Uppeldi og menntun - 01.01.2003, Side 14
ÞRÓUN HLJÓM-2
Þjálfun hljóðkerfisvitundar
Þær kenningar hafa verið settar fram á síðari árum að hægt sé með snemmtækri
íhlutun að fækka þeim börnum sem lenda í lestrarerfiðleikum (National Research
Council, 1998). Ljóst er að undirbúningur fyrir lestrarnámið hefst meðan barnið er
enn mjög ungt og löngu áður en eiginlegt lestrarnám hefst. Börnum sem alast upp í
umhverfi þar sem mikið er lesið og bókstafir og lesefni eru sýnileg farnast betur í
lestrarnáminu (National Research Council, 1998).
Mikilvægt er að kanna hvort hægt sé að þjálfa hljóðkerfisvitund. Niðurstöður
rannsókna benda til að það sé hægt og ef slíkt er gert gangi börnunum betur að læra
að lesa síðar, þegar eiginlegt lestrarnám hefst. Þekkt er rannsókn Lundbergs, Frosts
og Petersens frá 1988 þar sem hljóðkerfisvitund var markvisst þjálfuð hjá hópi sex ára
barna áður en eiginlegt lestrarnám hófst. Þessi þjálfun hafði marktæk áhrif á lestur og
stafsetningu barnanna en þau börn sem lentu í þjálfunarhópnum stóðu sig mun bet-
ur en samanburðarhópur sem fékk enga slíka þjálfun. Fjölmargar aðrar rannsóknir
hafa staðfest þessa niðurstöðu, t.d. rannsóknir Borströms og Elbros (1996), Lysters
(1996), Torgesens og félaga (1992) og Warricks, Rubins og Rowe-Walshs (1993). Þjálf-
un af þessu tagi felur í raun í sér að lestrarnám barnanna er undirbúið með því að
þjálfa hljóðkerfisvitund þeirra með alls kyns leikjum.
FÉLAGSLEGIR ÞÆTTIR OG FJÖLSKYLDUSAGA
Fleira en þjálfun og starf í leikskóla hefur áhrif á hvernig lestrarnám barna gengur.
Ýmsir þættir sem snerta heimili og fjölskyldu tengjast námsárangri, þar á meðal
menntun foreldra. Islenskar rannsóknir hafa sýnt tengsl milli menntunar foreldra og
árangurs á samræmdum prófum í 7. bekk (Sigríður Teitsdóttir, 2000) og í 10. bekk
(Amalía Björnsdóttir, 2001). Lítið er aftur á móti vitað um tengsl menntunar foreldra
við hljóðkerfisvitund barna á leikskólaaldri hér á landi.
Það er viðurkennt af flestum að auðugt málumhverfi skiptir miklu máli fyrir ár-
angur í lestrarnámi (Scarborough and Dobrich, 1994) og mismunandi umhverfi á
heimilum hefur verið tengt við árangur í lestri (Heath, 1984). Þó að góðar kennsluað-
ferðir skili vissulega árangri, jafnvel fyrir börn sem búa við erfiðar aðstæður, telja
margir að miklu muni að fá foreldrana í samstarf til að auka líkur á farsælu lestrar-
námi (Edwards, 1995). Eitt af því sem foreldrar hafa verið hvattir til að gera er að lesa
fyrir börnin. í samantekt Scarboroughs og Dobrichs (1994) á þriggja áratuga rann-
sóknum á tengslum milli reynslu barna af lestri á leikskólaaldri og málþroska og
hæfni í lestri síðar meir, fundust jákvæð tengsl þótt þau væru mismikil eftir hópum.
Foreldrar vilja börnum sínum langoftast vel og eru tilbúnir til að leggja sitt af mörk-
um við að örva þau og hvetja jafnvel þótt stundum skorti á að þeir viti nákvæmlega
hvaða aðferðir eru bestar til að örva málþroska (Edwards, 1995). Auk þess að lesið sé
fyrir börnin skiptir máli hvernig fyrirmyndir foreldrarnir eru bæði í hegðun og í við-
horfum til lestrar og hvernig lesið er fyrir börnin (Burgess, Hect og Lonigan, 2002).
En foreldrar gera meira en að skapa umhverfi fyrir börnin sín. Þau fá einnig erfða-
12