Iðunn : nýr flokkur - 01.03.1927, Blaðsíða 15
IÐUNN
]ón A. Hjaltalín.
9
unum, og í ýmsum efnum virðist hann ekkert hafa breyzt
við dvöl sína erlendis.
Það sem Hjaltalín hafði fyrst og fremst lært af Eng-
lendingum, var að treysta á drengskap lærisveinanna,
og láta þá sem mest stjórna sér sjálfa. Hann hélt því
fram, að lífið í enskum heimavistarskólum (Colleges)
væri fyrirmyndin, sem vér ættum að líkja eftir. »Því ættu
ungir íslendingar ekki að geta hagað sér eins vel og
ungir Englendingar?« sagði hann eitt sinn við mann,
sem andmælti því, að skólar með ensku sniði gætu
þrifist hér á landi. Hjaltalín hélt fast fram þessari skoðun
sinni, og í álitsskjali til stjórnarinnar, þegar verið var að
undirbúa reglugerð Gagnfræðaskólans á Akureyri, kemst
hann svo að orði: »Að binda fjöruga æskumenn á klafa
ætla eg að sé það versta uppeldi, sem menn geta gefið
þeim. Mentun, og meina eg með því, að gera manninn
að manni, þróast ekki svo til nytja verði, nema í frelsi,
og eigi síður við það, að sá er mentast vill, hafi við
nokkra erfiðleika að berjast«.
1 þessum orðum kemur eiginlega fram stefna Hjalta-
líns sem skólastjóra. Hann ætlaði lærisveinum sínum að
leysa af hendi erfið verk, en hann vildi láta þá sjálfráða
um það, hvernig þeir verðu frístundum sínum. Hann
hafði óbifanlega trú á hið góða í mannssálinni, en að
sama skapi hafði hann ótrú á öllum þvingunarlögum.
En hóf er bezt í hverjum hlut, segir máltækið. Tak-
markalaust frelsi getur auðveldlega leitt til sjálfræðis og
agaleysis, sem geta haft hinar verstu afleiðingar. Að
stefna Hjaltalíns lánaðist vel, er einkum því að þakka,
að lærisveinarnir voru góðir og skólastjórinn ekki síður
afburðamaður.
Flestir þeir menn, sem á Möðruvallaskólann komu,
voru um og yfir tvítugt. Sumir jafnvel komnir að þrítugu.