Náttúrufræðingurinn

Árgangur

Náttúrufræðingurinn - 01.10.1954, Blaðsíða 35

Náttúrufræðingurinn - 01.10.1954, Blaðsíða 35
ISLENZKIR FUGLAR X 179 ef til vill vegna mikillar fjölgunar og þar af leiðandi þröngbýlis annars staðar á landinu. Hin síðari sumur hefur þannig talsvert orð- ið vart við svartbak við Veiðivötn á Landmannaafrétti, en þar sáust aldrei svartbakar áður fyrr. Að því er ég bezt yeit, hafa hreiður þó ekki fundizt þar enn sem komið er. Guðmundur Kjartansson, jarð- fræðingur, hefur þó tjáð mér, að sumarið 1952 hafi fundizt svart- bakshreiður í hólma í Tungnaá, hjá Hófsvaði, sem er skammt frá vötnunum. I Þjórsárverum við Hofsjökul var einnig talsverður slæð- ingur af svartbak sumarið 1951, er ég ásamt fleirum dvaldist þar um 5 vikna skeið. Það er þó enn ósannað mál, hvort þeir eru farnir að verpa þar, því að hreiður eða unga fundum við aldrei. Mjög víða hér á landi verpa svartbakar einn og einn út af fyrir sig, en víða verpa þeir líka í byggðum. Þéttustu svartbakavörpin eru í hólmum í ám og vötnum. 1 stærstu svartbakavörpum hér á landi skipta varppörin hundruðum. Hreiður svartbaksins er talsvert fyrir- ferðarmikið og oft ekki óhaglega gert. Hreiðurlautin er venjulega 25—30 cm að þvermáli og 7—9 cm djúp. Hreiðrið er gert úr mosa, stráum og blöðum ýmissa grasa, svo og þangi og þara, allt eftir því, hvað nærtækast er á hverjum stað. Oftast er líka fleiri eða færri stór- ar fjaðrir að finna meðal hreiðurefnanna. Eggin eru venjulega 3, mjög sjaldan aðeins 2. Þau eru ljósgrængrá, steingrá eða grábrún með dauffjólubláum grunnblettum og dökkbrúnum blettum og dílum. Ljósblágræn egg með fáum eða jafnvel engum dökkum dílum eru ekki óalgeng. Varptími svartbaksins er í maí. I meðalári mun hann þó sjaldan vera fullorpinn fyrr en um miðjan maí. í veðursælum héruðum og þegar vel vorar, hefst varpið nokkru fyrr, jafnvel síðast í apríl, en á útkjálkum og í köldum vorum getur varpinu hins vegar seinkað til muna, jafnvel fram í maílok. Talið er, að útungunartími svartbaksins sé tæpar 4 vikur (26—28 dagar). Bæði hjónin skiptast á um að liggja á eggjunum, og bæði annast þau um fæðuöflun handa ungunum, meðan þeir eru ófleygir. Talið er, að ungarnir verði fleyg- ir, þegar þeir eru 8 vikna gamlir. Svartbakurinn er vafalaust að langmestu leyti staðfugl hér á landi. Merkingarnar hafa þó sýnt, að hann er ekki mjög staðbundinn. Ung- fuglar og fullorðnir fuglar utan varptímans flakka víða um í ætisleit og það jafnvel landshornanna á milli. Ég tel líka ekki ósennilegt, að svartbakar frá N. og NA. landi leiti að einhverju leyti til S. og SV. lands yfir háveturinn. Merkingarnar hafa auk þess sýnt, að hluti af íslenzka svartbakastofninum leitar til suðlægari landa á veturna.

x

Náttúrufræðingurinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.