af
þessu liði.
Kolbrún Sverrisdóttir, Ísafirði.
Ég kynntist Hafþóri fyrst þegar
við vorum saman á togaranum Bald-
vini Þorsteinssyni og síðan lágu leiðir
okkar aftur saman á Akureyrinni.
Hafþór var öruggur og ábyrgur sjó-
maður sem vel kunni til verka. Með
Hafþóri er fallinn frá maður sem
ávallt var mikilvægur hlekkur í góðri
áhöfn. Hafþór hafði einstaklega góða
nærveru og leituðu margir til hans
með ýmis mál, sem úrlausnar kröfð-
ust. Ég mun ávallt minnast Hafþórs
sem félaga sem gott stafaði frá. Ég
votta fjölskyldu hans mína innileg-
ustu samúð á erfiðum tímum.
Leifur K. Þormóðsson,
skipstjóri á Akureyrinni.
HAFÞÓR
SIGURGEIRSSON