Morgunblaðið - 10.10.2008, Blaðsíða 21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. OKTÓBER 2008 21
ERLENT
Eftir Boga Þór Arason
bogi@mbl.is
GORDON Brown, forsætisráðherra Bretlands,
sagði í gær að refsa bæri stjórnendum banka sem
hefðu starfað á ábyrgðarlausan hátt og tekið of
mikla áhættu.
Brown kvaðst vera reiður yfir „ábyrgðarlausri
hegðun“ stjórnenda banka og gaf til kynna að
stjórnin myndi lækka kaupauka stjórnendanna
eftir að hafa ákveðið að koma breska bankakerfinu
til bjargar og í raun þjóðnýta átta banka að hluta.
„Hagkerfi okkar byggist á fólki sem vinnur
hörðum höndum, leggur sig fram, tekur ábyrgar
ákvarðanir, og þegar menn taka of mikla og
ábyrgðarlausa áhættu verður að refsa þeim,“
sagði forsætisráðherrann.
„Dagar hárra kaupauka eru
liðnir.“
Kaupaukar lækka um 58%
Ráðgjafarfyrirtækið Centre
for Economics and Business
Research (CEBR) spáði því í
gær að kaupaukagreiðslur
banka og annarra fjármálafyr-
irtækja í London myndu lækka
í 3,6 milljarða punda í ár, eða
um 58% miðað við síðasta ár þegar greiðslurnar
námu alls 8,5 milljörðum punda.
CEBR spáði því að kaupaukagreiðslurnar yrðu
aðeins 2,8 milljarðar punda á næsta ári – um 70%
lægri en árið 2006 þegar þær voru mestar og
námu 8,8 milljörðum punda.
Auðugir bankamenn verða þó ekki þeir einu
sem finna fyrir þessu því mörg fyrirtæki, þeirra á
meðal veitingahús og bílasölur, hafa notið góðs af
gríðarlegri kaupgetu bankamanna í Bretlandi síð-
ustu árin. Lægri kaupaukar gætu til að mynda
stuðlað að lægra fasteignaverði í borginni og sala á
dýrum glæsibifreiðum hefur þegar dregist saman.
Sala á Porsche-bílum hefur til að mynda minnkað
um 27% frá síðasta ári og Aston Martin-bílum um
25%.
Brown og Alistair Darling, fjármálaráðherra
Bretlands, tilkynntu í fyrradag að notaðir yrðu 50
milljarðar punda til að þjóðnýta átta stóra banka
að hluta.
Vill að ábyrgðarlausum
bankastjórum verði refsað
Gordon
Brown
Í FLESTU má keppa og Kínverjar eru ekki nein-
ir eftirbátar annarra í þeim efnum. Þar er reglu-
lega haldin fegurðarsamkeppni þungaðra
kvenna og stundum einnig í því hvaða þunguðu
konu tekst best upp við að myndskreyta kviðinn,
til dæmis með teiknimyndum. Þessar myndar-
legu Kínameyjar voru meðal þátttakenda í slíkri
keppni, sem fram fór nú í vikunni í borginni
Haikou í Hainan-héraði, en að loknum undan-
rásum tóku 14 konur þátt í sjálfum úrslitunum.
Ekki fylgdi sögunni hver vann en eins og sjá má
voru þær margar mjög sigurstranglegar.
AP
Myndskreyttar og myndarlegar
FRÉTTASKÝRING
Eftir Kristján Jónsson
kjon@mbl.is
EINN flokkur, Afríska þjóðarráðið
(ANC), hefur farið með völdin í Suð-
ur-Afríku frá því að bundinn var
endi á aðskilnaðarstefnuna og yfir-
ráð hvíta minnihlutans 1994. En nú
eru vísbendingar um að klofningur
sé kominn upp. Svo gæti farið að
stofnaður verði nýr flokkur
óánægðra stuðningsmanna Thabos
Mbekis, fyrrverandi forseta, sem
varð að segja af sér nýlega vegna
þrýstings frá stjórn ANC og nýjum
leiðtoga, Jacob Zuma.
Mörgum, einnig sumum andstæð-
ingum Mbekis, fannst óþarfa harka
að þvinga forsetann til afsagnar að-
eins ári áður en kjörtímabilið rann
út. Einn af leiðtogum ANC tók við
embættinu til bráðabirgða en fast-
lega er búist við að Zuma verði
kjörinn á næsta ári. Meira en tugur
ráðherra sagði af sér í mótmæla-
skyni þegar Mbeki fór frá, einn
þeirra var Mosiuoa Lekota, sem var
varnarmálaráðherra. Hann er kraft-
mikill maður, var áður þekktur
knattspyrnumaður og fékk þá gælu-
nafnið „ógnin“. Lekota segir nú að
klofningur sé óhjákvæmilegur.
„Það lítur úr fyrir að við séum að
afhenda skilnaðarpappírana,“ sagði
hann í vikunni. Hann sagði ANC
hafa snúið baki við lýðræðinu með
því að sparka réttkjörnum forseta,
Mbeki. Haldin yrði ráðstefna á
næstu vikum og þar yrði ákveðið
hvort af flokksstofnun yrði.
ANC hefur verið afar samhentur
flokkur allt frá stofnun 1912 en
margir voru ósáttir við stíl Mbekis.
Hann þótti hrokafullur og einráður
og eiga erfitt með að ná til almenn-
ings. Zuma er hins vegar kátur og
alþýðlegur en hefur sætt ákærum
fyrir spillingu og nauðgun, ákærum
sem hann var þó sýknaður af.
Ofbeldisfullir liðsmenn Zuma
Sumir stuðningsmenn hans þykja
einnig ofbeldisfullir, a.m.k. í orðum,
hafa jafnvel sagst munu „drepa“
fyrir leiðtoga sinn. Ekki bætir úr
skák að þeir leggja oft áherslu á
þjóðerni Zuma en hann er zúlú-
maður. Eins og víðar er innbyrðis
metingur milli þjóðarbrota ávallt
hættulegur.
Oft er bent á að yfirburðir ANC
hafi slæm áhrif á stjórnmál í land-
inu, flokkinn hafi skort raunveru-
legt aðhald. Einkum hafi þetta orðið
brýnn vandi eftir að þjóðhetjan Nel-
son Mandela lét af forsetaembætti.
Friðarverðlaunahafinn Desmond
Tutu hefur bent á að lýðræði þrífist
best með áköfum skoðanaskiptum.
ANC gæti klofnað
Óánægja stuðningsmanna Thabos Mbekis með nýjan leið-
toga ógnar einingu flokksins í fyrsta sinn frá stofnun 1912
Í HNOTSKURN
»Suður-Afríka er eitt affjölmennustu ríkjum álf-
unnar, íbúar hátt í 50 millj-
ónir. Það er einnig langmesta
efnahagsveldið.
»Þótt ANC eigi náið sam-starf við kommúnista hef-
ur verið lögð áhersla á að
byggja upp markaðshagkerfi.
»Margir ráðamenn ANChafa verið sakaðir um að
misnota aðstöðu sína í fjár-
hagslegum tilgangi.
TRAUSTASTA bankakerfið er í
Kanada en á hæla því koma síðan
Svíþjóð, Luxemborg, Ástralía,
Danmörk og Holland. Kemur þetta
fram í skýrslu frá World Economic
Forum, WEF, sem metur m.a. sam-
keppnisgetu þjóða.
Bretland, sem í eina tíð var
meðal fimm efstu ríkjanna, er nú
komið í 44. sæti og er á eftir El
Salvador og Perú. Bandaríkin eru
nú í 40. sæti og á eftir Þýskalandi,
sem er í því 39., og smáríkjum eins
og Barbados, Eistlandi og jafnvel
Namibíu.
Á einkunnarskala, sem var upp í
7, fékk Kanada 6,8 og næstu fimm
ríkin 6,7. Sviss er í 16. sæti en með
þeim 20 efstu eru t.d. Spánn, Suð-
ur-Afríka, Noregur og Finnland.
Alsír er á botninum í 134. sæti
og næst því eru Líbýa, Lesotho,
Kirgistan, Argentína og Austur-
Tímor. svs@mbl.is
Besta banka-
kerfið er
í Kanada
VÍKTOR Jústsj-
enko, forseti
Úkraínu, rauf í
gær þing og boð-
aði til nýrra
kosninga. Verða
þær 7. desember
næstkomandi.
Mikil óeining
hefur verið innan
ríkisstjórnar-
innar og hefur
Jústsjenko sakað Júlíu Tymo-
shenko forsætisráðherra um að
reyna að sölsa undir sig völd í blóra
við úkraínska þjóðarhagsmuni.
Tymoshenko studdi nýlega stjórn-
arandstöðuna í því að takmarka
völd forseta. svs@mbl.is
Kosningar
í Úkraínu
Víktor
Jústsjenko
SVISSNESKUR dýralæknir tapaði
í fyrradag máli fyrir hæstarétti
landsins en hann hafði krafist þess,
að hann fengi að nota rauð ljós og
sírenur á bílnum sínum þegar mik-
ið lægi við og tvísýnt væri um líf og
heilsu einhverra dýra.
Í dómsorðum hæstaréttar sagði,
að almennt umferðaröryggi hefði
forgang fyrir flutningi sjúkra eða
slasaðra dýra en dýralæknirinn
hafði bent á, að starfsbræður hans
í Austurríki, Þýskalandi og Frakk-
landi fengju að nota rauð ljós.
Velferð dýra er mikið alvörumál
í Sviss og fyrr á árinu var t.d.
bannað að skola gullfiskum niður
um klósettið. Þá ber að halda lama-
dýr tvö og tvö saman og svín eiga
að fá sína sturtu reglulega.
svs@mbl.is
Ekki rauð ljós
fyrir dýrin ÞEIR John heitinn Lennon og Mick
Jagger voru í raun aldrei neinir
fulltrúar hinnar byltingarsinnuðu
æsku á sjöunda áratug síðustu ald-
ar, heldur kænir kapítalistar, sem
nýttu sér tíðarandann í ábataskyni.
David Fowler, sagnfræðingur við
Cambridge-háskóla, segir, að upp-
reisn æskunnar á þessum tíma sé
hugarburður að mestu leyti og
hljómsveitir eins og Bítlarnir hafi
fyrst og fremst haft augun á pen-
ingum.
„Þeir voru svona álíka miklir
baráttumenn fyrir hagsmunum
ungs fólks og Kryddpíurnar á síð-
asta áratug,“ segir Fowler. Segir
hann, að miklu byltingarsinnaðri
hreyfingar meðal ungs fólks hafi
verið að finna á millistríðsárunum
en segja megi, að með seinna stríði
hafi orðið eins konar rof í sögulegu
minni. svs@mbl.is
Bara kænir
kapítalistar
Lennon, kunnur
fyrir friðarbaráttu.
Mick Jagger í
Rolling Stones.
STJÓRNVÖLD í Svartfjallalandi og
Makedóníu viðurkenndu í gær sjálf-
stæði Kósóvó þrátt fyrir harða and-
stöðu Serba og Rússa. Þar með hafa
alls 50 ríki viðurkennt sjálfstæði
Kósóvó frá því að þarlend stjórnvöld
lýstu yfir sjálfstæði í febrúar, þ. á m.
Bandaríkin og flest aðildarlönd Evr-
ópusambandsins.
Ákvörðun Svartfellinga er mikið
áfall fyrir Serba því Svartfjallaland
og Serbía voru í ríkjasambandi þar
til Svartfellingar samþykktu sjálf-
stæði í þjóðaratkvæðagreiðslu árið
2006. Sendiherra Svartfellinga í
Serbíu var vísað úr landi vegna
ákvörðunarinnar. bogi@mbl.is
50 lönd
viðurkenna
Kósóvó