Morgunblaðið - 15.04.2007, Blaðsíða 26
stjórnmál
26 SUNNUDAGUR 15. APRÍL 2007 MORGUNBLAÐIÐ
Þ
jóðin á eftir að venjast Ómari Ragn-
arssyni, formanni Íslandshreyfing-
arinnar, í hlutverki stjórnmála-
mannsins enda er stutt síðan
flokkurinn tilkynnti um framboð en
hann hefur ekki stórar áhyggjur af því.
„Ég var í fyrsta skipti í umræðuþætti með
formönnum stjórnmálaflokkanna síðastliðið
mánudagskvöld. Og fólk getur byrjað að dæma
mig.“
Enn á eftir að tilkynna framboðslista í kjör-
dæmum landsins en Ómar segir að búið sé að
finna fólk á listana og verið sér að stilla þeim
upp. „Við kynnum listana einn af öðrum á
næstu dögum og veitum upplýsingar um efstu
menn. Það hefur gengið ágætlega að koma
þessu saman, ásamt málefnahandbók og öðrum
undirbúningi, en auðvitað er þetta heilmikið
handverk, ekki síst þegar horft er til þess að
flokkurinn varð ekki til fyrr en 10. febrúar eða
fyrir tveim mánuðum.“
– Hvað tekur svo við?
„Við stefnum að flokksþingi og erum með
heilmikið innra starf, bæði unga framtíðarfólks-
ins og erum einnig í sambandi við frjálsa bænd-
ur og smábátaeigendur. Við viljum lagfæra
landbúnaðarkerfið og styðja þá bændur sem
vilja fara út úr því. Einnig viljum við gefa veiðar
frjálsar fyrir sex tonna báta með tvær rúllur
sumarmánuðina og opna þannig glugga upp í
kvótakerfið.“
Þarf að undirbúa aðild að ESB
– Þær veiðar eru hrein viðbót við þann kvóta
sem úthlutað hefur verið. Þó segið þið að við
veiðistjórnun þurfi að taka mið af veiðiþoli fiski-
stofna? Skýtur það ekki skökku við?
„Þetta eru það litlir bátar sjáðu til,“ segir
Ómar. „Við förum skemmstu mögulegu leið til
að byrja með. Við teljum þetta ekki það ná-
kvæm vísindi að fiskistofnarnir þoli ekki þessa
litlu báta. En þeir myndu samt hleypa lífi í litlu
sjávarplássin sem hafa liðið fyrir hvernig málin
hafa skipast í kvótakerfinu.“
– Hafið þið reiknað út hversu mikill viðbót-
araflinn yrði?
„Þessar veiðar yrðu einhverjar þúsundir
tonna. Við vitum að á sínum tíma varð spreng-
ing í smábátakerfinu en þeir bátar voru miklu
afkastameiri. Við byrjum svona smátt til að
tryggja að þetta fari ekki úr böndum. Þetta
verður aldrei svo mikið að það muni sporðreisa
fiskveiðistjórnunarkerfið.“
– Stefnið þið að fleiri breytingum?
„Já, það má líka huga að fleiri breytingum
síðar en okkur finnst að það verði að byrja ein-
hvers staðar. Við viljum líka auðlindaákvæði í
stjórnarskrá sem tryggir að auðlindir sjávar og
lands komist aldrei undir yfirráð erlendra að-
ila.“
– Samt talið þið um að innganga í ESB komi
til greina með löngum aðlögunartíma að sjáv-
arútvegsstefnu ESB?
„Við teljum að við gætum engu að síður hald-
ið fullum yfirráðum yfir auðlindinni.“
– Var reynsla Breta ekki önnur af því?
„Á það hefur verið bent af engum öðrum en
Þorsteini Pálssyni, fyrrum formanni Sjálfstæð-
isflokksins, að það kunni að vera möguleiki að
aðlagast sjávarútvegsstefnu ESB án þess að við
missum í raun yfirráðin yfir þessari auðlind. Við
verðum að vera með í ákvarðanatökuferlinu og
teljum að við þurfum að byrja strax að undirbúa
aðild. Í því felst að skilgreina samningsmark-
mið og endurskoða stjórnarskrána – hvort
heimilt er að afsala sér fullveldinu að þessu
leyti. Það tók Eystrasaltsríkin tíu ár að und-
irbúa aðild og við þurfum að hefja þá vinnu. Við
getum ekki setið hjá og látið tímann renna okk-
ur úr greipum. Ef krónan reynist ónýt verður
þessi undirbúningur að liggja fyrir.“
– Ertu þá fylgjandi upptöku evru?
„Ég óttast að við munum neyðast til að taka
smám saman upp evru. Það þýðir ekki að ég sé
því endilega fylgjandi á morgun að taka þennan
gjaldmiðil upp. En ég óttast að þróunin verði sú
að við neyðumst til þess og það þýðir að við
neyðumst til að ganga í ESB. Efnahagsóstjórn
síðustu ára hefur komið krónunni í þessa
stöðu.“
– Þið talið um að strendur og haf eigi að njóta
ýtrustu verndar?
„Við viljum auka sjávarrannsóknir jafnframt
því að náttúra landsins verði skoðuð, þannig að
eftir fimm ára stóriðjuhlé, sem meirihluti þjóð-
arinnar aðhyllist núna, liggi fyrir ítarlegar
rannsóknir á verðmæti íslenskrar náttúru sem
þessar stjórnlausu virkjanir eru á góðri leið
með að umturna. Og hér kemur aðalatriðið,“
segir Ómar með áherslu og velur hvert orð
gaumgæfilega:
„Verðmæti íslenskrar náttúru er miklu meira
en nokkur önnur verðmæti sem okkur hefur
verið falið að viðhalda og varðveita fyrir afkom-
endur okkar og mannkynið allt. Þess vegna eru
þessar kosningar svona mikilvægar – við erum
að kjósa um hagsmuni kynslóðanna sem eru
ófæddar. Við erum að kjósa langt inn í framtíð-
ina. Á hliðstæðan hátt og árið 1971 var kosið um
landhelgina og árið 1908 um sjálfstæðið. Okkar
hlutverk er að tryggja að sá vilji þjóðarinnar
komi fram að gert verði 5 ára stóriðjuhlé.
Stjórnlausar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir
munu þegar upp verður staðið kosta alla orku
landsins og vinna stórkostlegt tjón á þessari
ómetanlegu náttúru. Það verður að staldra við
og ná áttum.“
– Það fer ekkert á milli mála að þér líður vel í
umræðum um stóriðju og virkjanir en ertu ekki
á sama heimavelli í öðrum málaflokkum?
„Ég held ég sé sæmilega að mér í fleiri mála-
flokkum, til dæmis samgöngumálum og
byggðamálum. Við byggjum stefnu okkar ein-
mitt á því að hleypa nýju lífi í byggðir landsins,
efla vistvænan landbúnað og vistvænar fisk-
veiðar og stuðla að því að menningarlandslag
svokallað sé varðveitt, að heilu og hálfu sveit-
irnar leggist ekki í eyði og breytist í sumarbú-
staðalönd. Við erum eina framboðið sem leggur
áherslu á að stöðva jarðvegseyðinguna, efla
landgræðslu og skipuleggja beit.“
Skylda okkar að bíða
– Þið viljið sem sagt hverfa aftur til smábáta-
útgerðar, varðveita menningarlandslag, stöðva
stóriðjuframkvæmdir og snúa við byggðaþróun
í sveitum landsins – eruð þið flokkur aft-
urhvarfs og stöðnunar?
– Nei, við ætlum að fara sömu leið og Finnar
fóru. Þeir virkjuðu ekki fyrir verksmiðjur held-
ur fóru út í að efla þekkingar- og hátækniiðnað,
sem skapað hefur finnska hátækniundrið. Það
er okkar leið.“
– En er það ekki líka stóriðja?
„Hluti af þeim iðnaði þarfnast orku en ef
Finnar hefðu talið álver betri kost hefðu þeir
farið þá leið. Orkufrekustu hugbúnaðarfyr-
irtækin skapa tvisvar til þrisvar sinnum fleiri
störf en álver, eru án mengunar og virðisaukinn
er margfalt meiri en í álverum.“
– Er það ekki virkjunarstefna eftir sem áður?
„Við ættum að bíða eftir niðurstöðum úr til-
raunum með djúpboranir sem hugsanlega gætu
gert okkur kleift að ná margfaldri orku upp úr
hverju virkjanastæði. Ef ekki verður gert hlé,
þá gætum við staðið frammi fyrir því eftir 10 til
15 ár að hafa virkjað á margfalt stærra svæði en
nauðsynlegt var og þá verður of seint að iðrast.“
– En það er ekki gefið að sú tækni muni koma
fram?
„Nei, en það er skylda okkar að bíða samt.
Framkvæmdastjórar fyrirtækjanna sem eru í
þekkingar- og hátækniiðnaðinum kvarta sáran
undan ruðningsáhrifum stóriðjuframkvæmd-
anna með þenslu, okurvöxtum og geng-
issveiflum. Þess vegna er nauðsynlegt að gefa
þessum vaxtarbroddum tækifærin sem beðið er
um. Það þarf ekki mikinn efnahagssérfræðing
til að halda þessu fram.“
– En Íslendingar leggja síst minna til rann-
sókna en aðrar þjóðir; höfum við ekki þegar far-
ið finnsku leiðina?
„Mesta verðmæti okkar í dag, náttúran, hef-
ur ekki fengið neitt af þessum rannsókn-
arfjármunum. Og við erum búnir að benda á
það í tvo mánuði að þekkingin og verkkunn-
áttan í virkjanatækninni getur orðið einhver
stórkostlegasta útrás sem við eigum völ á, jafn-
vel meiri en útrás bankanna, og myndi gagnast
þeim þjóðum sem þurfa sárlega á því að halda
að virkja endurnýjanlega og hreina orku og eru
sumar hverjar það fátækar að það yrði mikil
búbót fyrir þær.“
Ómar hallar sér fram á borðið:
„Ég get sagt þér dæmisögu: Ef það væri
skortur á gulli og silfri í heiminum og tilkynnt
að allir ættu að bræða eins mikið gull og silfur
og þeir gætu myndu menn fyrst bræða borð-
búnað og þetta hversdagslega og síðast fræg-
ustu styttur heims. Íslensk náttúra í sam-
anburði við náttúru annarra landa er eins og
frægasta stytta heims samanborið við venjuleg-
an borðbúnað. Þú byrjar ekki á frægustu stytt-
unni heldur fórnar henni síðast. Að sama skapi
fórnarðu ekki fyrst náttúru sem er eitt af sjö
undrum heims að bestu manna yfirsýn heldur
gerir það síðast.“
Þá verður of sei
Ómar Ragnarsson hefur verið
aufúsugestur heima í stofu
hjá þjóðinni áratugum saman
sem sjónvarpsmaður. En ný-
verið söðlaði hann um og
gerðist formaður nýs stjórn-
málaafls, Íslandshreyfing-
arinnar, sem býður fram til
Alþingis í vor. Pétur Blöndal
talaði við hann um stofnun
stjórnmálaflokks á tveim
mánuðum, viðtökurnar og
nýtt hlutverk, málefnin sem
sett hafa verið á oddinn, kjör-
orð flokksins og Staksteina og
allt hitt sem bar á góma.