Morgunblaðið - 17.04.2010, Blaðsíða 19
19
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. APRÍL 2010
Eftir Björn Jóhann Björnsson
bjb@mbl.is
ÍSLENSK ferðaþjónustufyrirtæki eru þegar
farin að finna fyrir afbókunum erlendra ferða-
manna til landsins vegna eldgossins.
Kristján Kristjánsson, framkvæmdastjóri
fyrirtækisins Mountain Taxi, sem hefur verið
með fjallaferðir á hálendið, hefur þurft að af-
lýsa nokkrum ferðum.
„Móðir náttúra gaf og hún tók,“ segir Krist-
ján og vísar þar til breytinganna sem urðu á
örskotsstundu frá gosinu á Fimmvörðuhálsi og
þar til fór að krauma undir miðjum Eyja-
fjallajökli í vikunni. Fjöldi innlendra og er-
lendra ferðamanna lagði leið sína að fyrra gos-
inu, sem þótti sannkallað „túristagos“ og nóg
var að gera hjá fyrirtæki Kristjáns, sem var
með allt að 10-15 jeppa á sínum snærum þegar
mest lét. Sjálfur rekur hann tvo stóra jeppa en
fær til sín verktaka eftir þörfum hverju sinni.
„Fólkið kemst einfaldlega ekki“
„Þar sem margar flugferðir til landsins hafa
fallið niður kemst fólkið einfaldlega ekki hing-
að. Enginn veit hvað þetta ástand varir lengi.
Ef landið lokast verður ekki mikið að gera hjá
okkur. Tjónið verður talsvert fyrir ferðaþjón-
ustuna í heild ef gosið heldur áfram einhverja
daga eða vikur,“ segir Kristján.
Hann segir þá miklu athygli sem Ísland fær
þessa dagana geta verið góð auglýsing til
lengri tíma litið, en það geti einnig snúist upp í
andhverfu sína. Hætt sé við að gosið fæli frá
hinn almenna ferðamann, standi það vikum
eða mánuðum saman. „Rétt eftir að gosið í
Fimmvörðuhálsinum hófst var ég í sambandi
við hóp bandarískra ferðamanna sem hafði
pantað hjá okkur ferð. Ég varð að beita mikl-
um fortölum til að fá þau til Íslands, þau ætl-
uðu bara að hætta við. En þau komu og sáu
ekki eftir því,“ segir Kristján.
Miðað við veðurspá í dag má reikna með að
ferðamenn hugsi sér til hreyfings, í öllu falli
vestan megin frá, þegar á að sjást betur til
gosstöðvanna. Mountain Taxi var nefnilega
ekki eingöngu að fá til sín erlenda ferðamenn
vegna gossins á Fimmvörðuhálsi heldur einnig
Íslendinga í nokkrum mæli. Kristján bindur
vonir við að verkefnastaðan glæðist eitthvað ef
útsýni til náttúruhamfaranna batnar.
Alvarlegt ef gosið stendur lengi
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir
óvissuna vera versta fyrir ferðaþjónustuna
vegna umbrotanna í jöklinum. Langvarandi
gos geti haft verulega neikvæðar afleiðingar í
för með sér fyrir ferðaþjónustuna í landinu.
Gosið á Fimmvörðuhálsi hafi svo gott sem ver-
ið hættulaust en nú séu allt aðrar og verri að-
stæður uppi. Nú styttist í helstu vertíð ferða-
þjónustunnar yfir sumarið og ferðamálastjóri
segir alvarlega stöðu koma upp ef gosið stend-
ur svo lengi.
„Við höfum fundað með stjórnsýslunni og
ferðaþjónustunni um hvernig hægt er að
tryggja rétt upplýsingaflæði út á við. Það
mega ekki fara í loftið flökkusögur um að hér
sé fólk hlaupandi úti um allt undan ösku og
gjalli. Mikilvægt er að réttar upplýsingar ber-
ist frá landinu, um að hér gangi lífið sinn vana-
gang alls staðar annars staðar en á sjálfu gos-
svæðinu, sem verður fyrir beinum áhrifum.
Einnig þarf að tryggja upplýsingar til þeirra
sem verða fyrir skakkaföllum vegna truflana á
samgöngum. Við erum að gera allt sem við
getum til að bregðast við þessu ástandi,“ segir
Ólöf Ýrr og telur mikilvægt að skilaboð frá
stjórnvöldum séu samhæfð. Upplýsingaflæði á
milli aðila og út á við þurfi að vera gott.
„Móðir náttúra gaf og hún tók“
Ferðaþjónustufyrirtæki verða fyrir barðinu á eldgosinu í Eyjafjallajökli Ekki jafn vænt og gosið
á Fimmvörðuhálsi Ferðamálastjóri segir stöðuna grafalvarlega ef gosið verður langvarandi
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ferðaþjónusta Eldgosið á Fimmvörðuhálsi laðaði til sín fjölda innlendra og erlendra ferð-
manna. Gosið í Eyjafjallajökli er önnur saga. Það kom upp á versta stað.
Opnist fyrir flugferðir til og frá
landinu ganga þeir farþegar fyrir
sem eiga bókað í viðkomandi ferð-
ir, að sögn Guðjóns Arngríms-
sonar, upplýsingafulltrúa Ice-
landair, nema ef settar eru upp
aukaferðir líkt og gert var með
flug til Glasgow í gær. Þar náðu
bæði Icelandair og Iceland Express
að koma mörgum farþegum sem
höfðu áður átt bókað flug til Lond-
on eða Manchester, eða annarra
áfangastaða í Evrópu.
Annars verða þeir farþegar sem
beðið hafa eftir
flugi vegna af-
lýstra ferða að
sæta lagi ef sæti
losna í þeim
ferðum sem
komast mögu-
lega á, út af eld-
gosinu. Hafi þeir
þá ekki breytt
ferðaáætlunum
sínum vegna
eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli.
bjb@mbl.is
Hverjir eiga forgang í fluginu?
Margir flugvellir
hafa lokast.