Morgunblaðið - 10.10.2008, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 10.10.2008, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. OKTÓBER 2008 15 FRÉTTASKÝRING Eftir Ágúst Inga Jónsson og Unu Sighvatsdóttur SAMKVÆMT síðustu ársreikning- um Atvinnuleysistryggingasjóðs voru þá um 13,5 milljarðar króna í sjóðnum. Reikna má með að þessi upphæð hafi hækkað það sem af er ári. Atvinnuleysi hefur aukist nokkuð síðustu mánuði, en var þó til skamms tíma með því minnsta í Evrópu, á bilinu 1% til 1,2% í ágústmánuði. Þessi staða hefur breyst á síðustu vikum og fréttir af uppsögnum verið algengar. Auk þess hefur fólk sem lenti í uppsögnum fyrr á árinu komið á atvinnuleysisskrá á síðustu vikum. Í þjóðhagsspá sem kynnt var í byrjun mánaðarins var reiknað með að atvinnuleysi yrði 2,7% á næsta ári og ykist enn frekar á árinu 2010 og yrði þá 3,8% af vinnuafli. Líklegt má telja að þessar tölur séu úreltar og at- vinnuleysi verði meira. Á vinnumarkaði eru um 160 þús- und manns, en það er þó aðeins breytilegt eftir árstíma. Samkvæmt þessu jafngildir 1% atvinnuleysi því að um 1600 manns séu án atvinnu. Jóngeir H. Hlinason, deildarstjóri hjá Vinnumálastofnun, var spurður hversu lengi 13,5 milljarða króna innistæða í Atvinnuleysistrygginga- sjóði entist miðað við 3% atvinnu- leysi. „Miðað við að á vinnumarkaði séu um 160 þúsund manns samsvarar 3% atvinnuleysi um 4.800 einstaklingum. Miðað við fullar grunnbótagreiðslur í níu mánuði, kr. 136.015, og fullar tekjutengdar greiðslur í þrjá mánuði, kr. 220.729, kostar eitt ár um níu milljarða. Fullar grunnbótagreiðslur til 4.800 einstaklingar eru um 650 milljónir á mánuði. Þannig að miðað við að engar greiðslur komi inn í sjóðinn þá dugar hann í tæplega 19 mánuði. En auðvit- að koma einhverjar greiðslur inn því ekki er eingöngu um útstreymi að ræða,“ sagði Jóngeir Hlinason. 0,65% af launum í atvinnutryggingagjald Sjóðurinn fær greiðslur af trygg- ingagjaldi sem atvinnurekendur greiða ofan á heildarlaun launa- manna og hefur safnast í hann í góð- ærinu. Tryggingagjald er 5,34% og af því fara 0,65% í atvinnutrygginga- gjald. Hlutfallsgreiðslur í Atvinnuleysis- tryggingasjóðinn hafa verið skertar á síðustu árum, að sögn Jóngeirs, en hins vegar hafa heildargreiðslur í sjóðinn aukist. Grunngreiðslur sjóðsins eru nú rúmlega 136 þúsund krónur á mán- uði. Einstaklingur fær þær fyrstu tíu dagana, en eftir tíu daga er hægt að fá tekjutengdar bætur í þrjá mánuði, þá taka grunnbætur við að nýju í allt að þrjú ár. Tekjutengdu bæturnar miðast við 70% af launum, en geta þó aldrei orðið hærri en sem nemur um 220 þúsund krónum. Tekjutenging kom inn með lögum árið 2006 og þá hámarkstími á atvinnuleysis- greiðslum styttur úr fimm árum í þrjú ár. Jóngeir Hlinason segir að starfs- menn Vinnumálastofnunar hafi síð- ustu daga orðið varir við óöryggi og erfiðleika í atvinnumálum fólks og ýmislegt sé verið að gera til að upp- lýsa fólk. Hann vill ekki spá um fram- haldið, en segir að þessir síðustu dag- ar breyti miklu, þetta sé langt frá því að vera eðlilegt ástand. Eitt þjónustuver Í Morgunblaðinu á þriðjudag var haft eftir Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, að vinna væri hafin í ráðuneytinu við að setja á laggirnar alhliða þjónustuver þar sem fólk gæti leitað upplýsinga og fengið ráðgjöf. Einnig væri verið að skoða að undir félagsmálaráðuneyti starfaði sérstök vinnumálastofnun sem aðstoðaði fólk er verður fyrir uppsögnum og er í atvinnuleit. „Það eru margvíslegir erfiðleikar sem munu steðja að fólki sem við þurfum að taka á, og þá er mikilvægt að hafa eitt þjónustuver fyrir fólkið sem þarf að leita upplýsinga og svo framvegis,“ sagði Jóhanna Sigurðar- dóttir. Mikið atvinnuleysi 1994 Mesta skráð atvinnuleysi hjá Vinnumálastofnun var í janúarmán- uði árið 1994. Þá voru 9.515 einstak- lingar án atvinnu eða 7,7% af áætl- uðum mannafla. Meðal ástæðna þessa mikla atvinnuleysis var sjó- mannaverkfall fyrri hluta jan- úarmánaðar, en einnig var mikið at- vinnuleysi í verslun og meðal iðnaðarmanna. Atvinnuleysi var alls staðar meira hjá konum heldur en körlum og ástandið var mun verra á lands- byggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Innistæður í 3% atvinnuleysi myndu duga í nítján mánuði  Um 13,5 milljarðar í Atvinnuleysistryggingasjóði  Grunnbætur til einstaklings 136 þúsund kr. á mánuði  Greiðslur í allt að þrjú ár  Töluverð fjölgun á atvinnuleysisskrá í vikunni og ólíklegt að spár standist Morgunblaðið/ÞÖK Blikur á lofti Mikið hefur verið byggt á síðustu árum og byggingariðnaðurinn staðið með miklum blóma. Síðustu mánuði hafa blikur verið á lofti og talsvert verið um uppsagnir í greininni. 01233 45 6 7 046 03 72 073  !         "#$%!$&''(               !"     !"   #  $   %   %    )  !   !  $        &$#** 734 80 7 05 065 07 000 39: &' MIKIL örtröð hefur verið á skrifstofu Vinnumálastofn- unar á höfuðborgarsvæðinu fyrstu vikuna í október. Að sögn Hugrúnar Jóhannesdóttur hafa þau sinnt að með- altali 70 manns á dag, sem er umtalsverð aukning. „Það er reyndar alltaf meira að gera fyrstu viku hvers mánaðar, en síðasta vika var heldur slæm þótt það hafi heldur dregið úr því núna,“ segir Hugrún. Alls voru 1.846 skráðir atvinnulausir á höfuðborgarsvæðinu í gær. Í lok september í fyrra voru 735 á atvinnuleysisskrá, svo fjölgunin milli ára er umtalsverð. „Miðað við fréttir núna getum við búist við enn meiri aukningu svo við reynum að setja okkur í stellingar til að taka því og erum að undirbúa það hvernig við getum mætt þörfum fólks á sem bestan og fljótvirkastan hátt,“ segir Hugrún og nefnir sem dæmi kerfisbreytingar og mögulega fjölgun starfsfólks til að anna umfanginu. „Við þurfum að breyta aðeins hjá okkur kerfinu og ætlum að leggja áherslu á það að við getum tekið á móti öllu því fólki sem kemur.“ Ástandið mun svartara en þegar þjóðhagsspá var gerð 1. október var áætlað í þjóðhagsspá að atvinnuleysi næstu tvö árin yrði á bilinu 2,7-3,8%. Ljóst er að forsendur þeirrar spár eru mjög breyttar á skömmum tíma, en nýjar spár liggja þó ekki fyrir eins og er. „Ég held að það dyljist nú engum að útlitið er mun svartara núna en það var fyrir mán- uði, svo það hlýtur að teljast ólíklegt að hógværari spár muni standast,“ segir Hugrún. Hún ítrekar þó að atvinnuleysi sé þrátt fyrir allt alls ekki hátt á Íslandi, „en það er hins vegar miklu meira gegnumstreymi hér hjá okkur heldur en hefur verið og það er að aukast.“ Hún bendir einnig á að þróunin sé í þá átt að hlutfall Íslendinga sem leiti til Vinnumálastofnunar sé nú hærra en útlendinga, öfugt við það sem verið hefur á árinu. „Það er mesta breytingin sem við sjáum, það hefur verið mikið af útlendingum að skrá sig en þeir virðast núna vera á heimleið en Íslendingum fjölgar.“ una@mbl.is Örtröð hjá vinnumálastofnun Hugrún Jóhannesdóttir UTAN höfuðborgarsvæðisins hefur fjölgun á atvinnu- leysisskrá verið mest á Suðurnesjum það sem af er þessum mánuði. Ketill G. Jósefsson forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum segir sumarið hafa verið kraumandi með reglulegum uppsögnum í smáum stíl, sérstaklega hjá byggingaverktökum. Októ- ber hafi hins vegar náð nýjum hæðum í álagi og þá hafi m.a. komið holskefla frá Flugþjónustunni þar sem uppsagnarfresti margra lauk um mánaðamótin. „Það er mjög mikið að gera hérna og má auðvitað búast við því þegar svona skellur á. Skráningum hefur fjölgað um næstum 100 manns hjá okkur síðan í ágúst, sem er talsvert mikil aukning.“ Hann segir útlit fyrir að fjöldi skráninga stefni í 500, en þær voru í kringum 320-340 í ágúst. Á sama tíma í fyrra voru um 170 manns á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum, eða um 1,8% atvinnuleysi. Ketill segir óhætt að áætla að hlutfallið nálgist brátt 3% þótt formlegar tölur liggi ekki fyrir. Hann segir álagið mikið á starfsfólki stofnunar- innar sem ætli sér að sinna fjölguninni eftir bestu getu. „Sem betur fer er nú ekki röð út á götu, við náum alveg að anna þessu en það er varla að okkur gefist tækifæri til að setjast niður.“ Útlendingar líkja ástandinu við náttúruhamfarir Ketill segist greina svipaða þróun í sínu umdæmi og verið hefur á höf- uðborgarsvæðinu, þ.e. Íslendingar skrá sig atvinnulausa í auknum mæli í stað útlendinga. „Það hefur aukist núna að menn sæki um pappíra til að fá sína vinnu metna og tryggða sem þeir hafa lagt fram hér því þeir ætla burt. Þeim finnst þetta alveg óskaplegt, líkja þessu við nátt- úruhamfarir og reyna allt hvað þeir geta að koma sér úr landinu, virðist vera.“ Ketill segir að hljóðið í mönnum sé þungt á Suðurnesjum og titringur sé í loftinu um að fleiri fyrirtæki verði gjaldþrota, þótt ekkert sé öruggt í þeim efnum. Þrátt fyrir allt reyni menn þó að halda í vonina. „Við er- um alin upp í því hér að vera bjartsýn, jafnvel þótt hver dagur færi manni leiðindafréttir. Við reynum allavega að brosa til fólksins sem kemur til okkar en þau eru mörg hver að stíga erfið spor.“ una@mbl.is Tvöföldun frá því í fyrra Ketill G. Jósefsson ÚTTEKTARHEIMILDIR íslenskra kredit- korta hafa verið yfirfarnar að beiðni Seðla- bankans. Samkvæmt upplýsingum frá Valitor, sem annast útgáfu VISA-korta, mega korthafar þeirra búast við því að núverandi heimild verði lækkuð til samræmis við raunverulega notkun. Valitor miðar þar við tvöfalda meðal- mánaðarnotkun þessa árs á hvert kort. Höskuldur Ólafsson, forstjóri Valitors, sagði að viðskiptabankarnir hefðu verið ábyrgir fyrir úttektum og úttektarheimildum á kortum en með setningu neyðarlaganna 7. október hafi sú ábyrgð flust yfir á Seðlabank- ann. Í framhaldi af því óskaði Seðlabankinn eftir því að heimildirnar væru lækkaðar til samræmis við raunverulega notkun korthafa. Úttektarheimildirnar voru meðhöndlaðar sem skuldbinding í bókhaldi hvers banka og hækkuðu því heildarskuldastöðu hvers banka. Þessi aðgerð er liður í því að draga úr ábyrgð Seðlabankans. Korthafar geta séð nýja heimild á net- yfirliti í heimabanka sínum. Samkvæmt upp- lýsingum Valitor á lækkunin á heimild ekki að hafa áhrif á alla korthafa og ekki á korta- notkun hér heima eða erlendis nema um óvenjumikla notkun sé að ræða. Að sögn Valitors hafa öll uppgjör við versl- anir og þjónustuaðila sem eru með söluaðila- samning við Valitor gengið snurðulaust. Einn- ig hefur rafræn greiðslumiðlun VISA-korta gengið eðlilega bæði hér heima og erlendis. Seðlabankinn hefur tekið við ábyrgð á kreditkortum og úttektarheimildum af viðskiptabönkunum Úttektarheimildir endurskoðaðar Morgunblaðið/ÞÖK

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.