Andvari - 01.01.1987, Side 118
116
GUNNAR KRISTJÁNSSON
ANDVARI
að einn er yfir oss öllum sem sér allt, líka það sem vér viljum dylja og segjum
ekki frá, sem kemur upp í huga vorn, allt sér hann og ... Hann er kærleikur“
(bls. 238). Með öðrum orðum: allir eru sekir fyrir Guði sem er réttlátur og vill
að samfélagið sé byggt á réttlæti — en hann er miskunnsamur.
Með skírskotun til samsektar og æðra réttlætis verður réttvísi þessa heims
og þar með hlutverk sýslumanns ofuryfirborðslegt hvort tveggja: eru það
ekki sjálf fórnarlömbin sem sýslumaður dæmir? Ætti hann ekki heldur að
ákæra samfélagið? Séra Stefán spyr sjálfan sig um leið og hann segir: „Dæmið
eigi svo að þér munuð eigi dæmdir verða. Hvernig á ég að dæma þá sem mér
hefur verið trúað fyrir?“ (bls. 211).
Sjónarmið séra Stefáns um veikleika og styrkleika svo og um réttlæti og
miskunn eiga sér langa og sterka hefð. f*á hefð er meðal annars að finna sem
undirstraum Dagbókar sveitaprestsins sem áður var minnst á. Hér er átt við
spámannahefð Gamla testamentisins og spádóma, einkum Jesaja, um hinn
líðandi þjón: messías. Guðspjallamennirnir vitna oft til orða Jesaja og geta
þess, að Jesús hafi lesið upp úr riti hans í samkunduhúsunum. Einnig er
greinilegt að frumkirkjan hefur skilið þjáningar Jesú í anda spádóma Jesaja
um hinn líðandi þjón: hinn réttláta og þjáða.
Hin spámannlega trú er pólitísk í eðli sínu, hún leggur áherslu á áhrif
trúarinnar í lífi mannsins, þar með í þjóðlífinu almennt, í mótun lífsviðhorf-
anna, í réttlæti og mannréttindum. Réttlæti í samfélaginu var einmitt megin-
viðfangsefni spámannanna — auk miskunnsemi í mannlegum samskiptum og
trúmennsku við sáttmálann við Guð. En spámennirnir voru ekki alltaf ná-
tengdir helgidóminum (falsspámennirnir voru það að vísu), margir þeirra
beindu einmitt harðri gagnrýni að helgihaldinu einkum ef það var sinnulaust
um réttlætið. Fyrir því er þess vegna sterk biblíuleg hefð að spámaðurinn, sá
sem flytur „orð drottins“, komi úr óvæntri átt, jafnvel frá þeim sem virðast
,,vantrúaðir“. í hinni spámannlegu hefð haldast tvö grundvallarhugtök náið í
hendur: réttlæti og miskunnsemi. Það á einnig við um Grámosann, það
réttlæti, sem séra Stefán beinir spjótum að er hið forgengilega réttlæti, hið
tímabundna réttlæti sem stundum er aðeins nafnið tómt.
Ahugavert er loks að spyrja um ímynd prestsins í verkinu. Hver er hún?
Hvert er megineinkenni séra Stefáns og lykillinn að viðhorfum hans og
persónusköpun? Séra Stefáni er ekki lýst í anda skynsemisstefnunnar, ekki er
hann heldur lagður á hinn siðferðislega mælikvarða raunsæisstefnunnar né
heldur er hann settur í próf í trúarheimspeki. Hann gefur ekki kirkjuna í
eldivið. En hann gefur þó allt sem hann á. Grundvallarviðhorf hans er
samlíðunin. Meðan á messunni stendur hugleiðir presturinn altaristöfluna,
mynd af krossfestingunni: „Ennþá blæddi úr síðusárinu... Hve einn, hve
aleinn...“ (bls. 229). Viðhorf hans er samlíðun með þeim sem þjást, ekki
aðeins þeim sem þjást saklausir heldur einnig hinum sem þjást sekir. í þeim