Uppeldi og menntun - 01.01.2008, Page 35
35
bókunum er að stelpan veit sínu viti og brot hennar gegna iðulega þeim tilgangi að
svipta hulunni af gallaðri veröld hinna fullorðnu. Það er einmitt lykilatriði í fyndnum
bókum fyrir yngstu lesendurna að grínið beinist ekki að persónunni sem þeir sam-
sama sig, heldur eldra fólki, til dæmis foreldri eða eldra systkini (Shaeffer og Hopkins,
1988). Í sumum tilfellum beinist grínið í Línubókunum að öðru yfirvaldi; lögreglan og
siðapostularnir (fínu frúrnar í bænum) verða ósjaldan að skotspæni.
Margar söguhetjur nýlegra barnabóka bera svipmót Línu, bæði hér á landi og er-
lendis. Í brennidepli eru sterkar, kotrosknar stelpur sem víla ekkert fyrir sér (Brynhild-
ur Þórarinsdóttir, 2002). Andrew Casson (1997) fjallar um lífssýn og gildi nútímabarna-
bóka en lýsing hans á vel við íslenskan markað. Casson segir frelsi, sköpunarkraft,
sjálfstæði og styrk mest áberandi í fari söguhetjanna. Þessi lífsgildi standi lesendum
nógu nærri til að bækurnar verði ekki predikandi. Boðskapurinn sé ekki áberandi þar
sem áherslan sé á galsa, leikgleði og sköpunarkraft. Þarna blasa helstu einkenni Línu-
bókanna við; bjartsýni, jákvæðni, líf og fjör en þó hárbeitt samfélagsleg gagnrýni sem
nær jafnvel frekar eyrum fullorðinna en barna.
Lína var einstök á sínum tíma (Lindgren, 1945), stelpa sem tókst á við strákaver-
öld prakkarasagnanna. Það var því ekki aðeins söguhetjan sem var í uppreisn við
reglur samfélagsins, heldur einnig höfundurinn, en Astrid Lindgren fékk bæði hrós
og skammir fyrir þetta uppátæki sitt. Þar sem skilningur barna á kímni veltur á þekk-
ingu þeirra á samfélaginu má gera ráð fyrir að ekki aðeins uppátæki Línu hafi vakið
hlátur á sínum tíma, heldur einnig sú staðreynd að það var stelpa sem stóð fyrir þeim.
Hegðun Línu var ekki í samræmi við viðurkennda hegðun stúlkna um miðja tuttug-
ustu öld. Það var nákvæmlega þetta ósamræmi sem orsakaði hneykslan gagnrýnenda
þegar Lína kom fyrst fram á sjónarsviðið. Segja má að hið sama hafi verið upp á ten-
ingnum hér á landi á fyrri hluta áttunda áratugarins þegar olga Guðrún Árnadóttir las Uppreisnina á barnaheimilinu í útvarpið. Hegðun barnanna í sögunni var ekki í sam-
ræmi við viðurkennda hegðun og vakti þar með mjög andstæð viðbrögð, bæði hlátur
og hneykslan.
Hina Línu-legu þróun í barnabókum má túlka sem vísbendingu um sterkari stöðu
stelpna, sem þurfa ekki lengur að læra að vera stilltar og prúðar eins og Busla greyið
í samnefndri bók (1969 og 1995). Það þykir ekkert fyndið eða sérkennilegt nú til dags
að stelpur skuli vera í aðalhlutverki í grallarasögum. Í íslenskum barnabókum eru
einmitt margar spriklandi fjörugar nútímastelpur sem sverja sig í ætt við Línu. Eitt
besta dæmið er fíasól Kristínar Helgu Gunnarsdóttur, en þrjár bækur hafa komið út
um stelpuna. Tvær þeirra hafa hlotið Bókaverðlaun barnanna, Fíasól í Hosiló 2005 og
Fíasól á flandri 2006, en það staðfestir hversu vel sögurnar falla börnum í geð. Kristín
Helga hefur tvisvar áður hlotið þessa viðurkenningu barnungra lesenda, árið 2001
fyrir bókina Í Mánaljósi og 2003 fyrir Strandanornir. Það mætti taka til marks um sterka
stöðu fyndinna bóka í veröld íslenskra barna en kímnin er alltaf undirliggjandi í sög-
um Kristínar Helgu, hvert sem söguefnið er.
Kímni í nýlegum barnabókum er annars afar fjölbreytt og í takt við útgáfu þar sem
öllu ægir saman; raunsæisverkum, fantasíum og försum. Allt virðist leyfilegt; finna
má gróteska kímni, fantasíur, kímni tengda óþekkt og allt frá einföldum rímum til
BRyNhILDUR ÞÓRARINSDÓTTIR