Saga - 1990, Qupperneq 266
264
RITFREGNIR
erfiðleikar sem urðu til þess að Vindhælishreppi forna var að lokum skipt.
Víðast hvar þar sem þannig stóð á var þeirri einföldu lausn beitt að skilja að-
eins hlutaðeigandi þorp út úr hreppnum og gera það að sjálfstæðu sveitarfé-
lagi. Hér var hins vegar talið óhjákvæmilegt að láta jarðirnar Spákonufelþ
Finnsstaði og Háagerði fylgja með, auk ríkisjarðarinnar Höfðahóla sem
þorpið stóð aðallega á, en við þetta skiptist afgangur hreppsins í tvennt.
Afleiðingin varð sú að úr gamla Vindhælishreppi urðu til þrjú lítil sveitarfé-
lög. Hélt syðsti hlutinn hinu forna nafni og hét áfram Vindhælishreppur,
miðhlutinn, semsé þorpið og umhverfi þess, hlaut nafnið Höfðahreppur og
nyrsti hlutinn nafnið Skagahreppur.
Þótt þessi skipting Vindhælishrepps forna næði eftir atvikum fram að
ganga tiltölulega vafningalítið fannst samt ýmsum að hér hefði verið rasað
um ráð fram. Kemur sú skoðun t.d. einkar vel fram í eftirfarandí vísu hins
ágæta hagyrðings Vilhjálms Benediktssonar bónda á Brandaskarði:
Ekki prísa eg ykkar mennt,
sem að því verki stóðu,
að sundur flísa og saga í þrennt
sveitina mína góðu.
Þegar hálfrar aldar afmæli Höfðahrepps nálgaðist ákváðu ráðamenn þar að
láta skrifa sögu staðarins. í því skyni voru kosin í ritnefnd þau Elínborg Jóns-
dóttir kennari (formaður), Ingibergur Guðmundsson kennari og Lárus
Guðmundsson framkvæmdastjóri. Til verksins var síðan ráðinn ungur
sagnfræðingur, Bjarni Guðmarsson. Hafist var handa við það snemma árs
1987 og greinilega unnið af miklum dugnaði, þar eð bókin kom út síðla
hausts 1989. Hún er alls 327 blaðsíður, prýdd fjölda gamalla og nýrra mynda
og teikninga. Þar eru og margar greinargóðar og fróðlegar töflur og skrár.
Tilvísanir í heimildir eru jafnóðum neðanmáls og aftast eru mynda-, heim-
ilda- og nafnaskrár.
Aðalnafn bókarinnar, Byggðin undir borginni, er vel tilfundið og ágæt vís-
bending um það að fjallið, sem gnæfir yfir byggðina og er yfirleitt kallað
Spákonufell út á við og á landakortum, heitir í daglegu tali heimamanna
Borgin eða Spákonufellsborg þegar meira er við haft. Stafar þetta nafn sjálf-
sagt bæði af lögun fjallsins og af því, að hentugt hefur þótt að nota það í
mæltu máli til aðgreiningar frá nafni höfuðbólsins Spákonufells. Þá leiðir
undirtitill bókarinnar, Saga Skagastrandar og Höfðahrepps, hugann að hinum
mismunandi nöfnum kauptúnsins gegnum tíðina. Það var lengi kennt við
Spákonufellshöfða, sem setur ekki síður svip á staðinn en Borgin að baki
byggðarinnar, og þá oftast kallað Höfði eða Höfðakaupstaður meðal lands-
manna. Hins vegar kenndu Danir kauptúnið lengst af við sveitina, og þannig
festist nafnið Skagaströnd að Iokum við það eftir að danskir verslunarmenn
höfðu sest þar að. Hið forna nafn lifir nú helst í heiti hreppsins, því að ekki
hefur í rauninni tekist að endurvekja nafnið Höfðakaupstaður þótt það væri
reynt með nýsköpuninni upp úr 1940. Og í skoðanakönnun meðal heima-
manna árið 1986 reyndist nafnið Skagaströnd eiga yfirgnæfandi fylgi að
fagna.
J