Tímarit lögfræðinga - 01.10.2001, Blaðsíða 13
2.2 Evrópusambandið
Um svipað leyti og NEPA lögin tóku gildi hófst umræða um mat á umhverf-
isáhrifum í Evrópu,15 þótt þróunin þar yrði hægari en í Bandaríkjunum. Fljót-
lega eftir 1970 höfðu örfá ríki Efnahagsbandalags Evrópu (EBE) tileinkað sér
kerfisbundið mat á umhverfisáhrifum tiltekinna framkvæmda. Hins vegar var
það ekki fyrr en seint á áttunda áratugnum sem reglur um mat á umhverfisáhrif-
urn fengu hljómgrunn innan EBE.
Fyrsta tillaga að tilskipun um mat á umhverfisáhrifum tiltekinna fram-
kvæmda, sem kom fram árið 1980, gekk mun lengra en sú sem samþykkt var
árið 1985, sbr. tilskipun 85/337/EBE. Sú byggir á málamiðlun en með henni var
nokkuð dregið úr skyldum framkvæmdaraðila, e.t.v. á kostnað umhverfisvemd-
ar.16 Efni tilskipunar 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir
á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið17 sýnir
ákveðna viðhorfsbreytingu í Evrópu, a.m.k. hvað varðar aðildarríki ESB, ekki
síst m.t.t. hagsmuna almennings. I tilvitnaðri tilskipun, sbr. tilskipun 97/11/EB,
er það gert að óundanþægri skyldu að meta áhrif tiltekinna framkvæmda, sbr.
viðauka I með tilskipuninni og eftir atvikum samkvæmt viðauka II, og í sam-
ræmi við 8. gr. tilskipunar 85/337/EBE, sbr. breytingar í 10. lið 1. gr. tilskipunar
97/11/EB, skal leyfisveitandi taka tillit til þeirra upplýsinga sem fram koma í
mati á umhverfisáhrifum.18 Hins vegar gefa ákvæði ofangreindra tilskipana
ekki tilefni til þess að ætla að óheimilt sé að fallast á framkvæmdir þótt staðfest
sé með mati á umhverfisáhrifum að þær hafi í för með sér umtalsverð umhverf-
isáhrif.
Með tilskipun 97/11/EB voru gerðar nokkrar mikilvægar breytingar á tilskip-
uninni frá 1985. Þær eru helstar þessar:
(1) Bætt var við viðauka, viðauka III, þar sem fram koma viðmið sem nota
á við mat á því hvort framkvæmdir innan viðauka II séu háðar mati á
umhverfisáhrifum.
(2) Bætt var við ákvæði þess efnis að upplýsingar um matsskyldu fram-
kvæmda innan viðauka II verði aðgengilegar almenningi.
(3) Bætt var við ákvæði sem varðar álitsgjöf af hálfu opinbers aðila á efni
matsskýrslu áður en sótt er um leyfi fyrir framkvæmd og heimild til þess
að krefjast upplýsinga áfram, þótt álit hafi verið gefið.
(4) Loks voru lagðar á aðildarríkin auknar skyldur sem lúta m.a. að upplýs-
ingagjöf o.fl. vegna framkvæmda sem áhrif hafa yfir landamæri.
15 Sjá t.d. I. Carlman. bls. 10.
16 C. Wood, bls. 32, et seq., og t.d. H. T. Anker: „Internationale og EU-retlige rammer for miljd-
konsekvensvurderinger“. Miljökonsekvensbeskrivning - i ett rattsligt perspektiv, bls. 77-91.
17 Eins og áður hefur verið nefnt er tilskipunin hluti af EES-samningnum, sbr. 74. gr. hans og lið
1 í viðauka XX.
18 Sjá nánari umfjöllun um mat á umhverfisáhrifum í ESB hjá J. H. Jans: European Environ-
mental Law. Europa Law Publishing, Groningen 2000, bls. 321-328.
161