Saga - 1990, Page 267
RITFREGNIR
265
í samræmi við heiti bókarinnar takmarkast sögusvið hennar aðallega við
núverandi Höfðahrepp, og saga staðarins er eftir föngum rakin allt frá land-
námsöld og fram til ársloka 1988. Svo illa vill reyndar til að Landnámabók þegir
um það hver numið hafi land á Skagaströnd. Hins vegar fara miklar sögur af
fyrsta nafngreinda ábúandanum á þessum slóðum, þ.e. þjóðsagnapersón-
unni Þórdísi spákonu á Spákonufelli. Annars eru heimildir um Skagaströnd
og mannlíf þar á fyrri öldum oftast ærið slitróttar og yfirleitt fátt um tíðindi af
þessum útskaga sem almennt þættu í frásögur færandi eða geymdust.
Þótt Skagaströnd væri landfræðilega afskekkt má segja að hún kæmist að
vissu leyti í þjóðbraut þegar erlendir kaupmenn tóku að sigla þangað,
einkanlega eftir að Höfðakauptún varð eini verslunarstaður Húnavatnssýslu
með einokuninni árið 1602. Auk Húnvetninga sóttu menn einnig þangað
verslun úr vestustu sveitum Skagafjarðarsýslu og nokkuð úr Strandasýslu.
Þessari stöðu hélt Skagaströnd fram yfir miðja 19. öld þegar tekið var að
versla á Borðeyri og Sauðárkróki, en mest munaði um það er verslun hófst á
Blönduósi árið 1876. Við þetta drógust öll verslunarumsvif eðlilega mjög
saman á Skagaströnd og langtum færri áttu að sjálfsögðu erindi þangað en
áður. Það var svo ekki fyrr en á fjórða tugi 20. aldar að staðurinn komst í
sviðsljósið að nýju er hafnargerð hófst þar og þó einkum svo um munaði á
fimmta áratuginum þegar Skagaströnd (Höfðakaupstaður) varð eins konar
óskabarn nýsköpunarstjórnarinnar.
Eins og þegar er drepið á eru heimildir frá fyrri öldum býsna slitróttar og
fáskrúðugar. Síðan fer smám saman að rætast úr, einkum þegar kemur fram
á 18. öld og úr því. Við tiltölulega miklar og fjölbreyttar ritaðar heimildir frá
20. öld bætast munnlegar upplýsingar allmargra samtíðarmanna, sem hafa
sumir hverjir greinilega miðlað höfundi bókarinnar talsverðum fróðleik. Ekki
verður betur séð en hann nýti eftir föngum tiltækar heimildir og honum tak-
ist yfirleitt vel að varpa ljósi á mismunandi tímaskeið og hliðar í sögu
Skagastrandar og mannlífs þar. Þessa -sögu setur höfundur einnig eftir því
sem við á í samhengi við innlenda og erlenda atburði. Er þetta þeim mun
nauðsynlegra þegar um er að ræða eitt hinna gömlu kauptúna þar sem versl-
un hefur verið rekin öldum saman. Þá komst staðurinn t.d. heldur betur inn
í hringiðu landsmálanna á nýsköpunarárunum þegar uppi voru áætlanir um
að koma þar á fót fyrirmyndarbæ með allt að 3000 íbúum.
Hver sá sem reynt hefur, veit hversu feiknamikil og vandasöm vinna það
er að leita uppi heimildir, tína upp úr þeim það sem bitastætt er og raða síðan
brotunum saman í viðeigandi kafla og þætti. Ærið oft er líka vandi að velja og
hafna, þ.e. að ákveða hvað tekið skuli með og hverju sleppt, og hann er auð-
vitað mun meiri í tiltölulega stuttu riti eins og því sem hér um ræðir. Þegar
sagan er rakin allar götur fram að útgáfuári bókarinnar eins og hér er gert, er
að sjálfsögðu einkar erfitt að sigla þannig milli skers og báru að ýmsum þyki
ekki eitthvað vansagt sums staðar og kannski óþarflega mikið gert úr öðru.
Hér virðist þó hafa tekist allvel að þræða hinn gullna meðalveg.
Sjaldan verður hjá því komist að einhverjar missagnir slæðist inn í sagn-
fræðirit, en þær virðast aðeins vera fáar og fremur smávægilegar hér. Á bls.
154 segir t.d. að fyrsti bíllinn hafi verið keyptur til Skagastrandar um 1920.