Samvinnan - 01.12.1968, Síða 42
ingjanna, að valdataka kommúnista
hefði verið í aðsigi þegar þeir gerðu bylt-
ingu sína.
Einn svartasti bletturinn á ógnarstjórn
grísku fasistanna er meðferð þeirra á
pólitískum föngum, ekki einungis hinar
úlefnislausu og handahófskenndu pynd-
ingar, heldur öll aðbúð fanganna. Fas-
istastjórnin tók aftur í notkun nokkrar
alræmdar djöflaeyjar, sem ekki höfðu
verið notaðar síðan á hernámsárum
Þjóðverja í seinni heimsstyrjöld. Þeirra
verst er eyjan Jaros, þar sem föngunum
er hrúgað saman í gömlum steinbrögg-
um og tjöldum, án salerna, rennandi
vatns eða annarra frumstæðustu nauð-
synja. Heilbrigðisástandið á þessum stað
er lífshættulegt og hættan á farsóttum
stöðugt yfirvofandi. Þýzku nazistarnir
dirfðust aldrei að senda konur til djöfla-
eyjarinnar Jaros, en grísku fasistarnir
geyma þar 240 konur á öllum aldri —
ein þeirra var hrifsuð frá þriggja mán-
aða barni sínu meðan hún var að mylkja
það, og barnið fengið ömmu sinni til
varðveizlu.
Já, það er efni í langan og ljótan fyrir-
lestur að rekja örlög þeirra Grikkja sem
fasistarnir hremmdu og hinna sem lifa
í stöðugum ótta við hramminn — en ég
held að nú sé nóg komið í bili. Ég vildi
aðeins bregða upp nokkrum svipmyndum
af ástandinu í Grikklandi einsog það
er nú og hefur verið undanfarið ár.
—O—
Hvernig hafa þá þær alþjóðastofnanir,
sem Grikkir eiga aðild að, brugðizt við
valdaráninu í Grikklandi? Viðbrögðin
hafa verið mjög mismunandi, og má
segja að Evrópuráðið og Efnahagsbanda-
lag Evrópu hafi sýnt einna mesta rögg-
semi, en Atlantshafsbandalagið hefur
staðið sig langsamlega laklegast og bein-
línis hunzað tilmæli ýmissa aðildarríkja
um að málið yrði tekið fyrir í Atlants-
hafsráðinu. Skýringin á hinni einkenni-
legu afstöðu NATO er vísast sú, að for-
usturíki bandalagsins, Bandaríki Norð-
ur-Ameríku, á bæði beina og óbeina sök
á því sem gerzt hefur í Grikklandi, og
hefur sú sök verið sönnuð í mörgum bók-
um. Ég nefni af handahófi „Kongen og
den græske tragedie“ eftir Danann Ad-
olph Rastén, sem kom út í fyrra, og „The
Deafh of a Democracy. Greece and the
American Conscience" eftir Stephen
Rousseas, sem kom út hjá Grove Press
í New York í fyrra. Báðir þessir höfund-
ar og margir fleiri benda á þátt banda-
rísku leyniþjónustunnar CIA í valdaráni
grísku fasistanna.
Á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda
í Helsinki 22. og 23. ágúst í fyrra var að
frumkvæði Svíans Thorstens Nilssons
samþykkt að Danmörk, Noregur og Svi-
þjóð legðu sameiginlega fram kæru hjá
Evrópuráðinu (Finnland er ekki í ráð-
inu) vegna margháttaðra brota grísku
herforingjastjórnarinnar á Mannrétt-
indasát„mála Evrópuráðsins. Tillaga Nils-
sons hlaut óskorað fylgi danska forsæt-
is- og utanríkisráðherrans, Jens Otto
Krags, og norska utanríkisráðherrans,
Johns Lyngs. Hinn 20. september var
kæra landanna þriggja afhent fram-
kvæmdastjóra Evrópuráðsins. Þar var
gerð nákvæm grein fyrir þeim átta grein-
um Mannréttindasáttmálans sem hafa
verið brotnar af grísku fasistastjórninni.
ísland lýsti síðarmeir yfir stuðningi viö
kæru Norðurlanda ásamt Hollandi og
Belgíu. Hinn 2. september 1967 sam-
þykkti ráðgjafarþing Evrópuráðsins meö
öllum greiddum atkvæðum gegn einu (en
sá vildi lika fordæma ástandið i Tyrk-
landi) ályktun þar sem frumkvæði Norð-
urlanda var lofað og þakkað. Gríska
stjórnin svaraði ákærunni í desember
með þeirri röksemd, að þar sem hún væri
byltingarstjórn og byltingin krefðist sér-
stakra ráðstafana, hefði henni verið
heimilt að brjóta ákvæði Mannréttinda-
sáttmálans. Sú viðbára er ekki tekin gild.
Hinn 25. marz sl„ á þjóðhátíðardegi
Grikklands, lögðu Norðurlönd fram á-
kæruskjalið í málinu, og er það um 100
blaðsíður og hefur verið til meðferðar
hjá Mannréttindadómstóli Evrópuráðs-
ins. Um miðjan júlí var enn verið að
þjarka um málið, og voru Grikkir þá enn
að leggja fram „gögn“ í málinu.
Hjá Atlantshafsbandalaginu fékk mál-
ið allt aðra meðferð. í samræmi við inn-
gang og aðra grein Atlantshafssáttmál-
ans afréð danska ríkisstjórnin að leggja
fram yfirlýsingu á fundi Atlantshafs-
ráðsins 3. maí 1967. Þetta var gert sam-
kvæmt þeim skilningi, að taka bæri
ákvæði sáttmálans um varðveizlu frelsis
og lýðræðis alvarlega. En þar var fram-
kvæmdastjóri NATO, ítalinn Manlio
Brosio, greinilega á öðru máli. Danski
sendiherrann hjá NATO tilkynnti honum
þá ætlun sína að leggja fram yfirlýsingu
um Grikklandsmálið á fundinum 3. maí.
Brosio sagði gríska fulltrúanum frá þess-
ari fyrirætlun, en hann kvað grísku
sendinefndina mundu ganga af fundi ef
danska yfirlýsingin yrði lögð fram eða
málið yfirleitt tekið til umræðu. Aí
þessum sökum sleit Brosio fundi svo að
segja áður en hann hófst, enda þekktur
að einþykkni og frekju. Danir tóku þá
það ráð að senda öllum NATO-ríkjunum
yfirlýsingu sína skriflega. Þessi viðburð-
ur hjá NATO var mikill siðferðilegur
ósigur fyrir bandalagið. Það var kannski
ekki svo undarlegt að Brosio væri á móti
umræðum um Grikklandsmálið, en af-
staða Bandaríkjanna og Bretlands var
iskyggileg, því hún sýndi að þessi ríki
litu á Atlantshafssáttmálann sem vörn
gegn kommúnisma, en ekki fasisma eða
annarskonar ógnarstjórnum, og gefur
auga leið, að með þeim skilningi er
hræsnin i viðleitni hins svonefnda frjálsa
heims endanlega afhjúpuð.
Hér er rétt að geta þess að ríkisstjórn
borgaraflokkanna i Noregi stóð heilshugr-
ar með dönsku stjórninni innan NATO,
enda birti hún skömmu síðar svipaða
yfirlýsingu, þar sem herforingjastjórnin
var fordæmd og aðgerðir hennar sagðar
skýlaust brot á öllum þingræðisreglum
og því ósamrýmanlegar markmiðum
NATO. En íslendingar þögðu að venju
þunnu hljóði. Á fundi utanríkisráðherra
NATO-ríkjanna í Brússel 14. desember í
fyrra — daginn eftir hina misheppnuðu
gagnbyltingartilraun Konstantínosar —
lét vestur-þýzki utanríkisráðherrann
Willy Brandt í ljós ósk um að stjórn-
málaástandið í Grikklandi yrði tekið til
umræðu. Danski utanríkisráðherrann
Hans Tabor tók í sama streng og benti
á fáránleikann sem fælist i þvi að ráð-
herrafundurinn gæfi út sameiginlega yf-
irlýsingu þar sem ekki væri minnzt á
Grikkland. Endaþótt bæði Willy Brandt
og Hans Tabor ættu mörg samtöl við
starfsbræður sína i hinum NATO-lönd-
unum, tókst þeim ekki að fá fylgi við
tillögur sínar um umræður á fundinum.
Grikklandsmálið er eitt af þeim málum
sem ekki má ræða og helzt ekki minnast
á í Atlantshafsbandalaginu. Grikkland er
eitt af óhreinu börnunum sem mamman
vill helzt ekki sýna eða tala um.
Á fundi Efnahagsbandalagsins 11. maí
1967 var samþykkt ályktun, sem hlaut
stuðning manna af öllum flokkum, sósíal-
ista, sósíaldemókrata, kristilegra demó-
krata, demókrata, frjálslyndra og gaull-
ista. Þar sagði m. a.: „Grikkland fær ekki
aðgang að hinu evrópska samfélagi, verði
ekki komið á lýðræðislegu stjórnskipu-
lagi og pólitísku og félagslegu frelsi.“
Efnahagsbandalagið hætti viðræðum
um lán til Grikklands frá fjárfestingar-
bankanum, og æðsta ráð þess synjaði
um 10 milljón dollara lán, sem herfor-
ingjastjórnin fór fram á í fyrrahaust.
Starf Grikklandsnefnda í Evrópu,
Ameríku og Ástralíu (ég veit ekki um
Afríku og Asíu) hefur einkum beinzt að
því að vekja almenning til vitundar um
ástandið í Grikklandi, knýja á ríkis-
stjórnir að láta málið til sín taka, safna
og dreifa upplýsingum um pólitískt og
félagslegt ranglæti fasistastjórnarinnar
o. s. frv. í Evrópu eiga Grikklandshreyf-
ingarnar samstarf, og var t. d. haldin
Evrópuráðstefna um Grikklandsmálið í
Genf nú i ágúst. Norrænu hreyfingarnar
eiga mjög náið samstarf og héldu meðal
annars ráðstefnu í Stokkhólmi í lok apríl
þar sem samþykkt var ýtarleg ályktun.
Við erum seint á ferðinni með íslenzku
Grikklandshreyfinguna, enda ekki sér-
lega viðbragðsfljóDir að jafnaði, íslend-
ingar, en betra er seint en aldrei. Við
getum í fyrsta lagi ekki unað því að vera
eina landið í Vestur-Evrópu fyrir utan
Spán og Portúgal, sem ekki á slíka
hreyfingu. Við getum ekki heldur unað
því að ísland rjúfi hið norræna samstarf
um þetta mál og þori ekki að taka þá
einörðu afstöðu, sem skapað hefur
frændþjóðum okkar á Norðurlöndum
virðingu allra heilbrigðra manna, og við
getum alls ekki sjálfra okkar vegna og
eigin sjálfsvirðingar setið auðum hönd-
um og látið sem vaxandi ranglæti heims-
ins liggi fyrir utan áhuga- og áhrifasvið
íslands. Við verðum að taka þátt í kvöl-
um og fæðingarhríðum þess nýja heims
sem nú er i burðarliðnum, m. a. með því
að berjast með oddi og egg gegn þeim
fulltrúum miðaldahugarfars sem ráða
ríkjum alltof viða í heimi nútímans og
valda ótöldum milljónum manna kvöl-
um sem fátækleg orð fá aldrei lýst. Ég
vona að þessi hreyfing okkar, þó lítil
sé og aflvana, fái lagt sitt lóð á þær
metaskálar þar sem vegnar eru fortíð og
framtíð — frumstætt afl vöðva og stáls
annarsvegar, lýðfrelsis og siðmenningar
hinsvegar.
42