Uppeldi og menntun - 01.01.2003, Síða 149
KRISTÍN KARLSDÓTTIR
Greining gagna
Rannsakandi og aðstoðarmaður skoðuðu myndbandsupptökur, flokkuðu hegðun
barnanna og mátu stig samskiptahæfni í tilraunaleikskóla og samanburðarleikskóla.
Stuðlað var að breyttum vinnuaðferðum og flokkun á hegðun barnanna í báðum
skólum endurtekin níu mánuðum síðar (ABA Design) (Gall, Borg og Gall, 1996:525).
Sú nálgun sem var valin er megindleg en felur einnig í sér túlkandi þátt. Mynd-
bandsupptökur voru skoðaðar og hegðun barnanna, orð þeirra og æði var skráð
nokkuð nákvæmlega. Þessar upplýsingar um hegðun barnanna voru flokkaðar sam-
kvæmt flokkunarkerfi DeVries og félaga (DeVries, Reese-Learned og Morgan, 1992)
og reiknaður út hundraðshluti flokka hegðunar þeirra á hverju hinna þriggja stiga
(stig 0, 1 og 2). Flokkunin byggir á persónulegu mati, upplifun og tilfinningu þess
sem rannsakaði. Matið felst í því að lesa í tákn (semiotic), skoða hegðun barns og
finna þannig vísbendingar um þá hugsun sem liggur að baki hegðun þess. Að flokk-
un lokinni var niðurröðun flokka einstakra barna skoðuð í leit að áhugaverðum at-
riðum eða vísbendingum um hegðunarmynstur barna (Feldman, 1995:51-53).
Urvinnsla gagna
í þessari rannsókn byggir flokkunin ekki aðeins á atferli eða töluðum orðum, heldur
þarf einnig að taka mið af sálfræðilegu mati byggðu á tóni raddarinnar eða annarri
óyrtri hegðun. Auk þess þarf stundum að taka mið af því samhengi sem atvikið á sér
stað í, til dæmis því sem gerðist á undan eða á eftir (DeVries, Reese-Learned og
Morgan, 1992;16). Flokkunin í þessari rannsókn krefst því tíma til ígrundunar. Að
flokkun lokinni var reiknað út í hversu mörgum prósentum tilvika flokkun rannsak-
anda og aðstoðarmanns voru samhljóma (Inter-observer reliability). Heildarfjöldi
flokkaðra viðbragða var 2609. I 2281 skipti notuðu þeir sömu flokkun áður en til sam-
anburðar kom. Rannsakandi og aðstoðarmaður voru því í 87% tilvika sammála um
flokkunina.
Talin voru saman öll flokkuð viðbrögð barnanna og reiknað út hundraðshlutfall
hegðunar barna á stigum 0, 1 og 2. Reiknað var út hvort marktækur munur væri á
dreifingu hegðunar á stigin þrjú, frá fyrri til síðari upptöku og á rnilli skóla. Notað
var kí-kvaðrat, tölfræðipróf sem ákvarðar hvort marktækur munur er á tíðnidreif-
ingu innan stiganna þriggja í fyrri og síðari upptöku. Mælt er með því að nota kí-
kvaðrat útreikninga þegar skoða á lítið safn af gögnum (Gall, Borg og Gall, 1996:156;
Swinscow, 1981:43). Til að kanna hvort marktækur munur væri á tíðni hegðunar
barna á stigi 0,1 og 2 í janúar annars vegar og september hins vegar, var beitt t-prófi
tveggja háðra úrtaka til að kanna hvort marktækur munur fyndist á tíðni stiganna
með níu mánaða millibili.
Loks voru gögnin skoðuð nánar í þeim tilgangi að fá mynd af því hvernig félags-
þroski barna á fimmta ári birtist. Skoðuð var algeng og sjaldgæf hegðun hjá öllum
börnunum og hjá hverju barni fyrir sig. Auk þess voru skoðaðir flokkar hvers barns
fyrir sig með það í huga hvort greina mætti mynstur í hegðun barnanna.
147