Eimreiðin - 01.01.1941, Qupperneq 34
EIMREIÐIN
ísland 1940.
Stutt yflrlit.
Tíðarfarið var alls staðar milt fram í miðjan febrúar og
sunnanlands fremur hagstætt fram á vor, en norðanlands og
austan gerði snjóa og hagbönn seinni hluta vetrar. Vorið var
milt fram í júní, en þá gerði óstöðugt veður og síðast storma
og kulda, er ollu afturkipp í gróðri, einkum í görðum. Sum-
arið var kalt, en grasspretta og heyskapartíð þó furðanleg
nema sunnan lands og vestan í ágúst, er elckert hirtist af heyi
vegna óþurrka. Bætti september úr því sunnanlands, en þá
komu óþurfkar nyrðra. Grös sölnuðu snemma, kartöflugras
féll víðast í ágúst, og garðuppskera varð óvenjurýr. Veturinn
fram yfir áramót varð, þrátt fyrir nokkur íhlaup, óvenjulega
mildur og snjólaus, svo að bílferðir tepptust lítið milli Suður-
og Norðurlands. Bjartviðri og stillur leyfðu og tiðar flugferðir
milli landshlutanna.
Sjávarútvegurinn. Eins og sagt var í yfirlitinu í fyrra, byrj-
aði stríðsástandið síðast á árinu 1939 að bæta nokkuð úr hin-
urn langvarandi taprekstri sjávarútvegsins. Á þvi hefur árið
1940 orðið hið æskilegasta framhald, þar eð ísfisksveiðin hefur
fært útgerðinni meiri gróða en dæmi eru til áður.
Fiskveiði í salt varð þvi minna stunduð, sem sést af því,
að eftirtekjan eftir árið varð aðeins um 17 þús. þurr tonn á
móts við 38, 37 og 28 þús. næstu þrjú árin á undan.
Voru flutt út á árinu til Suður-Evrópu, Bretlands og Suður-
Ameríku 17 500 tonn af þurrkuðum fiski (þar með birgðirnar
frá f. á.) á 15,1 millj. kr. (árið áður 19 200 tonn á 10,5 millj.
kr.) og af óþurrkuðum 9 000 tonn á 4,5 millj. kr. (19 000
tonn á 6 millj.).
ísfisksveiðin varð að meðtöldu nokkru af keyptum fiski
af útlendum skipum 92 652 tonn á 52,5 millj. kr. fob. (árið
áður 18 750 tonn á 6,1 millj. kr.),
Af freðfiski öfluðust og seldust til Bretlands 7 274 tonn á
10,5 millj. kr. fob. (árið áður 2 586 tonn á 2,8 millj. kr.).