Uppeldi og menntun - 01.01.2008, Qupperneq 50
50
UMBROT
Myndin sýnir vel hvernig McNiff hugsar sér ferli starfendarannsókna. Það sér ekki
fyrir endann á síendurteknum spírölum og í ferlinu geta þeir teygt anga sína í ýmsar
áttir. ferlið er öðrum þræði eins konar óvissuferð, líkt og lífið sjálft, enda segir McNiff
á einum stað að eitt sé víst og það sé óvissan. Spíralarnir breyta þó aldrei lögun sinni,
ekki fremur en markvisst ferli rannsóknarinnar sem heldur sér þó svo að viðfangs-
efnið, eða -efnin, kunni að þróast og taka breytingum.
Þá er afar mikilvægt að gera sér grein fyrir að starfendarannsókn felst ekki síður í
þeim aðgerðum sem mistakast en þeim sem vel heppnast. ferlið felur í sér rannsókn-
ina og framkvæmdin lærdóminn. Allt ber þetta að sama brunni því að langtímamark-
mið starfendarannsókna er að leggja sitt af mörkum til þess að breyta samfélaginu til
hins betra, og sú vinna tekur engan enda (McNiff, 2002).
Samskipti
fjöldi rannsókna gefur til kynna að gæði samskipta kennara og nemenda haldist í
hendur við námsárangur nemenda og félagsþroska og að sama skapi bendir flest til
þess að góð samskipti milli kennara og nemenda séu mikilvægur hvati kennarans
í starfi (t.d. Lortie, 1975; Hafdís Ingvarsdóttir, 2004; Sigrún Aðalbjarnardóttir, 2004).
Kennararannsóknir sem gerðar hafa verið allt frá 1955 benda til þess að hlýja og eld-
móður kennara hafi góð áhrif á námsárangur nemenda. Þá stuðli þessir eiginleikar
kennara jafnframt að betri og virkari svörun frá nemendum og jákvæðara andrúms-
lofti í skólastofunni (Brophy og Good, 1974). Nýrri rannsóknir gefa svipaðar nið-
urstöður, t.d. bendir rannsókn Wentzel (2002) til að kennarar hafi jafnvel frekar áhrif
á námsárangur nemenda með samskiptum við þá en með fræðunum. Þá gefur rann-
sókn Watson og Ecken (2003) til kynna að traust og umhyggja í samskiptum kenn-
ara og nemenda stuðli bæði að aukinni getu nemenda í námi og til að sýna öðrum
umhyggju.
Watson (2003) hefur unnið með kennurum og menntunarfræðingum að skólaþró-
unarrannsóknum sem hafa það að markmiði að byggja upp umhyggjusamt og styrkj-
andi námsumhverfi sem hlúir að tilfinningu nemenda fyrir því að þeir tilheyri og
tengist skólanum. Þegar Watson hafði fylgst í rúma tvo áratugi með árangri þeirra
skóla sem unnu að slíkum skólaþróunarrannsóknum sannfærðist hún um að ákveðin
aðferð við aga og bekkjarstjórnun sem hefur verið kölluð tengslakenningin (develop-
mental discipline) væri lykillinn að allri velgengni nemenda. Með þessa sannfæringu
að leiðarljósi fékk hún grunnskólakennarann Ecken til liðs við sig til þess að sýna fram
á hvernig tengslakenningin birtist í verki í skólastofunni.
Tengslakenningin er byggð á geðtengslakenningu (attachment theory) og gengur
út frá því að ýmsir hegðunar- og námserfiðleikar stafi fyrst og fremst af því að geð-
tengslum sé í einhverju ábótavant en tengist ekki eigingjörnum ákvörðunum barns-
ins. Þessi aðferð við aga og bekkjarstjórnun byggist á góðum samskiptum milli kenn-
ara og nemenda og umhyggjusömu andrúmslofti í skólastofunni. Tengslakenningin
er andstæð allri valdbeitingu og í henni felst að kennarar:
Skapi hlýleg og styrkjandi tengsl við nemendur sína og þeirra á milli.•