Saga - 1990, Page 21
FÉLAGS- OG HAGÞRÓUN Á ISLANDI
19
Öskjugosið 1875 veitti byggðinni þungar búsifjar, þótt sú saga verði
ekki sögð hér. Halldór Stefánsson hefur ritað sögu þessarar heiðar-
byggðar og er þessi vitneskja þaðan fengin.39
Guttormur prófastur Þorsteinsson samdi sóknarlýsingu Hofssókn-
ar í Vopnafirði fyrir Bókmenntafélagið árið 1840. Hann getur sjö
nýbýla sem risið hafi í sókninni. Þau elstu voru reist árið 1827, en það
yngsta 1839.40 Þegar horfið er til byggða við sjávarsíðuna kveður við
annan tón. Séra Hallgrímur Jónsson á Hólmum í Reyðarfirði getur
þess í sóknarlýsingu sinni að nýbýli séu þar engin.41
í spurningalistum þeim sem Hið íslenska bókmenntafélag sendi
sýslumönnum og prestum vorið 1839 var 39. spurningin, sem beint
var til presta, á þessa leið: „Hver eru þar nýbýli og hvenær upp
tekin?" Það vantaði nokkuð á að allir prestar svöruðu henni, en nóg
barst af svörum til að hægt sé að fá allskýra hugmynd um byggðaþró-
unina að því er að nýbýlagerð sneri.
Þegar haldið er vestur um land rangsælis úr Þingeyjarsýslu kemur
í ljós að nýbýlamyndun var hverfandi í vesturhluta Norðuramtsins.
Við lauslega athugun virðast nýbýli rúmlega 20; sex í Húnavatns-
sýslu, 15 í Skagafirði og aðeins eitt í Eyjafjarðarsýslu. Ekki er tilgreint
hvaða ár þau voru reist, nema í undantekningartilfellum, í Húna-
vatnssýslu á árunum 1832 og 1833, en í Skagafirði 1841-51. Yfirleitt
voru þau reist inn til heiða.42
Þegar til Vestfjarða kemur verða nýbýlin talin á fingrum annarrar
handar. Sóknalýsingar Vestfjarða eru flestar skráðar fyrir miðja öld-
ina. Þær geta tveggja nýbýla í Barðastrandarsýslu og eitt nýbýli er
tíundað í Strandasýslu.43
Svipað verður uppi á teningnum í Snæfellsnessýslu. Svo virðist
sem menn hafi síður freistað þess að stofna til nýbýla þar sem sjósókn
°g útræði var stundað annaðhvort nær eingöngu eða til viðbótar við
hefðbundinn landbúnað. 1 Gullbringusýslu er líkt ástatt og á Snæ-
39 Halldór Stefánsson, Jökuldalsheiðin og byggðin þar, Ak. 1948.
40 Guttormur Þorsteinsson, „Sóknarlýsing Hofssóknar í Vopnafirði", Austurland I,
Ak. 1947, bls. 93.
41 Hallgrímur Jónsson, „Sóknarlýsing Hólma í Reyðarfirði", Austurland I, Ak. 1947,
bls. 132.
42 Sýslu- og sóknalýsingar Skagafjarðarsýslu. Ak. 1954. Sýslu- og sóknalýsingar Húnavatns-
sýslu. Ak. 1950.
43 Sóknalýsingar Vestfjarða I—II. Rvík 1952. Sjá svör við 39. spurningu.