Uppeldi og menntun - 01.01.2003, Síða 116
NÁTTÚRUFRÆÐIN HEIMA OG Í SKÓLA
I almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla 1999 er lögð áhersla á að menntun og
velferð nemenda sé sameiginlegt markmið heimila og skóla (bls. 44-45). Samkvæmt
bresku SHIPS-rannsókninni er niðurstaðan sú að vinna sem þessi styrkir börnin í
þeirri vissu að bæði foreldrar þeirra og kennarar hafa sama metnað fyrir þeirra hönd,
hvað nám varðar, og þeir styðja hver annan í því samhengi. Börnin fá þessi skilaboð
með því að upplifa jákvæð samskipti milli skólans og heimilisins, þau kynna nýjar
hugmyndir í skólanum sem þau koma með að heiman og öfugt (Solomon og Lee,
1992). Fullyrða má að sama gildi um íslensk börn.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna mjög jákvæð viðhorf allra sem að verkefninu
koma, þ.e. foreldra, kennara og nemenda. Ekki er síst mikils um það vert að verkefn-
in og vinna af því tagi sem hér um ræðir tengjast vel markmiðum aðalnámskrár
grunnskóla frá 1999, bæði hvað varðar áherslur í náttúrufræði og á foreldrasamstarf.
Af niðurstöðunum má draga þá ályktun að heimaverkefni í náttúrufræði eigi fullt
erindi inn í skólastarf á íslandi sem hluti af heimavinnu nemenda.
LOKAORÐ
Markmið þessarar rannsóknar var að meta heimavinnu í náttúrufræði sem nem-
endur unnu með aðstoð foreldra sinn og kanna hvaða gildi slík heimavinna hefur
fyrir foreldra, kennara, nemendur og skólastarfið í heild. Það sýnir sig að hér er um
mikilvæga leið að ræða til að virkja foreldra og veita þeim tækifæri til að tengjast
skólanum og námi barnanna á annan hátt en tíðkast almennt. Þannig hefur verkefnið
tvímælalaust gildi fyrir foreldrana sem og skólastarfið, að ógleymdum nemendunum
sem komu oft með hugmyndir að heiman sem kennarinn gat síðan nýtt sér áfram í
skólastarfinu. Þannig má glöggt sjá hvernig meginmarkmið SHIPS-verkefnisins, þ.e.
að auka tengsl heimila og skóla í gegnum náttúrufræðinám nemenda, skilar sér.
Þeir sem vinna að kennslumálum þurfa alltaf að hafa framtíðina í huga. Að hverju
stefnum við? Tækni- og vísindaþekking framtíðarinnar mun verða í höndum
nemenda okkar og erfitt er að hugsa sér þróun í tækni og vísindum án raungreina-
kennslu. Þess vegna skiptir svo miklu máli að vekja áhuga nemenda á tækni og vís-
indum í skólanum. Ein leið til að gera það er að fá foreldra þeirra með því viðhorf
þeirra og áhugi hafa áhrif. Það hafa rannsóknirnar sem hér hefur verið gerð grein
fyrir sýnt. Vonandi mun sú vinna sem hér hefur farið af stað verða til þess að vekja
áhuga og stuðla að jákvæðum viðhorfum gagnvart raungreinum bæði meðal
nemenda og foreldra þeirra.
114