Saga - 1990, Page 198
196
RITFREGNIR
sýnir helstu innlenda og erlenda atburði tímabilsins í einni sjónhendingu.
Líkön sýna „Farvegi bókmenntanna" 12.-13. öld (bls. 81), 14.-16. öld (bls.
127), 17.-18. öld (bls. 189) og eru litir notaðir til að gefa til kynna hvaða stéttir
standa að baki hinum ýmsu tegundum bókmennta og á það væntanlega við
líkanið fyrir 17.-18. öld (bls. 189) líka þó að það sé ekki tekið fram. 1 því sam-
bandi langar mig að spyrja hvort höfundunum hafi aldrei dottið í hug að gera
svipuð líkön af sagnfræðilegum heimildum? Það hefði verið forvitnilegt að
sjá á þann hátt hvernig heimildir breytast í tímans rás og það hefði gefið
tækifæri til að ræða lítillega sagnfræðilegar aðferðir og vandamál sem lítið er
fjallað um.
Neðanmáls á hverri opnu eru margvíslegar stuttar athugagreinar sem hafa
mikið upplýsingargildi og er að gagn og gaman svo sem annálar afmarkaðra
tímabila eða atburða innlendra og erlendra, mismunandi töl, t.d. biskupa,
lögsögumanna, hirðstjóra o.fl., sögur og klausur úr frumheimildum, vísur,
ljóð, ættartöflur, myndir, stuttar greinargerðir um fræðilegar kenningar og
líkön t.a.m. þræla-/bændalíkanið svokallaða (bls. 58-9).
í svo umfangsmiklu verki sem þessu hefði ekki verið óeðlilegt að kalla til
hóp sérfræðinga til að skrifa um sín sérsvið, en ritstjórarnir hafa kosið að
skrifa meginhlutann sjálfir. Þeir hafa þó kallað til Hauk Jóhannesson jarð-
fræðing, Ingva Þorsteinsson náttúrufræðing og Guðmund Guðjónsson land-
fræðing, til að fjalla um jarðfræði og gróðurfar; Viðar Hreinsson bókmennta-
fræðingur fjallar um bókmenntir og Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir sagn-
fræðingur um tímabilið eftir 1550. Ekki er beinlínis sagt hvers vegna þessi
kostur var valinn en það er næsta víst að verkið hefði aldrei unnist á tveimur
árum eins og raun ber vitni ef fleiri hefðu komið við sögu og jafnframt er ólík-
legt að fengist hefði sá samfelldi blær sém stefnt var að og tekist hefur að ná.
Hitt er opin spurning hvort efnismeðferð hefði ekki orðið fræðilegri og
traustari.
Tímabilið sem tekið er fyrir í þessu bindi eru fyrstu níu aldirnar í ellefu
alda sögu þjóðarinnar sem höfundarnir kalla „aldir bændasamfélagsins".
Breytileg pólitísk staða og viðskiptatengsl innanlands og við útlönd marka
tímabil fremur en atvinnuhættir sem haldast lítt breyttir allt frá landnámi til
einveldis, loka einokunar og neyðarára Skaftáreldanna fyrir aldamótin 1800
þegar þessu bindi lýkur. Innan þessa ramma er fjallað um myndun landsins,
gróðurfarssögu, upphaf menningar, forsögu víkingaaldar, trúarbrögð og
heimsmynd íslendinga, tildrög landnáms og landnám; kirkjusaga og þar
með siðskiptin, verslunarsaga, stjórnmálasaga, valdabarátta og eignasöfnun
stofnana, ætta og einstaklinga fá mikið rúm; bókmenntum, listum og þjóð-
háttum eru líka gerð skil sem og einstökum atburðum eins og Spánverjavíg-
unum og Tyrkjaráninu og lífshlaupi ófárra einstaklinga t.d. Guðríðar Þor-
bjarnardóttur Vínlands- og Rómarfara, Jóns Indíafara, Jóns lærða og Hall-
gríms Pétursonar. Listinn yfir efnisflokkana gæti verið mun lengri. Samt fer
ekki hjá því að ýmislegs er að sakna. Umfjöllun um náttúrufar er rýr. Jöklar,
hafís og árferði hafa haft áhrif á búsetu og afkomu þjóðarinnar engu síður en
eldvirkni og hefur Sigurður Þórarinsson m.a. fjallað um það en þess sér lít-
inn stað í bókinni. Könnunarsaga landsins á 18. öld liggur óbætt hjá garði.