Uppeldi og menntun - 01.01.2008, Page 69
69
vALGERÐUR MAGNÚSDÓTTIR
ANNA ÞÓRA BALDURSDÓTTIR
Faglegt sjálfstraust grunnskólakennara
Áhrif á starf og starfsþróun
Í grein þessari beinist athyglin að faglegu sjálfstrausti kennara og áhrifum þess á störf þeirra
og starfsþróun. Notaður var bandarískur spurningalisti um faglegt sjálfstraust kennara með
undirþáttunum bekkjarstjórnun, kennslu og hvatningu. Kynnt er tilgátulíkan um tengsl
faglegs sjálfstrausts kennara við aðra þætti sem kannaðir voru, en þeir eru, auk kulnunar,
þættir um vinnuumhverfi og bakgrunn þátttakenda. Svör um faglegt sjálfstraust eru hliðstæð
svörum í rannsókn höfundanna og því ætti listinn að nýtast í íslensku grunnskólastarfi. Mikil
fylgni reyndist milli faglegs sjálfstrausts og kulnunar. Vinnustaðarþættir virðast hafa ýmiss
konar áhrif, sumir bæði á faglegt sjálfstraust og kulnun, aðrir á annað hvort og enn aðrir á
hvorugt. Bakgrunnsþættir höfðu ekki áhrif á aðra þætti sem rannsakaðir voru.
inn gang ur
Þessi grein er sú þriðja og síðasta um niðurstöður rannsóknar sem gerð var árið 2005,
en hinar fyrri birtust í Uppeldi og menntun árið 2007 (sjá Anna Þóra Baldursdóttir og
valgerður Magnúsdóttir 2007a, 2007b). Rannsóknarspurningarnar snúast um það
hvaða þættir í starfsumhverfi grunnskólakennara séu líklegir til að valda þeim kulnun og um leið hvaða þættir stuðli að og viðhaldi vinnugleði þeirra og starfsáhuga. Í fyrri
greinum hafa verið settar fram niðurstöður um kulnun, álag og hvatningu kennarans
í starfi (Anna Þóra Baldursdóttir og valgerður Magnúsdóttir, 2007b) og tengsl kuln-
unar við ýmsa þætti í starfsumhverfinu (Anna Þóra Baldursdóttir og valgerður Magn-
úsdóttir, 2007a). Niðurstöður eru þær að vinnugleði kennara hafi heldur aukist miðað
við rannsókn sem gerð var árið 1999 (Anna Þóra Baldursdóttir, 2000) og að kennarar
setji í efsta sæti þætti sem lúta að velferð nemenda þeirra, en hafi jafnframt vaxandi
áhyggjur af þeim nemendum sem eiga í erfiðleikum. Kennarar telja vinnuálag sitt
umtalsvert og eru þau viðhorf það almenn og sterk að þau ber að taka alvarlega. Þeir
kalla ótvírætt eftir góðum samskiptum, virkri umbun og hóflegu vinnuálagi. Einnig
sýndu niðurstöður að góð samsvörun í gildismati skóla og kennara skiptir miklu máli
fyrir líðan kennaranna. Í þeirri grein sem hér birtist eru niðurstöður rannsóknarinnar
settar fram með heildstæðari hætti en í fyrri greinum.
Uppeldi og menntun
17. árgangur 1. hefti, 2008