Morgunblaðið - 04.05.2007, Side 38
38 FÖSTUDAGUR 4. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Benedikt Stein-þórsson fæddist
11. maí 1984. Hann
lést 26. apríl síðast-
liðinn. Foreldrar
hans eru Steinþór
Benediktsson, f. 17.
október 1959, og
Guðrún Björk
Benediktsdóttir, f.
17. september
1963, þau slitu
samvistir.
Eiginkona Stein-
þórs er Hildur
Guðbjörnsdóttir, f.
18. maí 1958, sonur þeirra er
Brynjar, f. 28. janúar 1996. Son-
ur Hildar er Björn Þór Jóhanns-
son, f. 13. janúar 1987. For-
eldrar Steinþórs eru Matthildur
Guðbrandsdóttir, f. 23. maí
1921, og Benedikt Þorvaldsson,
f. 22. júlí 1915.
Maður Guðrúnar
Bjarkar er Hregg-
viður G. Þor-
steinsson, f. 8. jan-
úar 1946. Börn
þeirra eru Jón
Gunnar, f. 28. jan-
úar 1999, Þóra
Kristín, f. 20. júní
2001, og Katrín
Ágústa, f. 21. maí
2005. Synir Hregg-
viðs eru Þorsteinn,
f. 4. febrúar 1970,
Sigurgeir Þór, f. 9.
september 1976, og
Ólafur Týr, f. 8. apríl 1978. For-
eldrar Guðrúnar Bjarkar eru
Jóna B. Guðlaugsdóttir, f. 15.
nóvember 1936, og Benedikt J.
Ágústsson, f. 16. júlí 1931.
Útför Benedikts verður gerð
frá Grafarvogskirkju í dag og
hefst athöfnin klukkan 13.
Elsku drengurinn, það ríkir mik-
ið tómarúm og mikil sorg í hjörtum
okkar, fjölskyldunnar þinnar í
Laufrimanum og skelfilega er sárt
að horfa á eftir þér. Við eigum ekk-
ert val með hvernig allt fór og það
er mikið búið að gráta, en við eig-
um margar dásamlegar minningar
um þig og þær munu ylja okkur
um hjartaræturnar og gefa okkur
gleðistundir um ókomin ár.
Ein af bestu minningunum okkar
er hversu einstaklega mikið ljúf-
menni þú varst og hve þú varst
bóngóður. Ef við spurðum þig til
dæmis hvort þú gætir komið og
verið með Brynjari bróður þínum,
þá þurftum við ævinlega að passa
okkur á því, að komast að því fyrst,
hvort þú hefðir verið búinn að gera
einhverjar áætlanir sjálfur, því þú
sagðir alltaf já og lést aðra alltaf
ganga fyrir.
Við töluðum oft um það og dáð-
umst að því hversu þolinmóður þú
varst við Brynjar, enda var ekki
lítil tilhlökkun hjá honum þegar þú
komst til að passa hann og marga
daga á undan var skipulagt hvað
þið mynduð nú gera saman. Há-
punkturinn, rétt fyrir páska, var
svo að fá að fara með þér í hest-
húsin til að gefa hestunum.
Lífið hefur ekki alltaf verið auð-
velt hjá þér elsku vinur og þú
þurftir að glíma við ýmislegt, bara
barn að aldri. Þú veiktist af heila-
himnubólgu 4 ára og fékkst
krabbamein aðeins 6 ára. Það er
ekki lítið lagt á litla sál, en þú
hvorki kvartaðir né kveinaðir og
yfirvannst hvoru tveggja.
Ég held að góður matur, sé eitt
af því sem var svo gott að gleðja
þig með og þegar eitthvað stóð til á
heimilinu var nú ekki langt í þig til
að fá að smakka allt góðgætið. Það
er minnisstætt þegar þú varst mun
yngri og varst að koma til okkar
um helgar, að þá var gjarnan það
fyrsta sem þú sagðir þegar þú
komst inn í bílinn; „Hvað er í mat-
inn um helgina“? Við áttum saman
okkar síðustu samverustund nú um
páskana en þá fórum við saman í
fermingarveislu. Þá voru allir
uppábúnir, glaðir og kátir og þú
svo yndislega fallegur og glæsi-
legur og við mikið stolt af strákun-
um okkar. Þessi stund verður okk-
ur öllum ómetanleg.
Elsku yndislegi og ljúfi dreng-
urinn okkar, við pabbi þinn ásamt
Brynjari og Birni Þór þökkum þér
samfylgdina og biðjum góðan Guð
að vera með þér og okkur öllum í
sorginni.
Við fjölskyldan vottum öllum
öðrum aðstandendum okkur dýpstu
samúð.
Hildur.
Kæri vinur, nú er ég sest niður
til að skrifa þér kveðju brjótast
tárin fram og get ég ekki varist
gráti yfir því óréttlæti að þú ert
farinn frá okkur.
Tilvera okkar er undarlegt ferða-
lag, segir í kvæði Tómasar Guð-
mundssonar, Hótel Jörð, og mis-
jafnlega er okkur gefið í byrjun. Á
unga aldri fékkst þú fljótt að kynn-
ast hörku lífsins og grimmd er þú
barðist fyrir lífi þínu og vannst fyr-
ir kraftaverk harða orustu við
dauðann. Með hjálp hinna frábæru
lækna Jóns og Guðmundar og
starfsfólks Barnaspítala Hringsins
hafðir þú betur í það skiptið. Þeim
tókst að lækna þig af krabbameini
og hrifsa úr klóm dauðans. Veik-
indi þín settu mark sitt á þig upp
frá því, handaskjálfti þinn var auð-
sær og ugglaust voru fleiri ör er
ekki sáust og voru öðrum en þér
ekki ljós. Þú tókst þessu mótlæti
með æðruleysi sem einkenndi þig í
þessari hörðu rimmu.
Nú þegar maðurinn með ljáinn
hefur haft betur, þá verðum við að
sætta okkur við að missa þig kæri
vinur, því allt sem lífið lánaði dauð-
inn krefst, eins og Tómas segir í
kvæði sínu. Við erum þó þakklát
fyrir að hafa fengið að hafa þig hjá
okkur þessi viðbótarár. Ég vil
þakka þér prúðmennsku, góðvild
og ást til systkina þinna Benni
minn, kurteisi við mig og okkur öll
á heimili okkar, þar bar aldrei
skugga á. Ég vil þakka þér dugnað
þinn er við unnum saman fyrir
austan, þá þurfti ég ekki loftpress-
ur eða önnur áhöld, nóg var að þú
værir á sleggjunni, steyptir veggir
og gólf brotnuðu eins og fúaspýtur
og steinflísar flugu um loftið, þá
var eins gott að vera ekki fyrir. Ég
tek undir með honum Úlfari vinnu-
veitanda þínum austur í Fljótshlíð
er hann átti við mig orð um þig og
sagði: „Ég hef aldrei kynnst öðrum
eins dugnaði og ofurmennskum
krafti í ungum manni við vinnu,
hann gekk í allt með þvílíkum
krafti og einstökum dugnaði og svo
var hann einstakt glæsimenni á
velli.“ Já í Fljótshlíð var nú stadd-
ur jafnoki Gunnars sem forðum bjó
á Hlíðarenda að kröftum og glæsi-
leika, hefðu þeir verið samtíða-
menn.
Hið flókna regluverk samfélags-
ins þar sem skólinn er líklega einn
mikilvægasti þátturinn í uppeldi
okkar er við erum ung brást er þú
mættir aftur í skólann eftir veik-
indin. Þú varðst fyrir grimmu ein-
elti sem þér reyndist erfitt að
vinna úr frá því og varðst frábitinn
skólagöngu. Þrátt fyrir breytingu
og umskipti á högum þínum hvað
þetta varðaði er þú fluttist í Árbæ-
inn var það ekki nóg, sálin var
brotin og sjálfsmatið skert hvað
skólagöngu varðaði. Metnaður þinn
til að tryggja þér þægilegt sæti inn
í framtíðina með að ljúka trésmíð-
inni var ekki til staðar, annað átti
hug þinn síðustu misserin. Ferða-
lag þitt um djúpa dali og dimm fjöll
var okkur því miður ekki ljóst. Þótt
þú værir vinmargur og vissir af
Benna afa og Jónu ömmu í Safa-
mýrinni, sem þú gast ávallt leitað
til, þá virðum við ákvörðun þína
kæri vinur.
Ég veit þó með vissu Benni
minn, að sæti þitt hjá hinum
„æðsta himnasmið, skapara himins
og jarðar“ verður þér verðugt. Guð
veri með þér kæri vinur, hafðu
þökk fyrir allt.
Hreggviður Þorsteinsson.
Það er erfitt að finna orð sem
lýsa því þegar maður missir ein-
hvern eins og þig kæri Benni. Þú
varst ungur að árum þegar þú
komst inn í fjölskyldu okkar. Við
höfðum eignast fósturbróður. En
þú hafðir þann mann að geyma, að
smám saman tengdumst við sterk-
um böndum og svo fór að við litum
á þig sem albróður okkar. Þú varst
bæði góður og skemmtilegur bróðir
sem við gátum treyst á. Sem betur
fer eigum við margar góðar minn-
ingar um þig sem hjálpa okkur að
takast á við sorgina. En það er
víst, að þín verður sárt saknað.
Sigurgeir Þór og Ólafur Týr.
„Enginn veit hvað átt hefur fyrr
en misst hefur.“
Ég átti svo erfitt með mig þegar
ég hafði áttað mig á hvað hafði
gerst. Á sama tíma og maður
reyndi að ná áttum, rigndi yfir mig
endalausum minningum, minning-
um sem mér þykir afar vænt um.
Hugsunin ein um að þurfa kveðja
einhvern svo nákominn sér, er svo
fjarstæð að ég hefði aldrei getað
ímyndað mér hversu erfitt þetta
yrði. Sú tilhugsun yljar manni í
gegnum sorgina að vita að þú ert
nú kominn á mun betri stað og
munt vaka yfir okkur fjölskyldunni.
Þú munt gera eins og þú gerðir áð-
ur, að líta eftir mér. Þú munt brosa
og hrópa hátt „áfram“ þegar þú
horfir á Brynjar litla bróður okkar
keppa í fótbolta. Þú munt hér eftir
sem áður alltaf vera hjá okkur.
Þegar ég var 4 ára kynntist ég
Benna, þegar móðir mín og faðir
hans tóku saman. Ég hafði þá eign-
ast annan eldri bróður sem var ná-
lægt mér í aldri og sem ég gat litið
upp til og apað eftir. Ég var svo
upp með mér og ég gerði óspart í
því að hreykja mér af honum
Benna bróður mínum við vini mína.
Í mínum augum var Benni líkt og
pabbi hans, sterkasti maður sem ég
hafði kynnst. Það sem ég gat ekki
gert, gat Benni alltaf bjargað mér
með. Þeir bestu tímar sem ég og
Benni áttum saman voru hérna
heima í Laufrimanum, þar lékum
við okkur gjarnan tímunum saman
í Lego. Við höfðum þar reist heila
Lego-borg. Í borginni var Benni
forseti, en þar sem ég var yngri
fékk ég að vera borgarstjóri.
Þegar ég hugsa um Benna, er
brosið það fyrsta sem kemur upp í
huga mér. Brosið gat hrifið alla
með sér og það var hans kostur.
Minningin sem ég á um þig
Benni minn, er svo sterk og góð.
Hún mun lifa með mér alla ævi.
Fyrst um sinn verður erfitt að bera
hana, en með tímanum mun ég
læra að lifa með henni.
Ég kveð nú að sinni með sorg í
hjarta.
Björn Þór J.
Þessi glaði, prúði og brosmildi
drengur er fallinn frá. Við sem eft-
ir sitjum eigum erfitt með að skilja
þessi örlög og hans er sárt saknað.
Hugurinn reikar til baka. Lítill
og ljúfur drengur að koma í heim-
sókn til afa og ömmu í Safamýrina
og hitta allt fólkið. „Ég er kominn“
var það fyrsta sem hann sagði um
leið og hann kom inn um dyrnar
með foreldrum sínum. Á eftir var
mikið fjör. Hann söng mikið og var
sífellt á ferðinni, alltaf glaður og
brosandi.
Foreldrar Benna skildu og flutti
hann í fyrstu með móður sinni
heim til afa og ömmu þar sem hann
var augasteinn þeirra. Þar dvaldi
hann mikið og var ekki gamall þeg-
ar hann fór á sjó með afa og hjálp-
aði honum.
Ský dró fyrir sólu er hann veikt-
ist af hvítblæði aðeins fimm ára
gamall. Næstu árin fóru í baráttu
við þennan hættulega sjúkdóm,
miklar lyfjagjafir, einangrun og
sjúkrahúsdvöl. Inn á milli var hann
hann heima og gat sótt skóla. Hann
átti auðvelt með að læra en leið
ekki vel í skólanum þar sem honum
var ekki sýndur mikill skilningur
vegna veikinda hans. Hann sigr-
aðist á veikindunum en þau settu
sitt mark á hann og hann leið mikið
fyrir handskjálfta sem var afleiðing
þeirra.
Benni lék sér mikið við frændur
sína og margt var brallað. Mikið
leikið heima og oft var farið upp í
sumarbústað. Það voru ófáar
stundirnar sem fóru í að byggja
kofa, rífa hann aftur, byggja annan,
spila fótbolta, sigla á tjörninni sem
afi hafði útbúið eða leita að lækja-
lontu. Tíminn leið við leik og best
leið Benna þegar hann hafði nóg að
gera enda kraftmikill strákur. Síð-
ar var farið saman á rúntinn, í bíó,
í tölvur eða bara að spjalla.
Á unglingsárunum flutti Benni í
Árbæinn með móður sinni, fóstur-
föður og fóstbræðrum. Hann hafði
líka eignast lítinn bróður, Jón
Gunnar, sem hann var mjög hrifinn
af. Tveimur árum seinna fæddist
Þóra Kristín og síðar kom Katrín
Ágústa. Systkinin voru mjög hænd
að bróður sínum enda var hann
mikil barnagæla og naut samveru-
stundanna með þeim. Missir þeirra
mikill.
Í Árbænum eignaðist hann
marga félaga eins og hann kallaði
þá og leið vel. Hann byrjaði að
læra húsasmíði en hætti og fór að
vinna við smíðar. Hann var forkur
til vinnu og ósérhlífinn til allra
verka.
Benni talaði við mig um að klára
námið í húsasmíðinni og setjast á
skólabekk með frænda sínum helst
í haust. Hann hafði mikið á prjón-
unum og hlakkaði til framtíðarinn-
ar.
Hann var skemmtilegur og góð-
ur drengur sem gaman var að um-
gangast.
Elsku Benni við söknum þín og
skarð þitt verður ekki fyllt. Megi
góður Guð gefa fjölskyldum þínum
styrk til að takast á við þessa
miklu sorg sem fráfall þitt er.
Bára og fjölskylda.
Það er óskaplega sorglegt að
setjast niður og skrifa minning-
Benedikt Steinþórsson
Benni var góður frændi.
Hann var alltaf brosandi og í
góðu skapi þegar við hittum
hann. Benni var duglegur mað-
ur, líka hjálpsamur og
skemmtilegur. Hann var einn
besti frændi okkar og hann var
mjög duglegur að vinna. Svo á
hann allt gott skilið og við vit-
um að Guð tekur vel á móti hon-
um.
Kveðja, litlu frændsystkinin,
Bjarki Páll og Helena Sara.
HINSTA KVEÐJA
✝ GuðbjörgValdadóttir
fæddist í Vest-
mannaeyjum 12.
október árið 1914.
Hún lést á hjúkr-
unarheimilinu
Garðvangi í Garði
27. apríl síðastlið-
inn. Hún var dóttir
hjónanna Valda
Jónssonar frá Stein-
um í Austur-
Eyjafjallahreppi í
Rangárvallasýslu
og Guðrúnar Stef-
ánsdóttur frá Skála í Vestur-
Eyjafjallahreppi. Guðbjörg átti
sjö alsystkin sem öll eru látin og
fimm hálfssystkin samfeðra.
Guðbjörg giftist Þorsteini
Zophoníasi Aðalbjörnssyni, d.
1982. Hann var sonur Aðalbjörns
Björnssonar frá Stóru-Þverá í
Holtshreppi í Skagafirði og Að-
alheiðar Þorsteinsdóttur frá
Helgustöðum í Haganeshreppi í
Skagafirði. Guðbjörg og Þor-
steinn eignuðust sjö
börn, þau eru: 1)
Heiðar, f. 1935,
kvæntur Ingibjörgu
Önnu Gísladóttur,
2) Kristinn Erlend-
ur, f. 1938, d. 2002,
3) Guðrún, f. 1939,
gift Jónasi Jóhanns-
syni, 4) Jóhann, f.
1942 kvæntur Sig-
urbjörgu Helgu
Bjarnadóttur, 5)
Leó Jóhannes, f.
1948, kvæntur Guð-
rúnu Alfreðsdóttur,
6) Valbjörn Óskar, f. 1953 og 7)
Jón, f. 1955.
Guðbjörg og Þorsteinn hófu bú-
skap á Siglufirði og bjuggu þar
fram til ársins 1968. Það ár fluttu
þau í Garðinn á Suðurnesjum. Ár-
ið 1998 flutti Guðbjörg á hjúkr-
unarheimilið Garðvang, þar sem
hún dvaldi til hinstu stundar.
Útför Guðbjargar verður gerð
frá Útskálakirkju í dag og hefst
athöfnin klukkan 14.
Látin er tengdamóðir mín Guð-
björg Valdadóttir eftir stutta
sjúkralegu tæplega 93 ára að aldri.
Bubba eins og hún var alltaf köll-
uð var sæmilega heilsuhraust og
sýnir það sig í því hvað hún var dug-
leg að gera handavinnu. Alltaf var
hún að gera eitthvað fallegt í föndr-
inu og eiga margir ættingjar hennar
fallega hluti eftir hana.
Elsku Bubba nú er komið að
kveðjustund. Okkur hjónum þykir
sárt að hafa ekki verið heima þegar
þú kvaddir en við vorum búin að
koma heim eftir að þú varst rúmföst
og dvöldum þá heima í viku og erum
sátt við að hafa hitt þig meðan þú
þekktir okkur og fagnaðir okkur
alltaf jafn vel. Nú ertu búin að hitta
hann Steina þinn. Þú varst nú farin
að þrá að fá hvíldina. Þau tæp 50 ár
sem ég er búin að þekkja þig hefur
aldrei borið skugga á samband okk-
ar. Eftir að þið Steini fluttuð í Garð-
inn var alltaf stutt á milli okkar, og
varst þú stundum hjá okkur eftir að
þú varst ein heima áður en þú fórst
á Garðvang. Margs er að minnast
frá þessum árum en ég held að okk-
ur hjónum og sonum okkar fimm sé
minnisstæðast þegar þú fórst með
okkur öllum til Hollands í sumarfrí.
Það var mjög gaman og oft hefur sú
ferð verið rifjuð upp.
Árin sem Bubba dvaldi á Garðv-
angi naut hún mikillar umhyggju,
bæði andlegrar og líkamlegrar og á
starfsfólkið þar bestu þakkir skild-
ar.
Við burtför þína er sorgin sár
af söknuði hjörtun blæða.
En horft skal í gegnum tregatár
í tilbeiðslu á Drottin hæða.
og fela honum um ævi ár
undina dýpstu að græða.
(Guðrún Jóhannsdóttir.)
Að lokum þakka ég tengdamóður
minni samveruna og ég veit að hún
kvaddi þennan heim sátt við lífið og
tilveruna.
Kveðja,
Helga S. Bjarnadóttir.
Þá er komið að kveðjustund,
elsku amma mín. Við vorum öll svo
heppin að eiga þig að í 92 ár en nú
ertu komin til afa og mömmu og
pabba. Það er svo margs að minnast
á svona langri ævi. Ég gæti skrifað
heila bók um þig og minningarnar
mínar með þér. Sumrin mín hjá þér
á Sigló og þegar þú passaðir stund-
um fyrir mig tvö eldri börnin mín.
Þegar þú hjálpaðir pabba með heim-
ilið þegar mamma dó og afi Steini dó
sama ár.
Mig skortir orð til að lýsa hvað þú
varst yndisleg manneskja og besta
amma í heimi, þannig að mig langar
að þakka þér fyrir samfylgdina í
gegnum lífið. Að þekkja þig var gott
veganesti.
Ég votta öllum aðstandendum,
börnum þínum, tengdabörnum og
barnabörnum, sem þótti svo vænt
um þig, mína dýpstu samúð.
Þín
Guðbjörg (Bubba).
Guðbjörg Valdadóttir