Búnaðarrit - 01.01.1930, Page 207
BÚNAÐARRIT
Landnám á Jótlandsheiðum.
Þegar Norður-Evrópa lopnaði úr læðingi isaldarinnar
■og jökullinn þokaðist norður á bóginn, skaut stórum
landsvæðum undan honum. Mikill hluti Norður-Þýzkalands
og mestöll Danmörk mynduðust af framburði hans.
löndin voru nakin og ber, en gróðurinn fylgdi jökul-
röndinni eftir. Fyrst komu ýmsar heimskautsjurtir, en
síðar fetaði hávaxnari gróður í fótspor þeirra. Birki og
ösp voru brautryðjendur skógarins, og síðar meir breiddi
skógarfuran feld sinn yfir landið. Þegar hlýindin ukust
enn meir, kom eikin og varð aðal-skógartréð. Löngu
síðar, að líkindum í byrjun steinaldar, kom beykið og
hóf baráttu við eikina. Veitti því betur vegna þess, að
það þolir betur skugga heldur en eikin. Gat það vaxið
undir eikitrjánum, unz það teygði kollinn upp yfir þau
■og kæfði þau. En stríðinu miðaði hægt, því að beykifræin
eru þung og berast ekki langar leiðir. Hefir það staðið
fram á vora daga, en er nú að enda með sigri beykisins.
Þegar mennirnir komu til sögunnar, var mestur hluti
Danmerkur skógi vaxinn. Þó voru skilyrðin á Mið- og
Vestur-Jótlandi víða þannig, að skógurinn hafði aldrei
náð fótfestu. Lágu til þess tvær orsakir. Önnur þeirra
voru hinir sífelldu vestanvindar, sem blása þar allan
ársins hring og hnekkja öllum gróðri. Hin var sú, að
beitilyngið hafði náð fótfestu og breiðzt út á undan
öðrum gróðri og heft framgang hans. Þar, sem beiti-
lyngið vex, breytir það jarðveginum þannig, að hann
verður óhæfur flestum öðrum plöntum. Úr rótum þess
og jurtaleifum, sem falla til jarðar, myndast þéttur