Morgunn - 01.06.1989, Síða 63
MORGUNN
HITT OG ANNAÐ
Síðar vissum við, að maðurinn var yngri en hann leit út
fyrir að vera; hann var rúmlega þrítugur.
Maðurinn hafði ekki meitt sig fyrr en nóttina áður en hann
kom til okkar.
Mér dettur í hug að hnýta hér aftan í einu atviki sem ég hélt
að mundi verða fyrirboði, en varð það ekki.
Húsið, sem sýndist í björtu báli.
Ég mun hafa verið 16 ára. Átti heima í Keflavík. Það var
sunnudagskvöld. Hvassveður var af norðri, frost og dauft
tunglskin. Ég hafði farið út með vinstúlku minni og var nú á
heimleið ein. Ég gekk undan veðrinu. Allt í einu fann ég
ákaflega mikla brunalykt koma á móti mér og mér fannst
reykjargusur þyrlast framan í mig. Ég leit upp og sá þá hús
fyrir ofan mig í götunni standa í björtu báli. Ég sá logana
brjótast út um gluggana og hylja húsið, og hitinn og
reykjarsvælan fannst mér lítt þolandi. Engan mann sá ég
þarna við björgun. Mér datt því í hug að þjóta inn og segja
fólkinu frá þessu. Samt gerði ég það ekki, heldur tók til
fótanna og hljóp heim; þorði þó ekki að fara götuna fram hjá
húsinu, því að mér fannst sem logarnir mundu gleypa mig.
Þegar heim kom, sagði ég mömmu frá þessu og fékk hana
með mér út. En þá sáum við engan bruna, enda fór ég þá að
átta mig á því, að þetta hefði ekki verið vanalegur bruni, því
að eldurinn kom gagnstætt því, sem vindurinn blés; því hafði
ég ekki fyrr tekið eftir.
Ég bjóst við, að þetta mundi vera fyrirboði þess, að húsið
brynni. En svo hefur ekki orðið, því að húsið stendur
óbrunnið enn í dag.
Ég get auðvitað enga hugmynd gert mér um, hvernig á
þessari sýn hefur staðið. En mér hefur komið það til hugar,
sem ef til vill er ekkert annað en vitleysa, að sýnin kunni að
standa í einhverju sambandi við það, að í húsinu var alveg
óvenju mikill ófriður milli fólksins.
61