Uppeldi og menntun - 01.01.1995, Síða 64
BREYTT ATVINNUIÍF OG FÆRNI STARFSMANNA
Wolff 1991) og deilt er um áhrif tækniframfara á kröfur til starfsmanna. í fyrsta lagi
hafa verið settar fram kenningar um að kröfur til starfsmanna séu ekki að aukast,
þvert á móti stuðli tækniframfarir nútímans að því að störf verði einhæfari og geri
æ minni kröfur til starfsmanna. Snemma á áttunda áratugnum setti Braverman
(1974) fram þá kenningu að í kjölfar aukinnar tækni fylgdu minni kröfur til
starfsmanna. Skoðanabræður hans hafa stuðst við athuganir á sögulegri þróun
starfa í frumframleiðslu (Spenner 1983, Form 1987, Howell og Wolff 1991). Þeir
segja að atvinnurekendur noti nýja tækni til að einfalda störf svo þeir eigi
auðveldara með að skipta um starfsmenn og þar með að halda launum niðri.
Þannig megi komast hjá því að fjárfesta í þjálfun starfsmanna sem hvenær sem er
geti horfið til verka annars staðar (sjá t.d. Shaiken 1986, Form 1987 og Vallas 1988).
Niðurstöður athugana hafa einnig bent til að breytingar á skrifstofu- og þjónustu-
störfum hafi verið í átt til einföldunar (Cassedy og Nussbaum 1983, Leidner 1993).
Aðrir hafa aftur á móti sett fram kenningar um að ný tækni og breytt við-
skiptaumhverfi muni auka kröfur til starfsmanna í öllum störfum. Þessar aðstæður
kalli á æ hæfari starfsmenn eigi fyrirtæki að standast samkeppni og því verði að
leggja áherslu á starfsmenntun og að símenntun verði fastur liður í starfsemi
fyrirtækja (sjá t.d. Reich 1991 og Carnevale 1991; Commission on the Skills of the
American Workforce 1990, IRDAC 1990 og Johnston og Packer 1987). Því er haldið
fram að sveigjanleiki og færni í samskiptum við viðskiptavini og til samvinnu á
vinnustað skipti nú meira máli en áður þar sem starfsmenn vinni æ meira saman í
teymum að lausn verkefna og mikilvægt sé að þeir geti gengið hver í annars verk
(Carnevale 1991, Reich 1991). Þannig geti lagskiptur vinnumarkaður - sem skiptist í
sérmenntað fagfólk og ófaglært verkafólk - valdið óbætanlegum töfum í þróunar-
og umbótastarfi sem miðar að því að fullnægja nýjum og nýjum kröfum (Camevale
1991) . Þessar kenningar hafa ekki verið studdar með niðurstöðum vísindalegra
rannsókna svo nokkru nemi.
Enn aðrir hafa sett fram þær kenningar að í raun eigi sér ekki stað neinar
heildarbreytingar heldur séu kröfur í sumum störfum að aukast en fari minnkandi í
öðrum. Jafnframt komi fram nýir færniþættir sem starfsmenn þurfi að tileinka sér
en aðrir hverfi (Hodson 1988, Wallace 1989, Hoachlander o.fl. 1991).
Ný störf verða nú fyrst og fremst til í þjónustuiðnaði. Við upphaf þessarar aldar
missti landbúnaðurinn stöðu sína sem undirstaða efnahagslífsins. Því er spáð að á
sama hátt muni framleiðsluiðnaðurinn tapa lykilhlutverki sínu í efnahagslífinu við
upphaf næstu aldar (Johnston og Packer 1987). Engu að síður verða framleiddar
iðnaðarvörur eins og áður en á ódýrari og einfaldari hátt, s.s. nú á við um landbún-
aðarvörur. Þannig muni þjónustuiðnaður taka við sem meginundirstaða efna-
hagskerfisins og öll ný störf í nánustu framtíð verði til þar. Þessi þróun er þegar
hafin hér á landi (Framkvæmdanefnd um framtíðarkönnun 1987, Stefán Ólafsson
1992) . Óvíst er hvaða fæmi muni einkum reyna á í þessum nýju störfum eða hvort
ný störf verði flóknari eða einfaldari en störf sem vænta má að hverfi.
Þróun starfa mótast af ákvörðunum sem teknar eru um skipulag þeirra. Þeir
valkostir sem menn standa frammi fyrir við hönnun starfa snerta einkum aðgang
að upplýsingum. Zuboff (1988) hefur skilgreint þessa kosti. I fyrsta lagi er um að
62