Saga - 1990, Síða 276
274
AÐALFUNDUR SÖGUFÉLAGS 1990
myndefni ríkulega. í sambandi við þetta vakti forseti athygli á ritstjórnar-
grein í Nýrri sögu þar sem segir frá erfiðleikum þeirra, sem fást við mynda-
öflun í sagnfræðirit. Par segir m.a.: „Myndefni er hér samofið hinu ritaða
máli og er það yfirlýst stefna ritsins að gera myndum hátt undir höfði, enda
hefur mikið verið um það rætt að nýta hinn sjónræna þátt betur en gert hefur
verið. Nauðsynlegt er að hætta að halda í þá þröngsýni að góður sagnfræði-
legur texti um áhugavert rannsóknarefni þurfi að standa einn og óstuddur,
myndir bæti þar engu við". Síðar segja ritstjórarnir frá því hversu myndaöfl-
un í slíkt tímarit sé erfið og tafsöm. Vilja þau meina að þetta sé stærsti ásteyt-
ingarsteinn við útgáfu Nýrrar sögu. Mun þetta enn vera reynsla nýja ritstjór-
ans er tekið hefur við tímaritinu. Viðtökur við Nýrri sögu 1989 voru svipaðar
og áður, lausasala lítil en flestir félagsmenn Sögufélags tóku tímaritinu vel.
Næsta hefti Nýrrar sögu og hið fjórða í röðinni er vel á veg komið og er
þess vænst, að það geti komi út í síðustu viku maímánaðar. Ég vil geta þess
að í heftinu er m.a. grein um hernám íslands fyrir 50 árum eftir dr. Þór
Whitehead.
Saga 1989 kom út 9. nóvember og var þetta 27. bindi ritsins og hið sjötta í
röðinni eftir útlitsbreytinguna 1984. Ritstjórar voru Sigurður Ragnarsson og
Sölvi Sveinsson. Saga 1989 var 268 bls. og skiptist að venju í tvo efnisþætti,
fræðilegar greinar annars vegar og ritfregnir hins vegar um nýleg sagnfræði-
rit. 24 höfundar áttu efni í heftinu. Lengstu greinarnar voru um munnlegar
heimildir og notkun þeirra, stjórnmálaátök við Norðursjó á víkingaöld,
eftirmál byltingar Jörundar 1809 og nafnsiði Eyfirðinga og Rangæinga 1703-
1845. Ritfregnirnar voru 14 eftir 13 höfunda og til viðbótar birtu þrír höfund-
ar andmæli og athugasemdir við efni úr Sögu 1988. Á síðustu árum hefur
þeim fjölgað, sem viljað hafa gera athugasemdir við ritfregnir í Sögu og hefur
því verið vel tekið af ritstjórum og andmælin birt í næsta hefti Sögu. Sumum
finnst að vísu sem skoðanaskipti þessi gangi hægt, en þegar menn líta til
baka eftir nokkur ár og lesa þessi skrif, standa skoðanaskiptin eftir en enginn
veltir því fyrir sér, hvort skrifin hafi birst mánuðinum fyrr eða síðar. Gerði
forseti að sínum þau orð sem standa í fyrsta hefti Sögu að þar skuli birta rit-
dóma, „enda séu þeir hófsamlega, sanngjarnlega og rökvíslega skráðir".
Eins og fram kom í fundarboði er tímaritið Saga 40 ára um þessar mundir
og þótti því hlýða að minnast þess og ræða um stöðu timaritsins á fundinum.
Það var á fundi Sögufélags 15. apríl 1950, sem ákveðið var „að hefja útgáfu
nýs tímarits, er fjalli um efni úr sögu íslands og nefnist Saga, tímarit Sögufé-
lagsins". Formálinn að fyrsta hefti Sögu var síðan skrifaður af Einari Arnórs-
syni í júlí 1950. Þar segir m.a. svo um stefnu ritsins: „Það ætlar að flytja
frumsamdar ritgerðir um hver þau efni, sem áður voru nefnd [hann hafði
áður talað um fjölmargar hliðargreinar sögunnar]. Verður því veitt viðtaka
greinum, sem telja má flytja sjálfstæðar rannsóknir um þessi efni, enda verði
ekki taldar tímaritinu ofviða að vöxtum, séu á sæmilegu máli, áreitnis- og
illyndalausar, þótt þær gangi að efni til gegn því, sem aðrir kunna að hafa
skráð um sama efni." Hér er í fáum en vel völdum orðum greint frá stefnu
tímaritsins Sögu og verður varla betur frá því sagt.
Stjórn Sögufélag hefur ákveðið í tilefni afmælisins að bjóða félagsmönnum