Morgunblaðið - 04.05.2007, Síða 42
42 FÖSTUDAGUR 4. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Pétur Péturssonfæddist á Eyr-
arbakka 16. október
1918. Hann lést á
hjúkrunarheimilinu
Droplaugarstöðum
23. apríl síðastlið-
inn. Foreldrar hans
voru Elísabet Jóns-
dóttir frá Eyvind-
armúla í Fljótshlíð,
f. 4. desember 1878,
d. 23. nóvember
1969, og Pétur Guð-
mundsson frá Vota-
mýri á Skeiðum,
kennari og skólastjóri á Eyr-
arbakka, f. 17. maí 1858, d. 8. maí
1922. Systkini Péturs voru: Jón
Axel, f. 29. september 1898, d. 8.
júní 1980, Steinunn, f. 20. apríl
1901, d. 8. ágúst 1911, Nellý, f. 1.
júní 1903, d. 30. apríl 1981, Guð-
mundur, f. 10. september 1904, d.
29. febrúar 1972, Ásgeir, f. 15.
febrúar 1906, d 17. maí 1992, Auð-
ur, f. 28. júlí 1907, d. 10. nóvember
1985, Tryggvi, f. 25. nóvember
1909, d. 20. febrúar 1998, Stein-
unn Bergþóra, f. 7. október 1912,
d. 20. september 2001, Ásta, f. 21.
júní 1915, d. 5. júní 1938, og Berg-
steinn, f. 31. október 1920, d. 20.
ágúst 1921. Systkini þeirra sam-
feðra voru Petrúnella, f. 6. nóv-
ember 1890, d. 11. júní 1958, og
Haraldur, f. 15. ágúst 1895, d. 1.
janúar 1982.
Pétur gekk 8. mars 1941 að eiga
Birnu Jónsdóttur, f. í Kaupmanna-
höfn 2. desember 1919, d. 7. maí
2003, dóttur hjónanna Önnu Þor-
Helgason, f. 19. júlí 1974. Börn
þeirra Jón Múli Egilsson Prunner,
f. 1997 og Guðný Margrét, f. 2000.
Pétur fluttist til Reykjavíkur
með móður sinni og systkinum
haustið 1923. Hann gekk í Barna-
skóla Reykjavíkur og Landakots-
skóla. Þrettán ára hóf hann störf
sem sendisveinn hjá Útvegsbanka
Íslands og vann þar síðar sem
bankamaður til 1942. Pétur stund-
aði nám við lýðháskólann í Tärna í
Svíþjóð og Pitman’s College í
Bretlandi á árunum 1937–38. Árið
1941 var hann ráðinn þulur við
Ríkisútvarpið og starfaði þar til
1955. Hann starfaði við versl-
unarrekstur eftir að hann hætti
hjá Ríkisútvarpinu og var um tíma
umboðsmaður skemmtikrafta og
listamanna. Árið 1970 kom Pétur
aftur til starfa í Ríkisútvarpinu og
starfaði þar út starfsævina.
Pétur ritaði mikið um söguleg
efni, hann var verkalýðssinni og
safnaði heimildum úr sögu ís-
lenskrar verkalýðsbaráttu. Einnig
skrifaði hann fjölmargar greinar
um sögu og samtíð í ýmis blöð,
einkum í Morgunblaðið hin síðari
ár. Árið 2001 kom út bókin Úr fór-
um þular með frásögnum Péturs.
Einnig annaðist hann ásamt Har-
aldi Jóhannssyni útgáfu á heim-
ildum um drengsmálið, Réttvísin
gegn Ólafi Friðrikssyni. Pétur
gerði fjölda útvarpsþátta, einkum
viðtalsþætti við merka sam-
tímamenn sína. Fjölmargir sagn-
fræðingar og höfundar fræðirita
leituðu til Péturs vegna rannsókna
sinna enda var þekking hans á
mannlífi fyrri tíma einstæð. Útför
Péturs verður gerð frá Dómkirkj-
unni í Reykjavík í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.
grímsdóttur og Jóns
Bjarnasonar, héraðs-
læknis á Kleppjárns-
reykjum í Borg-
arfirði. Pétur og
Birna eignuðust eina
dóttur, Ragnheiði
Ástu, f. 28. maí 1941.
Fyrri maður Ragn-
heiðar Ástu var
Gunnar Eyþórsson, f.
23. júní 1940, d. 18.
ágúst 2001. Þau
skildu. Börn þeirra
eru: 1) Pétur, f. 18.
mars 1960, kona hans
er Anna Margrét Ólafsdóttir, f. 27.
júlí 1960. Börn þeirra eru Ragn-
heiður Ásta, f. 1980, í sambúð með
Einari Erni Þorvaldssyni, sonur
þeirra Brynjar Bragi, f. 2006,
Anna Lísa, f. 1983, unnusti Hannes
Pétur Jónsson, f. 1982, og Pétur
Axel, f. 1995. 2) Eyþór, f. 9. sept-
ember 1961, kona hans er Ellen
Kristjánsdóttir, f. 8. maí 1959.
Börn þeirra eru Sigríður, f. 1981, í
sambúð með Þorsteini Einarssyni,
börn þeirra Ellen, f. 2005 og
drengur, f. 2007, sonur Sigríðar
og Péturs Snorrasonar er Snorri,
f. 2002, Elísabet, f. 1986, Elín, f.
1991 og Eyþór Ingi, f. 1997. 3)
Birna, f. 12. mars 1965, maður
hennar er Árni Daníel Júlíusson, f.
31. júlí 1959. Börn Árna eru Ari
Júlíus, f. 1990 og María, f. 1992.
Seinni maður Ragnheiðar Ástu
var Jón Múli Árnason, f. 31. mars
1921, d. 1. apríl 2002. Dóttir þeirra
er Sólveig Anna, f. 29. maí 1975,
maður hennar er Magnús Sveinn
„Það er gaman að vera maður“
voru einkunnarorð elsku afa míns í
ellinni. Og það var sannarlega gaman
að vera barn í félagsskap hans; hann
hafði yndi af börnum og sjaldgæfan
skilning á barnssálinni, var þolinmóð-
ur og blíður, og gleði hans að gleðja
okkur barnabörnin sín. Þar eins og í
öðru voru þau samstiga, afi og amma.
Þau kynntust síðla sumars 1940 og
leiddust alla tíð síðan, hún var alltaf
elsku stúlkan hans og hann var ástin
hennar. Þau voru ólíkar manneskjur
en bæði gamansöm og umburðarlynd
og alltaf tilbúin að greiða götu allra
sem til þeirra leituðu. Þau voru fund-
vís á það skoplega í tilverunni og
gerðu sér og öðrum lífið skemmtilegt.
Ást þeirra á einkadóttur sinni var
einstök og þau voru ung og glöð þegar
barnabörnin fæddust. Bræður mínir
bjuggu með móður okkar á heimili
þeirra fyrstu æviár sín og við áttum
þar öll okkar annað heimili, umvafin
kærleika og gleði hjá greindu og
skemmtilegu fólki. Ég er viss um að
fá börn hafa verið jafn elskuð af afa
sínum og ömmu og við systkinin.
Afi var okkur systkinunum öllum
sem besti faðir. Hann kenndi okkur
vísur og kvæði, fræddi okkur um nátt-
úru og sögu, vakti forvitni og náms-
vilja, hvatti og hrósaði. Hann bannaði
aldrei útskýringalaust og neitaði aldr-
ei bón ef nokkur vegur var að verða
við henni, en ef hugurinn dvaldi við
það sem ekki gat orðið fann hann æv-
inlega leið til að snúa athygli okkar að
því sem vakti kátínu og gleði.
Margar af mínum ljúfustu
bernskuminningum tengjast sam-
verustundum okkar afa.
Í minningunni lifa ótal ævintýra-
ferðir; æsilegust sú sem var farin á
ógnarhraða niður Skálholtsstíg á
skíðasleða og endaði næstum úti í
Tjörn, en oftast leiddi hann mig við
hönd sér og það var alltaf eins og tím-
inn væri endalaus. Þolinmæði hans
var sannarlega takmarkalaus og það
var skemmtilegra að ganga um bæinn
með honum en nokkrum öðrum. Þeg-
ar við gengum meðfram Tjörninni
sagði hann mér ótal sögur, m.a. frá
því er hann var ungur piltur og lék lít-
ið hlutverk í Manni og konu með
Leikfélagi Reykjavíkur í Iðnó, en mér
fundust leiksigrar hans stærstir við
horn gamla kirkjugarðsins á mótum
Suðurgötu og Hringbrautar. Þar fékk
ég að leika titilhlutverkið en afi lék öll
hin: móðurina, veiðimanninn, úlfinn
og ömmuna í fjölmörgum prívatupp-
setningum okkar á ævintýrinu um
Rauðhettu og úlfinn. Leiksviðið var
grenilundur en hjá okkur afa hét
hann Rauðhettuskógurinn.
Minni hans var ævintýralegt og
geymdi allt sem hann hafði fegurst
lesið á íslenskri tungu. Afi var hrif-
næmur tilfinningamaður og íslenskan
var honum „orða frjósöm móðir“,
sjálfur var hann ágætlega skáldmælt-
ur þótt hann flíkaði því ekki. Á máðu
og elligulu blaði er að finna þýðingar
hans á tveimur sonnettum Shake-
speares. Sú sem hann yrkir til er
elsku stúlkan hans; ást þeirra lifir í
minningum okkar sem þekktu þau og
þessum fallegu orðum hans:
Ef gæti eg að hve öllu er grær á grund
er gefinn fullkomleiki skamma hríð
og þetta leiksvið lánar aðeins stund,
en leyndar stjörnur ráða hverri tíð,
og er mér skilst: svo vaxa börn, sem blóm
og báðum himinn ógnar eða skín,
svo stolt að morgni – um miðdag hrörnun tóm
og mönnum gleymd þau harma forlög sín
þá er mér hugstæð breytileikans bið
og birtist ljósrar æsku þinnar gnótt
þar sóun Tímans teflir hrörnun við,
að týna lífs þíns degi í myrka nótt:
Svo vegna þín ég vopn á Tímann ber
og við þig eyk er tekur hann frá þér
Hver tryði mínu ljóði er líða ár
ef lýsti ég þar göfgi þinni og prýði,
líkt bautasteini – það veit herrann hár –
það hylur kjarnann, sýnir aðeins hýði.
Ef gæti eg fangað fegurð augna þinna
og fært í letur yndisþokka og mýkt,
mun þjóðin segja „þetta er hvergi að finna,
það er ei satt, nú hefir skáldið ýkt“
og máske blöð mín máð og elligul,
þau muni raup, af framtíð lítilsvirt
og réttur þinn sé skýrður skáldadul,
sem skothend lína úr gömlu kvæði hirt:
En lifi niðji, barn af þínu blóði
þú birtist enn í því – og mínu ljóði.
Ég kveð elskulegan afa minn með
söknuði en efst í huga mér er þakk-
læti fyrir þá gæfu að hafa alist upp í
skjóli hans og átt hann svo lengi að
mínum kærasta vini.
Birna Gunnarsdóttir.
Pétur Pétursson þulur lést hinn 23.
apríl eins og hann hafði lifað öllu lífi
sínu, í faðmi fjölskyldu sinnar. Ég
kynntist Pétri fyrst þegar ég heim-
sótti heimili hans og Birnu Jónsdótt-
ur fyrir um fimmtán árum síðan
ásamt tilvonandi eiginkonu minni,
Sólveigu Önnu Jónsdóttur, en hún er
dótturbarn þeirra hjóna. Ef ég man
rétt drukkum við kaffi og Pétur
hlýddi mér yfir hverra manna ég
væri. Pétur hafði mikla trú á því að
hægt væri að segja til um karakter
manna út frá því hverra manna þeir
væru. Sólveig sagði mér að afa sínum
hefði líkað vel við mig, hann hefði
þekkti afa minn, Magnús Sveinsson,
barna- og unglingaskólakennara, sem
honum þótti hafa verið góður maður.
Pétur sagði skemmtilega frá eins
og allir sem þekktu til hans kannast
við. Pétri fannst líka gaman að segja
sögur. Í brúðkaupi okkar Sólveigar
flutti hann til dæmis ekki eina, heldur
heilar þrjár ræður. Í gegnum árin
kynntist ég Pétri betur, bæði í fjöl-
skylduboðum og sem fræðimanni og
heimildarmanni. Hann var nærri
óþrjótandi brunnur heimilda um sögu
Reykjavíkur, og þekking hans á
mönnum og tengslum þeirra var óvið-
jafnanleg. Ég leitaði oft til Péturs eft-
ir að ég byrjaði í sagnfræði við Há-
skóla Íslands, sérstaklega meðan ég
starfaði sem aðstoðarmaður Þórs
Whitehead prófessors. Pétur nafn-
greindi menn á ljósmyndum, rifjaði
upp sérkennileg atvik og ummæli, og
ef hann gat ekki sjálfur svarað brást
ekki að hann gat bent á rétta heimild-
armenn. Sumar af sögum sínum sagði
hann oftar en einu, og oftar en tvisvar
sinnum, en þær glötuðu þó ekki fróð-
leiks- og skemmtigildi sínu. Það er
einnig til marks um frásagnarlist Pét-
urs að þó að sögurnar væru fyndnar í
hans frásögn voru þær þess eðlis að
þær lifðu oft ekki af að vera festar á
blað. Þó það væri hægt að skrifa upp
eftir Pétri glötuðu sögurnar yfirleitt
kímni sinni og því lífi sem þær öðl-
uðust í frásögn hans.
Pétur var því ekki aðeins brú til
Reykjavíkur fyrri tíma, hann brúaði
önnur bil. Hann var í senn heimild um
sögu Reykjavíkur og fræðimaður.
Sem sjálfmenntaður fræðimaður naut
hann virðingar sagnfræðinga. Um
leið var hann lifandi fulltrúi munn-
legrar frásagnarhefðar fyrri alda.
Pétur á því merkilegan sess bæði í ís-
lenskri sögu og íslenskri sagnfræði.
En þó að ég eigi ótal minningar um
grúskarann Pétur Pétursson, um-
kringdan bóka- og blaðastöflum á
heimili sínu í Garðarsstrætinu, mun
ég fyrst og fremst minnast hans sem
hjartahlýs afa og langafa. Pétur skil-
ur eftir sig raunverulega stórfjöl-
skyldu, því hann eignaðist fjögur
barnabörn, níu barnabarnabörn og
fjögur barnabarnabarnabörn. Pétur
kunni að meta barnamergðina sem
spratt upp í kringum hann, og ást sína
fékk hann endurgoldna. Börn okkar
Sólveigar, Jón Múli og Guðný Mar-
grét tóku fréttum af fráfalli langafa
síns mjög nærri sér, enda var þeim
báðum fjarska hlýtt til hans.
Pétur mun lifa áfram í minningu
allra þeirra sem kynntust honum, en
hans mun sárast saknað af þeim sem
elskuðu hann. Minning hans mun lifa í
hugum okkar allra, en þó sérstaklega
í hugum afabarna hans, langafabarna
og langa-langafabarna.
Magnús Sveinn Helgason.
Kveðja frá Ríkisútvarpinu
Frá upphafi hefur Ríkisútvarpið
verið svo lánsamt að njóta krafta svip-
mikilla og skeleggra einstaklinga,
sem hafa slegið tón þess og skapað
því þá mynd sem snýr að hlustendum
og áhorfendum. Einn slíkur var Pétur
Pétursson, þulur, sem kvaddur er í
dag.
Mín kynni af honum voru þó ekki
mest innan veggja RÚV heldur sím-
leiðis á því skeiði sem ég vann við ann-
an fjölmiðil. Þá hringdi Pétur iðulega
og las mér pistilinn um íslenskt mál
eða skammaði mig fyrir að láta ekki
íslenska tónlist ganga fyrir útlendri.
Ég gerði mér strax að reglu að svara
öllum hringingum frá Pétri þótt ég
vissi að næstum alltaf gat ég búist við
einhverskonar málfarslegum eða
þjóðræknislegum vandarhöggum. Ég
hafði gott af því. Og örugglega margir
aðrir, sem með þessum hætti urðu
einnig fyrir barðinu á honum. Pétur
hafði mikið dálæti á Þórbergi Þórð-
arsyni, – sá hefði væntanlega kallað
þessa iðju Péturs, að einum væri
kennt og öðrum bent.
Ríkisútvarpið naut hæfileika Pét-
urs ríkulega um áratuga skeið, – sem
þular og þáttagerðarmanns og kveð-
ur hann nú með djúpri þökk og virð-
ingu. Ættingjum Péturs og ástvinum
eru sendar samúðarkveðjur.
Páll Magnússon.
Við Pétur Pétursson þulur vorum
fjandvinir. Þegar ég setti saman bæk-
ur, hringdi ég oft í hann, því að hann
var manna fróðastur um fyrri tíð. Pét-
ur hringdi stundum í mig til að
skamma mig fyrir blaðaskrif mín. En
þótt „íhaldið“ væri aðalóvinurinn í
huga hans, hafnaði hann líka kredd-
um kommúnista. Hann sagði iðulega,
að Kiljan væri eins og glóandi pen-
ingur, þar sem letrað væri á aðra hlið
„Snillingur“, en „Skálkur“ á hina.
Þórbergur væri blanda úr fræðaþul,
prédikara og trúði: Espólín, Vídalín
og Sjapplín.
Við Pétur háðum eftirminnilega
kappræðu í Tjarnarsal ráðhússins í
Reykjavík sunnudaginn 1. febrúar
Pétur Pétursson
Pétur Pétursson var svolítið eins
og röddin, með mikla nærveru og
það gustaði af honum, myndugleik-
inn ótvíræður út á við en stutt í
hlýjuna og kímnina þegar komið
var inn fyrir skelina.
Morgunblaðið og Pétur Pét-
ursson áttu langa samleið. Það
ferðalag var kannski ekki alltaf
jafn árekstralaust og undir það
síðasta enda stóðu blað og Pétur
fremst í andstæðum fylkingum
þegar stjórnmálaátök voru hvað
hörðust á Íslandi. En eftir því sem
árin liðu færðust blað og Pétur
nær hvort öðru enda báðum um-
hugað um ýmis góð og göfug gildi
samfélagsins, ekki síst þjóðmenn-
ingu og tungu.
Pétur var stakur hreintung-
umaður bæði á mál, stíl og ekki
síst framburð. Það þekkja ýmsir
starfsmenn fjölmiðla vel því að
hann var allt fram undir það síð-
asta harður gagnrýnandi þeirra á
sitt hvað það sem honum fannst
mega betur fara og hirti sjaldnast
um að klæða meiningu sína í neinn
sparibúning.
Morgunblaðið fór svo sem ekki
varhluta af gagnrýni hans heldur
en á þessum bæ þóttust þó menn
vita að undir hvassri ádrepunni lá
jafnan sannleikskorn og að þarna
fór vinur sem til vamms sagði.
Pétur kom sér upp nokkrum
tengiliðum hér á blaðinu til að ann-
ast sín erindi. Ég var í þeim hópi
og einhverju kann að hafa valdið
um vináttu okkar að hann og faðir
minn höfðu verið samherjar í for-
ystu fyrir Sendisveinafélaginu
þann stutta tíma sem það var og
hét og þeir báðir ungir að árum í
miðri kreppunni. Í þeirri baráttu
mótuðust lífsskoðanir Pétur Pét-
urssonar, þar fékk hann eldskírn
sína og eldmóð og alla tíð var hann
sami eldhuginn og hugsjónamað-
urinn á hverju sem gekk.
Minnisstætt er að einhverju
sinni upphófust hér umræður sem
oftar um óheyrilegan fjölda frídaga
á Íslandi og sumir sáu lausnina á
þeim vanda í því að leggja af hinn
þjóðlegasta allra þjóðlegra frídaga
Íslendinga að Pétri fannst – sum-
ardaginn fyrsta. Þá þrumaði Pétur
þykkjuþungur: Daginn sem þeir
gera það flyt ég úr landi!
Og hann meinti það.
Í huga mér ætla ég að geyma
ímyndaðan fund þeirra nafnanna,
Lykla-Péturs og Péturs þular.
Hliðvörðurinn geistlegi lítur sem
snöggvast upp úr sálnaregisterinu,
horfir hvasst og spyrjandi í augu
nafna síns. Og eins og alltaf þegar
Pétur Pétursson skynjar að eitt-
hvað mikið er í húfi, grípur hann til
þess bragðs sem aldrei brást hon-
um í þessari jarðvist. Hann segir
sögu – og afvopnar hliðvörðinn
eins og alla aðra.
Verst að vita ekki hvaða saga
varð fyrir valinu í þetta skiptið.
Enginn maður hefur borið þul-
artitilinn með slíkri reisn sem Pét-
ur Pétursson. Um það getum við
borið, Morgunblaðsmenn, og les-
endur blaðsins á liðnum árum.
Hann var sannkallaður sagna-
brunnur. Oftar en ekki voru afurð-
irnar hreinræktaðar skemmtisögur
með tilheyrandi eftirhermum,
stundum dæmisögur og þá gjarnan
rammpólitískar eða hreinn fróð-
leikur, einatt um Reykjavík fyrri
daga. Sjaldnast var komið að tóm-
um kofunum þegar Pétur þulur
var annars vegar.
Við áttu síðast samtal í símann
fyrir fáeinum vikum. Hann var þá
nýkominn heim aftur eftir hvíld-
arvist á Landakoti sem hann bar
afar vel söguna. Ég þurfti að leita í
fróðleiksbrunn hans út af óvæntu
faðernismáli gamals og vinsæls
dægurlags, sem ég hélt að hefði
fyrst komið fram í fyrstu dæg-
urlagakeppni hér á landi sem hann
og Carl Billich gengust fyrir 1939.
Hann gat leiðrétt að svo hefði ekki
verið en þar sigraði hins vegar lag-
ið Dagný eftir Sigfús Halldórsson
við texta Tómasar Guðmunds-
sonar. Mér hafði verið sagt í æsku
að Pétur hefði fengið Tómas til að
yrkja þetta hugljúfa ljóð til unn-
ustu sinnar. Pétur staðfesti þetta,
unnustan hafði verið norsk stúlka
sem hann hitti á skátamóti og ástir
tekist með þeim. Svo kom stríðið.
– Þetta er saga sem ég á eftir að
skrifa, sagði Pétur.
Við Morgunblaðsmenn kveðjum
þennan aldna vin okkar með sökn-
uði og vottum ástvinum hans sam-
úð okkar.
Björn Vignir Sigurpálsson.
Röddin hljómþrungna þögnuð