Saga - 1990, Síða 209
RITFREGNIR
207
Björn heitinn á orði að samgöngur væru hreyfiafl sögunnar. En hann minnti
okkur líka á, að á miðöldum var ísland leiðarendi. Kynni það ekki einnig að
eiga við um Odda? I fljótu bragði get ég ekki fallist á þaö sjónarmið Helga að
höfðingjar hafi hyllst til þess að efla til bús þar sem þjóðbraut lá um garð. Ég
held að höfðingjar hafi valið sér bæjarstæði eftir því hvar þótti best undir bú
og það réðst af landkostum; vatnsbóli, slægjulöndum, bithögum, eldiviðar-
taki, veiðivon. Bú höfðingja og helstu kirkjustaðir voru af þessum sökum
víðast miðsveitis, hjáleigur í kring og leigujarðir fjær. Leiðir héraðsmanna
hlutu að liggja heim til höfðingja og/eða kirkjustaða með landskuld og kú-
gildaleigur; verk sín og mat: ost, sauðaföll, Ijósmeti, smjör, fisk. Leiðir njósn-
armanna lágu einnig til héraðshöfðingja með tíðindi úr sveitum, til höfðingja
kom bjargþrota fólk og bað ásjár í neyð; aðrir leituðu að þeim trausts í deilu-
málum. Osttollur til Odda kynni allt eins að hafa verið gjald sem átti að
tryggja bjargþrota fólki mat og héraðsmönnum réttarvernd höfðingja í þræt-
um um landsnytjar eða önnur mál fátíðari.
Ekki fæ ég séð fyrir mér, einsog Helgi, tíðar kaupferðir og verferðir „stór-
bænda", „meðalbænda" eða „almennra bænda" (s. 77, 115) og verkmanna
þeirra um hlaðið í Odda og þaðan yfir Þjórsá á Sandhólaferju og um þveran
Flóa og á Eyrar eða Suðurnes. Skikkjubúnir höfðingjar Rangárþings sá korni
í akra Bretinu-Njáls sögu, í Þorláks sögu helga er Oddi sagður hinn æðsti höfuð-
staður og þangað er skotið öllum stórmálum á tíð Jóns Loftssonar og því ekki
furða að í kvæði Jónasar um Gunnarshólma liggi borðfögur skeið fyrir landi.
Én er að treysta óskamyndum fornsagna um héraðshöfðingja?
Kaupferðir sem og verferðir í Sunnlendingafjórðungi um 1200 sé ég ekki
öðruvísi fyrir mér en fáar og strjálar; hættusamar ferðir lágvaxinna erfiðis-
manna sem höfðu frá litlu að hverfa heima og lítinn kaupeyri að láta fyrir er-
lendan vaming. íslenskar fornleifar í þekktum kumlum bera fæstar vitni um
nkidæmi, en fróðlegt væri ef grafa mætti uppúr hlaðinu í Odda vitnisburði
um auðlegð höfðingja þar á bæ, sem samsvaraði vildarmynd þeirra í fornrit-
um; mætti til að mynda grafa hluti úr jörðu er segðu til um kaupskap Odda-
verja við Orkneyinga, glæsileg híbýli í Odda, ritfæri, ölföng góð, vopn,
skartklæði og veislubæra skrautmuni?
Hugmyndaleikur Helga Þorlákssonar í bókinni um gamlar götur og goða-
vald í Rangárþingi er bráðskemmtilegur og gerir ekki kröfu til fullvissu um
aldur heimilda eða legu þjóðbrauta. Leikvöllur hugmynda hans er síbreyti-
legt landslag þar sem náttúmhamfarir skipta að bragði á grasgefnum engjum
°g auðn. Höfundur segir í formála að í bók sinni ætli hann að stíga fyrstu
skrefin í ferð sem kunni að verða löng og fróðleg og getur þess að geysimörg
skjöl eru óútgefin og jarðfræðiathuganir og fornleifafræði kunni að eiga eftir
leiða margt í Ijós um fornar leiðir í Rangárþingi. Með þessum orðum
trygg>r Helgi Þorláksson sig gegn því að hugmyndir hans verði dæmdar sem
fullmótaðar kenningar á rökum reistar enda skal það ekki gert hér. Ég vænti
þess að hugmyndir í Gömlum götum og goðavaldi eigi eftir að gróa á ökrum
Sagnfræðinga framtíðarinnar sem hafi jörðina með í fræðilegum leik.
Guðrún Ása Grímsdóttir