Morgunblaðið - 10.10.2008, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 10.10.2008, Blaðsíða 32
32 FÖSTUDAGUR 10. OKTÓBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ ÞorgerðurBergsdóttir fæddist í Reykjavík 24. maí 1928. Hún andaðist á Sjúkra- húsi Akraness 6. október síðastlið- inn. Foreldrar hennar voru hjónin Bergur Ársæll Arn- björnsson, f. 17. ágúst 1901, d. 5. janúar 1993, og Sara Ólafsdóttir, f. 24. mars 1902, d. 18. desember 1976. Systkini Þorgerðar eru Ólafur, f. 1927, d. 2008, Guðrún, f. 1933, Björn Arnar, f. 1935, og Auður, f. 1945, d. 1963. Þorgerður giftist 29. maí 1948 Hannesi Á. Hjartarsyni, f. 8. júní 1924, d. 2. mars 2004. Foreldrar hans voru Hjörtur Líndal Hann- esson, f. 18. apríl 1899, d. 12. nóvember 1978, og Sigríður Ein- arsdóttir, f. 21. júlí 1896, d. 26. ágúst 1991. Börn Þorgerðar og Hannesar eru: 1) Smári, f. 22. nóvember 1948, kvæntur Gunn- hildi Júlíu Júlíusdóttur. Dóttir þeirra er Ásdís Elín. 2) Ólöf, f. 15. mars 1952. Börn Ólafar eru Þorsteinn Ingi og Erla. 3) Hauk- ur, f. 17. mars 1953, kvæntur Sigríði Svavarsdóttur. Börn þeirra eru Hrannar Örn, Sara Björk og Maren Ösp. 4) Heiðrún, f. 3. febrúar 1958, gift Ingólfi Hafsteinssyni. Börn þeirra eru Hannes Ágúst, Lára og Arnbjörn, hann er látinn. 5) Þorgerð- ur Hanna, f. 9. júlí 1959, gift Agli Más- syni. Börn þeirra eru Sveinbjörg, Már og Guðrún Drífa. 6) Guðni, f. 8. ágúst 1963, kvæntur Lilju Lín- dal Aðalsteins- dóttur. Börn þeirra eru Vera Líndal, Bergur Líndal og Þorri Líndal. Barnabarnabörn Þorgerðar og Hannesar eru átta. Þorgerður og Hannes hófu bú- skap á Jaðarsbraut 13 á Akra- nesi. Bjuggu þau þar í nokkur ár en fluttust síðan að Höfðabraut 16 þar sem þau bjuggu í 40 ár. Síðast áttu þau heimili á Vest- urgötu 109, en Þorgerður dvaldi síðast á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi. Þorgerður var í barnaskóla og síðan í Gang- fræðaskóla Akraness. Hún fór síðan í Húsmæðraskóla á Varmalandi í Borgarfirði. Hún starfaði um tíma hjá Artic hf. á Akranesi og einnig við heim- ilishjálp. Hennar aðalstarf var húsmóðir. Útför Þorgerðar verður gerð frá Akraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Þitt bros og blíðlyndi lifir og bjarma á sporin slær, það vermir kvöldgöngu veginn, þú varst okkur stjarna skær. Þitt hús var sem helgur staður, hvar hamingjan vonir ól. Þín ástúð til okkar streymdi sem ylur frá bjartri sól. (F.H.) Þessi orð lýsa þér vel elsku mamma mín. Þú hefur nú lokið lífs- göngu þinni eftir langt og erfitt veik- indastríð. Í lífinu fórnaðir þú þér fyrir aðra í orðsins fyllstu merkingu. Þú náðir að koma börnum þínum sex á legg, það var þitt starf og ekki lítið. Við geymum í hjarta okkar minningu um frábæra móður og vin. Þú varst líka heimsins besta amma. Þú gast verið ákveðin og vildir ekkert hálf- kák, nei það átti sko að gera hlutina almennilega. Sjálf varstu listamann- eskja í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur; hannyrðum, matreiðslu, sápugerð og fleiru og fleiru. Mér ent- ist ekki tími til að festa á blað allt sem þú hefur áorkað í lífinu. Það sem stendur upp úr eru allar samveru- stundirnar í fjölskyldunni. Við hitt- umst allur hópurinn á 80 ára afmæli þínu í maí síðastliðnum. Þú varst sko ekkert smá glöð. Þannig er svo gott að muna þig elskuleg. Að leiðarlokum vil ég þakka þér samveruna. Ég bið Guð og alla englana að gæta þín og ég veit að pabbi breiðir brosandi út faðminn á móti þér. Sofðu rótt elsku mamma mín. Takk fyrir allt og allt. Ég þakka starfsfólki og vinum mömmu á Dvalarheimilinu Höfða fyr- ir allt og allt. Samstarfsfólki mínu á A-deild Sjúkrahússins hér á Akranesi þakka ég af öllu hjarta fyrir að hafa létt móður minni síðustu ævisporin. Þessi tími hefur verið erfiður, en fært mig nær því að sjá þvílíkur mannauð- ur þarna býr. Það verður seint full- þakkað. Ég bið Guð að gæta okkar allra sem stóðum mömmu nær. Þín Ólöf. Það sem kemur fyrst upp í hugann þegar hugsað er til samveru við Stellu er umhyggja hennar, réttvísi og svo hvað það var alltaf stutt í stúlkuna í henni. Henni féll aldrei verk úr hendi en samt var aldrei mikið að gera hjá henni. Hún hafði alltaf tíma fyrir sína nánustu – og hennar nánustu voru margir því hún sýndi öllum sem hún umgekkst mikla umhyggju. Hún var sem sagt ein af þeim sem gættu náunga síns, jafnt í orði sem á borði. Réttvísi var einnig afar rík í Stellu. Þegar skrafað var um menn og mál- efni dagsins myndaði hún sér ætíð sína eigin sjálfstæðu skoðun sem allt- af byggðist á sterkri réttlætistilfinn- ingu. Hún gat verið ströng og fylgin sér en réttvísi hennar grundvallaðist alltaf á kærleika og umhyggju. Og svo þegar minnst varði datt henni eitthvað sniðugt í hug, eða hún heyrði eitthvað skemmtilegt og þá kom glettnisglampi í augu hennar og allt í einu stóð stúlkan Stella ljóslifandi fyrir framan mann. Rétt rúmlega ný- fermd kankvís stelpa sem geislaði af lífsgleði. Stella var afar lánsöm kona. Hún giftist manni sem hún elskaði og sem elskaði hana. Og hún átti 6 myndar- leg börn sem hún ól upp í alsnægtum ástar og umhyggju. Með harðfylgni og eljusemi sá hún til þess að fjöl- skylduna skorti ekkert, þótt efnisleg- ar tekjur á verkamannsheimili væru oft af skornum skammti. Ég var svo heppinn að fá Stellu sem tengdamóð- ur. Það er víst óhætt að segja að tengdabörnin nytu mikils atlætis hjá henni – jafnvel svo að börnum hennar þótti stundum nóg um. Og það þarf varla að taka fram að barnabörnin og barnabarnabörnin áttu sér ávallt öruggt skjól í hjarta hennar og húsi. Eftir fyrstu heimsókn mína á heim- ili Stellu og Hannesar lýsti ég því sem járnbrautarstöð. Það voru alltaf ein- hverjir að koma og fara. Og þrátt fyr- ir mikla annsemi sem hefur fylgt því að reka heimilið, var í gangi stöðug framleiðsla á lopapeysum, vettling- um, barnafötum og alls kyns hlýjum varningi sem naut stöðugra vinsælda hjá vinum og vandamönnum á öllum aldri. Hjá þessum hópi hafa Stellu- vettlingar öðlast varanlegan sess – en þeir vettlingar eru fallegir og hlýir og óskaplega vel gerðir og lýsa eiginlega skapara sínum best. Ég mun ávallt minnast Stellu með þakklæti fyrir allt sem hún svo ríku- lega gaf mér og mínum. Ég sé hana nú fyrir mér við hlið síns heittelskaða Hannesar. Hann brýtur endalausa bréfbáta með sínum túkallsfingrum og Stella leggur ótal stykkja púsluspil með bros á vör og glettnisglampa í auga. Egill Másson. Elsku amma, ég get varla útskýrt það hversu erfitt það er að missa þig. Þú ert búin að vera svo sterk í baráttu þinni við krabbameinið. Innst inni vonaði ég alltaf að kraftaverkið myndi gerast og að þér myndi batna, því ef einhver átti það skilið, þá varst það þú. Þó minningarnar sem ég á um þig séu svo ótal margar þá er svo erfitt að sætta sig við það að þær verða ekki fleiri. Mér eru svo minnisstæð öll skiptin sem við systkinin komum til þín eftir að hafa farið í sund. Ávallt beið okkar þvílíkt góðgæti, þar á með- al heimsins bestu pönnsur, sem þú varst búin að taka til fyrir okkur. Svo þegar eitthvað bjátaði á, þá kysstir þú mig og knúsaðir og svo fékk ég að stinga hendinni ofaní stóru krúsina og fá mér kandís. Allir göngutúrarnir á Langasandi þar sem við tíndum skeljar og fallega steina. Einnig var það svo yndislegt, amma, þegar ég fór með nokkrum vinum á írska daga á Skaganum fyrir nokkrum árum. Bíll- inn bilaði, svo að við vorum föst í grenjandi rigningu á tjaldsvæðinu þangað til við ákváðum að rölta yfir til þín. Þú varst alltaf svo gestrisin og þó að við höfðum ekki gert boð á undan okkur þá tókst þú okkur öll inn til þín og hitaðir kakó og meðlætið var því- líkt. Síðan allir vettlingarnir og ull- arsokkarnir sem þú hefur prjónað á mig í gegnum tíðina. Þó svo að ég kæmi stundum heim með aðeins ann- an vettlinginn eða hafði týnt hosun- um, þá skammaðirðu mig aldrei held- ur prjónaðir bara nýtt sett á mig. Þegar ég hugsa um það, þá held ég að þú hafir ekki einu sinni skammað mig þrátt fyrir þó nokkur prakkarastrikin þegar ég var krakki. Ég á eftir að sakna þess svo að kíkja til þín í heim- sókn upp á Skaga og ég get varla kyngt því að ég fái ekki fleiri daga með þér. En nú ertu komin á betri stað, með afa þér við hlið og laus við allar þjáningarnar. Ég vona að þú munir fylgjast með mér og allri fjöl- skyldunni þinni og passa okkur. Þannig get ég allavega látið sem þú sért ekki raunverulega farin. Hvar sem þú ferð um lög og láð þar liggur leiðin þín þar ljómar allt af birtu og yl ó, elsku amma mín. Þá bæn ég ber í brjósti mér þá er ég minnist þín að Guð hann ætíð verndi þig og blessi, amma mín. (Sig. Óskars.) Ég er svo heppin að hafa átt þig að, elsku amma. Ég elska þig og sakna meira en þessi fátæklegu orð mín fá lýst. Þín Guðrún Drífa. Í dag kveð ég ástkæra ömmu mína, Þorgerði Bergsdóttur, eða Stellu eins og hún var ávallt kölluð. Amma var svo sannarlega einstök kona. Ávallt ríkti gleði í augum hennar og brosi, þótt maður átti sig á því þegar maður eldist að eflaust hefur líf hennar ekki alltaf verið auðvelt. Amma og afi áttu fallegt heimili þar sem ævinlega var mikill gesta- gangur. Ávallt var gott að koma á heimili þeirra þar sem hlýja og ástúð mætti manni ætíð. Það er mér ofar- lega í huga hversu vel amma hugaði að sínum. Hún og afi sinntu sinni stóru fjölskyldu vel og alltaf var tekið vel á móti nýjum einstaklingum. Þeg- ar heilsu afa tók að hraka var aðdáun- arvert að horfa á hversu vel amma hugsaði um hann, þótt það hafi ef til vill ekki verið auðvelt. Alltaf stóð hún upp úr og gætti þess að hinum liði vel. Ég á þér margt að þakka elsku amma mín, þú hefur kennt mér margt sem ég mun búa að alla mína ævi. Það er erfitt að kveðja þig elsku amma, en ég veit þó að einhvers stað- ar bíður hann afi minn brosandi eftir þér með opinn faðminn. Hann verður glaður að sjá þig. Að lokum vil ég þakka þér þessi ár sem ég hef fengið að njóta með þér, þau eru mér ómetanleg. Hvíl í friði elsku amma mín. Þín Erla. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. Þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfinn úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Þín mágkona og vinkona, Þóra Stefánsdóttir. Mig langar að minnast frænku minnar hennar Stellu sem var mér og minni fjölskyldu mjög kær. Stella bjó alla tíð á Akranesi en það gerðu afi og amma líka, foreldrar hennar. Þegar farið var upp á Akra- nes var Stella heimsótt. Kærleiksrík- ara heimili var vart hægt að finna. Margar minningar vara að eilífu um heimsóknir til Stellu og Hannesar. Hannes sprellaði við okkur börnin og kallaði okkur fallegum nöfnum. Fal- legri lýsingarorð yfir lítil börn hef ég ekki heyrt frá nokkurri manneskju. Son minn kallaði hann m.a. ljúfling eða ljósagull. Í minningunni fyllti pönnukökuilm- urinn vit okkar áður en við komum. Þær voru alltaf á borðum Stellu og bestar í heimi. Það var ekki eingöngu gnægtaborðið í eldhúsinu sem ég minnist með þakklæti. Minningar sem ég geymi um þau sæmdarhjón hafa gert mig að betri manneskju. Heimsókn til Stellu var aldrei stutt, það var ekki rokið inn og út í ein- hverjum flýti. Þar var gott að dvelja og þar kom til gestrisni sem nærði okkur á fleiri vegu en magafyllir. Heimilið og heimilisandinn bar merki um að gestgjafar töldu mikilvægt að gefa sig að gestum sínum. Maður var og er manns gaman. Þar var ekkert sem truflaði og oft bar fleiri gesti að garði sem ánægjulegt var að hitta enda frændgarðurinn stór. Ég er þakklát þeim hjónum fyrir að gefa mér góða fyrirmynd af fallegu líferni þar sem alvöru gæði eru í hávegum höfð. Gildi þess að þjóna vel sam- ferðafólki sínu og gefa af gæsku hjartans. Gildi þess að lifa samkvæmt lífsskoðunum sínum hvernig sem ár- ar. Gildi þess að menntast til máttar og skapa með eigin kröftum gott líf. Fyrir það vil ég þakka. Stella frænka mín var okkur öllum kær og við kveðjum hana með þakk- læti fyrir svo ótal margt sem hún gaf okkur. Ríkidæmi hennar er mikið þegar hún kveður þennan heim. Ég votta fjölskyldu Stellu og öllum þeim sem hana elska mína innilegustu samúð. Minningin lifir. Sólrún (Solla frænka). Kær mágkona og vinkona hefur kvatt, sátt við allt og alla og er nú laus við verki og veikindi. Stella andaðist 6. október á sjúkrahúsinu á Akranesi, umvafin börnum sínum öllum, sem viku ekki frá henni og hugsuðu um hana eins vel og þau gátu á dánar- beðnum. Hannes, stóri bróðir minn, flutti til Akraness úr sveitinni árið 1946. Hann leigði sér herbergi á Jaðarsbraut 13 og flutti ekki þaðan fyrr en mörgum árum og mörgum börnum síðar því hann krækti í heimasætuna og þann- ig varð Stella mágkona mín fyrir rúmum 60 árum. Stella hafði margt sérstakt við sig. Hún var gáfuð, heið- arleg, úrræðagóð og dugleg. Allt lék í höndunum á henni, eldamennska, bakstur, saumar og prjón. Allt fór svo vel og varð svo flott hjá henni. Þessir kostir hennar komu sér vel því Hann- es og Stella komu sér upp stórum og mannvænlegum barnahópi. Ég var eins og grár köttur á nýja heimilinu hjá stóra bróður og Stellu og mátti borða þegar ég vildi, ég man best eft- ir kjötbollunum og svo var allt svo framandi fyrir litla sveitastelpu. Stella var traust og trygg, bar mikla umhyggju fyrir foreldrum og ættingjum, einnig tengdaforeldrum og tengdafjölskyldu. Þau Hannes og Stella komu oftast í sunnudagskaffi á Vesturgötu 109 ásamt fleirum og þá var nú glatt á hjalla. Elsku Smári, Ólöf, Haukur, Heiðrún, Hanna, Guðni og fjölskyldur. Það er vont og sárt að missa en gott og gaman að eiga góðar minningar sem enginn tekur frá okk- ur. Munið eftir kærleikanum og hald- ið vel hvert utan um annað. Samúðarkveðjur frá okkur Badda, Siggu og Steinu til ykkar allra. Guð geymi ykkur. Ása Hjartardóttir. Þegar móðir mín hringdi og sagði mér að Stella hefði fengið hvíldina þá var það bæði sorg og þakklæti sem ég fann til. Sorg yfir því að farin er frá okkur vinkona sem haldið hefur vin- skap við foreldra mína frá fyrstu kynnum og sett mark sitt á mig og mín systkini frá því við munum eftir okkur. Þakklæti yfir því að hafa feng- ið að kynnast manneskju sem leit nánast á okkur systkinin sem sín börn þótt hún ætti sjálf stóran barna- hóp. Stella var þannig manneskja að þótt hún hefði ekki úr miklu að spila gaf hún okkur gjafir á afmælum er við vorum lítil og hún meira að segja færði börnum okkar systkinanna gjafir. Stella fylgdist alltaf með því hvað við systkinin og okkar börn vor- um að gera. Þar sem ég veit að það er ekki í anda Stellu að halda langar lof- ræður, þótt hún ætti það skilið, ætla ég ekki að hafa þetta miklu lengra. Stella var búin að vera mikið veik undanfarið og því er ákveðinn léttir að hún fékk sína hvíld. Að leiðarlokum langar mig að þakka Stellu fyrir þá ósviknu vináttu sem hún sýndi foreldrum mínum og afkomendum þeirra. Börnum, barna- börnum og öðrum aðstandendum Stellu sendi ég samúðarkveðjur og vona að minningin um hana lifi með þeim um ókomin ár. Einar Brandsson. Með nokkrum orðum vil ég minn- ast hennar Stellu frænku minnar, systur hans pabba. Hún og hennar fjölskylda voru einu skyldmenni okk- ar á Akranesi þegar ég var að alast þar upp. Það var mikill samgangur á milli heimilanna og fannst mér mikið fjör og gaman að fara yfir á Höfða- braut 16, því þau systkinin, börn Hannesar og Stellu eru sex og það var því líflegt á heimilinu. Hannes lést fyrir rúmum fjórum árum og var það mikill missir. Þau hjón voru afar samrýmd og það var sérlega notalegt í kringum þau. Barnabörnin og barnabarnabörnin sem flest búa á Akranesi sóttu mikið í afa sinn og ömmu. Stella var ofurmamma sem eldaði, bakaði, prjónaði og saumaði allt handa þessari stóru fjölskyldu. Hún var mjög lagin í höndunum og hennar prjónaafurðir eru í hæsta gæðaflokki. Hún prjónaði líka oft eitthvað fallegt handa okkur í stórfjölskyldunni. Mér fannst frænkur mínar og vinkonur, Heiðrún og Hanna, alltaf í svo flottum fötum og stundum fékk ég lánaða hjá þeim eina og eina flík. Stellu fannst það algjör óþarfi en hún hefur nú trú- lega áttað sig á aðdáun minni á öllu því sem hún bjó til eða hannaði. Stella var alltaf sérlega góð við okkur öll systkinin og þau hjónin, hún og Hannes, tóku alla tíð vel á móti okkur þegar við komum upp á Akranes. Núna hafa pabbi og Dúna misst systur sína og Óli frændi, bróðir þeirra, lést í sumar. Margar fallegar og skemmtilegar minningar eigum við og þær verða ekki frá okkur tekn- ar. Elsku Stella mín, ég sé þig fyrir mér með Hannesi þínum á nýjum stað þar sem er friður og ró. Ég og mín fjölskylda þökkum fyrir allt og allt. Kæru frændsystkinum mínum, fjölskyldum þeirra og öðrum ástvin- um votta ég samúð mína í sorginni. Sesselja. Þorgerður Bergsdóttir Er sárasta sorg okkur mætir og söknuður huga vorn grætir þá líður sem leiftur úr skýjum ljósgeisli af minningum hlýjum. (Hallgrímur J. Hallgrímsson.) Hvíl í friði, elsku Stella mín. Inga Birna Björnsdóttir. HINSTA KVEÐJA

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.