Saga - 1990, Qupperneq 237
RITFREGNIR
235
um skrám yfir tilvísanir, heimildir og þar með viðmælendur, myndir og
mannanöfn.
Það er ekki á mínu færi að meta fagleg vinnubrögð sagnfræðings, til þess
skortir mig þekkingu á því sviði. Par að auki finn ég ofur vel að skemmtan
mín af lestri bókarinnar yfirskyggir nánast alla viðleitni til gagnrýni! En það
skal áréttað: Ég felli mig vel við niðurskipan efnis og efnistök almennt.
Myndefni sýnist mér harla gott og býsna fjölbreytt svo og hinir innrömmuðu
textar. Hvort tveggja fyllir frásögnina, gleður lesandann og léttir honum lest-
urinn. Sumar myndanna eru líka hreint afbragð, til dæmis sú á bls. 157 (og á
baksíðu kápu) af Kínalífseleksírsverksmiðju á Vestdalseyri, „Valdemar Pet-
ersen Fabrik Seydisfjord".
Ég er svo gamaldags að ég kann ekki meira en svo við tölusetningarnar
2.O., 2.1. á kaflafyrirsögnum í bók eins og þessari. En vitanlega auðvelda þær
tilvitnanir síðar og eru því til bóta frá tæknilegu sjónarmiði. Eins þykir mér
óviðfelldið að tölusetja innganginn eins og hér er gert. Bókin hefur að geyma
fimm þætti um jafnmargar iðngreinar, og hefði mér þótt betur hæfa að kaflar
bókarinnar væru jafnmargir.
Þá vil ég minnast á nafnaskrána. Hún hefði orðið notadrýgri þannig, að
nafni hefði jafnan fylgt stöðuheiti eða heimili. En hvort tveggja er tíðkanlegt,
að gera nafnaskrár með eða án þess háttar auðkenninga.
Allt eru þetta smámunir sem og prentvillur þær er ég hef rekist á, fáar og
sauðmeinlausar - nema ein! Á bls. 255 segir að maður hafi verið „hvikur" í
hreyfingum. Ljóst er af samhengi að hér á að standa kvikur. En hv-kv „sam-
sláttur" fer alltaf í taugarnar á mér.
Að lokum skulu nefnd tvö atriði þar sem gætir ónákvæmni, bæði í texta og
heimildum, og ég hnaut um vegna kunnugleika.
Hið fyrra er á bls. 224, en þar segir um lok hvalveiða frá Asknesi: „Árið
1913 var veiði orðin lítil og var þá rekstri hætt." Vísað er til bókar Trausta Ein-
arssonar, Hvalveiðar við ísland 1600-1939, bls. 53-4. Þar kemur þetta einmitt
fram. En þar er vísað til þriggja tiltekinna blaðagreina, sem allar birtast 1911.
(Sjálfur flaskaði ég á sama fyrir nokkrum árum, studdist við aðra heimild
sem ég hugði rétta). Hið sanna er að engin hvalveiði var frá Asknesi sumarið
1913, enda hafði hvalstöðin þá verið seld til niðurrifs. Um lok veiða þar má
meðal annars lesa í bók Magnúsar Gíslasonar, Frá hvalveiðastöðvum, bls. 118,
og í bók Ristings, Af hvalfangstens historie, bls. 191.
Síðara atriðið er annars eðlis og nánast hártogun að nefna það. Á bls. 255
er minnst á breskan togara „sem strandaði utan við bæinn Eldleysu í Mjóa-
firði." Vísað er í aðsend bréf. Þetta er að vísu aldrei nema satt. En þetta
strand varð býsna langt fyrir utan Eldleysu. Heita þar Dalaskriður og bar
togarann að Iandi utanhallt við svonefnt Akurgil. Nefnd staðarákvörðun er
því hæpin frá sjónarhóli kunnugra.
En þessar „útásetningar" ber raunar að skoða sem staðfestingu á því sem
áður er fram komið í umsögn þessari, að mér sýnist Iðnsaga Austurlands,
fyrri hluti, Frá eldsmíði til eleksírs, hið ágætasta innlegg til austfirskra fræða og
islenskra, og ég bíð framhaldsins með talsverðri eftirvæntingu.
Vilhjálmur Hjálmarsson