Uppeldi og menntun - 01.01.1995, Blaðsíða 65
GERÐUR G. ÓSKARSDÓTTIR
ræða val á milli einangraðra tilbreytingarlausra starfa og starfa sem byggjast á því
að skilja upplýsingar og vinna með þær. í öðru lagi stendur valið um aukna sjálf-
virkni, sem stuðlar að því að halda valdinu í höndum fárra yfirmanna, sem einir
hafi aðgang að upplýsingum, og um nýtt tækniumhverfi sem stuðlar að samvinnu,
frumkvæði og upplýsingamiðlun á milli allra starfsmanna ásamt gagnkvæmri
ábyrgð þeirra. Upplýsingavæðing vinnustaðanna er hluti af tæknivæðingu þeirra,
segir Zuboff. En það er undir ákvörðunum komið hverju sinni hver ræður hvaða
upplýsinga á að afla, hver hefur aðgang að þeim og til hvers þær eru notaðar
(Shaiken 1986).
Á íslandi stöndum við frammi fyrir þessum sömu valkostum. Hér á landi, jafnt
sem annars staðar, eru teknar ákvarðanir um nýtingu tækninnar, skipulag vinnu og
starfsmenntun. Valið er því einnig í höndum þeirra sem móta skólastarf. Þeirra er
að sjá ungu fólki fyrir menntun sem gerir því kleift að hafa áhrif á þróun eigin
vinnustaðar og þar með á þróun atvinnulífsins og efnahagskerfisins í heild.
Þeir sem aðhyllast kenningar um að öll störf í nútímaþjóðfélagi verði æ flóknari
hafa reynt að sjá fyrir sér hvers konar fæmi muni helst reyna á við breyttar
aðstæður. Þeir hafa skilgreint færniþætti, sem talið er að allir starfsmenn þurfi að
búa yfir í atvinnulífi komandi tíma, og byggja á þeim breytingum sem nú eiga sér
stað í heiminum (Carnevale o.fl. 1988, SCANS 1992). Um er að ræða
a) kunnáttu í lestri, skrift, tjáningu og reikningi;
b) hugmyndaauðgi og fæmi til að taka ákvarðanir og leysa vandamál;
c) ýmiss konar skipulags- og samstarfsfæmi, þ.m.t. samskipti og sam-
starf við samstarfsmenn og viðskiptavini, skipulagning og nýting
gagna og upplýsinga og yfirsýn yfir vinnustaði og skipulagskerfi.
Jafnframt er ýmiss konar sérhæfð tæknileg fæmi talin mikilvæg.
Ákveðið var að skoða hvort þessar kenningar, sem segja að störf í atvinnulífinu séu
að verða flóknari og að nánast öll störf geri kröfur um ofannefnda fæmiþætti, ættu
við um byrjendastörf á íslandi.
Markmið rannsóknarinnar var bæði að skoða stöðu íslensks atvinnulífs út frá
kröfum starfa um færni starfsmanna og hvort menntun skipti máli í þessum efnum,
þ.e. hvort fólk sem lokið hefði framhalds- eða háskólanámi væri fremur en aðrir í
störfum þar sem reyndi talsvert á þessa fæmi. Erfitt er að átta sig á hvar við
íslendingar stöndum almennt gagnvart þeim breytingum sem hér hefur verið lýst
og lítið er vitað um skipulag vinnu hérlendis. Við seljum vörur út um allan heim og
verðum að standast alþjóðakröfur um gæði og jafnframt höfum við tekið tæknina í
þjónustu okkar. Niðurstöður þeirrar rannsóknar sem hér greinir frá gefa upplýs-
ingar um almenna fæmi sem reyndi á í byrjendastörfum. Hingað til hefur skóla-
kerfið séð vel um starfsundirbúning þeirra sem ljúka háskólanámi eða sérmenntun
á framhaldsskólastigi. Við vitum minna um það hvort skortur á sérhæfðri menntun
verði til þess að hinn hluti nemenda fái annars konar störf þar sem hugsanlega eru
gerðar minni kröfur til starfsmanna. Niðurstöður þessarar könnunar gefa nýjar
upplýsingar þar um.