Morgunblaðið - 08.11.2006, Blaðsíða 28
28 MIÐVIKUDAGUR 8. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
G
etur verið að vísindi og
trú eigi eitthvað sam-
eiginlegt? Fyrir utan
það að hvort tveggja
er alltumlykjandi
kerfi sem ætlað er – eða var upp-
haflega ætlað – að leita hins end-
anlega sannleika. Einhver sagði
mér (kannski var það lygi) að út-
skýringin á „science“ í gamalli
Brittannicu hafi einfaldlega verið
„sannleikurinn“.
Það má finna að minnsta kosti
tvennt sem vísindi og trú eiga sam-
eiginlegt fyrir utan það að vera
kerfi til að finna sannleikann:
Hvorugt er lýðræðislegt, og hvor-
ugt gengi upp án skírskotunar til
yfirvalds. Vísast má finna ýmislegt
fleira, en látum þetta duga í bili og
athugum nánar.
Að vísu þarf líklega ekki að fara
nákvæmlega út í það með hvaða
hætti trú er hvorki lýðræðisleg né
fengist þrifist án yfirvalds. En vís-
indi? Var það ekki meirihluta-
ákvörðun á vísindamannaþingi
núna um daginn sem svipti Plútó
reikistjörnutitlinum? Sumir héldu
því jafnvel fram að þetta hefði verið
pólitísk ákvörðun, fremur en vís-
indaleg.
Er það ekki einmitt frelsi vís-
indanna undan yfirvaldi sem gerir
þau svo miklu áreiðanlegri en
trúna? Eru ekki skynsemin og
sannleikurinn einu „yfirvöldin“
sem vísindin lúta? Þegar upp-
gangur vísinda og tækni var sem
mestur í byrjun síðustu aldar ríkti
sannkölluð „vísindatrú“. Þeir voru
álitnir hinir mestu kverúlantar og
afturhaldshjassar sem ekki viðruðu
óhefta sannfæringu sína um að vís-
indin og tæknin myndu leysa allan
vanda mannkynsins.
Þetta er gömul saga sem óþarft
er að klifa á. Núna er það viðtekin
skoðun að árangur í vísindum og
tækni hafi verið mikill, en fáir eru
ennþá sannfærðir um að vísindin
geti (að minnsta kosti í prinsippinu)
leitt mannkynið í allan sannleika
um það sem vert er að vita. Þessi
skoðun er svo viðtekin, að jafnvel
páfinn hefur hana. Á fundi í Vís-
indaakademíu Páfagarðs í fyrradag
sagði Benedikt að „maðurinn [geti]
ekki treyst vísindum og tækni svo
fullkomlega og skilyrðislaust að
trúa því að vísindalegar og tækni-
legar framfarir geti útskýrt allt og
fullnægt alveg tilvistarlegum og
andlegum þörfum hans“.
En að hvaða leyti eru vísindin lík
trúnni, og í hverju eru takmarkanir
þessara heimsmynda helst fólgnar?
Í bókinni Vísindabyltingar (sem
væntanlega kemur út í íslenskri
þýðingu undirritaðs í lærdóms-
ritaröð bókmenntafélagsins á
næsta ári) gerði bandaríski heim-
spekingurinn Thomas Kuhn grein
fyrir tvenns konar vísindum. Ann-
ars vegar því sem hann nefndi
„venjuleg“ vísindi og hins vegar
„byltingarkenndum“ vísindum.
Það sem hér skiptir máli er að
svo að segja öll vísindi eru „venju-
leg“ eða skipulögð. Þau bylting-
arkenndu eru eðli sínu samkvæmt
ekki stunduð á skipulagðan hátt.
Öll þau vísindi sem fregnir berast
af dags daglega, og öll vísindi sem
stunduð hafa verið á Íslandi, svo
dæmi sé tekið, eru venjuleg.
Og í venjulegum vísindum gilda
strangar reglur, þar er farið eftir
ákveðnum aðferðum og þar er yf-
irvald reyndra manna jafnan ekki
dregið í efa. Það er ekki sam-
komulagsatriði hvort vísindalegri
aðferð skuli fylgt, og það er ekki at-
kvæðagreiðsla sem sker úr um
hvort vísindaleg tilraun skilar til-
ætluðum árangri. Svona „kreddu-
festa“ er forsenda þess að vísindi
séu marktæk og skili árangri. En
„kreddufestuna“ eiga vísindin sam-
eiginlega með trúnni.
Líkt og kreddufesta er bæði for-
senda trúar og helsta fótakefli
hennar er hin stranga vísindalega
aðferð bæði forsenda vísindanna og
helsta fótakefli þeirra í leitinni að
sannleikanum. Um miðja síðustu
öld gerði þýski heimspekingurinn
Hans-Georg Gadamer ítarlega
grein fyrir þessu eðli vísindanna,
aðferðar þeirra og sannleikans, í
bókinni Sannleikur og aðferð.
Ólíkt kennara sínum, Martin
Heidegger, hafnaði Gadamer þó
ekki vísindum og tækni. En vís-
indalegri aðferð, sagði hann, verður
ekki beitt til árangurs á öllum svið-
um mannlífsins, og hún getur ekki
leitt allan sannleika í ljós. Til dæm-
is fær hún engu áorkað þegar út-
skýra skal þann sannleika sem
finna má í miklum listaverkum. Það
er vegna þess að sá sannleikur sem
um ræðir er fólginn í upplifun ein-
staklingsins, sem aftur ræðst af
sögubundinni mótun hans. Sann-
leikur verksins er ekki fólginn í því
sjálfu. Það má útskýra listaverk
endalaust, en útskýringin nær aldr-
ei utan um sannleikann sem verkið
segir, því hann er ekki í því sjálfu.
Allt er þetta líka vel þekkt saga
sem óþarft er að fara náið í. Þeir
Kuhn og Gadamer áttu hvor með
sínum hætti (og hvor í sinni heims-
álfunni) stóran þátt í að gera grein
fyrir þeim takmörkunum sem vís-
indin eru háð, og núna eru hug-
myndir þeirra næsta viðteknar.
Þær eru þó alls ekki óumdeildar, og
kannski bendir ýmislegt til þess að
vísindin séu á ný – ekki síst vegna
árangurs er náðst hefur í erfða-
fræði, einræktun og stofn-
frumurannsóknum – að öðlast svip-
aðan sess og þau höfðu í byrjun
tuttugustu aldar.
Til marks um þennan uppgang
vísindanna má reyndar hafa sterk
viðbrögð þeirra sem aðhyllast
kenninguna um svokallaða „vits-
munahönnun“, og hafa látið veru-
lega til sín taka í bandarísku skóla-
kerfi á undanförnum árum. Þeir
hafa fyrst og fremst verið að bregð-
ast við því sem þeim finnst vera yf-
irgangssemi hins vísindalega lífs-
viðhorfs, og tillitsleysi þess við
önnur lífsviðhorf. Auðvitað hefur
það ekki sakað fyrir þá, að hafa for-
setann sín megin.
En núna eru menn reynslunni
ríkari, og villast ekki út á sama hála
ísinn og fyrir einni öld, þegar allt
mátti leysa með því að gera það vís-
indalega, og meira að segja var
gerð tilraun til að byggja upp „vís-
indalegt“ þjóðfélag (það hét Sov-
étríkin). Nú hafa menn varann á.
Eða hvað?
Vísindi
og trú
»Kannski bendir ýmislegt til þess að vísindinséu á ný – ekki síst vegna árangurs er náðst
hefur í erfðafræði, einræktun og stofnfrumurann-
sóknum – að öðlast svipaðan sess og þau höfðu í
byrjun tuttugustu aldar.
BLOGG: kga.blog.is
VIÐHORF
Kristján G. Arngrímsson
kga@mbl.is
LAUGARDAGINN 7. október síð-
astliðinn birtist í Blaðinu grein á veg-
um tímaritsins Orðlaus, en Orðlaus er
tímarit ætlað ungum konum sem áður
var sjálfsætt en er nú hluti af Blaðinu.
Textinn sjálfur var stuttur, en með-
fylgjandi voru fjórar myndir. Umfjöll-
unarefnið var tíska og fyrirsæturnar á
myndunum voru tvær
mjög ungar stelpur, lík-
lega á aldrinum 6–9 ára.
Stærsta myndin var af
þeim báðum þar sem
þær sátu fyrir klæddar í
ballkjóla, hlaðnar perlu-
festum og öðru skarti,
málaðar í framan og
með uppsett hár. Einnig
voru þrjár minni myndir
sem sýndu stelpurnar
ýmist hoppa í rúmi,
ganga eftir götu á há-
hæluðum skóm eða
drekka te úr testelli.
Tilgangur myndanna var ekki aug-
ljós við fyrstu skoðun og mátti jafnvel
álykta að greinin ætti að höfða til
barna. Þegar textinn var lesinn varð
sú tilgáta hins vegar ólíkleg þar sem
textinn var í raun lýsing á því hvernig
ýmsar ungar konur hafa sig til áður
en þær fara út á lífið. Þar var talað um
að „allar stelpur hefðu gaman af að
dressa sig upp í fína kjóla, hlaða á sig
skarti, punta sig örlítið … og fá sér
svo te eða eitthvað bragðsterkara“.
Það er frekar ólíklegt að litlar stelpur
eyði eftirmiðdögunum í tedrykkju
þaðan af síður neyslu sterkari
drykkja.
Fyrst greinin virtist vera ætluð
ungum konum hvers vegna voru þá
börn notuð sem fyrirsætur? Hvaða
áhrif ætli það hafi á ungar stelpur að
sjá jafnaldra sína sem kynímyndir og
hvaða mismunandi kvenhlutverk
koma fram?
Það er vel hægt að ímynda sér að
litlar stelpur skoði greinina og taki
innihaldið til sín, sérstaklega þar sem
að talað var um stelpur en ekki konur.
Stelpurnar eru sýndar sem kynverur
og á myndunum er lögð áhersla á að
þær komi fram sem konur frekar en
börn. Myndirnar eru raunar kynferð-
islegar. Á stærstu myndinni horfir sú
ljóshærða beint fram á meðan sú
dökkhærða tyllir höfðinu niður og
horfir eilítið upp. Vegna þess hvernig
sú dökkhærða er klædd verður svip-
urinn á henni bjóðandi og end-
urspeglar eina af staðalímyndum
kvenna; þessa und-
irgefnu, góðu og sætu.
Á myndinni þar sem
þær ganga eftir götu í
hælaskóm, skreyttar
glingri og önnur klædd í
pels kemur ósjálfrátt
upp í hugann, vegna
aldurs þeirra, að þær
séu að leika tvær vænd-
iskonur á leið niður
götu. Á annarri mynd
sem er í raun barnaleg-
ust sjást stelpurnar
hoppa í rúmi. Það sem
truflar á þeirri mynd
eru ermalausu kjólarnir sem þær eru í
og hvernig þeir hafa runnið til svo sést
í hálfbera bringu hjá annarri og bera
handleggi hjá báðum.
Allar myndirnar eiga það sameig-
inlegt að sýna barnungar stelpur í
fullorðinslegum aðstæðum. Greinin á
að vera fyrir ungar konur en börn eru
notuð sem fyrirsætur og þótt ungar
konur séu aðal markhópurinn er
óbeint verið að höfða til lítilla stelpna
sem markhóps. Í markaðsvæðingu
nútímans eru stelpur hvattar til að
byrja snemma að hugsa um útlitið,
gera sér grein fyrir kyni sínu og um
leið stöðu sinni í samfélaginu. Í grein-
inni er ungum konum (litlum stelp-
um?) bent á að gaman sé að drífa sig í
bæinn, skoða og kaupa sér föt og
fylgihluti. Staðalímyndir og myndir
sem koma fram í auglýsingum, sjón-
varpsefni og námsefni hafa áhrif á
börn sem kannski ekki hafa þroska og
skilning til að verjast áhrifum þessara
miðla.
Umræðan um jafnrétti kynjana
hefur tekið kipp á undanförnum miss-
erum og nú þegar fjöldinn allur af
ungum konum eru kannski að gera
sér grein fyrir rétti sínum og getu
skýtur vægast sagt skökku við að
blað eins og Orðlaus, sem stílar inn á
þennan markhóp, birti heilsíðu grein
þar sem litlar stelpur eru sýndar sem
fullorðnar konur. Ef þetta end-
urspeglar almennt viðhorf og vænt-
ingar samfélagsins til lítilla stelpna
má segja að það takmarki verulega
rétt þeirra til að vera börn.
Barnaníðingar og þolendur kyn-
ferðislegs ofbeldis hafa einnig verið í
kastljósinu á síðustu misserum. For-
varnarátakið „Blátt áfram“ er þáttur í
að auka vitund fólks og minnka líkur
á að börn búi við kynferðislegt ofbeldi
í áraraðir án þess að segja frá því. Ef
greinin er skoðuð í ljósi slíks átaks er
hún sérstaklega óviðeigandi, að
mynda litlar stúlkur og breyta þeim í
litlar Lolitur er ekki beint í anda for-
varnarátaks gegn ofbeldi á börnum
og má jafnvel búast við því að þegar
barnaníðingar eða fólk sem þykir
börn kynferðislega æsandi skoðar
myndirnar sjái það ekki fötin og
skartið sem aðalatriði heldur sakleys-
isleg börn í „fullorðinsleik“.
Það er vægast sagt glannalegt og
ábyrgðarlaust að nota börn á þennan
hátt í greinum eða auglýsingum. Þau
eiga rétt á að halda barnslegu sak-
leysi sínu sem lengst og það er skylda
fullorðna fólksins að standa vörð um
þennan rétt.
Barnaleikir?
Sunna Ingólfsdóttir fjallar um
myndibirtingar á börnum í
blaðagreinum og auglýsingum
» Í markaðsvæðingunútímans eru stelp-
ur hvattar til að byrja
snemma að hugsa um
útlitið, gera sér grein
fyrir kyni sínu og um
leið stöðu sinni í sam-
félaginu.
Sunna Ingólfsdóttir
Höfundur er mannfræðinemi
við Háskóla Íslands.
KONUR eru mikilvægar á vett-
vangi stjórnmálanna, eins og alls
staðar annars staðar í þjóðlífinu. Í
sívaxandi mæli eru konur sem betur
fer farnar að láta til sín taka sem er
afar jákvætt í þeim
miklu áskorunum og
hnattvæðingu sem
framundan er. Breytt
hlutverkaskipan og
samskiptamynstur
kynjanna kallar á meiri
samvinnu bæði innan
heimila og utan þeirra,
úti á vinnumarkaðnum
og á öllum stjórn-
stigum ef okkur á að
auðnast að vinna vel og
farsællega úr réttum
tækifærum fyrir börn-
in okkar og komandi
kynslóðir. Þó margt
hafi áunnist í jafnréttismálum, eig-
um við enn langt í land. Við þurfum
að gera okkur fulla grein fyrir því
að jafnrétti á öllum sviðum er ekki
síður hagur karla en kvenna. Kynin
þurfa því að vinna saman og ná sem
fyrst landi í jafnréttismálum til að
gera heiminn lífvænlegri fyrir alla
þjóðfélagshópa, konur, karla og
börn. Við viljum ekki stéttskipt
þjóðfélag. Við þurfum að snúa bök-
um saman og megum ekki sofna á
verðinum einn einasta dag.
Ég hef ákveðið að bjóða krafta
mína fram á hinum pólitíska ís-
lenska vettvangi og stefni á fimmta
til sjötta sætið í prófkjöri sjálfstæð-
ismanna í Suðurkjördæmi sem fram
fer nk. laugardag. Ég vona að fram-
boð mitt megi virka hvetjandi á aðr-
ar konur, sem vilja
hafa skoðun og vilja
einhverju ráða um sitt
nánasta þjóðfélags-
umhverfi og barna
sinna. Þó því beri að
fagna að nýir kven-
frambjóðendur stíga
fram á völlinn, tilbúnar
í pólitískan slag, geri
ég ekki ráð fyrir að
væntanlegir stuðnings-
menn mínir kjósi mig
vegna kynferðisins ein-
göngu heldur miklu
fremur vegna þeirrar
réttlætiskenndar, sem
ég tel mig búa yfir. Afar mikilvægt
er að við Íslendingar sitjum ekki
bara hjá og sættum okkur við þau
efnahagslegu og félagslegu vanda-
mál, sem hér eru uppi, heldur bæt-
um stöðu okkar í þessum mikilvægu
málaflokkum.
Þjóðfélagið okkar er ekki nógu
fjölskylduvænt. Fullorðið fólk vill fá
að njóta samvista við börnin sín eftir
að venjulegum vinnudegi lýkur öðru-
vísi en að vera dauðuppgefið og út-
slitið og eiga svo auk allra annarra
verka, sem bíða, eftir að hjálpa til
við heimanám. Þarna þurfa skólarnir
að koma inn með meiri þjónustu svo
fjölskyldur geti notið samvista í frí-
tímum sínum á uppbyggjandi og
skemmtilegan hátt.
Í okkar litla þjóðfélagi þurfum við
að taka ofbeldismálin föstum tökum
og herða viðurlög gegn slíkum brot-
um. Mig langar ekki að hlusta á það
í kvöldfréttatímum að barnakennari
hafi barnaklám í tölvunni sinni og ég
vil heldur ekki lesa um nauðganir í
dagblöðunum.
Ég vil líka að komið sé fram við
eldri borgara af meiri virðingu en
nú er gert. Sú kynslóð hefur skilað
sínu dagsverki og á rétt á þjónustu
heilbrigðisgeirans þegar nauðsyn
kallar. Þetta fólk, sem hefur rutt
lífsgæðabrautina fyrir okkur hin, á
ekki að þurfa að bíða á biðlistum svo
mánuðum skiptir eftir þjónustu sam-
félagsins og það á ekki að koma til
greina að hjón fái ekki að búa sam-
an á elliheimilum.
Stjórnmálamenn geta alltaf gert
betur. Þeir kandidatar þurfa fyrst
og fremst að komast að sem ekki
bara friða lýðinn með innantómu tali
heldur þeir, sem láta verkin tala.
Jafnrétti fyrir alla
Birgitta Jónsdóttir Klasen
skrifar um jafnréttismál » Í okkar litla þjóð-félagi þurfum við að
taka ofbeldismálin föst-
um tökum og herða við-
urlög gegn slíkum brot-
um.
Birgitta Jónsdóttir
Klasen
Höfundur er náttúrulæknir og býður
sig fram í 5.–6. sætið í prófkjöri sjálf-
stæðismanna í Suðurkjördæmi.
Sagt var: Þeir treystu á hjálp hvors annars.
RÉTT VÆRI: Þeir treystu hvor á annars hjálp.
Eða: Þeir treystu á hjálp hvors við annan.
Gætum tungunnar