Saga - 1990, Side 72
70
LÝÐUR BJÖRNSSON
stæðum reyna að sjá hvort þessu mætti koma til vegar." Hojgaard
kvaðst ætla að færa tilmælin í tal við Handelsbanken, en þar sat hann
í stjórn. Pétur kveðst hafa heyrt á Hojgaard, að hann legði nokkra
áherzlu á hina pólitísku hlið málsins og samband landanna eftir 1943,
en kveðst hafa gert honum ljóst, að engar skuldbindingar á því sviði
gætu tengst þessu máli. Féllst Hojgaard á það sjónarmið. Borgarstjóri
kveðst hafa sagt Hojgaard, að á íslandi væru Danir taldir vera lakastir
og leiðinlegastir allra skuldheimtumanna, en Hojgaard svaraði því til,
að í Danmörku þættu íslendingar óforskammaðir skuldunautar til
viðbótar getuleysinu, þegar út af bæri og þá þyrfti að rukka. Umsögn
Péturs um Dani miðaðist við skuldunauta, sem ekki gátu staðið í full-
um skilum. „Svo að við töluðum eiginlega alveg út úr pokanum,"
bætir Pétur við. Öldur sjálfstæðisbaráttunnar voru ekki hjaðnaðar.
Næst var rætt við tvo bankastjóra við Handelsbanken, Hedegaard og
Kaufniann. Þeir töldu lán án ríkisábyrgðar torfengið og ólíklegt, að
unnt yrði að kaupa verulegt magn efnis til hitaveitu í Danmörku.
Lánið yrði því að vera í sænskum krónum, eins og lánið til Sogsvirkj-
unar. Bankastjórarnir buðust til að kynna Enskilda banken í Stokk-
hólmi erindi Péturs, jafnvel að hringja strax í Marcus Wallenberg,
bankastjóra hans. Pétur kvaðst ekki geta boðið ríkisábyrgð og helzt
ekki vilja það, vildi helzt komast frá „þessari eilífu ,statsgaranti'."
Hann vildi ræða um lán í Danmörku, kvaðst vera á leiðinni til Sví-
þjóðar og eiga sín sambönd þar. Borgarstjóri reifaði hugmyndir um
efniskaup í Þýzkalandi fyrir inneignir danskra banka þar og lán fyrir
afborgunum vegna efniskaupa í Bretlandi, en þar mætti fá efni með
afborgunum til sjö ára með aðstoð Export Guarantee Committee. Efn-
ið væri einnig ódýrara en í Svíþjóð. Síðari hugmyndin vakti áhuga
bankastjóranna, sem óskuðu eftir viðtali um hana við Pétur, áður en
hann héldi til Svíþjóðar. Viðtalið fór fram næsta dag, en þá hafði
Kaufmann raunar þegar rætt við Wallenberg, sem kvað borgarstjóra
velkominn til viðræðna í Stokkhólmi, en taldi ólíklegt, að lán án ríkis-
ábyrgðar fengist í Svíaveldi. Borgarstjóri átti von á annarri málsmeð-
ferð, enda taldi hann vera fastmælum bundið, að fyrst yrði rætt við
Wallenberg eftir að lánamöguleikar í Danmörku hefðu verið kannaðir
betur. Hafði hann orð á þessu við Kaufmann, en fékk aðeins það svar,
að Wallenberg væri harður húsbóndi. Fylltist Pétur nú grunsemdum
um tengsl Enskilda banken og Handelsbanken og flaug jafnvel í hug,
að bankastjórar hins síðarnefnda væru umboðsmenn Enskilda bank-