Uppeldi og menntun - 01.01.2003, Qupperneq 13
AMALÍA BJÖRNSD., INGIBJÖRG SÍMONARD. OG JÓHANNA EINARSD.
ist í mörgum rannsóknum (sjá t.d. Castle, Riach og Nicholson, 1994; Warrick, Rubin
og Rowe-Walsh, 1993).
Einnig hefur verið sýnt í fjölmörgum rannsóknum fram á náið samband milli
hljóðkerfisvitundar og lestrar. A því sviði má nefna rannsóknir Lundbergs, Frosts og
Petersens (1998) og Elbros (1990) á Norðurlöndum, Bradleys og Bryants (1983) í Bret-
landi og Torgesens, Morgan og Davis (1992) í Bandaríkjunum auk fjölda margra
annarra sem hafa sýnt fram á jákvæð tengsl milli hljóðkerfisvitundar og árangurs í
lestri. Samkvæmt þeim rannsóknum læra börn senr hafa góða hljóðkerfisvitund fyrr
og geta betur tengt hljóð og bókstaf og þeim gengur einnig betur með hljóðunarferl-
ið í lestrarnáminu (Torgesen o.fl., 1992). Langtímarannsóknir benda til að hljóðkerfis-
vitund hafi ekki bara fylgni við síðari lestrargetu heldur sé sá munur sem finnst á
hljóðkerfisvitund einstaklinga á leikskólaaldri stöðugur. Þannig virðast einstaklingar
sem á leikskólaaldri hafa slaka hljóðkerfisvitund, miðað við jafnaldra, einnig vera
með slaka hljóðkerfisvitund í samanburði við jafnaldra þegar þeir verða eldri. Því
benda Wagner og félagar (1997) á að æskilegt sé að skima og finna þau börn sem eru
með slaka hljóðkerfisvitund áður en eiginlegt lestrarnám hefst og hefja þá strax þjálf-
un. Þá megi hugsanlega komast hjá áhrifum óæskilegra fylgifiska slaks gengis í lestr-
arnámi eins og skólaleiða og lítils sjálfstrausts í námi.
Margar rannsóknir sýna að börn sem eru með lestrarerfiðleika hafa yfirleitt slaka
hljóðkerfisvitund (sjá t.d. Wagner og Torgesen, 1987; Warrick, Rubin og Rowe-Walsh,
1993). Magnusson og Nauclér (1993) rannsökuðu þessi tengsl hjá 116 sex ára börnum
þar sem annar hópurinn var með eðlilegan málþroska en hinn með frávik. Niðurstöð-
ur rannsóknarinnar sýndu að börn með eðlilegan málþroska voru betri í verkefnum
í hljóðkerfisvitund en þau sem voru með slakan málþroska. Chaney (1992) komst að
sömu niðurstöðu í rannsókn sem hann gerði.
Börn sem eru slök í lestri eiga oft erfitt með að ríma og einnig að breyta orðum
hljóðrænt eins og t.d. að bæta hljóði fyrir framan eða inn í orð og brey ta þannig merk-
ingu þeirra. Bradley og Bryant (1978) báru hljóðkerfisvitund tíu ára barna með lestr-
arerfiðleika saman við hljóðkerfisvitund sex og hálfs árs barna sem ekki áttu við slíka
erfiðleika að stríða. Það kom í ljós að börnin sem áttu í vandræðum höfðu slakari
hljóðkerfisvitund en börnin sem ekki voru með lestrarerfiðleika þótt þau börn væru
þremur og hálfu ári yngri.
íslenskar rannsóknir eru einnig til á tengslum hljóðkerfisvitundar og lestrar. I
rannsókn Ásthildar Snorradóttur (1999), þar sem hún athugaði hljóðkerfisvitund hjá
sex ára börnum með og án lestrarörðugleika, fannst marktæk fylgni allra þátta hljóð-
kerfisvitundar við lestur. Þannig voru börn sem voru slök í lestri slakari í sundur-
greiningu (að sundurgreina setningar í orð, orð í atkvæði og orð í hljóðunga) og
hljóðflokkun (að flokka saman orð með sama upphafshljóði) en börn sem voru góð í
lestri.
Samkvæmt framansögðu koma fram bæði í erlendum og íslenskum rannsóknum
sterkar vísbendingar um tengsl hljóðkerfisvitundar og árangurs í lestrarnámi.
Þroskuð hljóðkerfisvitund virðist auka líkur á farsælu lestrarnámi. Það hljóta því að
vakna spurningar um hvort hægt sé að þjálfa börn með slaka hljóðkerfisvitund og
auka þar með líkur á að lestrarnámið gangi betur en annars gæti orðið.
11