Morgunblaðið - 17.04.2010, Blaðsíða 6
6
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. APRÍL 2010
Eftir Andra Karl
andri@mbl.is
VIÐ AKSTUR undir Eyjafjöllum var fátt sem
benti til stórbrotinna eldsumbrota í næsta ná-
grenni. Sól skein í heiði og ljóst að vorið er á
næsta leiti. Góð vísbending um að ekki væri
allt með felldu var þó, að ekki voru fleiri á
ferli. Vegirnir auðir og litla hreyfingu að sjá
við bæi undir fjalli. Við nánari eftirgrennslan
kom annað í ljós. Bændur voru í óðaönn að
búa sig undir öskufall sem spáð var.
Engan asa var að sjá á ábúendum sem tóku
fréttum um öskufall af æðruleysi á meðan
þeir bjuggust við hinu versta. Nægur tími var
til stefnu, en samkvæmt spám átti vindur að
snúast í norðanátt og öskufallið að hefjast
seint í gærkvöldi. Átti mökkurinn að leita yfir
Álftaver, Mýrdal og síðan Austur-Eyjafjöll,
og svo yfir Eyjafjöll.
Dagurinn fór í það hjá flestum að taka búfé
á hús, þétta glugga og meðfram hurðum og
færa bíla og vélar í skjól. Á Þorvaldseyri setti
Ólafur Eggertsson saman vinnuhóp sem fór
yfir allt sem gera þurfti. Meðal annars voru
settir upp eldingavarar, vegna hættu á eld-
ingum.
Óvissan um hvað verði var nagandi enda í
ljós komið að efnasamsetning öskunnar er
baneitruð, og útlit fyrir að norðanátt haldist í
allan dag og jafnvel lengur. Því mátti reikna
með að aska félli í allan dag.
Aska féll á tún árið 1947
Fjölskylda Guðlaugs Sigurðar Einarssonar,
bónda á Ysta-Skála, hefur búið undir Eyja-
fjöllum síðan 1909 og hann er þar fæddur og
uppalinn. Hann segir að þótt sambúðin með
eldstöðvunum í nágrenninu hafi verið góð hafi
fjölskylda hans – og nágrannar – ávallt verið
meðvituð um hættuna sem þeim fylgir. Hann
hafði ekki teljandi áhyggjur af gosinu í Eyja-
fjallajökli en þeim mun meiri áhyggjur af
Kötlu.
Guðlaugur nefndi einnig að Heklugosið árið
1947 hefði haft í för með sér töluvert mikið
öskufall undir Eyjafjöllum sem lagðist á tún.
Þá hefði hjálp borist víða að, m.a. úr Reykja-
vík, og tóku allir virkan þátt í hreinsunar-
störfum. Menntaskólinn í Reykjavík lagði til
að mynda til einn árgang skólans. Mest mun-
aði þó líklega um aðstoð bandaríska hersins
sem lagði ekki aðeins til mannskap heldur
einnig tæki og tól.
Hvort bændur þurfi á ný aðstoð við hreins-
unarstörf verður að koma í ljós, en þar sem
nokkuð sterkur vindur verður er talið víst að
hann feyki öskunni að mestu í skurði og
skafla. Fáir áttu þó von á að mikið yrði gert í
dag, annað en horfa út um gluggann.
Óvissa og undirbúningur vegna
öskufalls undir Eyjafjöllum
Bændur undir Eyjafjöllum notuðu allan gærdaginn til að taka búfé á hús, þétta glugga og minnast
gamalla tíma Þeir tóku lífinu með ró við undirbúninginn en bjuggust við hinu versta í dag
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Umbrot Í ljós kom í gær að ný göt eru á Gígjökli þar sem vatn hefur runnið undir honum og fellt „þakið“. Lónið neðan Gígjökuls er horfið og
engin fyrirstaða eftir fyrir hlaupin úr honum. Við athugun á framburði Markarfljóts kom í ljós að hann leitar að mestu til austurs.
Eldgosið í Eyjafjallajökli
Eftir Andra Karl
andri@mbl.is
„AÐ SJÁLFSÖGÐU er gaman að
upplifa þetta. En maður er samt
hálfdofinn,“ sagði Annika Rosén,
bóndi á Ysta-Skála, síðdegis í gær.
Annika sem er sænsk hefur ekki áð-
ur upplifað eldgos og segist nokkuð
spennt um leið og hún geri sér fylli-
lega grein fyrir mögulegum afleið-
ingum.
Annika sem flutti til Íslands árið
1980 heldur bú ásamt eiginmanni
sínum, Guðlaugi Sigurði Ein-
arssyni, og þremur börnum. Eru
þau með kýr, kindur og hross. Hún
minnist þess að aðfaranótt miðviku-
dags hafi fjölskyldan ekki sofið
nema um tvo tíma þegar síminn
hringdi og þau voru beðin að yf-
irgefa heimilið.
Upplýsingafulltrúi
fyrir sænska fjölmiðla
Þrátt fyrir röskun á hefðbundnu
heimilislífi lætur fjölskyldan at-
burðina ekki mikið á sig fá. Hins
vegar hefur fjölskylda Anniku í Sví-
þjóð verið í nær stöðugu sambandi
frá upphafi. Hefur hún enda miklar
áhyggjur af Anniku og fjölskyld-
unni við rætur eldfjallsins.
Þegar tilkynning barst um fyrsta
jökulflóðið segir Annika að fjöl-
skyldan hafi helst óttast að flæða
myndi í tveimur ám sem eru beggja
vegna búsins. Sem betur fer hafi
það ekki gerst, og muni vonandi
ekki gerast. Hún hefur ekki teljandi
áhyggjur af því að öskufallið valdi
tjóni á túnum enda muni askan að
öllum líkindum fjúka fljótt burt.
Meðfram því að hafa áhyggjur af
afleiðingum gossins hefur Annika
hálfpartinn sinnt hlutverki upplýs-
ingafulltrúa fyrir sænska fjölmiðla,
en þeir voru fljótir að hafa uppi á
henni þegar byrjaði að gjósa.
Kannski ekki að undra, enda fáir
aðrir Svíar í grennd. „Þeir hringja
fram eftir öllu kvöldi og byrja
klukkan sex á morgnana,“ segir
Annika og gefur lítið fyrir athygl-
ina. „Ég væri alla vega til í að deila
henni með einhverjum.“
Fjölskyldan heima er í stöðugu sambandi
Hin sænska Annika Rosén hefur
búið undir Eyjafjöllum í þrjátíu ár
Morgunblaðið/Golli
Fjölskyldan Annika, Þorbjörg Sara Guðlaugsdóttir og Guðlaugur Sigurður.